20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

1. mál, fjárlög 1959

Eysteinn Jónsson:

Ég tel ekki óviðeigandi, að ég láti falla hér nokkur orð við þessa 2. umr. fjárl., með sérstöku tilliti til þess, að æði oft taldi talsmaður stjórnarliðsins, hv. frsm. 1. minni hl., sig hafa ástæðu til þess að tala um fyrrv. fjmrh. og fjárlagafrv., eins og það var lagt fyrir og fyrrv. ríkisstj. í sambandi við sína framsögu um þetta mál. Að vísu hafði ég gert ráð fyrir því, að ég mundi ekki tala fyrr en hæstv. fjmrh. hefði talað. En þar sem hann hafði ekki kvatt sér hljóðs, þá er það að sjálfsögðu svo, að hæstv. forseti hefur gefið mér orðið. Annars hefði ég að ýmsu leyti fremur viljað tala, eftir að hæstv. ráðh. hefði sagt það, sem hann hefði að segja. En ég geri þá ráð fyrir því, að þetta þýði, eins og raunar kom fram hjá hv. 2. þm. Eyf., frsm., að hann hafi talað fyrir stjórnarflokkana báða um þessi mál, enda standa þeir alveg saman að fjárlagaafgreiðslunni, eins og yfir hefur verið lýst.

Ég geri ráð fyrir því, að Sjálfstfl. hafi gert sér það ljóst, að þegar hann tók að sér útgerð ríkisstj. fram á næsta haust, þá mundi verða talsverðum erfiðleikum bundið að sjá þeirri fleytu farborða, þótt ekki væri til lengri tíma og þá ekki sízt með tilliti til þess, sem Sjálfstfl. hafði uppi látið undanfarið um stjórnmálaviðhorfið yfir höfuð og efnahagsmálin alveg sér í lagi. Það átti að byrja með því að afsaka sig á þá lund, að það yrði að grípa til ýmissa miður heppilegra ráða vegna þess, hvernig hefði orðið viðskilnaður fyrrv. ríkisstj., og var leikinn um það efni eins konar skopþáttur hér á hæstv. Alþ. í vetur og var það einn höfuðtalsmaður sjálfstæðismanna, sem lék þar eitt aðalhlutverkið. En bráðlega kom í ljós, að hér var við ramman reip að draga af þeirri einföldu ástæðu, að fram kom, þegar farið var að ræða málið, að það lítil lífsvon sem var fyrir þessa útgerð, sem upp hafði verið sett, þá lá hún helzt í því að éta út það, sem fyrrv. ríkisstj. hafði skilið eftir á ríkisbúinu, — þann forða, sem hún hafði skilið eftir á ríkisbúinu, þegar hún lét af völdum. Þess vegna fór þessi fyrsti þáttur svo, að hann varð mjög kímilegur og brostu margir að þessum tilburðum.

Nú ætla ég ekki að fara að rifja þetta hér upp í löngu máli, þó að ég aðeins minni á þetta, vegna þess að það kemur enn betur fram núna, en nokkru sinni þá, þótt það væri allvel fram dregið þá, hvernig þessu er háttað, því að fyrir utan greiðsluafganginn, sem þeir fundu í stjórnarráðinu, þá hafa þeir nú uppgötvað einn pinkilinn enn og það eru ógreiddir eða óinnheimtir tollar af Sogsvirkjuninni, sem þeir ætla að útvega lán til, segja þeir, á árinu og éta upp líka að sjálfsögðu til viðbótar öðrum eignum, sem finnanlegar eru á vegum ríkissjóðs, til þess að halda á floti.

Þegar svo kom að því, hvaða ráðstafanir ætti að gera á vegum stjórnarflokkanna til þess að halda þessu á floti til málamynda fram yfir tvennar kosningar, þá var fyrst í það ráðizt að flytja frv. um niðurfærslu á kaupgjaldi og verðlagi, og í því frv. gerðist það, að Sjálfstfl. — og svo náttúrlega Alþfl. með honum — gekk fram fyrir skjöldu til þess að innheimta af mönnum aftur þær kauphækkanir, sem Sjálfstfl. hafði ráðlagt mönnum að taka á s. l. sumri og lagt hið mesta ofurkapp á að fá fram. Sjálfstfl. sem sé sendi mönnum reikninginn. Það var fyrsta ráðstöfunin, sem gerð var í þessu efni. Það var að taka aftur til baka þá kauphækkun, sem flokkurinn hafði beitt sér fyrir.

Eins og þá strax varð ljóst, þá mundi þetta skammt hrökkva, eins og horfð, og þurfti þá að gera fleiri ráðstafanir og þá var það, sem ríkisstj. eða stjórnarflokkarnir gripu til þess að auka í sífellu niðurgreiðslur á verðlagi vara innanlands og hættu ekki fyrr, en þeir voru búnir að auka niðurgreiðslurnar sem svaraði 114 millj. kr. á ári eða nær tvöfalda niðurgreiðslurnar og er það fjárhæð, sem svarar til þess, sem veitt er á fjárlögum til nýrra þjóðvega, hafnargerða, brúargerða, sjúkrahúsabygginga, fjárfestingar í flugmálum, atvinnuaukningarfjárins og alls, sem veitt er til raforkuframkvæmda. Þeir bættu við í niðurgreiðslur þannig, að það, sem þeir hafa bætt við, kostar jafnmikið og veitt er til allra þessara mála á ári og það án þess að ræða um þetta við Alþingi eða bera það undir Alþingi. Síðan var gerður samningur eða raunar um svipað leyti var gerður samningur við framleiðsluatvinnuvegina, sem jók útgjöld útflutningssjóðsins um 82 millj. kr. Þetta nemur um 199 millj. kr. fyrir utan grunnlaunahækkanir, sem áður höfðu verið ákvarðaðar og ekki var búið að setja á fjárlögin. Hér var um að ræða fjárhæðir, sem nema á 3. hundrað millj. kr. Það var verið að smátoga það út úr stjórnarliðinu, hversu mikið þetta mundi kosta, því að fyrst var byrjað á því að gera fremur lítið úr þessu, þetta mundi ekki verða nándar nærri svona mikið, en nú er það viðurkennt, að minna en 220 millj. kr. er ekki um að ræða í þessa þrjá liði.

Jafnframt þessu gaf svo ríkisstj. út þá yfirlýsingu, sjálfsagt í samráði við stjórnarflokkana, að hún mundi fyrir þessu sjá, að menn gætu verið rólegir, hún mundi fyrir þessu öllu sjá, þegar þar að kæmi við afgreiðslu fjárl., það mundu engar nýjar álögur verða á þjóðina lagðar, það væri algerlega ljóst. Það þyrfti kannske og sennilega að skera eitthvað niður, en það yrði þá víst aðallega það, sem mætti fara og engin eftirsjón væri sérstaklega í, sparnaðurinn svokallaður. Menn þyrftu ekki að bera kvíðboga fyrir því, að þar væri neinn voði á ferðum, þessu yrði öllu bjargað á mjög einfaldan máta og án þess að nokkur þyrfti að verða fyrir stórfelldum búsifjum. Ég býst nú sannast að segja við því, að síðan stjórnarflokkarnir gáfu út þessar yfirlýsingar, hafi þeim liðið svona álíka og konunni í sögunni um Gilitrutt, — býst við, að líðanin hafi verið ámóta. En sá er bara munurinn á þessari sögu og sögunni um Gilitrutt, að hún endaði vel, sú saga, en þessi saga getur því miður ekki endað vel. Og það sjáum við gleggst á því, sem nú þegar liggur fyrir frá hv. stjórnarflokkum varðandi úrræðin í efnahagsmálunum og sést þó ekki nema lítið enn, sem af því öllu leiðir. Það kemur fyrst glögglega fram síðar.

Ég gat um það áðan, að Sjálfstfl. hefði orðið að senda mönnum reikninginn yfir hið ofreiknaða kaupgjald, sem flokkurinn stóð fyrir að menn höfðu knúið fram. Þetta vafðist náttúrlega nokkuð fyrir Sjálfstfl. og var það ekki einkennilegt, en þeir höfðu sig þó í þetta.

Næsta vandamálið, sem mætti Sjálfstfl., var svo viðhorfið til lántöku erlendis. Hér var ekki um neitt smávægilegt vandamál að ræða fyrir Sjálfstfl. Þegar fyrrv. ríkisstj. tók við, gerði Sjálfstfl. víst fremur ráð fyrir því, að það mundi verða erfiðleikum bundið að útvega hæfilega mikið erlent lánsfé og þá voru gefnar út skrautútgáfur af ýmsum sögum um stórfelld lán, sem ráðherrar Sjálfstfl. hefðu átt kost á, ef þjóðin hefði verið svo gæfusöm að fela þeim áfram að vera í ríkisstj. Það voru tilboð frá Adenauer, kanzlara Þýzkalands, t. d., ég held 400 eða 500 millj. kr., og það var bara eftir því, hvernig lá á mönnum, hvaða tala var nefnd, en það var víst aldrei fyrir neðan 400 millj. Svo voru ótal tilboð um lán í Sogsvirkjunina og ef menn hefðu bara haft vit á því að hafa Sjálfstfl. áfram í þessu, þá hefðu menn vaðið í peningum. Það var tónninn í þessum málflutningi.

En svo fór að hilla undir, að fyrrv. ríkisstj. væri að leitast fyrir um lánsfé erlendis til nauðsynlegustu framkvæmda og sennilega með einhverjum árangri. Þá kom nú heldur annað hljóð í strokkinn. Þá voru gefnar út tilkynningar um, að það væri verið að leita eftir sníkjulánum erlendis og þegar svo lán fengust, svona nokkurn veginn eins og eðlilegt var, þá voru erlendir lánveitendur beinlínis varaðir við, þeir skyldu ekki trúa stjórn Íslands fyrir þessum peningum, því að þeir mundu verða notaðir til þess að koma því svoleiðis fyrir, að kommúnistar gætu hangið áfram í valdastólunum, svo að menn skyldu fara varlega í slíkar lánveitingar. Þetta var nú hollustan við landið, sem kom fram í þessu sambandi. Og svo þegar lánin fengust, þá var því haldið fram, að þau væru fengin með óviðurkvæmilegum hætti, lántökurnar hefðu verið tengdar við dvöl varnarliðsins í landinu og þau hefðu verið fengin úr sjóðum í Bandaríkjunum, sem væru sérstaklega notaðir til þess að lána vegna varna eða öryggis Bandaríkjanna. Þessu var haldið fram úr herbúðum Sjálfstfl. um þessar lántökur, þó að þeim væri vel kunnugt, sem að þessum málflutningi stóðu, að þessi lán voru tekin hjá sömu stofnunum í Bandaríkjunum og önnur lán, sem fyrrv. stjórnir höfðu tekið lán úr og að um þessar lántökur væri ekkert sérkennilegt að þessu leyti. Hitt var svo annað mál, að kommúnistar höfðu sagt nákvæmlega sams konar gróusögur um lán, sem samsteypustjórnir Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu tekið, eins og Sjálfstfl.-menn létu sér sæma að segja um þessar lántökur.

En ekki nóg með þetta, heldur var nú það fundið upp, að hér væri verið að taka eyðslulán. Lánin til Sogsvirkjunarinnar, til rafvæðingaráætlunarinnar, raforkusjóðsins, fiskimálasjóðsins, sementsverksmiðjunnar voru allt í einu orðin að eyðslulánum. Og það hefur ekki linnt söngnum úr herbúðum Sjálfstfl. um það, að skuldir út á við hafi verið hækkaðar alveg gífurlega á vegum fyrrv. stjórnar og það hafi verið tekin eyðslulán. Nú lá það fyrir, þegar stjórnarskiptin urðu, að fyrrv. stjórn hafði með góðu samkomulagi lagt drög að nýrri lántöku í Bandaríkjunum, 6 millj. dollara og átti það fé að fara í framkvæmdir, til fiskveiðasjóðs, raforkusjóðs, hafnargerða og raforkuáætlunarinnar, búið að leggja drög að þessu. Og eitt af því fyrsta, sem stjórnarliðið þurfti því að gera upp við sig, var það, hvort það átti að halda þessum umleitunum áfram, hvort það átti að halda áfram með þessa lántöku. Við héldum því fram í Framsfl., að það væri eðlilegt að halda þessu áfram. Við sýndum fram á, að það þurfti mjög á þessu fé að halda til þess að geta haldið áfram þessum framkvæmdum með sæmilegum og viðunandi hraða. En hér var komið að vandasömu máli fyrir Sjálfstfl. Átti hann nú að gleypa eða éta ofan í sig öllu heldur, allt það, sem hann hafði sagt um sníkjulán, um eyðslulán, og yfir höfuð allt það, sem hann hafði sagt um lántökur á síðari árum? Átti hann að gera þetta, eða átti stjórnarliðið og Ísland að vera án lánsfjárins? Nú er enginn vafi á því, að sjálfstæðismönnum blöskraði sá vandi, sem þeir voru komnir í. Og þeim blöskraði hann svo, að á tímabili voru þeir að hugsa um að setja fótinn fyrir lántökuumleitanir stjórnarinnar og láta hætta við þær. Það kom m. a. greinilega fram, þótt það væri ekki sagt berum orðum, í því, að hæstv. forsrh. var farinn að svara fyrirspurnum hér á Alþingi um lántökurnar með því að segja, að Ísland væri nú orðið mjög skuldugt erlendis og það yrði að fara varlega í þessum málum og það væri ekkert ákveðið um það, hvort þetta lán yrði tekið eða ekki. Mun þetta hafa verið um þær mundir, sem sjálfstæðismönnum leið verst í sambandi við þetta, þegar þeir áttu að gera það upp við sig, hvernig nú skyldi ráðið fram úr þessari klípu, sem þeir voru komnir í.

Nú sé ég það á allri afgreiðslu þeirra mála, sem hér liggja fyrir, að Sjálfstfl. ætlar að ganga undir það jarðarmen að taka allt aftur, sem hann hefur sagt um lántökur Íslands, og nú er það ákveðið, að þetta lán verði tekið. Þetta er þá annað stóra jarðarmenið, sem Sjálfstfl. gengur undir á örstuttri stund. Það fyrsta var að senda þjóðinni reikninginn til að endurheimta kauphækkunina, sem flokkurinn barðist fyrir s. l. sumar. Næsta jarðarmenið er að taka allt aftur og gera allt ómerkt, sem flokkurinn hefur sagt á undanförnum missirum um erlendar lántökur Íslands og ríkisstj. Og það er alveg áreiðanlegt, að þau verða fleiri, jarðarmenin, sem Sjálfstfl. verður að ganga undir, um það er lýkur. Og kem ég þá ofur lítið nánar að þeirri fjárlagaafgreiðslu, sem hér er fyrirhuguð.

Nú er ríkisstj. búin að hafa og hennar flokkar þessi mál til meðferðar í 3½ mánuð og það hefur verið sagt í blöðum Sjálfstfl., að fjárlagafrv. hafi ekki verið merkilegt plagg, það hafi þurft að skoða það allt í krók og kring, ofan í kjölinn og eiginlega, að því er manni skildist, endursemja það allt, það væri allt saman verra, en ónýtt verk, sem í það hefði verið lagt. Og nú er allt þetta lið búið að standa í þessu í 3½ mánuð. Og sérstaklega átti náttúrlega eftir yfirlýsingunum að leita að sparnaðinum, eyðslunni og sukkinu, sem svo auðvelt var að skera niður og menn þurftu sízt að bera nokkurn kvíðboga fyrir, þó að yrði leiðrétt og Eysteinn hafði staðið á móti fram að þessu að yrði lagfært.

Og hver er svo niðurstaðan af þessu 3½ mánaðar starfi? Niðurstaðan er sú, að það eru 500 þús. kr., — segi og skrifa 500 þús. kr., — sem hægt er að kalla raunverulegan sparnað í þessum tillögum frá stjórnarflokkunum, það er niðurfellingin á orlofsfénu og verður þó víst ekki einu sinni 500 þús. kr., vegna þess að talsverður hluti af árinu er liðinn, þannig að það getur víst ekki einu sinni náð þessum 500 þús. kr. Þetta er sá eini raunverulegi sparnaður, sem er að finna í tillögum stjórnarflokkanna.

Það hefur stundum verið notaður þessi talsháttur, að „fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús“. Nú ætla ég ekki að lækka fjöllin með því að kenna stjórnarliðið við þau og ég ætla heldur ekki að minnka músina með því að kenna þessa eymd við hana, þessa niðurstöðu stjórnarliðsins í þessari sparnaðarleit, en þetta er satt að segja aumara, en nokkurn mann gat órað fyrir.

Ef við íhugum þarna nokkra liði, en þessu hafa raunar verið gerð mjög öflug skil, svo að það er svo sem engu við að bæta, en ég get ekki stillt mig um að minna á örfáa liði, þar sem stjórnarliðið vill láta líta svo út að sé sparnaður. Það er nú fyrst þetta, sem á að spara í stjórnarráðinu. Það stendur í nál., að það hljóti að vera hægt, því að þessi liður, stjórnarráðskostnaðurinn, sé hækkaður um 900 þús. kr. á fjárl. Þetta er út af fyrir sig ekki ósatt. En það er á hinn bóginn ekkert sagt frá því, að þessi liður er settur á fjárlagafrv. nærri því nákvæmlega jafnhár og hann reyndist 1958. Þess vegna kemst stjórnarliðið ekki undan því, ef þessi tillaga á að verða annað, en pappírinn einn, að þá verður að koma þarna raunverulegur sparnaður á móti, 500 þús. kr. á stjórnarráðskostnaði. Nú hafa stjórnarflokkarnir gert sig broslega með því að vera að tala um ráðherralaun í þessu sambandi, og því hefur nógsamlega verið svarað. Nú eru liðnir af árinu bráðum fjórir mánuðir, einn þriðji af árinu, og ég spyr: Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar í stjórnarráðinu, til þess að þessi sparnaður verði að veruleika? Hann þarf að nema 500 þús. kr. á þessum 9 mánuðum og þessar ráðstafanir hljóta þá þegar að hafa verið gerðar. Hvaða fólki hefur verið sagt upp? Fólkið hefur allt uppsagnarfrest. Hvaða fólki hefur verið sagt upp og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til sparnaðar? Það væri æskilegt, að hæstv. fjmrh., sem hefur sennilega verið í samráði við n. um þetta, gæfi upplýsingar um það.

Það er ástæða til að vísa til þess, sem aðrir hafa sagt um niðurfærslu á alþingiskostnaðinum, hvað þetta er broslegt, þegar þess er gætt, að stjórnarliðið efnir til lengra þinghalds samtals á þessu ári sennilega, en nokkru sinni hefur áður þekkzt á Íslandi. Þá þykjast þeir ætla að spara með því að lækka áætlunarliðinn á fjárl. til þinghaldsins.

Á tollgæzlunni segjast þeir ætla að spara 500 þús. kr. Það hefur líka verið bent greinilega á veiluna í þessu, en ég vil bara spyrja hæstv, fjmrh.: Ef hann ætlar að spara 500 þús. kr. á tollgæzlunni, það sem eftir er af árinu, á þeim mánuðum, sem eftir eru, hvaða ráðstafanir hefur hann þá gert nú þegar, til þess að þetta geti orðið raunverulegur sparnaður? Ef þetta ætti að verða raunverulegur sparnaður, þá hlyti hann að vera búinn að segja upp fjölda af tollþjónum nú þegar, þeir hafa sinn uppsagnarfrest með launum, og óðfluga líður árið.

Nei, það er sannarlega flaumósa lið, sem býr út tillögur af þessu tagi til þess að halda því fram, að um sparnaðarráðstafanir sé að ræða. Það er flaumósa lið og þeir hafa áreiðanlega verið farnir að búast við Gilitrutt, þegar þeir gengu frá þessum liðum.

Þá er því skotið fram sem viðbáru, að það sé ekki von, að mikill árangur sé af þessu starfi, — þeir finna náttúrlega, að það eru missmíði á þessu, — það sé ekki von, að það sé mikill árangur í raunverulegum sparnaði á rekstrarkostnaði ríkissjóðs, vegna þess að það þurfi til svo mikinn tíma að finna slíka möguleika. Manni hefur nú heyrzt á tali þessara manna á undanförnum missirum, að það mundi ekki þurfa langan tíma til þess að koma auga á það, sem hægt væri að skera niður í þessu tilliti. Og ekki er ókunnugleikanum fyrir að fara hjá þessu fólki, þegar þess er gætt, að í því liði, sem að þessu stendur, eru bæði núverandi og fyrrverandi ráðherrar, fjöldamargir. Þá er í þessu liði hinn frægi endurskoðandi landsreikninganna um áratugi, sem er öllum þessum hnútum þaulkunnugur og mundi vafalaust hafa verið til viðtals um að benda á eyðsluna og hvar hana væri að finna og gefa allar góðar leiðbeiningar, að ógleymdum frsm. 1. minni hl. fjvn., hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem hefur verið eins konar fastur meðlimur allra sparnaðarnefnda nú um mörg ár og grafið sig niður í þessi mál. Það er því ekki hægt að afsaka sig með þekkingarleysinu og ekki heldur með tímaskortinum. Þá fer nú að verða heldur lítið um frambærilegar afsakanir fyrir þessari frammistöðu hv. stjórnarflokksmanna.

Á hinn bóginn skorti ekki tíma og ekki heldur kunnugleika til þess að byrja á því, sem nú á að verða vafalaust einn höfuðþáttur í starfsemi þessara flokka á næstu árum, ef þeir fá að ráða sjálfir, en það er að skera niður verklegar framkvæmdir og ýmislegt af því, sem sízt má missa á fjárl., og hefur hv. frsm., þm. S-Þ. (KK), gert þessu svo rækileg skil, að ég þarf ekki að fara neitt að ráði út í þau efni. Ég get þó ekki stillt mig um að minna á, að það er svo rækilega vegið að raforkumálunum, að það, sem eftir er skilið á fjárl. til raforkumála, mun ekki hrökkva nema rétt upp í hallann á raforkuveitum ríkisins og áhvílandi skuldbindingum frá í fyrra, þannig, eins og hv. frsm. sagði, að þá er þurrkað út hreinlega það, sem ríkissjóður á að leggja til nýrra raforkuframkvæmda, — það er hvorki meira né minna. En svo leyfir hv. þm., frsm. minni hl., 2. þm. Eyf., sér að segja, að það eigi að sjá um, að það verði ekki dregið úr framkvæmdum, enda þótt það liggi fyrir, að til þess að halda 10 ára áætluninni hefði þurft að útvega yfir 60 millj. kr. lánsfé. Hvað halda menn að verði þá úr stjórnarliðinu að útvega, eins og hv. þm. S-Þ. sagði, nærri 12 millj. þar til viðbótar, móti því, sem þeir skera niður? Auðvitað kemur slíkt ekki til mála, að þeir geri það og þeir hafa aldrei ætlað sér að gera það. Þá gefur það líka auga leið, hvernig muni fara með raforkuáætlun dreifbýlisins á næstu árum, ef það á að verða þannig, að það á ekkert til hennar að leggja raunverulega á fjárlögum ríkisins. Það á sem sé að láta heita svo sem það eigi að taka það allt að láni. Þetta jafngildir vitaskuld stöðvun á þeim framkvæmdum á næstu árum, ef þessari stefnu yrði fylgt, — jafngildir hreinlega stöðvun.

Hv. þm. S-Þ. minntist líka rækilega á atvinnuaukningarféð. Sannleikurinn er sá, að atvinnuaukningarféð, þó að það hafi aldrei verið meira en 15 millj. og núna upp á síðkastið 13½ millj., hefur alveg valdið straumhvörfum í mörgum sjávarbyggðum og kaupstöðum þessa lands. Og vegna hvers? Vegna þess, að þó að hér sé ekki um stórfelldari fjárhæð að ræða, þá hefur þetta dreifzt svo víða og þetta hefur útvegað mönnum svo víða einmitt það fé, sem vantaði í herzlumuninn, til þess að þessi eða hin framkvæmdin gæti átt sér stað. Þess vegna hefur þetta fé orðið svona drjúgt og mikilvægt og hrint af stað stórfelldari framfaraöldu víðs vegar í sjávarbyggðunum, en menn hafa almennt gert sér grein fyrir og þessi uppbygging er öll í miðjum klíðum. Nú á að byrja að kippa að sér hendinni í þessum efnum samkvæmt tillögum stjórnarliðsins, en við vitum, að það er aðeins byrjunin, ef þessir flokkar fá að ráða.

Hér hefur líka verið mjög kröftuglega mótmælt niðurskurðinum á flugmálaframkvæmdunum og það er sízt ófyrirsynju. Ég vil bara taka dæmi af þeim flugvelli, sem ég er kunnugastur. Það er flugvöllurinn við Neskaupstað. Þar var upphaflega áætlað, og ég býst við því, að þegar tóm gefst til að skoða þetta ofan í kjölinn, þá sé svipað upp á teningnum annars staðar, að upphaflega mun þessi flugvöllur hafa verið áætlaður um 3 millj. kr., og það voru ætlaðar til hans 800 þús. kr. í tvö ár og var það með það fyrir augum að reyna að ljúka þessu verki á 4 árum, sem er hóflegur tími fyrir slíka framkvæmd. Nú er búið að verja í þessu skyni eitthvað um 1 millj. og 600 þús. kr., sem sagt 2 ára framlagi, en kostnaðurinn hefur hækkað og mun alls verða um 4 millj., þannig að það eru eftir um 2 millj. og 400 þús. kr. Og stjórnarliðið lætur sér sæma að leggja til, að í þessa framkvæmd fari 300 þús. kr., m. ö. o., að það yrði 8 ára verk að ljúka þessari framkvæmd, í staðinn fyrir, að það var fyrirhugað að ljúka henni á næstu 2 árum. Þannig verka þessar tillögur stjórnarflokkanna, þegar þær eru skoðaðar ofan í kjölinn og mætti vafalaust finna mýmörg dæmi þessu lík, eins og raunar þegar hefur verið bent á hér í þessum umræðum.

Þá er þannig ástatt um öryggismál flugsins, ýmislegt varðandi þau, sem gerir það að verkum, að það er blátt áfram ósæmandi að mínu viti að skera framkvæmdir niður á þann hátt, sem fyrirhugað er nú af stjórnarflokkunum. Og þessu fé, sem stjórnarflokkarnir ætla sér að taka af verklegum framkvæmdum, því er meiningin að kasta í verðbólguhítina, eins og hér hefur þegar verið rækilega rakið.

Þá get ég ekki stillt mig um að minnast hérna á eina till., því að hún sýnir eiginlega alveg nýja hlið á þessum málum og það er það kotungssjónarmið, sem kemur til greina líka í sambandi við þessar uppástungur. Þegar íslenzk heimastjórn varð 50 ára, ákvað þáverandi ríkisstj. að beita sér fyrir því að byrja að veita fé til stjórnarráðshúss. Menn voru sammála um, að það væri í raun og veru vansæmandi að gera ekki neinar ráðstafanir til að leggja fram fé til stjórnarráðsbyggingar, og þá var sett inn á fjárlögin nokkur fjárhæð í þessu skyni, beinlínis yfir lýst, að það væri gert af því tilefni, að heimastjórn í landinu væri 50 ára. Er hægt að hugsa sér meiri kotungshátt, en þann að leggja nú til, að þessi fjárhæð verði tekin í burtu af fjárl.? Ég efast um það.

Hér við bætist svo, að t. d. Alþfl.-menn hafa verið hér á hv. Alþ. á undanförnum árum hvað eftir annað að halda hrókaræður um það, hvað ríkið gerði sér stórkostlegt tjón með því að leigja í einkahúsnæði hingað og þangað úti um bæinn í staðinn fyrir að sýna þann myndarskap að byggja, þótt ekki væri nema yfir stjórnarráðið og opinberar skrifstofur. En hvert er úrræðið núna? Það er að strika út þessa fjárhæð af fjárl., sem sett var inn í tilefni af 50 ára heimastjórn á Íslandi, — strika hana út, það verði að fórna dýrtíðarófreskjunni þessari fjárhæð ásamt hinu.

Þá kem ég að því, að auðvitað hlaut svo að fara, að sá niðurskurður, sem stjórnarflokkarnir þyrðu að taka á sig fyrir kosningarnar, hrykki skammt til þess að brúa það gífurlega bil, sem orðið var í efnahagsmálunum og ég hef gert að umræðuefni. En þá var gripið til þess, sem við þóttumst alveg vissir um fyrir fram að mundi verða gert og það var að hagræða fjárl. þannig, að það væri hægt að láta heita svo, að þau væru afgr. greiðsluhallalítið, enda þótt þau væru afgr. með stórfelldum greiðsluhalla og aðferðirnar, sem notaðar eru í þessu sambandi, þær eru vitanlega tvenns konar: annars vegar að lækka ýmsa áætlaða útgjaldaliði, án þess að nokkrar ráðstafanir séu gerðar um leið til þess, að þær lækkanir geti orðið að veruleika og svo að hækka tekjuáætlunina.

Í sambandi við lækkun útgjaldaáætlunarinnar ber mest á lækkuninni á ríkisábyrgðaliðnum og er látið í veðri vaka, að einhver sérstök úrræði hafi fundizt til þess að draga úr hættunni af ríkisábyrgðum. Eftir því sem ég bezt veit, þá er það helzt það, sem átt er við, að það hafi tekizt að semja við Landsbankann um að gera að láni 5 millj. kr., sem komnar voru í vanskil af hendi Flugfélags Íslands í sambandi við ríkisábyrgð fyrir það félag. En þessi ráðstöfun, að tekizt hefur að útvega lán hjá Landsbankanum til þess að hjálpa Flugfélaginu í þessu efni, hefur engin áhrif á væntanleg tjón af ríkisábyrgðum á þessu ári. Og ég fullyrði, — ég er það vel kunnugur þeim málum, að ég fullyrði, að það er því miður engin rökstudd ástæða til að lækka þennan lið. Það hefði verið ánægjulegt, ef það hefði verið rökstudd ástæða til þess að lækka þennan lið, en það er því miður engin rökstudd ástæða til þess að lækka liðinn. Í fyrra varð tjón af ríkisábyrgðum 23 millj. kr., og það er vel kunnugt, að síðan hafa bætzt við ábyrgðir, sem sterkar líkur eru fyrir að falli að einhverju leyti á ríkissjóð á því ári, sem nú er að líða, auk þess sem ábyrgðargreiðslur hljóta að hækka á þessu ári vegna yfirfærslugjaldsins, sem ekki gilti nema hluta af fyrra ári.

Það hefur líka verið bent á það, hvernig ástatt er um áætlað framlag til skipaútgerðarinnar. Þar er alveg sömu söguna að segja.

Alveg sama er að segja um viðhaldsfé þjóðvega og t. d. jarðræktarstyrkinn, sem í einhverju fáti, að því er virðist, hefur verið tekinn undir prósentuniðurskurð, án þess þó að manni skiljist, að það sé meiningin að breyta jarðræktarlögunum.

Allt saman eru þetta hreinar hagræðingar, sem miðaðar eru við það að reyna að fela hluta af þeim greiðsluhalla, sem fjárl. eru raunverulega afgreidd með.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um tekjuáætlunina og ég vil fyrst minna á í því sambandi, að gert er ráð fyrir að áætla sem tekjur tolla af efni og vélum til Sogsvirkjunarinnar. Nú er það alveg vitað mál, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þessir tollar verði greiddir, nema því aðeins að lán fáist til þess að greiða þá og fram að þessu hefur ekkert legið fyrir um það, að slíkt lán mundi fást, en hv. frsm. sagði eitthvað á þá lund, hv. 2. þm. Eyf., að gert væri ráð fyrir, að seðlabankinn tryggði 30 millj. kr., skuldabréfasölu vegna Sogsvirkjunarinnar. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hreinlega: Hefur náðst samningur við seðlabankann um að tryggja sölu þessara bréfa? En ef slíkur samningur hefur náðst, þá jafngildir hann auðvitað í raun og veru því, að það hafi náðst samningur um að auka yfirdrátt ríkisins sem þessu svarar, nema takist að selja almenningi bréfin. En ég spyr: Hefur slíkur samningur verið gerður? Það mætti ráða af orðum hv. 2. þm. Eyf., að hann hefði verið gerður.

Og enn fremur vil ég þá nota tækifærið um leið til þess að spyrja annarrar spurningar. Það kom fram hjá hv. 2 þm. Eyf.: Við höfum í hyggju að leggja niður eitthvað af sendiráðum, en það verður ekki hægt að gera það fyrr en um næstu áramót. — Nú vil ég spyrja: Hverjir eru þessir „við“, sem hafa í hyggju að leggja niður sendiráð? Má ég spyrja hæstv. fjmrh. að því: Hvaða sendiráð hefur verið ákveðið að leggja niður og frá hvaða tíma?

Í fyrravetur voru fluttar till. um það í ríkisstj. að leggja niður sendiráð fleiri en eitt, en þá aftók hæstv. utanrrh., núverandi fjmrh., það með öllu að leggja niður nokkurt. En nú vil ég spyrja: Hvaða sendiráð eru það, sem þessir „við“ hafa ákveðið að leggja niður?

Ég var að tala hér um tekjuáætlunina, en stjórnarliðið notar hana þannig til hagræðingar á fjárl., að það hækkar áætlunina um 63 millj. kr. umfram þann tekjuauka, sem hækkun á tóbaki og áfengi gefur. Og það segist byggja þessa áætlun sumpart á því, að það sé í raun og veru óþarfi að gera ráð fyrir nokkrum umframgreiðslum, því að í þessu sambandi er þá gert ráð fyrir ca. 1¼% umframgreiðslum og það eftir að búið er að fara með áætlunarliði fjárlaganna eins og ég var að lýsa hér áðan, en sumpart á nýrri innflutningsáætlun, sem gerð hafi verið og sýni, að þetta ætti að vera óhætt og ræddi hv. 2. þm. Eyf. dálítið um þessa innflutningsáætlun, en þó mjög lauslega. Í því sambandi sagði hv. 2. þm. Eyf., að hún væri varlega gerð, því að hún væri miðuð við það, að gjaldeyrisskuldir út á við yrðu greiddar niður um 100 millj. kr. Hér hlýtur að vera um misskilning að ræða, því að ég hef fengið þessa gjaldeyrisáætlun frá hagfræðingi ríkisstj. eða viðskmrn. og þar er ekki gert ráð fyrir neinum slíkum 100 millj. kr. afgangi til þess að lækka gjaldeyrisskuldir, svo að hér hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða. Það er aðeins gert ráð fyrir 15 millj. til þess að lækka skuldina hjá EPU og bar ég þetta núna í hléinu undir skrifstofustjórann í viðskmrn, eða hagfræðing ríkisstj., sem staðfesti það, að þetta væri rétt, sem ég er að segja og að hér hlyti að vera um einhvern misskilning að ræða. En þessi áætlun er gerð þannig úr garði, að í henni er gert ráð fyrir hækkun á innflutningi hátollavara úr 179 millj., sem var gjaldeyrisúthlutunin 1958 í hátollavörum og í 209 millj., eða hún gerir ráð fyrir hækkun á innflutningi hátollavara um 16–17% frá því, sem gjaldeyrisúthlutun var í fyrra. Og þar að auki hef ég fengið þær upplýsingar, að þessi áætlun er aukin mest í allra hæstu flokkunum. Þetta er áætlun, sem hefur verið búin út á vegum ríkisstj.

Hvernig á svo að koma því fyrir, að hægt sé að auka innflutning á þessum vörum um 16–17%? Samkv. þessari áætlun, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að brýnustu neyzluvörur séu fluttar inn fyrir 89 millj. kr., en gjaldeyrisúthlutunin var f fyrra 93 millj. kr., m. ö. o.: það á að lækka flokkinn „brýnustu neyzluvörur“ nokkuð. En ég fullyrði, að slíkt er ekki hugsanlegt, því að innflutningurinn hlýtur að aukast ár frá ári á brýnustu neyzluvörum af þeirri einföldu ástæðu, að þjóðinni fjölgar ár frá ári. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að rekstrarvörur séu jafnháar eins og s. l. ár. Slíkt getur heldur ekki staðizt af þeirri einföldu ástæðu, að atvinnurekstur landsmanna fer líka vaxandi ár frá ári og þarf alltaf nokkru meiri innflutning ár frá ári. Þá er það liðurinn fjárfestingarvörur og hann er lækkaður úr 245 millj. kr., sem gjaldeyrisúthlutunin var í fyrra og niður í hvorki meira né minna en 195 millj. M. ö. o.: í þessari áætlun eru vörur til fjárfestingar skornar niður um 20%. Auðvitað nær þetta ekki nokkurri lifandi átt. Dettur nokkrum manni í hug, að það verði slíkur gífurlegur samdráttur á framkvæmdum í landinu, að fjárfestingar vöruinnflutningur lækki um 20%, að það sé yfir höfuð framkvæmanlegt? Og ef það væri gert, þá mundi leiða af því alveg gerbreytingu og stórfellt atvinnuleysi. Þetta er því algerlega út í bláinn. En loks er þess að geta, að í þessari áætlun er óráðstafað fyrir árið í ár 23 millj., sem gætu þá skipzt niður á t. d. þessa þrjá liði: brýnustu neyzluvörur, rekstrarvörur og fjárfestingarvörur. En þó að allar þessar 23 millj. væru settar ofan á fjárfestingarliðinn, þá mundi samt innflutningur fjárfestingarvara eiga að minnka um 10% frá því, sem hann var í fyrr, og víkja þannig fyrir hátollavörunum eða lúxusvörunum og mundi það þó alls ekki standast, vegna þess að rekstrarvörur og brýnustu neyzluvörur hljóta að þurfa að verða hærri, á þessu ári, en þær voru í fyrra. M. ö. o.: þessi innflutningsáætlun er óframkvæmanleg og þar að auki væri það fullkomin óhæfa að framkvæma hana. Það væri fullkomin óhæfa að láta vanta stórkostlega brýnustu neyzluvörur, eins og hlyti að verða samkv. þessari áætlun, rekstrarvörur til framleiðslunnar og þýðingarmestu fjárfestingarvörur, til þess eins, að hægt væri að auka lúxusvöruinnflutninginn og halda óreiðunni í gangi í nokkra mánuði. Og þó að stjórnarliðið hafi þetta í hyggju, þá brestur þetta í höndum þess. Það er ekki hægt að framkvæma þetta. Þjóðin þolir ekki, að þetta verði framkvæmt. Þjóðin þolir ekki, að það verði stórkostlega skornar niður brýnustu nauðsynjar og rekstrarvörur og fjárfestingarvörur, til þess að hægt sé að auka lúxusvöruinnflutninginn og halda óreiðunni gangandi. Og þá verður niðurstaðan sú, að stjórnin gefst vitanlega upp á þessu og innflutningsáætlunin raskast gersamlega og þar með kemur í ljós, að tekjuáætlunin, sem þeir byggja á till. sínar núna um fjárlagaafgreiðsluna, er byggð á fölskum forsendum. Hún er byggð á óframkvæmanlegum forsendum. Hún er byggð á því einu að reyna að leyna því, sem er að gerast, að leyna því í nokkra mánuði.

Ef við svo skoðum, hvaða áhrif breytingar á innflutningnum hafa á tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs, þá er fróðlegt að geta þess, að 20 millj. kr. lækkun í gjaldháu flokkunum, sem skipt væri á gjaldháu vörurnar upp til hópa, 20 millj. kr. lækkun á gjaldháu flokkunum, — ég vil biðja menn að taka eftir því, — hún mundi leiða til þess, að tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs lækkuðu um 51 millj., og ef svo þessi innflutningur færðist á gjaldlægri vörur í staðinn, þá yrði hrein lækkun tekna samt 33.5 millj. Nettólækkun yrði 33.5 millj. kr. Þetta segir sína sögu um það, hvernig stjórnarherrarnir leika sér með þessar tölur, leika sér með blekkingarnar. Óneitanlega er það mikil freisting fyrir þá, sem hafa tekið að sér að halda þessu gangandi stutta stund á þennan þokkalega máta, — óneitanlega er það mikil freisting fyrir þá að láta nauðsynjavörurnar vanta og flytja lúxusinn inn og ég skal náttúrlega engu spá um það, hversu harðir þeir reynast í þessu. En ég segi, að það er jafnmikil óhæfa, hvor kosturinn sem tekinn verður, hvort sem þeir taka þann kostinn að loka nauðsynjarnar úti og stórhækka hátollavöruinnflutninginn eða hinn kostinn að brjóta innflutningsáætlunina og láta hátollavörurnar þá lækka og skila þeim mun meiri halla. Þetta er alveg ábyrgðarlaust, hvar sem á það er litið og hvernig sem framkvæmdinni er hagað.

Þá vil ég aðeins benda á það, að á undanförnum missirum hafa sjálfstæðismenn gert ákaflega mikið úr því, hvað þjóðin fái skakka mynd af efnahagsmálunum með því að skilja í sundur útflutningsuppbætur eða útflutningssjóðinn annars vegar og ríkisbúskapinn hins vegar og kröfðust þess í fyrra með hörðum orðum, að þessu yrði hætt og að uppbótagreiðslur og tekjur í þær yrðu settar inn á fjárlögin, þannig að þetta kæmi alveg greinilega í ljós í heild. En hvar eru tillögur sjálfstæðismanna um það núna, að þetta skuli gert, að það skuli teknar inn á fjárlögin uppbæturnar og niðurgreiðslurnar og svo aftur tekjurnar á móti, sem eiga að standa undir þessu? Þessar tillögur eru hvergi finnanlegar. Þetta var nefnilega nákvæmlega sama markleysan og flest annað af því, sem Sjálfstfl. hefur haldið fram undanfarið um hina þýðingarmestu þætti þessara mála. Þarna verður eitt jarðarmenið enn, sem þarf að skríða undir og þau verða fleiri, um það er lýkur.

Með þessari afgreiðslu, sem hér er stofnað til, er stefnt að stórfelldum halla í efnahagskerfinu. Á pappírnum eða til málamynda er honum mætt með hækkunum á tekjuáætlun fjárl., sem grundvallast á ástæðum, sem ég nú þegar hef rakið, lækkunum á útgjaldaliðum, sem ekki eru neinar sparnaðarráðstafanir á bak við og svo á því að éta upp greiðsluafgang frá fyrra ári og óinnheimta tolla af Sogsvirkjuninni, ef lán þá fást til þess að ná þeim peningum inn, og loks með því að skera niður verklegar framkvæmdir. En raunverulegur sparnaður upp í alla þessa súpu er 500 þús. kr. Þetta er myndin af þeirri afgreiðslu fjárhagsmálanna, sem nú er stefnt að. Svo kemur hv. frsm. 1. minni hl. og segir:

Það þarf að segja þjóðinni eins og er, sagði hv. þm. Það þarf að segja þjóðinni eins og er um þessi mál. — En við sjáum nú, hvaða mynd hv. frsm. vill gefa þjóðinni af þessu og hversu sönn hún er.

En það er ekki allt búið enn í þessu sambandi, sem ástæða er til þess að benda á, því að því er svo bætt ofan á allt saman, að sagt er í nál., að það sé vitað mál, að þessi niðurskurður, sem hér er stefnt að á verklegum framkvæmdum, geti ekki orðið til frambúðar. Þetta sé allt saman til bráðabirgða. Hann geti ekki orðið til frambúðar. Manni skilst helzt, að það eigi að skila mönnum þessu aftur eftir kosningarnar. Og í þessu sambandi væri fróðlegt, að hv. talsmenn stjórnarflokkanna gerðu mönnum ofur litla grein fyrir því, hvað þeir ætla að gera í þessum málum eftir kosningarnar, hvað þeir ætla að gera í þessum málum í haust og næsta vetur, eins og þessu er núna stefnt. Hvernig ætla þeir þá að mæta þeim gífurlega halla, sem þeir eru nú að efna til? Og í því sambandi vil ég aðeins minna á, ef þeir skyldu hafa gleymt því, að það verður ekki þá neinn greiðsluafgangur til þess að éta upp og fleyta sér á. Það verða þá ekki heldur neinir óinnheimtir Sogstollar til þess að fleyta sér á. Það verður þá ekki lengur hægt að láta eins og menn sjái ekki hallann á útflutningssjóði, sem hlýtur að verða verulegur, miðað við þá tekjuáætlun og undirstöðu hennar, sem ég var að lýsa, sem er 20 millj. kr. meira að segja miðað við þá tekjuáætlun um þennan hátollainnflutning. Það verður þá ekki hægt að láta eins og menn sjái ekki þennan halla, þó að það sé hægt að gera það núna í nokkra mánuði og það verður ekki heldur í haust eða næsta vetur notuð sú aðferð að falsa útgjaldaáætlanir fjárl. og ekki heldur tekjuáætlanirnar. Það getur gengið einu sinni í nokkra mánuði, en svo ekki meir.

Þykir mönnum nú ekki líklegt, að þeir menn, sem standa að svona lagaðri afgreiðslu á fjármálum, séu að skera niður þessar verklegu framkvæmdir til bráðabirgða og það verði leiðrétt, þegar þeir eiga að fara að standa frammi fyrir afleiðingum þess, sem þeir hafa nú gert og eru að gera og mæta þeim gífurlega halla, sem nú er stofnað til, ásamt þeirri súpu, sem þá hefur safnazt fyrir? Það á að segja þjóðinni satt, sagði hv. frsm., um fjármálin. En vill hann þá ekki segja þjóðinni, hvað þeir ætla að gera, þegar þeir standa frammi fyrir þessu?

Til viðbótar er svo farið að leggja fram frumvörp, útgjaldafrumvörp, sem eiga að öðlast gildi 1. jan. 1960. Og þar bætist ofan á þetta, sem þá þarf að sjá fyrir. Hér hefur verið lagt fram í dag frv. til laga um almannatryggingar, þar sem gert er ráð fyrir 34 millj. kr. nýjum útgjöldum og ríkissjóður verður að taka a. m. k. þriðjunginn af því. Og hvernig ætlar hv. frsm. og hans menn að sjá fyrir því ofan á allt hitt, þegar kemur að þessum málum á næsta hausti og næsta vetri? Ja, niðurskurður til bráðabirgða.

Maður hefur heyrt það. En þetta er myndin, sem blasir við, að svo miklu leyti sem hún getur orðið séð í gegnum þá þoku, sem þessir hv. þingmenn eru að reyna að sveipa um sannleikann í þessum efnum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég áleit það nauðsynlegt að fara um þessi efni nokkrum orðum að marggefnu tilefni hv. frsm. En að lokum vil ég þó aðeins segja þetta: Framsfl. lagði fram á s. l. hausti sínar till. um efnahagsmálin. Hann var fyrsti stjórnmálaflokkurinn, sem á þessum vetri sagði, hvað hann vildi gera í þeim efnum, og eins og hv. frsm., þm. S-Þ., tók fram, þá voru þær tillögur byggðar á því að festa verðlagið miðað við vísitölu 185 og fella niður 15 vísitölustig til þess að ná því marki og það dæmi lá þannig fyrir, að það hefði verið hægt að ná þessu marki og halda ámóta kaupmætti kaupgjalds og launa og var í okt. s. l. eða febrúarmánuði s. l. vetur. Við höldum því alveg hiklaust fram, að það hefði verið miklu farsælla að fara þær leiðir, sem við stungum þá upp á, heldur en ana út í þá ófæru, sem stjórnarliðið hefur kastað sér út í og við vitum að það kastar sér út í eingöngu vegna þess, að það er allt annað, sem fyrir því er aðalatriðið. Það er að breyta kjördæmaskipuninni. Það eru þau samtök, sem hafa orðið um að koma fram breytingum á kjördæmaskipuninni. Og þeir ætla einskis að svífast í því sambandi og láta það ekkert á sig fá, þó að þeir afgreiði svona gersamlega ábyrgðarlaust efnahagsmálin, á meðan verið er að koma slíku fram.