20.10.1958
Sameinað þing: 3. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

1. mál, fjárlög 1959

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem síðasti hv. þm. sagði, að það þyrfti að fylgja fjárlagafrv. þjóðhagsáætlun. Ég vil einnig upplýsa, að í Framkvæmdabankanum hefur verið unnið allmikið starf undanfarið til þess að koma þessu í framkvæmd og ég geri mér vonir um, að ef úr því verður, að stofnuð verði hagdeild í stjórnarráðinu, eins og til hefur staðið og ég vona að verði á næstunni, þá verði hægt að koma því í verk að láta fjárlagafrv. framvegis fylgja slíka þjóðhagsáætlun. Þegar hefur verið unnið talsvert undirbúningsstarf, eins og ég tók fram.

Hv. þm. Björn Jónsson ræddi hér nokkuð almennt um efnahagsmálin, og hann lagði sérstaka áherzlu á, að það yrði að reyna að finna leiðir til þess að lækka bæði verklegar framkvæmdir eða fjárfestingu, eins og það er kallað og ríkisútgjöld. Ég vil mjög taka undir, að þessi mál séu athuguð gaumgæfilega. En ég vil benda á þá staðreynd, að stórkostlegur niðurskurður verklegra framkvæmda samrýmist ekki öflugri framfarapólitík í þágu dreifbýlisins til sveita og við sjóinn, að stórkostlegur niðurskurður verklegra framkvæmda af ríkisins hendi samræmist ekki öflugri uppbyggingarpólitík í sjávarplássunum eða í sveitunum, eins og þeirri, sem hefur verið framkvæmd á undanförnum árum og þessi stjórn hefur einmitt talið sér til gildis. Eigi að síður þarf að fara varlega og hóflega í þessum málum. Togarakaup eru ákaflega nauðsynleg og verið er að vinna að þeim, eins og ég lýsti yfir. Ég vil vara við því, að menn áliti, að það sé hægt að lækna efnahagsvandamálin með því að stöðva eða tefja fyrir eðlilegri uppbyggingu landbúnaðariðnaðarins, t. d. mjólkuriðnaðarins, sem fyrst og fremst er byggður á því að framleiða góðar mjólkurafurðir fyrir þjóðina. Lausn efnahagsmálanna verður ekki byggð á því að stöðva slíka framþróun.

Varðandi útgjöldin í ríkisrekstrinum, þá er sjálfsagt að athuga gaumgæfilega allar uppástungur um lækkanir á þeim og enginn mundi verða glaðari en ég, ef hægt væri að finna þar liði, sem mætti lækka. En því miður bendir reynslan ekki til þess, að menn megi vera of bjartsýnir í þeim efnum og þar á ég við þær tillögur, sem fram hafa komið bæði meðal stuðningsmanna stjórnarinnar og einnig frá stjórnarandstæðingum. Sannleikurinn er sá, að Alþingi hefur ekki á undanförnum árum haldið þannig á þessum málum, að það hafi stefnt að lækkuðum ríkisútgjöldum og eiga þar allir flokkar sammerkt, heldur sífellt sett löggjöf, sem hefur orðið til þess að hækka ríkisútgjöldin.

En það er sjálfsagt að athuga gaumgæfilega allar uppástungur í þessu efni og vitaskuld mundi enginn verða glaðari en ég, ef hægt væri að finna í þessu framkvæmanlegar leiðir. En ég vara við of mikilli bjartsýni í þeim efnum.

Hv. 2. þm. Eyf. hélt hér ræðu áðan, sem mjög er einkennandi fyrir málflutning sjálfstæðismanna nú um þessar mundir og má telja þennan hv. þm. fulllærðan orðinn í því. En annars verður að segja það honum til hróss, að það tók hann nokkur missiri að venja sig á það orðbragð og þann málflutning, sem tíðkast á þeim bæ. Hv. þm. hefði getað sparað sér — við skulum segja áhyggjur, ég vil ekki segja rangfærslur, því að það hefur víst ekki verið vísvitandi, ef hann hefði kynnt sér ofurlítið betur það mál, sem hér er til umr., þ. e. a. s. ríkisbúskapinn. Það hefði t. d. verið mjög auðvelt að sýna honum fram á, að þessi 70 millj. kr. greiðsluhalli, sem hann var að tala um á s. l. ári, er algerlega út í bláinn, eins og ég raunar upplýsti í minni ræðu, því að hallinn er 22 milljónir. Enn fremur hefði, ef hann hefði leitað sér upplýsinga, verið hægt að gefa honum þær upplýsingar, að þó að yfirdráttarskuld ríkisins sé núna nokkru hærri en í fyrra, þá bendir það ekki til greiðsluhalla á þessu ári, heldur eru þar aðrar ástæður. Þar er fyrst og fremst því til að dreifa, að lagðir hafa verið út milljónatugir vegna skipakaupa og annarra framkvæmda, sem koma inn aftur á næstu vikum. Ég held, að hv. þm. þurfi engar áhyggjur að hafa af þessum greiðsluhalla frá í fyrra, því að eins og ég gat um áðan, þá geri ég mér eindregið vonir um, að hann verði borgaður upp fyrir áramót.

Þessi hv. þm. sagði, að núv. fjmrh. virtist hafa það fyrir fastan sið að eyða stórfé umfram fjárlög. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minna þennan hv. þm. á, að í 10 ára fjmrh.-tíð sjálfstæðismanna voru umframgreiðslur fimm sinnum hærri tiltölulega, en þær hafa verið síðustu 10 árin. Þær voru hvorki meira né minna, en um 55% að meðaltali í 10 ár undir fjárstjórn sjálfstæðismanna, svo að það er ekki furða, þótt þessi hv. þm. hneykslist á umframgreiðslum. En þær hafa undanfarið verið aðeins 1/5 af því og fara síminnkandi. Þá er út af greiðsluhallanum og áhyggjum hans í því efni, rétt að minna hann á, að á 11 árum tókst þessum forustumönnum Sjálfstfl. í fjármálum að skila af sér þannig, að nettó-greiðsluhallinn umfram greiðsluafgang var á milli 90 og 100 millj. Útgjöldin fóru vitanlega alltaf sívaxandi, eins og raunar gera mátti ráð fyrir og hér hefur verið rætt. Á þessu tímabili áttu þessir ráðherrar sjálfstæðismanna gersamlega metið í öllum beinum skattaálagningum, þannig að síðan hafa beinir skattar verið stórkostlega lækkaðir frá því, sem var í þeirra tíð.

Þessi hv. þm. sagði, að ég hefði það fyrir sið upp á síðkastið að taka stórfé út úr ríkisbúskapnum til þess að sýna skakka mynd. En á meðan sjálfstæðismenn voru í stjórnaraðstöðu, voru þeir óþreytandi að lýsa því yfir, að uppbætur á verðlag afurða, framleiðslu afurða og niðurgreiðslur á verðlagi á innlendum markaði væru alit annars eðlis, en venjuleg ríkisútgjöld. Þeir voru óþreytandi að útlista þetta þá, en nú telja þeir það fölsun að telja ekki þessi framlög með venjulegum ríkisútgjöldum. Ég læt menn um að dæma slíkan málflutning.

Þá kom kafli í ræðu þessa hv. þm., sem er mjög einkennandi fyrir málflutning þeirra sjálfstæðismanna, sem ég hef drepið á. Hann sagði, að það væri fullkomið hneyksli, að nú væri fjmrh. og ríkisstj. farin að vísa til Alþýðusambandsþingsins um það, hvað mundi gerast í efnahagsmálunum og hélt langa ræðu um það, hvílíkt hneyksli þetta væri, að láta stéttasamtökin ráða. Fyrst kemur mönnum í hug út af þessu: Er það meining þessa hv. þm. og Sjálfstfl., að Alþingi eigi að taka það að sér og ríkisstj. að ákveða hér kaupgjald? Ber að skoða þennan málflutning þessa hv. þm. svo, að kaupgjaldsþáttinn eigi að taka hér inn á Alþingi og hér eigi að lögbjóða kaupgjald? Ef nokkur brú væri í þessum málflutningi þessa hv. þm., þá á auðvitað að líta á hann þannig. Hann getur því svarað því næst eða Sjálfstfl., hvort það ber að skilja þetta svo.

En það var fleira í þessu. Hann sagði, að það væri fullkomið hneyksli, ef Alþingi færi ekki sínu fram og ríkisstj. og ætlaði að fara að taka tillit til þess, sem stéttasamtökin segðu, og spurði: Ja, hvar erum við þá stödd?

En ekki hafði þessi hv. þm. talað nema eina mínútu eða svo til viðbótar, þegar hann var kominn að því að lýsa því yfir, að það hefðu í raun og veru engin samráð verið höfð af hendi núv. ríkisstj. við verkalýðsfélögin, allt valdið væri fengið í hendur fámennrar klíku og það væri fullkomið hneyksli. Á þremur mínútum eða svo hélt hann fram a. m. k. tveimur gerólíkum viðhorfum til þessa höfuðatriðis í efnahagsmálum landsins.

Þessi hv. þm. sagði, að það hefði verið mjög ósanngjarnt af mér og rangt, þegar ég í ræðu, sem mjög hefur farið í taugar þeirra sjálfstæðismanna, í sumar hélt því fram, að hækkunarbarátta Sjálfstfl. hefði borið árangur. Sagði þm., að þetta væri vottur um ófyrirleitinn málflutning. Ég spyr: Er nokkur Íslendingur í vafa um, að úr herbúðum sjálfstæðismanna hefur það verið óspart út látið ganga núna síðustu missirin, að það væri alveg eðlilegt, að menn krefðust kauphækkana? Og er nokkur vafi á því í huga nokkurs manns, að þessi boðskapur, látinn út ganga úr þeim herbúðum, þar sem atvinnurekendur hafa að minnsta kosti verið fram að þessu taldir vera margir, að þessi boðskapur hafi haft stórfelld áhrif á þróunina í þessum málum? Ég held, að enginn sé í efa um þetta og að það hafi verið fullkomlega réttmætt, sem ég sagði um afskipti sjálfstæðismanna af þessum málum og það sé ekkert ofsagt í því, að þjóðin megi nú þakka sjálfstæðismönnum fyrir það, að þeir hafa að vissu leyti sigrað í þessari hækkunarbaráttu sinni. En svo koma þessir menn auðvitað hér á Alþingi og annars staðar og ráðast á aðra fyrir það, að þróunin hefur orðið eins og hún er.

Til dæmis um, að aðrir hefðu hér komið við sögu, þá sagði hv. 2. þm. Eyf., að deildarstjóri úr fjmrn. hefði flutt tillögu um það á bæjarstjórnarfundi, að það væri eðlilegt, að Dagsbrúnarmenn fengju kauphækkun. Já, þetta var ákaflega einkennilegt. Þegar allir aðrir voru búnir að fá kauphækkun, átti þá ekki að hækka kaupið neitt við Dagsbrúnarmenn? Var það ekki sjálfsagður hlutur, að þeir fengju kauphækkun, a. m. k. til samræmis við aðra? Sannleikurinn er sá, að kórónuna á þessa framkomu sína settu sjálfstæðismenn með því, þegar þeir ætluðu að neita Dagsbrúnarmönnum um kauphækkun, eftir að þeir voru búnir að eiga ríkulegan þátt í því, að flestallir aðrir hefðu fengið kaupgjald sitt hækkað.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að þessu verði gleymt og þess vegna sé þeim nokkuð minnisstæð sú till., sem deildarstjórinn flutti á bæjarstjórnarfundi í Reykjavík og það var skemmtilegt, að þetta skyldi einmitt koma fram.

Ég vil svo að endingu í þessum umræðum aðeins segja þetta:

Það er tæplega hægt að hugsa sér einkennilegri skrípaleik, en forusta Sjálfstfl. hefur leikið undanfarið né ábyrgðarminni framkomu. Það er alveg augljóst, að þeir, sem þar ráða húsum, hafa algerlega sleppt allri von um að geta unnið sér aukið traust þjóðarinnar með myndarskap, stefnufestu og þjóðhollri framkomu, skortir sýnilega bæði þrek og kjark til þess að koma beint fram með nokkra stefnu eða skoðun. Valdavonir virðast eingöngu bundnar við, að með niðurrifsverkum sé hægt að skapa vanda, sem valdi sundrung og upplausn og í því róti muni þeir ná auknum áhrifum og völdum.

Það er raunar furðulegt, að forustu flokksins skuli detta í hug að bjóða mönnum upp á sumt af því, sem á borð er borið og mikil hlýtur að vera trú þessara manna á heimskuna og ofstækið, að þeim skuli detta í hug að nota þessar vinnuaðferðir.

Ég mun ekki fara langt út í að rekja hér að þessu sinni allar þær mótsagnir, sem fram koma, né öll þau bolabrögð, sem við eru höfð, umfram það, sem ég þegar hef gert í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Eyf., en ég vil benda á eftirfarandi:

Þeir gera allt, sem þeir geta, til þess að ýta undir sem trylltast kapphlaup kaupgjalds og verðlags. Þeir ætla að ærast, þegar talað er um að breyta vísitölufyrirkomulaginu og draga úr skrúfuganginum, sem engum er til gagns. Þeir heimta hærri ríkisútgjöld og meiri framlög á öllum sviðum, en bölsótast hins vegar út af skattabyrðum og hækkun ríkisútgjalda. Þeir ýta af öllum mætti undir sem villtastan skæruhernað í kaupgjaldsmálum og snúast nú í blöðum sínum með heift gegn öllum hugmyndum um að koma bættri skipan á þau mál. Allt er þetta þveröfugt við það, sem þessir menn hafa haldið fram á undanförnum árum, þegar þeim hefur verið trúað fyrir ábyrgð. Þeir stefna sýnilega að því að reyna að koma á algerri upplausn í efnahags- og framleiðslumálum, ef það mætti verða til þess að sundra samtökum þeim, sem orðið hafa um núverandi ríkisstjórn.

Tæpast mun nokkur svo fáráður maður finnast, að honum detti í hug, að Sjálfstfl. hefði haft möguleika til þess að stuðla að heppilegri þróun í efnahagsmálum og framleiðslumálum, en orðið hefur, þótt hann hefði verið við völd eða haft yfirleitt í nokkru tilliti betri aðstöðu til þess, en þeir flokkar, sem nú standa saman að landsstjórninni, enda dettur sjálfstæðismönnum ekki einu sinni í hug að halda þessu fram, því að þeir fást ekki með nokkru móti til þess að segja hvað þeir vilja.

En hvað vita menn þá í raun og veru um afstöðu sjálfstæðismanna til einstakra mála, og hvað má gera ráð fyrir að þeir séu að fara í rauninni, og hvernig eiga menn að vita þetta, þegar þeir hafa enga stefnu og segja eitt í dag og annað á morgun, allt eftir því, handa hverjum lýðskrumið á að vera? Að sumu leyti, er ef til vill erfitt, að átta sig á þessu. En á hinn bóginn eru til þýðingarmikil mál, sem sjálfstæðismenn hafa skoðun um og hafa tekið afstöðu til og þessir fáu þættir, sem þannig er ástatt um, gefa ef til vill ekki svo litla hugmynd um, hvað þeir raunverulega eru að fara.

Ég vil í þessu sambandi nefna aðeins fjögur atriði, en í því eru þeir alltaf samir við sig, þegar til kemur. Þeir hata samvinnufélögin og þá samkeppni, sem þau félög veita gróðamönnum Sjálfstfl., en sú samkeppni er í rauninni sú eina, sem á sér stað í þessu þjóðfélagi, og er almenningi í landinu meira virði, en flest annað. Hún lýtur að því að skapa sannvirði vinnu og þjónustu og forða frá féflettingu. Þeir vilja hafa verkalýðsfélögin sjálfum sér sundurþykk og veik og mega ekki heyra neitt nefnt, sem styrkir þau og sameinar, eins og nú er komið. Þeir heimta, að viðskiptagróðinn fái að vera í friði. Allar hömlur á honum eru eitur í þeirra beinum, framleiðendur mega lepja úr krákuskel að þeirra dómi, það þarf ekki að vanda þeim kveðjurnar og í valdaleiknum má valda þeim sífellt nýjum og nýjum búsifjum, en viðskiptagróði verður að hafa sinn gang. Og loks, þeir eru á móti sköttum á milljónamæringa. Þegar þeir berjast gegn stóreignaskattinum, þá er það í alvöru, en að öðru leyti eru engir álögudjarfari en þeir, eins og reynslan sýnir. Ætli þetta gefi ekki nokkra hugmynd um, þótt ekki sé fleira talið, hverrar náttúru þeir eru, hinir föstu punktar í viðhorfum sjálfstæðismanna? Af þessu má sjá bezt, hvað verið er að fara. En þjóðin heimtar skýra mynd af því, hvað Sjálfstæðisfl. vill og sættir sig ekki við feluleikinn. Þessi krafa verður háværari með hverjum deginum, sem liður. Hún vofir sem óveðursbakki yfir höfðum sjálfstæðismanna, og fram hjá henni verður ekki komizt. Hvað vilja sjálfstæðismenn í efnahagsmálunum, hver eru þeirra úrræði? Öll þjóðin spyr, og hún heimtar svar.