20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 3. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hafa fallið alvarleg orð, minna af gamansemi, enda efnið alvarlegt.

Fjvn. er víst sú eina nefnd Alþingis, sem aldrei kemst hjá því að klofna um aðalverkefni sitt, afgreiðslu fjárlaganna eða endanlegar tillögur um hana. Hvort þessu valda draugar lýðræðisins eða englar, hvort það er frá hinu illa eða hinu góða, skal ég ekki dæma um, en lýðræðislegt er það í fyllsta máta. Annað mál er svo það, að þeir, sem í fjvn. starfa, geta verið hinir sáttustu menn, átt í nefndinni ágætar samverustundir á fundum hennar og afgreitt margt mála, eins og einn maður væri, meira að segja geta þeir verið vinir. Þetta um vináttuna og ágreininginn er í fullu samræmi við það, sem hið vitra Klettafjallaskáld, Stephan G. Stephansson, segir, að hata skuli að eilífu rangan málstað, en ekki manninn, sem fylgir málstaðnum. Og þrátt fyrir vináttuna fer svo að lokum, þegar kemur að heildarafgreiðslunni, að málstaðurinn segir til sín, vinskapurinn breytist að vísu ekki, en dregur sig kannske eitthvað í hlé, verður orðfærri um stund og þeir, sem ekki eru í meiri hluta eða með stjórninni, taka saman skjöl sín, ganga út úr fundarherbergi nefndarinnar með skjölin og ágreininginn, sem þeir svo bera fram í nál. og ræðum í þinginu.

Ég þakka samstarfsmönnum mínum fyrir oft og einatt skemmtilega og góða dvöl og samverustundir á fundum nefndarinnar, þó að ég hefði kosið sumar till. þeirra mjög á annan veg og hljóti að setja út á þær og telja þær þjóna röngum málstað og óheillavænlegum.

Í vetur var lengst af mjög rólegt í fjvn., eins og getið er um í nál. okkar, sem erum í 3. minni hl., það nál. er á þskj. 405. Fyrsta kastið var, eins og kunnugt er, stjórnarkreppa. Eftir nýárið var komin ný hæstv. ríkisstj. Þá áttum við von á, að róðrar hæfust í nefndinni. En svo varð ekki. Hæstv. ríkisstj. kom ekki með línuna til róðranna, en óskaði hins vegar, að við legðum ekki okkar net nema þá rétt fyrir smákóð, okkur til dundurs og skemmtunar. En það þótti nú slíkum mönnum sem við erum, nímenningarnir í nefndinni, léleg dægradvöl og okkur tæplega samboðin og hreyfðum varla bátinn, þó að við ættum auðvitað nóg af netum. Um það var fyllsta samkomulag í nefndinni að haga sér þannig. Allir erum við svo stjórnhollir, þótt misjafnt sé.

Svo liðu tímar. Stjórnin fékk hvað eftir annað framlengdar greiðsluheimildir fjárlaga fyrra árs. Við áttum von á línunni hvern dag, og var full ástæða til þess. Blað hæstv. stjórnar, Alþbl., sagði nefnilega tímanlega í janúar, að till. stjórnarinnar væru að verða tilbúnar og hún sæti um hverja helgi við að þenkja um þær og ganga frá þeim, svo að þær yrðu óbrigðular. Sérstaklega áttum við von á línunni á mánudögum. Nú hlýtur stjórnin að ljúka þessu í dag, sögðum við hver við annan á sunnudögunum. Máske hún ljúki því fyrir messu? Nei, kannske ekki fyrr, en hún hefur farið í kirkju og hlustað á prestinn biðja fyrir sér? Svona liðu mánuðir og hvílíkir sunnudagar hljóta þetta að hafa verið fyrir hæstv. ríkisstj. allan þennan tíma. En sleppum því. Þetta er ekki gamanmál, eins og ég sagði áðan.

Fyrir mjög stuttu kom línan og nefndin klofnaði þá í þrennt eftir skamma stund. 1. minni hl. telur línuna nothæfa, jafnvel góða, eins og heyra mátti á ræðu hv. frsm. 1. minni hl. Hinir minni hlutarnir eru á annarri skoðun. Við í 3. minni hl. teljum hana í heildinni þannig, að alls ekki sé farandi á sjó með hana. Fyrir þeirri skoðun okkar er gerð mjög ýtarleg grein í nál. okkar á þskj. 405. Ég skírskota til þeirrar grg., en vil þó segja nokkur orð auk þess af hálfu 3. minni hl.

Fyrst er þá þess að geta, sem auðvitað er búið að taka fram, að nefndin stendur öll að till. þeim, sem eru á þskj. 391. Þar eru kóðin okkar úr smáróðrunum, sem ég gat um að við hefðum haft samþykki ríkisstj. til þess að fara í vetur og svo er þar annað stærri drátta, sem við gátum orðið samhentir um að innbyrða og stjórnin hafði ekki við að athuga. Hv. flm. eða frsm. 1. minni hl. gerði grein fyrir till., sem eru á þessu þskj., og ég sé ekki ástæðu til þess að bæta neinu þar við. Till. á þessu þskj. leggjum við til að Alþingi samþykki.

En þegar ég lít á aðrar till. stjórnarstuðningsflokkanna, þá undrast ég satt að segja, að þetta skuli hafa orðið niðurstaðan hjá þeim og árangur heilabrota hæstv. ríkisstj. á helgidögum síðan um áramót. Hæstv. forsr. hafði líka um áramótin flutt virðulega ræðu og haft þar fyrir mottó að boðskap sínum: „Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna að nota hann.“ — Þessar hendingar hafa mikinn sannleik að geyma. Ekki skal á móti því mælt. En þær eru framhald af fyrri parti, sem hljóðar svo: „Hér er nóg um björg og brauð, berirðu töfrasprotann.“ — Þessi töfrasproti er það, sem hafa þarf í hendi, vitanlega ekki bókstaflega, en óbeint og auðvitað hélt ríkisstj., að hún hefði þann töfrasprota. En till. sýna, að það hefur hún ekki haft og hefur ekki enn. Alþýðublaðið í gær lauk samt hugleiðingum sínum um till. með þessum orðum og stórletraði meiri hluta þeirra:

„Þegar allt þetta kemur saman, næst sá árangur, sem ríkisstj. lofaði þjóðinni, full framleiðsla og stöðvun dýrtíðarinnar, en engar nýjar almennar álögur á þjóðina.“

Fyrirsögnin, sem var auðvitað stærst letruð og ætluð öllum, hvort sem þeir gefa sér tíma til að lesa blöð ýtarlega eða ekki, hún var: „Engar nýjar álögur.“

Þessi orð stjórnarblaðsins er rétt að hafa í huga, þegar till. eru athugaðar og skal ég nú víkja ofurlítið að meiri hluta þeirra. Þó vil ég áður minnast á nokkur undirstöðuatriði.

Síðan hin nýja hæstv. ríkisstj. tók við í skammdeginu fyrir jólin, hefur kaupgjald í landinu verið lækkað með lögum og niðurgreiðsluráðstöfunum, sem nema samtals í hundraðshlutum 13.4. Tekjur bænda hafa að vísu verið lækkaðar meira og sýnir það út af fyrir sig hug þeirra, sem ráða stefnu ríkisstj., í þá áttina. Nú er það svo, að lækkun dýrtíðar er út af fyrir sig æskileg, og mig minnir, að það væri sagt einmitt í Alþýðublaðinu í vetur, — og um þessar mundir les maður vitanlega stjórnarblaðið og hefur stundum gaman af því, — að niðurfærsla væri fögur hugsjón. En út af fyrir sig er hún því bezt, að hún komi réttlátlega niður og að hún kosti ekki meira, en hún gefur. Það er vitað mál og alkunnugt, að þegar fært er niður verðlag með lagaboði eða opinberum ráðstöfunum, þá eru það vissir liðir, sem fyrst og fremst næst til og niðurfærslan kemur fram á þeim. Það er hægt að færa niður kaupgjald og það er hægt að færa niður verðlag á innlendri vöru, a. m. k. aðalvöru. En svo kemur hitt til, að það verðlag, sem er í viðskiptalífinu, úti í æðum þess, t. d. 17% hækkunin, sem hljóp út með vísitöluhækkuninni 1. des., næst ekki til baka nema á sumum liðum. Hún situr áfram í blóði viðskiptalífsins og þetta er af því, að blóðið vill ekki skila. Almenningur, sem getur komið því við að halda uppi verðlaginu, gerir það. Það er á móti vilja fólksins, að niður sé fært það, sem því viðkemur að selja. Og þess vegna er það, að þessar niðurfærslur ná ekki algerlega tilgangi sínum og eru ekki eins raunhæfar og látið er í veðri vaka, hvað þá að rétt sé að kalla þær „fagrar hugsjónir“.

Stjórnarflokkarnir eða ríkisstjórnin gerði samninga við framleiðendur án samráðs við Alþingi eða fjvn., og er áætlað, að þeir samningar auki útgjöld útflutningssjóðs um 82.3 millj. kr. Þetta er mikil upphæð. Okkur í fjvn. finnst oft og tíðum erfitt að ráða við svona upphæðir, þegar þarf að bæta þeim við. Og það er mikið vald, sem ríkisstj. tekur sér, þegar hún gerir slíka samninga utan við Alþ. og án samráðs við alla flokka Alþ. Mér er einnig sagt, að ríkisstj. hafi, þegar hún gerði þessa samninga, samið um viss fríðindi handa útvegsmönnum, t. d. eftirgjöf á þurrafúalánum, sem frsm. 2. minni hl. minntist hér allrækilega á áðan. En ég mun minnast á það atriði síðar. Ég tel það atriði líka þess eðlis, að langt sé gengið af stjórn í lýðræðislandi með slíkum samningagerðum.

Niðurgreiðslur á vöruverði hafa hækkað að sögn um 116.7 millj, kr. Þetta er mikið fé, sem mikið þarf til að standa straum af. Þetta er upphæð, sem verður að borga úr ríkissjóði eða útflutningssjóði og jafngildir því, sem lagt er til nýrra þjóðvega, brúa, hafnargerða, atvinnuaukningar, rafmagnsframkvæmda af ríkisfé, flugmálaframkvæmda, sjúkrahúsabygginga og skólabygginga. Allir þessir liðir, sem ég hér nefni, þykja stórir liðir á fjárlögum, en þeir eru þó ekki stærri, en þetta í samanburði við niðurgreiðsluupphæðina.

Gjöld útflutningssjóðs hafa samkvæmt áætlun þetta ár verið aukin um a. m, k. 199 millj. kr. Þetta er samkvæmt upplýsingum, sem fjvn. fékk undir lokin. Ólíklegt er það eftir reynslu, nýrri og gamalli, að þessi upphæð reynist of há eða aðrar þær upphæðir, sem ég hef nefnt.

Þegar litið er á þær tölur, sem hér að lúta, — ég nefni þær nú ekki allar, — þá er óbrúað bil, sem nemur 249 millj. kr. og þó sennilega mun meira í reynd, vegna þess, eins og áður segir, að tekjur útflutningssjóðs eru í þessu dæmi miðaðar við hærri innflutning hátollavara, en mögulegt mun reynast að framkvæma, hvað þá skynsamlegt, þrátt fyrir meiri notkun lánsfjár, sem gert er ráð fyrir að verði til þess að auðvelda innflutning. Það hefur samt verið gripið til þess óyndisúrræðis að hugsa sér að standa straum af hinum miklu niðurgreiðslum og nýjum þörfum með því að ætla þjóðinni að kaupa meira af hátollavörum, þ. e. a. s. þeim vörum, sem sú þjóð, sem vantar peninga, lætur undir höfuð leggjast að kaupa eða neitar sér um að kaupa. Þannig eru þessi mál hjá okkur komin á vissan hátt, í þá sjálfheldu, að það þarf að grípa til þess að beina kaupgetu þjóðarinnar að því að kaupa það, sem hún síður þarf, en takmarka nauðsynjar aftur á móti.

Stjórnarstuðningsmennirnir telja, að mæta þurfi 229 millj. kr. útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði og útflutningssjóði samanlagt og þá tölu fá þeir — eða 20 þús. lægri, en ég nefndi áðan, — með því að sleppa 20 millj. kr., sem talinn er vera halli útflutningssjóðs og þörfinni ætla þeir að mæta með nýjum álögum þrátt fyrir það, sem Alþýðublaðið segir.

Fyrst og fremst vil ég telja það nýjar álögur, sem er hækkun á áfengi og tóbaki, en sú hækkun er áætluð 25 millj. Vitanlega er þarna um nýjar álögur að ræða og í raun og veru má segja, að þetta séu álögur á almenning. Þó að hófsmenn neyti sér um þetta hvort tveggja, þá er það almenningur þjóðarinnar, sem notar tóbak og áfengi að einhverju leyti og á því byggist líka það, að ríkið telur sér ávinning að verzla með þessar vörur.

Í öðru lagi á hækkun á leyfisgjaldi á bíla að verða ný tekjulind, úr 160% upp í 300% og áætlun um, hvað þetta geri, álagshækkunin á bílana, er 25 millj. Það eru því 50 millj., sem ég tel augljóst að eigi að fá með nýjum álögum. Ég held þess vegna, að hæstv. stjórn ætti að athuga það að láta blað sitt leiðrétta frásögnina í gær, ef hún vill, að rétt sé frá störfum hennar skýrt.

Þá er annar flokkur þeirra upphæða, sem hugsað er að láta mæta þörf aukinna tekna. Það er þá fyrst niðurskurður verklegra framkvæmda, sem við metum 26.3 millj. kr., lækkaðar útgjaldaáætlanir, sem engin áhrif hafa á raunveruleg útgjöld 21.4 millj., hækkuð skipaskoðunargjöld og greiðslur fyrir vörumat, þ. e. a. s. framleiðslugjöld 1 millj. Við í 3. minni hl. höfum flokkað lækkanirnar, sem koma fram í tillögum stjórnarflokkanna, í þessa liði: Niðurskurð verklegra framkvæmda og teljum við þar undir 2 millj., að því er snertir flugvelli, sem á að lækka um þetta og atvinnuaukningarfé, sem er lækkað um 3.5 millj. Ég held, að enginn geti deilt um, að þetta sé niðurskurður verklegra framkvæmda. Og svo eru hér fleiri liðir slíkir, ég ætla ekki að tefja tímann með því að lesa þá upp, en aðeins nefna þetta til sönnunar því, að við höfum flokkað þetta rétt eftir tegundum. Þá eru það lækkaðar útgjaldaáætlanir, sem engin áhrif hafa á raunveruleg útgjöld, þar undir teljum við t. d. alþingiskostnaðinn, sem hv. frsm. 2. minni hl. sýndi mjög greinilega fram á að er bara sýndarlækkun. Og svo teljum við t. d. ábyrgðarlækkunina þarna undir. Þriðji flokkurinn, hækkuð skipaskoðunargjöld, — það leggur sig nú sjálft, — þar er skipaskoðun og afurðamat, sem kemur til greina. Það eru framleiðslugjöld, sem eiga að vera sama sem nýjar álögur. Og svo kemur í fjórða lagi það, sem er náttúrlega allra mest um vert og væri æskilegt að hefði getað verið meira, en það er nefnilega raunverulegur sparnaður, og hann er bara hálf milljón og það er afnám orlofsmerkja. Vitanlega er þarna um hreinan sparnað að ræða. En þetta er stök tala og fer lítið fyrir henni í samanburði við hinar tölurnar. Ég man þá tíð, að Alþfl. þótti vænt um orlofsmerkin. Mér var alltaf illa við þau, meðan ég var oddviti, því að ég þurfti að votta í sambandi við þau það, sem ég gat í raun og veru alls ekki vottað, en lögin voru þannig, votta það, að sá maður, sem fór með bókina sína til að taka út merkin hjá póstafgreiðslunni, ætlaði að fara í orlof. Þess vegna hef ég ekkert illt um þetta að segja. En sýnilegt er, að Alþfl. hefur beygt sig þarna fyrir samstarfsflokknum. Í fljótu bragði sýnist nú ekki lágt lotið, þegar reiknað er eftir upphæðinni, en beygjan frá fyrri skoðunum er niður að gólfi.

Þá hefur stjórnarliðið hugsað sér að mæta þörfinni, sem ég er að tala um, með hækkaðri tekjuáætlun, án þess að nokkuð nýtt komi til, en það nemur 63.6 millj. kr. Ég mun í öðru sambandi minnast á tekjuáætlunina, en hins vegar er það víst, að þessi tala er óskhyggjutala.

Þá er fjórði liðurinn, sem á að mæta þörfinni með. Það eru tolltekjur af Sogsvirkjuninni, þ. e. a. s. ef lán fæst til greiðslu á þeim. Þarna koma til fyrningarnar frá fyrri ríkisstj., maturinn, sem var í búrinu, það eru 30 millj.

Og svo er fimmti liðurinn, sem er líka fyrningar frá fyrra ári og peningar í lófa stjórnarinnar, það er greiðsluafgangurinn, 25 millj.

En með þessari uppsetningu, sem hæstv. stjórnarflokkar hafa til þess að ná endum saman, er ekki minnsti vafi á því, að stefnt er að miklum greiðsluhalla.

Svo koma tillögurnar um einstaka liði í gjaldalækkun frá frv., og fyrst er þá niðurskurðurinn samkvæmt sundurliðuðum till., og ég vil nefna nokkuð af þessum till.

Það er lækkun alþingiskostnaðar og tillögumennirnir segja, að hægt sé að lækka þessa áætlun, vegna þess að þinghaldið verði styttra í ár, en að undanförnu. Hv. frsm. 1. minni hl. lagði á þetta áherzlu nokkra. En nú vita allir, að þetta er reginfjarstæða. Það er að því stefnt að rjúfa þetta þing og stofna til annars þings í sumar. Og það er lengra stefnt af stjórnarflokkunum og ef þeir ættu að vera í samræmi við sjálfa sig, þá verður að taka tillit til þess. Það er stefnt að því, að það þing breyti kjördæmaskipuninni og af því leiðir svo, þó að ég viðurkenni ekki sjálfsagt, að þetta nái fram að ganga, þá leiðir af því eftir hugsanagangi þeim, sem stjórnarflokkarnir hljóta að hafa, að nýtt þing þarf að koma saman í haust, reglulegt þing, sem verður fjölmennara, en Alþingi hefur nokkru sinni verið áður. Þessi lækkunartill. er því alveg sérstaklega barnaleg og eins og auglýsing um það, að stefnan í lækkuninni sé aðeins sú að setja upp einhverjar málamyndatillögur til lækkunar til þess á pappírnum að ná endum saman.

Þá er önnur till., þ. e. víst 15. till. á þskj. 1. minni hl., þ. e. lækkun hjá ráðuneytum og lækkun annars kostnaðar. Hún er rökstudd með því, að ráðherrar séu nú færri, en áður hafi verið og annar kostnaður hátt áætlaður. Frsm. 2. minni hl. sagði frá því, sem tillögumenn hafa kannske ekki munað, að þó að aðeins sitji 4 ráðherrar í stólum nú á Alþingi, þá eru 4 aðrir ráðherrar á biðlaunum. Og það eru ákaflega litlar líkur til þess, að ráðherrum verði fækkað seinni hluta ársins og meira að segja miklar líkur til þess, — ég tek undir það með hv. frsm. 2. minni hl.: miklar líkur til þess, að þeir, sem hafa stólana, verði á biðlaunum seinni hluta ársins. En samt sem áður er nú þetta þannig, að við sjáum ekki ástæðu til þess að vera á móti þessari till., við höfum dálítið gaman af henni og okkur sýnist mjög sanngjarnt, að hæstv. ríkisstj. fái að gera tilraun með sparnað í sínu eigin húsi, á sínu eigin heimil, og það væri satt að segja — mér finnst það — anzi hart aðgöngu fyrir hana, ef Alþ. leyfði henni ekki að sýna manndóm sinn í þessu.

Þá vil ég nefna 16. till. á sama þskj. Það er um lækkun tollgæzlukostnaðar um 500 þús. kr. Mér heyrðist á hv. frsm. 1. minni hl., að hann teldi þetta nokkuð rakið mál. Hins vegar standa þannig sakir, að víst er, að engar ráðstafanir er farið að gera til þess, þó að liðið sé það af ári, sem nú er, að spara á þessum lið. Ef á að fækka tollgæzlumönnum, eins og mig minnir að hæstv. fjmrh. segði að hugsað væri, þegar hann var einu sinni mættur á fundi fjvn., þá er það vitað, að til þess að tollgæzlumenn fari úr starfi, þarf að segja þeim upp með 6 mánaða fyrirvara. Svo er annað mál, sem kemur þarna til og gerir þennan sparnað, þó að hann væri framkvæmanlegur, mjög vafasaman og það er það, að með aukinni tollgæzlu og bættri hefur tekizt á seinni árum að auka mikið tekjur ríkissjóðs, koma í stórum stíl í veg fyrir tollsvik og smygl. Þessi till. er því, hvernig sem hún er skoðuð, ekki réttmæt.

17. till. er lækkun til Skipaútgerðar ríkisins um 6 millj. kr. Frv. gerir ráð fyrir 16 millj. Till. gerir ráð fyrir, að látið verði sitja við að áætla til skipaútgerðarinnar 10 millj. Nú er það svo, að Skipaútgerð ríkisins þurfti ekki á s. l. ári meiri styrk vegna rekstrar en á 12. millj. Það er staðreynd. En á því ári varð hún fyrir sérstökum höppum í rekstri og enn fremur komst hún hjá að greiða gjöld, sem á hana falla nú. Þar að auki verður hún nú fyrir þeirri 5% lækkun, sem lögboðin var og enn fremur er svo á það að líta, að hæstv. ríkisstj. hefur ráðizt í það án þess að ráðfæra sig við Alþ. frekar, en um fúalánin, að láta taka skip skipaútgerðarinnar úr ábyrgðum nema fyrir algeru tjóni. Hvaða einstaklingar skyldu telja þetta praktíska ráðstöfun fyrir sig og hvers vegna gerir ríkisstj. þetta án þess að bera það undir Alþ.? Það má vera, ef guð og lukkan hjálpar til, að upp úr þessu hafist hagnaður. En það er ekki hagnaður, sem rétt er að setja á áætlun, því að vitanlegt er það, að með þessu móti er stofnað til þess, að svo geti farið, að skipaútgerðin þurfi miklu meira fé, en nokkru sinni áður til þess að standa straum af þörfum sínum á árinu. Við erum þess vegna algerlega á móti þessari till., teljum hana óráðdeildarlega, teljum líka ráðstöfunina um að taka skipin úr ábyrgð óráðdeildarlega og tökum það trúanlegt, sem framkvæmdastjóri skipaútgerðarinnar segir, að ekki sé hægt að hugsa sér að komast af með 10 millj., nema þá með því móti að minnka að sama skapi þjónustuna við almenning, sem skipaútgerðin veitir, en það segir hv. 1. minni hl., stjórnarflokkarnir, að auðvitað megi ekki verða, nei, alls ekki, segja þeir. Þess vegna er þessi till. ein af óskhyggjutillögunum.

Þá er 20. till., framkvæmdir í Skálholti, lækki um 500 þús. kr. Nú eru áfallnar skuldbindingar á þessu ári til þessara framkvæmda sem næst 760 þús. kr. og því alger stöðvun á framkvæmdum og meira en það, ef fjárveitingin verður lækkuð. Þó að það sé rétt, sem frsm. minni hl. nr. 2 sagði, að nokkuð geyst hafi verið farið í Skálholtsmálum og ekki sé að fullu vitað, hvert er stefnt með Skálholt, þá er það óumdeilanlegt, að þjóðinni ber að heiðra þennan stað og henni ber að ljúka þeim verkum, sem þar hafa verið hafin. Þess vegna er það, að við getum ekki fallizt á að samþykkja slíka till. sem þessa. Við viljum ekki misbjóða heiðri staðarins.

Þá er 21. till., þ. e. kaup á jarðræktarvélum, sem lagt er til að lækki um 2 millj. kr. Og þetta er réttlætt með því, að nú sé útrunninn sá tími samkv. lögum, sem skylt sé að leggja fé til kaupanna á jarðræktarvélunum. Hins vegar mun það alls ekki hafa verið ætlun Alþ. að láta staðar numið með þeim 2 millj., sem veittar voru í fyrra og þetta er eitt af því, sem er nauðsynlegast fyrir landbúnaðinn á Íslandi til þess að geta bætt landið á þann hátt, sem þarf, til þess að búskapurinn beri sig. Beiðnir um gjaldeyri og innflutningsleyfi liggja fyrir frá 13 ræktunarsamböndum um kaup á jarðýtum. Samanlagt er þessi kostnaður eða kaupveð — áætlaður 7 millj. 450 þús. kr. Herfi og plóga þarf handa þessum tækjum og mun kostnaður við kaup á þeim vera um 500 þús. kr. Vélanefnd hefur áætlað framlög til ofangreindra kaupa um 3 millj. 200 þús. kr. á þessu ári. Þetta les ég hér upp af blaði og það er skrifað þar eftir upplýsingum frá vélanefnd.

Hv. frsm. 1. minni hl. gerði þannig grein fyrir till., eins og ég sagði áðan, að tíminn væri útrunninn, sem skuldbundið væri að leggja fram fé og í öðru lagi, að frá fyrra ári bið 1½ millj. óeydd. Það er náttúrlega gott að heyra það, ef hæstv. ríkisstj. hefur sett í umslag hjá sér þessa 1½ millj., svo að hún gæti verið tiltæk. En samkv. þeim tölum, sem ég hef hér lesið upp, þá hrekkur hún alls ekki til að fullnægja þeirri þörf, sem talin er vera knýjandi. Það er náttúrlega hægt að kreppa að í þessum efnum með því að neita um innflutningsleyfi, en það er ekki æskilegt, að það sé gert, því að hér liggur mikið við. Við teljum fjarstæðu að fella þessa fjárveitingu niður og teljum það bera vott um óvinsemd — hreina og beina óvinsemd — í garð bændastéttarinnar.

Þá er 22. till. Hún er um mat á sjávarafurðum, þ. e. lækkun um 500 þús. kr. Sagt er, að hér sé átt við síldarmat. Nú hefur svo verið, að síldarsaltendur hafa að ýmsu leyti barizt í bökkum og það hefur verið dregið af því að veita fullkomnar uppbætur á síld samanborið við aðrar útflutningsvörur. Ég hygg, að saltendurnir hafi greitt af tunnu sjálfir 70 aura fyrir matið, en ef þessi till. nær fram að ganga, þá er sagt af kunnugum mönnum, að það muni valda því, að greiðsla síldarsaltenda fari upp í 3 kr. á tunnu. Við erum á móti þessu. Við teljum þetta nýjar álögur og stjórninni ekki samboðið, miðað við boðskap hennar í vetur.

Um niðurfellingu á framkvæmd orlofslaganna var ég búinn að tala áðan.

En þá er till. um ríkisábyrgðir, lækkun úr 30 niður í 20 millj. Greiðslur vegna ríkisábyrgða munu hafa á síðasta ári orðið á 24. millj. Á fjárlfrv. er gert ráð fyrir, eins og ég sagði, 30 millj. Eigi að lækka þessa upphæð niður í 20 millj., þá er blátt áfram stefnt að því, að ríkissjóður annaðhvort geti ekki staðið við ábyrgðarskyldur sínar ellegar þá að allt fari í flakalaka með fjárlögin hjá ríkinu að því er þennan lið snertir. Í þessu sambandi vil ég eins og hv. frsm. 2. minni hl. minnast á þurrafúalánin, sem einmitt vofa yfir að því er þennan lið snertir og er boðið upp á að taka á ríkið í skyndingu, ef till. hv. 1. minni hl. verður samþykkt um að gefa þurrafúalánin eftir og gera þau mál upp. Hér er því bæði um það að ræða, að á ferðinni er till., sem ekki stenzt og önnur till., sem blátt áfram drepur hana í framkvæmd.

Byggingar á jörðum ríkisins eiga að lækka skv. 29. till. á sama þskj. um 500 þús. kr. Svo stendur þar á, að hér er um að ræða lagalegar skyldur, sem ríkið hefur sem landsdrottinn við leiguliða sína, að því er húsabætur snertir o. fl. Og það er upplýst af þeim, sem með þessi mál fara, að áfallnar skuldbindingar nemi allt að 2.1 millj. Þess vegna stenzt þessi till. með engu móti, nema því aðeins að stefnt sé að halla á þessum lið í útgjöldum ríkisins og við erum á móti slíku.

Þá er 30. till. um flugvallagerðir, lækkun um 2 millj., sem er 25% af hinni áætluðu upphæð á fjárlfrv. Þetta teljum við mjög háskalega og óviturlega till., vegna þess að þannig stendur á, að flugvallaframkvæmd okkar hefur verið ör. Máske má segja, að hún hafi að einhverju leyti verið um efni fram. Henni hefur verið hraðað af miklum dugnaði og flugvöllunum er að ýmsu ábótavant, þannig að lífshætta getur virzt fyrir fólk. Þar að auki kemur það til, að þessi samgöngugrein, ef maður mætti svo að orði komast, er þannig, að dreifbýlið treystir mjög mikið á hana og þarf orðið að gera það, og það er þess vegna tilræði við það að lækka þessa framkvæmd á fjárlögum. Við höfum lagt fram sérstaka tillögu um framlög til flugvalla og geri ég grein fyrir henni sérstaklega, en mæli eindregið á móti þessari sem einna lökustu tillögunni, sem hv. 1. minni hl. flytur, þótt margar séu þar afleitar. Með þessari till. tel ég hann hafa einna verstan málstað, þótt vondur sé með fleiri. Þá grípur inn í þetta það, að samningur hefur verið gerður um radartæki, skriflegur samningur, sem ég sé ekki betur, en stofnað sé til að verði rofinn, við erlenda aðila, ef till. hv. 1. minni hl. ná fram að ganga í því formi, sem þær eru.

Þá er hér talað um í 31., 35. og 37. till. á nefndu þskj. að skera af fjárveitingu til vissra byggingarframkvæmda, þ. e. til Menntaskólans á Akureyri, til Sjómannaskólans í Reykjavík, til Menntaskólans í Reykjavík, til lögreglustöðvar á Keflavíkurflugvelli og til Stjórnarráðshúss. Nú er vitað mál, að þetta eru allt framkvæmdir, sem þarf að gera og ekki er þess vegna um annað að ræða en frest, ef ýmist á að fella af fjárveitingu til þeirra eða fella þær alveg niður, eins og hér er lagt til. Og spurningin er þetta: Erum við þannig settir í ár, að eðlilegt sé eða rétt að fresta því að leggja fram til þessara hluta? Og verðum við þá svo betur settir að ári, — kannske, ef kjördæmabreytingin kemst á, að þá verði fé betra og meira til þessara hluta?

Ég vil hér nefna sérstaklega stjórnarráðshúsið. Það er enginn vafi á því, að stjórnarráðshúsið er bygging, sem er of seint á ferðinni. Alþ. hefur skaðað þjóðina á því að veita ekki fyrr meira fé, en gert hefur verið til þeirra framkvæmda. Og svo vel vill nú til og skrýtilega, að einmitt í gær, þegar tillögurnar koma fram um að fella niður eina milljón til þessa húss, þá stendur í Alþbl., sem oft er gaman að lesa, með feitu letri: „Ríkið hefur verið svo svifaseint í byggingum yfir eigin starfsemi, að það þarf enn að greiða 6 millj. kr. í leigu árlega, aðallega fyrir skrifstofuhúsnæði.“ Þetta er svo sem ekki stjórnarandstöðublað að stríða ríkisstjórn. Þetta er bara rödd samvizkunnar, sem talar þarna án þess að gera sér grein fyrir því, hvað þetta kemur í bága við stefnu þá og þær tillögur, sem settar eru á oddinn hjá flokknum.

En þó að þetta sé nú svo með þessar till., að þær séu ákaflega óbjörgulegar, þá vill þó ekki 3. minni hl. bregða fæti fyrir þær, ef ríkisstjórnarflokkarnir vilja leggja sig í það að skapa þessa lægð í framkvæmdasemi ríkisins.

Þá er 36. till., það er atvinnuaukningarféð, lækkun um 3.5 millj. kr., það er víst 26% af upphæðinni. Atvinnuaukningarféð hefur á undanförnum árum verið geysilega þýðingarmikið til uppbyggingar atvinnulífs í landinu. Og það má vafalaust að furðumiklu leyti þakka þeim fjárveitingum, sem teknar voru upp og hækkaðar mikið í tíð vinstri stjórnarinnar, hvað atvinnulífið blómgaðist einmitt jafnhliða.

Nú stendur svo á víða, að þau fyrirtæki, sem risu og þau útgerðartæki, sem menn eignuðust fyrir þá hjálp, sem þetta atvinnuaukningarfé varð þeim, eru enn í smíðum eða þurfa í sambandi við sig meiri stuðning, svo sem bátarnir til að koma upp aðstöðu í landi vegna aflans og þess vegna væri það mjög skaðlegt, ef Alþ. kippti nú hendi að sér og léti ríkið ekki halda áfram að leggja lið, eins og að undanförnu hefur verið gert. Við getum þess vegna alls ekki fallizt á þessa till. Við teljum það í raun og veru eins og að taka atvinnulífinu blóð að fella niður þessa fjárveitingu eða draga úr henni.

Ég hef þá farið yfir þessar höfuðniðurskurðartillögur á skoprugangi, eins og sagt var í útvarpinu hér um daginn að væri eitt gott ganglag hesta og er þar með kominn að þeim kafla í ráðstöfunum þeim, sem hv. stjórnarflokkar vilja gera til lækkunar á útgjöldum á fjárlagafrv., sem er 5% lækkun, er gengur yfir fjölda liða, sem eru margir hverjir þess eðlis, að kalla má þá verklegar framkvæmdir.

Mér þykir það skrýtið, satt að segja mjög skrýtið, að hafa tekið þátt í því í fjvn. með allmikilli fyrirhöfn að skipta til skólabygginga tiltekinni upphæð, sem hæstv. menntmrh. gaf heimild til að skipta milli þeirra, sem eru að byggja skóla eða ætla að fara að byggja skóla, en síðan er tekin til baka af þessari skiptingu, sem var búið að samþykkja í fjvn. og hæstv. menntmrh. fyrir sitt leyti að fallast á, 20. hver króna. Mér finnst þetta satt að segja mjög skrýtið og mér finnst það mjög hæpin aðferð að beita þannig niðurskurði „prósentvís“ á þessar tölur, því að sums staðar mun það reka sig á, eins og hv. frsm. 2. minni hl. benti á, að þarna sé um það að ræða, að skyldur ríkisins samkvæmt lögum um aðstoð við byggingar verði brotnar. Ég á við það, þegar verið er að ljúka greiðslum og komið er á síðasta ár. Ég held þess vegna, að einmitt þessi aðferð, sem hæstv. stjórnarflokkar vilja hafa við að ná því, sem er ekki meira samtals en rúmlega 8 millj. kr., sé ákaflega hæpin. Þeir, sem verða fyrir niðurskurðarhnífnum þarna, standa svo misjafnlega að vígi til þess að þola hann og þar er líka gengið lengra; ef skoðað er ofan í kjölinn sums staðar, heldur en lög fullkomlega leyfa.

Sumar þessar 5% lækkanir eru vitanlega alveg óraunhæfar, t. d. niðurskurður á áætlun um framlög til jarðræktarframkvæmda. Framlög til jarðræktarinnar eru lögbundin og þau fara ekkert eftir áætlun fjárlaga, heldur eftir framkvæmdunum sjálfum.

Eitt af því, sem lagzt er á með þessum niðurskurði, er framlag til viðbótarbyggingar landsspítalans. Það er verið að byggja við landsspítalann mjög myndarlega aukningu húsakosts og aðstöðu og þar kallar þörfin mjög brýnt að. Við þekkjum það sjálfsagt allir, hvað bið margra, sem við erum kunnugir, hefur verið óþolandi stundum eftir því að geta komizt að á landsspítalanum til þess að fá þar umönnun og hjálp sem sjúklingar. Úr slíkri aðstöðu í landinu á að reyna að bæta með þessari viðbyggingu og forustumennirnir í læknastétt, læknarnir, sem vinna við landsspítalann, hafa lagt sig mjög fram um að hrinda þessu máli áfram. Þeir hafa stundum fengið fjvn. til að heimsækja sig og líta á athafnirnar, t. d. í vetur gerðu þeir það, og mér hefur fundizt, að þá væri meðal fjvn.-manna ákaflega opinn skilningur fyrir þeirri nauðsyn, sem þarna væri með framkvæmdir, og þeirri brýnu nauðsyn yrði að leggja lið, eftir því sem mögulegt væri. En þarna er lagzt svo lágt að skera af eftir tillögunni á þriðja hundrað þúsund bara til þess að henda í niðurgreiðslusvelginn, í gin verðbólgunnar, sem verður alveg eins hungruð eftir sem áður og fjarlægist ekki. Það hefði nú verið munur, ef við hefðum verið að ganga frá henni til fulls, þeirri ókind. En við erum bara að seðja hana, til þess að hún láti okkur í friði dagana, sem eru að líða. En þetta er of dýrt spaug í því sambandi.

Náttúrlega er sama að segja um annað það, sem höggvið er af fjárveitingum til sjúkrahúsabygginga í landinu. Allar rísa þær fyrir mikla þörf. Allar eru þær framkvæmdar af áhugamönnum, sem verja til þess tíma og eigin fé að vinna að því, að þær komist upp. Nú er talið svo bágt á Alþ. undir stjórn hv. stjórnarflokka, að það þurfi að fella af áætlunarframlögum til þessara framkvæmda 20. hverja krónu.

Þá er þarna viðhaldsfé vega og það er búið að minnast á það hér. Viðhaldsféð hefur alltaf þurft hærra og hærra og aldrei — um langt skeið a. m. k. — hrokkið féð, sem áætlað hefur verið til viðhalds vega og aldrei heldur verið ánægja með viðhaldið í landinu, því að féð hefur ekki hrokkið til þess að halda vegunum þannig við, að menn teldu, að þeir væru í því lagi, sem þeir þyrftu að vera. Það var bent á það áðan í sambandi við þennan fyrirhugaða sparnað, að einmitt vanræksla í viðhaldi hefur valdið því, að ríkið hefur verið dæmt til þess að greiða bætur þeim, sem hafa átt ökutæki, sem hafa skemmzt á vegum. M. a. er hægt að hugsa sér, að slíkt sé kallað yfir, ef dregið er úr framlögum til þessara framkvæmda. En svo kemur annað til, sem er örugg reynsla og það er það, að þó að frestað sé viðhaldi eitt ár og dregið úr því, þá verður það til þess; að enn þá meira þarf að leggja í þau verk næsta ár og ekki aðeins það, heldur hlutfallslega meira, því að vanræksla á viðhaldinu kallar á meiri skemmdir. Skemmd leiðir af skemmd. Ég held þess vegna, að það sé mikil vanmáttaryfirlýsing hjá hv. stjórnarflokkum að leggja til, að þessi fjárhæð sé lækkuð um 20. hverja krónu.

Þá má og segja, að sama gildi um endurbyggingu gamalla brúa, því að það er vitað, að hinar gömlu brýr eru að verða margar í landinu og þær eru þannig á sig komnar sumar, að þær eru blátt áfram að verða lífshættulegar og mig undrar það satt að segja, að þingmenn úr hv. stjórnarflokkum skuli, þ. e. a. s: ef þeir gera það, að þeir skuli þá styðja svona tillögur, þm. úr Skagafirði, þm. af Rangárvöllum og kannske þm. úr Vestur-Skaftafellssýslu. Mér skilst, að í öllum þessum héruðum séu brýr, sem þeir telji, sem þar eiga hlut að máli, mjög háskalegar orðnar.

Þá sleppti þessi niðurskurður ekki íþróttasjóði. Til íþróttasjóðs var talsvert hækkað framlag 1957, eða upp í 1.6 millj. kr. Nú er sagt, að vangoldið af íþróttasjóði, þ. e. af ríkinu í raun og veru, til þeirra hluta, sem hann á að taka þátt í, sé 13.1 millj. Og ég minnist þess, að einmitt menn úr hv. núverandi stjórnarflokkum, t. d. úr Sjálfstfl., höfðu nokkuð stór orð um það 1957, þegar framlagið var hækkað, að hækkunin væri alveg ófullnægjandi. Síðan hefur við bætzt. En samt virðast þessir flokkar hugsa sér nú — þeir álita ástandið hjá stjórninni svo slæmt — að skera niður þessa upphæð, 1.6 millj., um 20. hverja krónu.

Þá heyra þarna undir 5% lækkunina sandgræðslan og skógræktin. — Undarlegt með þessa 5% lækkun, það er eins og hæstv. stjórn hafi mikið uppáhald á tölunni 5, sem hefur þó því miður orðið að 1% stundum, t. d. þegar um lækkun á álagningu á vöru hefur verið að ræða. En sleppum því, þetta er nú óþarfa innskot kannske. En sandgræðslan og skógræktin, sem hafa stórkostlega mikið hlutverk að vinna hjá þjóðinni — og sandgræðslan hefur tekið sér alveg nýtt hlutverk, sem getur gerbreytt landinu, ef lánast, — þær eiga nú að verða fyrir því að missa 20. hverja krónu af því, sem hafði verið áætlað handa þeim. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hygg, að ég hafi verið kominn áðan að einum dálítið sérstökum lið í þeim flokki niðurskurðarins, sem heyrir undir 5% hnífinn og það er tillaga um, að fellt sé af fjárveitingu til þess að byggja nýjar mæðiveikigirðingar. Nú hafa þau óvæntu, illu tíðindi gerzt og höfðu borizt, þegar till. var samin, að komin er upp mæðiveiki, sem þarf að hefta. Þrátt fyrir það er lagt til, að þarna fari fram lækkun. Þó hafði hv. þm. N-Ísf. (SB) minnt mjög á þörfina í þessum efnum, því að hann flutti sérstaka þáltill., sem enn hefur ekki að vísu fengið afgreiðslu. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela sauðfjársjúkdómanefnd að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að hindruð verði útbreiðsla mæðiveiki á Vestfjörðum, en sá landshluti hefur átt ríkan þátt í að tryggja íslenzkum landbúnaði heilbrigðan fjárstofn.“ Og það, sem hann leggur til alveg sérstaklega í sinni grg., er; eins og þar stendur: „Í fyrsta lagi að treysta, sem mest má verða, varnargirðinguna úr Kollafirði í Ísafjörð og verja þannig allan vesturhluta Vestfjarða; í öðru lagi að girða Reykjanesið af og freista þannig að takmarka útbreiðslu veikinnar við það byggðarlag. Efling varnargirðingarinnar úr Berufirði í Steingrímsfjörð kæmi einnig til greina“ — og svo bætir hann við til áherzlu: „Till. þessi er flutt með það fyrir augum að leggja hina mestu áherzlu á, að ofangreindum og öðrum skynsamlegum ráðstöfunum verði hraðað, eins og frekast er kostur á.“ — Eru það nú hinar „skynsamlegu ráðstafanir“, sem Sjálfstæðisflokksmaðurinn af Vestfjörðum biður um, að fella niður af því framlagi til sauðfjársýklavarna, sem ákveðið var, áður en þessi nýju, háskalegu tilfelli komu til sögunnar? Þetta er ekki nöldur úr stjórnarandstæðingi. Ég trúi því varla, að þessi hv. þm. styðji stjórnarstefnuna að því er þetta snertir. En þetta dæmi sýnir, hversu fráleitt það er í raun og veru að beita niðurskurði á útgjöldum „holt og holt“, hvernig sem málefni eru, eins og hefur verið gert af hv. 1. minni hl.

Ég hafði áðan í sambandi við hinn stærri niðurskurð ekki minnzt á einn lið, sem er þó stórkostlegur og einn sá allra skæðasti og óhappalegasti að mínu áliti, en það er till. um, að nýjar raforkuframkvæmdir: 10 millj. kr. — falli niður. Þetta jafngildir því í raun og veru að þurrka út fjárveitingar af ríkisfé til rafvæðingar úti um land, þar sem rekstrarhalli á rafveitum ríkisins og aðrar áhvílandi kröfur gleypa ríkistillagið að öðru leyti. Ég hef í höndum hér frá raforkumálaskrifstofunni samkvæmt blöðum, sem hún eftirlét fjvn., yfirlit um framkvæmdir á s. l. ári og áætlanir fyrir 1959, og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp þessar upplýsingar:

Á s. l. ári var varið til nýrra raforkuframkvæmda eitthvað yfir 90 millj. kr. Fjár til framkvæmda var aflað á eftirgreindan hátt: Framlag frá ríkissjóði 29 millj. kr. Innlendir bankar, samkvæmt eldri samningum, ca: 13 millj. Heimtaugar, greiðslur fyrir þær, 4 millj. Erlend lán fyrir milligöngu ríkissjóðs 32 millj. Bráðabirgðalán og eigið fé 13 millj. Samtals upphæðin, sem áður er nefnd, 91 millj. kr.

Á frv. til fjárlaga, sem við erum nú að ræða, fyrir 1959, var gert ráð fyrir að verja til nýrra raforkuframkvæmda 25 millj. kr. Fjárþörf til nýrra raforkuframkvæmda og vegna rekstrarhalla rafveitna ríkisins er í stórum dráttum þessi 1959:

Rekstrarhalli, að nokkru áætlaður, 15 millj. kr. Afborgun erlendra bráðabirgðalána eftir samningum 6 millj. kr. Framkvæmdir í framkvæmd samkvæmt 10 ára áætlun og ályktun raforkuráðs 78 millj. kr. Samtals 99 millj. kr.

Tekjur á móti þessu hafa verið áætlaðar aðallega þessar: Frá ríkissjóði á fjárlögum samkvæmt till. 14 millj. 250 þús. kr. Heimtaugargjaldatekjur 4 millj. Innlendir bankar eða lán frá þeim samkvæmt eldri samningum 14 millj. Og útvegað lánsfé 66 millj. 750 þús.

Lánsþörfin er eftir þessari áætlun 66 millj. 750 þús.

Það hefur verið upplýst af hæstv. fjmrh. og fleirum, að meiningin sé að taka 10 millj. kr. lán til þess að bæta upp þá niðurfellingu, sem lögð hefur verið til. En eru nú nokkrar minnstu líkur til þess, að ríkisstj. takist að útvega meira fé en þetta, sem hér hefur verið nefnt, 66 millj., þó að hún hafi ekki hitt til viðbótar til að útvega? Ég tel, að þarna sé allt of djarft farið, og ég hygg, að þeir, sem bíða eftir rafmagni samkvæmt þeirri 10 ára áætlun, sem gerð var, bæði í kauptúnum og sveitum, telji það hreint og beint svik af hálfu hins opinbera við sig, ef þessi till. verður samþykkt, og mér finnst þeir hafa mikla ástæðu til þess.

Yfirleitt er það svo, að þessi niðurskurður verklegra framkvæmda verkar á tekjur manna eins og nýjar álögur og alls ekki betur en þær.

Ríkisstj. lofaði miklu, eins og Alþbl. réttilega viðurkenndi í greininni, sem ég vitnaði í áðan, og satt að segja þykir mér það furðulegt, að blað stjórnarinnar skuli, eins og nú er komið, þegar þessar till. hafa verið lagðar fram, halda því enn á loft. Blaðið er sannarlega ekki feimið. Ýmsir héldu, að stjórnin kynni að hafa fundið góðan sprota, þó að það væri kannske ekki beint töfrasproti, sem hún hefði fundið. Ég skal þó taka fram, að ég hafði litla trú á því. En svona bágborið hélt ég það yrði aldrei, sem hún hefði fram að leggja sem úrræði.

Í sambandi við niðurskurðinn á verklegum framkvæmdum dettur mér í hug saga af bónda, sem bjó á rekajörð og notaði rekavið nærri eingöngu til eldiviðar. En það var mikið verk að draga heim rekaviðinn og saga hann og rífa í eldinn. Það þekkja þeir og geta gizkað á, sem við slíkt hafa fengizt. Stundum tók hann vetrarmann, sem hafði þetta aðallega á hendi. Einu sinni sem oftar réð hann til sín mann í þessu skyni. Sá lét allmikið yfir sér, enda líka mannborlegur maður. Svo leið á veturinn. Þá fór bóndi eitt sinn að athuga efnivið, er hann var á undanförnum árum búinn að safna saman og vinna og hefla niður í nýtt íbúðarhús, sem hann ætlaði að byggja á bæ sínum. Sá hann þá, að af sumum viðunum var búið að saga, svo að þeir voru orðnir styttri, en nothæft var, aðrir voru horfnir, algerlega horfnir. Við eftirgrennslan kom í ljós, að hinn yfirlætismikli veturvistarmaður hafði sparað sér erfiðið við að sækja rekavið á fjöruna og þess í stað gripið til efniviðarins heima. — Nú má segja, að hæstv. ríkisstj. sé í raun og veru eins og veturvistarmaður hjá ríkinu, og með till. sínum um niðurskurðinn hyggst hún og flokkar hennar fara gagnvart þjóðinni að svipað og veturvistarmaðurinn gagnvart húsbónda sínum. Hún sagar niður og brennir í eldi niðurgreiðslunornarinnar til þess að verma sig það efni, sem þjóðin þarf til framkvæmda sinna, efnið í landsspítalann, efnið í stjórnarráðshúsið, efnið í orlofsheimilin, efnið í rafveiturnar o. s. frv.

Við flytjum nokkrar brtt. á þskj. 404. Ég vil minnast á þær örfáum orðum.

Fyrstu brtt. eru um hækkun á tekjuliðum fjárlaganna. Okkur sýnist við athugun, eins og raunar venjulegt hefur verið, þegar gengið hefur verið frá fjárlögum, að eitthvað megi teygja þá áætlun, sem fjmrh. lagði fram í haust og byggð var upp á s. 1. sumri. Það hefur jafnan verið svo, að fjmrh. hefur haft tekjuáætlunina það varlega, að Alþingi hefur getað mætt að einhverju leyti þelm þörfum, sem fram hafa komið á þinginu og í fjvn., með því að hækka áætlun tekjuliða. Það er lagt til af okkur, að tekju- og eignarskattsáætlunin verði hækkuð í 135 millj. úr 130 millj., eða um 5 millj., að áætlun um verðtollstekjurnar verði hækkuð úr 270 upp í 280, að stimpilgjaldatekjur verði hækkaðar úr 23 millj. í 25 millj., að söluskattur verði hækkaður úr 145 millj. í 150 millj. og óvissar tekjur úr 7 millj. upp í 9 millj. Þessi hækkun nemur alls 24 millj. kr. Við sjáum ekki, að nokkurt vit geti verið í því að þenja þennan streng áætlunarinnar meira. Það er enginn bættari fyrir það, þó að þarna séu færðar upp tölur, sem engar líkur eru til að standist, og alltaf verður að gera ráð fyrir því, að í framkvæmd bætist við útgjöldin meira, en áætlað er fyrir þeim í fjárlagafrv. beinlínis. Áætlun hæstv. ríkisstj. eða flokka hennar er aftur um hækkanir, sem nema 63.8 millj., eins og það þskj., sem þær koma fram á, ber með sér. Þá gera þeir ráð fyrir því, að greiðsluafgangur ríkissjóðs komi inn tekjumegin á frv., eða 25 millj. Hins vegar í samræmi við till., sem framsóknarmenn hafa flutt, gerum við ráð fyrir því, að honum verði varið á alveg sérstakan hátt. Þá föllumst við á áætlun um hækkun á tekjum af áfengisverzlun og tóbakseinkasölu, sem nemur því, sem hæstv. ríkisstj. vill áætla og byggir á hækkun á þessum vörum.

Þá flytjum við hér sérstaka till. um úthlutun fjár þess, sem ætlað er til flugmála, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara út í einstaka liði hennar, en hún er í heildinni miðuð við það, að upphæð sú, sem er ætluð á fjárlagafrv. til þessara hluta, lækki ekki en það er frá okkar sjónarmiði grundvallaratriði.

Þá er 9. till., sem ég vil minnast aftur á. Hún er um nýjan lið, þ. e. að tekjuafgangur ríkissjóðs verði látinn ganga til eftirtalinna stofnana: a) byggingarsjóðs ríkisins 15 millj., b) byggingarsjóðs Búnaðarbankans 5 millj., c) veðdeildar Búnaðarbankans 5 millj. Þessi till. er alveg í samræmi við þá till., sem við, nokkrir framsóknarmenn, fluttum í vetur og var vísað til fjvn., en hún hefur enn ekki afgreitt. Við teljum óskynsamlegt og óráðdeildarlegt að varpa tekjuafganginum í hít verðbólguginsins á þessu ár, teljum, að hann eigi að ganga til uppbyggingar í gegnum þessar þrjár stofnanir, sem ríkið hefur á vegum sínum og allar eru févana til að vinna sín hlutverk.

Þá er 10. till. Hún er um að afhenda fiskimálasjóði til eignar þær skuldakröfur, sem ríkissjóður eignast fyrir innlausn á lánum, sem hann er í ábyrgð fyrir vegna þurrafúa fiskiskipa. Sú till. er í aðalatriðum sama till. og flutt er af 1. minni hl., en að því er framkvæmd þessa snertir, þá teljum við fráleitt að gefa þessar skuldakröfur eftir öllum, sem ábyrgzt hefur verið fyrir, hversu vel efnaðir sem þeir kunna að vera. Í hópi þessara manna er talið fullvíst að séu milljónerar og það væri furðulegt af ríkissjóði, sem er í höndum ríkisstjórnar, sem barmar sér eins mikið yfir ástæðum hans og núverandi hæstv. ríkisstj., að fleygja í milljónerana þessu fé. Hitt er alveg eins sjálfsagt, að þeir útgerðarmenn, sem hafa orðið fyrir tjóni af þurrafúa og tekið lán á ábyrgð ríkissjóðs og eru vanmáttugir til að greiða, verði eftir ástæðum studdir með eftirgjöfum og ívilnunum á annan hátt, alveg hliðstætt því, sem gert hefur verið við bændur, sem hafa fengið hallærislán. Í þessu tvennu er eftir till. okkar algerlega fullkomið samræmi.

Þá höfum við gert yfirlit yfir útkomu á áætlun um fjárlög ríkisins, ef till. okkar eru teknar til greina og þær till. einnig, sem við höfum ákveðið að styðja frá öðrum aðilum eða láta hlutlausar, og yfirlitið er svo hljóðandi:

Tekjur og aðrar innborganir samkvæmt fjárlagafrv. 900 millj. 360 þús. Frá því dragast svo tekjur frá útflutningssjóði, 20 millj., svo að eftir verða 880 millj. 360 þús. Hækkun tekna, þ. e. skattar og tollar, 24 millj., eins og við flytjum till. um. Hækkun tekna ríkisstofnana og verðhækkun á áfengi og tóbaki 25 millj. og greiðsluafgangur ríkissjóðs 1958 25 millj., eða 954 millj. 360 þús. samtals.

Gjöld og aðrar útborganir: Gjöld samkvæmt fjárlagafrv. 898.643.071 kr. mínus lækkanir, sem við teljum að komi hér til greina, 4 millj. og 800 þús. Niðurstaða 893.843.071 kr. Hækkanir samkvæmt till. fjvn., þeim hinum sameiginlegu, 30.094.785 kr., og ráðstöfun á greiðsluafgangi 1958 samkvæmt till. okkar, 25 millj. Gjöldin þá alls 948.937.856 kr. Niðurstöðutölur verða þá inn: 954 millj. 360 þús. og út: 948.937.856 kr., eða greiðsluafgangur 5.4221.44 kr.

Þannig leggjum við til að frá frv. nú við 2. umr. verði gengið.

En ef litið er yfir till. ríkisstjórnarflokkanna í heild, þá virðist mér að megi flokka þær í þrennt til glöggvunar og þá um leið úrræði þau, er í þeim felast.

Fyrst er það, að etið er upp það, sem var í búrinu, þegar stjórnin tók við, t. d. tekjuafgangur, sjóður og óinnkomnir tollar. Þetta virðist sannarlega ekki búmannlegt. Og hvernig mundi sú stjórn fara að, til þess að hún yrði langlíf, ef hún hagaði sér þannig við hver áramót að fleygja, eins og ég hef orðað það, í gin verðbólgunnar öllum afgangi, sem kynni að verða í ríkisrekstrinum á árinu og það einmitt þegar vel hefur árað?

Annað er það, að tekjuáætlun er hækkuð úr hófi fram, til þess að tölur fáist á pappír. Hér er farið að eins og ef bóndi hækkaði tölur heybirgða sinna á pappírnum til þess að hafa lögboðinn ásetning á forðagæzluskýrslu, sem á að sýna það, að menn geti mætt vetri, þótt bóndinn ætti alls ekki heybirgðirnar til, eins og hann teldi þær og vissi vel, að hann skorti hey handa bústofni sínum í venjulegum vetri, hvað þá þyngri vetri, sem alltaf þarf að gera ráð fyrir að komið geti. Þetta heitir á gamalli og góðri íslenzku að „svíkja ásetning“ og hefur jafnan þótt ómannlegt.

Í þriðja lagi er svo það, að framkvæmdafé er tekið og hent í gin verðbólgunnar, sem verður jafnhungruð eftir sem áður. Það er gallinn á niðurgreiðslum, að þær breyta ekki þróuninni. Niðurgreiðslurnar breyta aldrei þróuninni. Verðbólgan er sama óargadýrið og hún áður var þrátt fyrir þær. Hún víkur ekki frá, en heimtar mat sinn áfram, dag frá degi og ár frá ári, ef ekki er annað að gert. Og þegar farið er að lækka tillög til verklegra framkvæmda til þess að fæða verðbólguna, eins og ríkisstj. ætlar nú að gera, þá er farið að eins og ef maður reyndi að friða tígrisdýr með því að skera af sér aflvöðva og kasta þeim í dýrið. Hvað lengi mundi hann endast? Segja má, að maðurinn hafi kannske von um, að dýrið hverfi frá eftir átið, en verðbólgan víkur ekki eftir saðningu sem þessa. Hún nálgast meir og meir, verður gráðugri og gráðugri.

Það liggur ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki fundið töfrasprotann, enda mun hann nú kannske torfundinn, eins og sakir standa, jafnvel sá óbeini töfrasproti, sem skáldið hefur átt við, sem ég minntist á í upphafi.

Ég hef heldur ekki, þrátt fyrir það að ég vitnaði í ræðu hæstv. forsrh., gert þá kröfu til þessarar hæstv. ríkisstj., að hún finni töfrasprotann í bókstaflegri merkingu. En til hins var eðlilegt að ætlast, að hæstv. ríkisstj., sem talaði svo yfirlætislega um nýárið sem þessi hæstv. ríkisstj. gerði, fyndi a. m. k. einhver haldreipi að því er efnahagsmálin snertir. En nú er í ljós komið, að þau hefur hún ekki fundið. Tillögur hennar og stuðningsflokka hennar um fjárlögin, eru síður en svo haldreipi, eins og sýnt hefur verið fram á í nál. 3. minni hl. og ég hef undirstrikað í ræðu minni í kvöld. Þau eru fúaspottar og hálmstrá og ekkert annað.

Ég held, að ég láti nú lokið máli mínu að þessu sinni. Ég skírskota að öðru leyti til nál. frá 3. minni hl. á þskj. 405 og svo til tillagna hans á þskj. 401.