20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið svo áliðið, að það er ekki rétt að lengja fundartímann um of með langri ræðu. Það er margt, sem fram hefur komið í ýmsum ræðum, sem hér hafa verið fluttar, sem ástæða væri til þess að ræða um, en ég mun aðeins takmarka mig við nokkur atriði í því efni.

Umræðurnar, sem orðið hafa nú við 2. umr. fjárlfrv., hafa á margan hátt verið mjög lærdómsríkar og má af þeim draga ýmsar eftirtektarverðar staðreyndir. Það hefði nú sannast sagna einhvern tíma þótt frásagnavert, að það skuli nú vera svo komið, að Alþb. sýni meiri ábyrgðartilfinningu um afgreiðslu fjárl. heldur en Framsfl., en sú er staðreyndin nú. Af hálfu Alþb. hafa verið fluttar hér till. í þá átt að reyna að benda á úrræði til að leysa þann vanda, sem við er að glíma. Það má vafalaust um það deila, hvort tillögur þeirra Alþýðubandalagsmanna eigi fremur rétt á sér en till. okkar í 1. minni hl. fjvn., en því verður ekki neitað, að þeir hafa þó viðurkennt þær staðreyndir, sem við er að glíma og reyna ekki að skjóta sér undan þeim vanda að benda á einhver úrræði til þess að leysa þetta vandamál. En hins vegar blasir það við augum, sem þjóðin mun áreiðanlega taka eftir, að sá flokkurinn, sem hefur átt þann mann, sem lengst hefur setið í embætti fjmrh. og margoft hefur réttilega um það talað, hvílík skylda það væri, eigi aðeins fyrir stjórnarflokka, heldur einnig stjórnarandstöðu, að leggja fram raunhæfar till. til úrlausnar fjárhagsvandamálum ríkissjóðs á hverjum tíma og hefur farið hörðum orðum um þá, sem hann hefur talið af ábyrgðarleysi hafa komið þar fram, — það mun ekki fara fram hjá þjóðinni, að þessi sami flokkur vikur sér nú algerlega undan því að benda á nokkra leið til að leysa þann vanda, sem nú er við að glíma.

Það vita allir, eins og ég tók fram í frumræðu minni í dag, að það var einfalt mál að leysa fjárhag ríkissjóðs út af fyrir sig, ef það átti að fylgja þeirri reglu að láta sem vandamál efnahagslífsins og atvinnuveganna að öðru leyti kæmi ríkinu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það hefði ekki tekið langan tíma. En ég held, að það geti ekki dulizt neinum, að það er gersamlega útilokað að hugsa sér, að auðið sé að afgr. fjárl. án þess að hirða nokkuð um það, að það vanti um hálft annað hundrað millj. kr. til þess að leysa vandamál útflutningssjóðsins, sem er gersamlega hliðstætt vanda ríkissjóðs. Ef á að humma það fram af sér að sjá fyrir því fé, hlýtur það að leiða til stöðvunar útflutningsframleiðslunnar innan tíðar og þá um leið að sjálfsögðu samstundis skella með fullum þunga á ríkissjóði á þann hátt, að hann komist þá einnig í fjárþrot.

Ég satt að segja varð að lesa nál. þeirra fulltrúa Framsfl. í fjvn. oftar, en einu sinni til þess að geta trúað því, að þeir létu sér til hugar koma að leggja fram slíkt plagg og mér fannst þó keyra um þverbak, þegar hæstv. fyrrv. fjmrh. taldi þetta allt góðra gjalda vert og að hér væri unnið að málum á þann eina hátt, sem hæfandi væri, og allir aðrir færu með ábyrgðarleysi í sínum till.

Ég man það, að ég las fyrir nokkru bók, sem Framsfl. gaf út, þar sem sérstaklega var rætt um það, sem væri brýnasta viðfangsefni flokksins nú á næstunni og það var lögð áherzla á, að það, sem flokkurinn fyrst og fremst þyrfti nú að beita sér fyrir, væri að berjast gegn lýðskrumi og reyna að innræta þeim, sem við stjórnmál fást í þjóðfélaginu, raunsæi og rétt mat á þeim vanda, sem við væri að glíma. Þetta hafa málsvarar Framsfl. gert hér í kvöld á þann eina hátt að vísa til þess, að þeir hafi í fyrrv. ríkisstj. lagt fram einhverjar till. um það að leysa vanda efnahagsmálanna og úr því að þeir hafi gert þetta, þá sé það alls ekki þeirra hlutverk nú að gera annað en finna að því, sem reynt er að gera til þess að leysa þann vanda, sem við er nú að glíma, þeir hafi algerlega fríað sig af allri ábyrgð með því að leggja fram þessar huldu till., sem þeir aldrei lögðu í að sýna hér á Alþingi.

Ég verð að láta í ljós mikla undrun á því, að hv. 1. þm. S-M. (EystJ) skuli telja þessi vinnubrögð góðra gjalda verð. Það má að vísu segja, að þau séu í mjög beinu framhaldi af þeim vinnubrögðum, sem hann hafði við afgreiðslu fjárl. á síðasta þingi, sem sagt að taka út úr fjárl. stóra útgjaldapósta til þess að fá tekjur og gjöld til að standast á. Þá voru teknar út dýrtíðargreiðslurnar, nokkrir milljónatugir, til þess að láta fjárl. líta vel út á pappírnum. Nú er sá háttur hafður á að neita að viðurkenna stórkostlegar fjárhæðir og láta sem þær séu alls ekki til og miða allan málflutning sinn við það, að það sé svo sem ekki vandi að afgr. greiðsluhallalaus fjárl. án þess að skera neitt niður og með því í rauninni að gera allt fyrir alla.

Svona vinnubrögð held ég að ekki geti gengið og ég hygg, að sú dómgreind sé ráðandi hjá þjóðinni, að hún muni ekki taka það sem góða og gilda vöru, að stjórnmálaflokkur, sem vill telja sig ábyrgan, leyfi sér slík vinnubrögð.

Hv. þm. S-Þ. flutti hér langa ræðu í dag til að gera grein fyrir viðhorfum fulltrúa Framsfl. í fjvn. og flutti — sem hans er von og vísa — mörg hnyttiyrði og skemmtileg innskot og samlíkingar í sinni ræðu og margt kom þar fram, sem vissulega væri ástæða til þess að ræða um, en ég tímans vegna skal ekki fara ýtarlega út í, enda var þar um mörg atriði að ræða, sem ég vék að í minni frumræðu. Bæði hann og hv. 1. þm. S-M. töluðu ákaflega oft um verðbólguófreskjuna og dýrtíðarhítina, sem þeir töldu ekki vera nokkurt vit í að næra á neinn hátt. Slíkan voða bæri að forðast. Vissulega er það rétt, að það ber að forðast að efla slíka ófreskju. En spurningin er bara sú, hvernig það verður bezt gert. Í því efni verða menn að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því, hvaða áhrif þær ráðstafanir hafa, sem þeir sjálfir eru að mæla með.

Hv. þm. S-Þ. sagði, að það væri miklu skynsamlegra að taka greiðsluafganginn og verja honum í ýmsar framkvæmdir, heldur en að kasta honum í verðbólguhítina. Það er vissulega skynsamlegt að byggja sér hús og til þess að ég taki samlíkingu hans um bónda, sem hann oft minntist á í ræðu sinni í dag, þá vil ég nú varpa fram þeirri fsp. til hans, hvort hann mundi nú telja það skynsamlega ráðstöfun, ef bóndi er að taka ákvörðun um það að byggja hús á sinni jörð, en hins vegar liggur ljóst fyrir, að það er öruggt, að vatnsfall muni flæða yfir það landssvæði, sem hann ætlar að byggja á og ryðja húsinu burt með sér, ef ekki er að gert, — hvort mundi hann nú telja skynsamlegra að byrja á því að verja fé til þess að byggja stíflugarð til þess að bægja þessari hættu frá eða byggja húsið, láta sem ekkert sé og fá síðan yfir sig flóðbylgjuna, sem allar þessar framkvæmdir tæki með sér, þannig að hann væri verr settur eftir en áður? Þetta er nákvæmlega munurinn á því, sem lagt er til í tillögum 1. minni hl. fjvn., og því, sem hv. framsóknarmenn eru að halda fram. Þeir leggja áherzlu á það, að öllum framkvæmdum sé haldið áfram með fullum krafti, hvergi á nokkurn hátt dregið úr, en þeir vilja alls ekki gera neinar ráðstafanir til þess að hindra þá hættu, sem yfir vofir, að allar þessar framkvæmdir verði gerðar að engu. Slík forsjá og fyrirhyggja er ekki skynsamleg og hún hefnir sín.

Við vitum það öll, að stærsta vandamál íslenzku þjóðarinnar nú er að reyna að kveða niður dýrtíðarófreskjuna og það verður ekki gert með því móti að láta hana afskiptalausa og láta hana þróast eftir því, sem atvikin leiða til og gera engar tilraunir til þess að kveða hana niður. Það, sem er verið að reyna að gera með þeirri afgreiðslu fjárl., sem lagt er til að viðhafa hér af hálfu 1. minni hl. fjvn., er að reyna að byggja stíflugarð til þess að koma í veg fyrir það, að verðbólguflóðið streymi yfir okkar land og eyðileggi þá uppbyggingu, sem nauðsynleg er og vissulega þarf að hraða svo sem föng eru á og á þeim grundvelli byggist það, að við teljum, að það sé þjóðinni allri happasælt að horfast í augu við þennan vanda og draga heldur í bili úr ýmsum framkvæmdum sínum, en eiga þá hættu yfir höfði, að allt þetta verði eyðilagt í höndum hennar.

Það var oft minnzt á það í ræðu hv. þm. S-Þ., að það væri verið að vega að dreifbýlinu, þetta væri tilræði við dreifbýlið og þar fram eftir götunum. En rökin í þessu efni voru harla fátækleg, sem von var. Mig langar aðeins til þess að minna á örfá dæmi. Hann eyddi mörgum orðum að því, hversu óhæfilegt væri að leggja til, að 5% skerðingin næði til viðhaldsfjár þjóðvega og að hér væri um sannkallað tilræði að ræða við strjálbýlið, ef sú till. yrði samþ. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm., hvort hér sé um eitthvert nýtt vandamál að ræða, að það þurfi að halda við þjóðvegakerfi landsins. Ég minnist þess ekki, að hann hafi haft orð á því við afgreiðslu fjárl. í fyrra, að þá væri verið að fremja nokkurt tilræði við strjálbýlið í landinu í sambandi við viðhaldsfé þjóðvega. En hvað var þá verið að gera? Það var samþ. óbreytt fjárveiting til viðhalds þjóðvega frá fjárl. ársins 1957 og þá sögðu hv. framsóknarmenn ekki eitt orð, þá var þetta allt góðra gjalda vert, af því að þeir sjálfir höfðu lagt þetta til. Þá var svo sem strjálbýlið ekki í hættu. Þetta er svo sem í samræmi við aðra framkomu þessa hv. flokks, yfirleitt er það allt gott og gilt, sem þeir rétta að strjálbýlinu, ef það er aðeins gert af þeim sjálfum, en allt á það að vera á verri veg, ef um er að ræða að fylgja þar ráðum annarra og hygg ég þó, að í mörgum tilfellum hefði verið farsælla fyrir sveitir landsins, að ráðum annarra hefði verið hlýtt, heldur en ráðum þeirra framsóknarmanna. Þá kannske væri hagur þess betri.

Með hliðsjón af þessari samþykkt í fyrra um viðhaldsfé þjóðvega er það næsta broslegt, þegar þessir sömu menn segja nú, að það sé tilræði við strjálbýlið að hækka þessa fjárveitingu á einu ári um 9 millj. kr. og áætla hana nú í fyrsta sinn eitthvað líkt því, sem ætla má að viðhaldið verði. Að sjálfsögðu er það rétt, að það er hægt að bæta viðhaldíð og eyða í það stórkostlegum fjárhæðum í viðbót, en miðað við svipaðar framkvæmdir eins og í því efni hafa verið, þá er hér sannarlega ekki um neitt tilræði við strjálbýlið að ræða.

Þá var það annað atriði og það voru flugvellirnir, sem áttu að vera annað tilræðið við strjálbýlið. Það er vissulega rétt, að það væri mikil þörf að leggja fram meira fé til flugvallagerðar, en gert er, en hér er ekki um það að ræða, að það sé verið að leggja til að skerða flugvallafé frá því, sem var í fjárl. síðasta árs og ég geri ekki ráð fyrir því, að ef ekki hefði verið tekin upp í fjárlfrv. nær 2 millj. kr. hækkun á þessari fjárveitingu, andstætt því, sem er gert með aðrar verklegar framkvæmdir, þá hefði neinn talið neitt óeðlilegt við það. Það talar hér enginn um, að það sé neitt tilræði að hækka ekki nýbyggingarfé þjóðvega og það er nákvæmlega það sama, sem þar er gert eins og með flugvellina, að það er tekin sama fjárveiting og var s. l. ár. Og 5% skerðing er alis ekki látin ná til þeirrar fjárveitingar fremur en nýbyggingarfjár og endurbyggingarfjár vega og brúafjár.

Þá talaði hv. þm. S-Þ, mikið um jarðræktarvélarnar og þar væri um að ræða hina mestu óhæfu. Ég skal játa, að ég skil satt að segja ekki, hvaða röksemdir þarna geta legið á bak við, vegna þess að það er næsta kynlegt, ef það er allt í einu núna, sem er svona geysileg eftirspurn eftir þessum vélum. Er það virkilega svo, að á s. l. ári, meðan þessir ágætu menn réðu, hafi verið komið í veg fyrir það, að innflutningsleyfi væru veitt til kaupa á þessum vélum? Hvernig stóð á því, að fjárveitingin var ekki notuð einu sinni að hálfu leyti á s. l. ári, en nú á allt í einu að flytja inn fyrir 6 eða 7 millj.? Ég fæ ekki skilið þær röksemdir og ég held því, að það sé ekki með neinu móti hægt að halda því fram, að þetta beri vott um einhverja óvinsemd til bændastéttarinnar, þó að þessi breyting sé gerð og menn hagi sér eftir því, sem lög gera ráð fyrir í þessu efni, meðan ekki er einu sinni eytt því fé, sem veitt hefur verið til þessara þarfa.

Þá vildi hv. þm. S-Þ. ekki misbjóða Skálholti með því að leggja niður fjárveitingu til þess í ár. Það kann vel að vera, að það megi túlka það svo, að það sé verið að misbjóða Skálholti. En ég vil nú spyrja: Var þá ekki verið að misbjóða Skálholti í fyrra? Þá var þessi fjárveiting líka stórlega lækkuð og það talaði ekki nokkur maður um, að það væri verið að misbjóða Skálholti. Það er ekki fyrr en núna, sem hv. S-Þ. fær allt í einu svona mikla tilfinningu fyrir virðingu Skálholts. Það er kannske betra seint en aldrei.

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á í ræðu hv. 1. þm. S-M. Hann byrjaði mál sitt hér með að ræða það, að Sjálfstfl. væri hér að leggja til að taka aftur það, sem hann hefði veitt á s. l. ári og væri að koma með kröfu um, að greiddur væri víxillinn, sem þá hefði verið gefinn út. Þetta átti að byggjast á þeirri staðhæfingu, sem æ ofan í æ hefur verið klifað á, að Sjálfstfl. hafi ráðið öllum kauphækkunum, sem urðu hér á s. l. ári. Það hefur nú oft verið á það bent af okkur sjálfstæðismönnum, að það væri okkur vissulega ánægjuefni, ef svo væri komið, að við réðum stefnu verkalýðshreyfingarinnar í landinu svo gersamlega, að það væri hægt að snúa þessari sterku hreyfingu gegn ríkisstjórn, sem stofnuð væri til þess að gæta hagsmuna hennar, eins ag vinstri stjórnin þó þóttist vera að gera. Og jafnvel forráðamenn Alþýðusambandsins höfðu látið Alþýðusambandið gerast aðila að stofnun kosningaflokks, sem gerðist svo aftur aðili að vinstri stjórninni. Ég held nú satt að segja, að það væri rétt fyrir hv. 1. þm. S-M., ef hann hefur nokkra tilhneigingu til þess að halda uppi virðingu þessarar stjórnar, sem hann þó manna mest gekk fram fyrir skjöldu að halda lífinu í, að þá ætti hann að hætta við þessa kenningu, vegna þess að það er engin kenning, sem er eiginlega jafnauvirðandi, ef svo má segja eða auðmýkjandi fyrir þessa stjórn og að fullyrða það, að Sjálfstfl., sem hafði verið talinn óhæfur til stjórnarsamvinnu, af því að hann hefði ekkert traust hjá verkalýðnum, hafi allt í einu, eftir að stjórn verkalýðsins var mynduð, fengið þau óhemjulegu áhrif, að hann hafi getað eyðilagt allar ráðstafanir þessarar sterku stjórnar vinnustéttanna í landinu, sem hún var kölluð. Ég skil ekki í öðru, en menn geri sér ljósa grein fyrir því, hversu hlálegt er að halda fram kenningu sem þessari, enda er þetta auðvitað gersamlega gert út í loftið. Ástæðan fyrir kauphækkunum á s. l. sumri var einfaldlega sú, eins og sérfræðingar hafa bent á, að það vantaði allan botn í bjargráðin og það er eins og aðalsérfræðingur fyrrv. ríkisstj. hefur bent á í álitsgerð um þetta mál, að ástæðan til þess, að þau runnu út í sandinn, var fyrst og fremst sú, að það láðist algerlega að gera þær ráðstafanir, sem gera þurfti, til þess að þessi löggjöf kæmi að gagni. Ég hygg, að hv. 1. þm. S-M. eigi þessa álitsgerð og geti lesið hana sér til fróðleiks, og er það vissulega illt, ef hann hefur ekki kynnt sér hana, því að þar stendur það skýrum stöfum. Ég hef álitsgerðina því miður ekki við höndina núna, þannig að ég geti lesið upp úr henni, ég hef ekki lært úr henni kafla, þannig að ég geti farið með þá alveg orðrétt án þess að hafa hana fyrir framan mig, en ég get fullyrt, að þetta er efnislega rétt.

Þá er þessi skemmtilegi útreikningur, sem hefur komið í Tímanum í einum 10 útgáfum, hvað niðurgreiðslurnar samsvöruðu mörgum öðrum póstum í fjárlögum. Ég skil nú ekki, hvaða tilgangi svona útreikningur á að þjóna. Auðvitað geta menn alltaf búið til svona dæmi sér til gamans um öll útgjöld ríkissjóðs. En ég vil nú spyrja hv. 1. þm. S-M.: Er það hans skoðun, að það hefði alls ekki átt að auka niðurgreiðslur og það hefði átt að láta vísitöluna halda áfram að hækka hömlulaust? Hann upplýsti það hér í ræðu sinni áðan, að framsóknarmenn hefðu lagt það fram sem grundvallartillögu, að kaupgjaldsvísitalan yrði bundin við 185 stig. Ég held, að það viti hver einasti maður, að slík ráðstöfun hefði ekki leyst þennan vanda og við hefðum staðið andspænis því að verða að leysa erfiðleika útflutningsframleiðslunnar með sízt minni framlögum, en nú hefur verið gert og auk þess orðið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að halda niðri vísitölu, þannig að þessi festing vísitölunnar í 185 stigum hefði ekki gert nokkurt gagn. Hún er nú 175 stig og þó verður að gera allar þessar ráðstafanir. Þess vegna er sannleikurinn sá, að það að vera að bera saman verklegar framkvæmdir og niðurgreiðslur til þess að sýna fram á, hvað sé vitlaust að greiða niður vöruverð, er auðvitað gersamlega út í bláinn, því að ef vöruverðið væri ekki greitt niður, þá mundu fjárveitingar til þessara verklegu framkvæmda minnka að sama skapi.

Þá kom þessi hv. þm. með gamla sönginn um það, hversu Sjálfstfl, hefði með öllu móti reynt að spilla fyrir erlendum lántökum og taldi hann nú kominn í klípu, þar sem nú þyrfti hann að gangast undir það að samþykkja að taka lán í Bandaríkjunum, sem undirbúið hefði verið af fyrrv. ríkisstj. Að vísu hélt hv. þm. því fram, að flokkurinn hefði verið mjög hikandi í þessu og um tíma hefði verið ákveðið að taka ekki lánið af ótta við það, að flokkurinn væri í svo mikilli klípu út af þessu, að hann gæti ekki út úr því komizt. Ég get nú huggað hv. þm. með því, að það hefur alls ekki haldið andvöku fyrir neinum, hvort ætti að taka þetta lán eða ekki og það hefur aldrei komið til tals að setja neitt bann á það, að ríkisstj. tæki þetta lán, ef það væri fáanlegt. Og ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í dag, að áætlanir þær, sem gerðar væru um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, byggðust á því, að þetta lán væri tekið. Og þar sem komið var að áramótum, þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. hrökklaðist frá, var þess auðvitað enginn kostur að ætla að fara að umskapa allt efnahagskerfið á þann hátt, að það væri hægt að hverfa gersamlega frá þeirri stefnu, sem fylgt hafði verið undanfarin ár. Hitt er allt annað mál, að frá þeirri stefnu verður að hverfa. Það hefur verið bent á það af okkur, að það verður að hafa fulla gát á því, hve mikil erlend lán séu tekin. En því hefur aldrei verið haldið fram af Sjálfstfl., að það mætti alls ekki taka erlend lán. Það hefur hvergi sézt. Ég skal ekki fara út að rekja einstök atriði, sem hann minntist á varðandi aðfinnslur okkar um framgangsmáta hæstv. fyrrv. ríkisstj. um lántökur. En það er fyllilega hægt að rökstyðja og gera grein fyrir þeim skoðunum, sem fram voru settar af okkur sjálfstæðismönnum í sambandi við erlendar lántökur hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar.

Þá vék hv. þm. að því, að það væri furðulegt, að ekki skyldu vera gerðar víðtækari sparnaðartill. í rekstri ríkisins, en fælust í till. okkar í 1. minni hl. fjvn., þar sem raunverulega væri aðeins ein sparnaðartill. í þessu efni, um lækkun kostnaðar við framkvæmd orlofslaga. Það hefur verið bent á það af hæstv. fjmrh., sem hefði átt að vera mjög ljóst fyrir hv. 1. þm. S-M., að slíkar ráðstafanir verða ekki gerðar fyrirvaralaust. Slíkt er útilokað. Í ýmsum tilfellum kann að þurfa þar skipulagsbreytingar, jafnvel lagabreytingar og það er því auðskilið a. m. k. manni, sem jafnlengi hefur fengizt við stjórn fjármálanna, að það verður ekki gert í einu vetfangi. Hitt er annað mál, eins og ég tók fram í ræðu minni í dag, að það er skoðun okkar, sem skipum 1. minni hl. fjvn., að það verði að taka til rækilegrar athugunar rekstrarútgjöld ríkissjóðs og reyna að finna úrræði til þess að draga úr þeim kostnaði. Ég skal fúslega játa, að ég hef fullkomlega opin augu fyrir ýmsum erfiðleikum, sem þar eru í vegi. Hv. 1. þm. S-M. taldi, að ég hefði góða aðstöðu haft til þess að fylgjast með því, þar sem ég hefði átt sæti í ýmsum sparnaðarnefndum, sem starfað hafa. Það er alveg rétt, og ég er ekki að gera mér neinar tyllivonir um, að það sé hægt að gera þar stórfelld átök nema þá með víðtækum skipulagsbreytingum í ríkisrekstrinum. Og það kann vel að vera, að við stöndum andspænis því að verða að gera okkur grein fyrir, hvers við erum megnugir og getum ekki haldið áfram, svo sem verið hefur undanfarin ár, að láta allt hækka stöðugt, um jafnvel hundruð milljóna á hverju ári, því að ef ekki á allt að kollsteypast, þá verðum við í þessu efni sem öðru að sníða okkur stakk eftir vexti og kann þá að fara svo, að það verði að gera ýmislegt annað en það, sem gott þykir.

Þá fann hv. 1. þm. S-M. að því orðalagi í grg. fyrir till. 1. minni hl. fjvn., að þar væri talað um, að okkur væri ljóst, að þessar niðurskurðartill. á ýmsum framkvæmdaliðum væru ekki til frambúðar. Ég hef nú satt að segja ekki haldið, að nokkur maður léti sér detta í hug, að við með þessum till. værum að gera till. um það, hvernig haga ætti þessum fjárgreiðslum á næstu árum. Eins og gerð hefur verið grein fyrir, þá er hér um að ræða neyðarráðstafanir, ef svo má segja, til þess að tryggja það, að hægt verði að brúa hið mikla bil gjalda og tekna, sem nú er við að fást, með öðru móti, en því að feta þar í fótspor þau, sem gengin hafa verið, að brúa bilið með stórfelldum nýjum skattaálögum, sem hlytu að magna enn þann vanda, sem við er að glíma. Hvernig svo ástatt verður í þeim efnum við samningu næstu fjárlaga, getum við að sjálfsögðu ekkert um sagt, og ég held, að þess hafi aldrei verið krafizt af fjvn., að hún gerði einhver plön langt fram í tímann um það, hvernig ætti að afgreiða fjárlög á næstu árum.

Inn í þetta blandaðist svo hjá hv. þm. í lokin kjördæmamálið, sem þeir framsóknarmenn eru ákaflega hræddir við og vilja fyrir hvern mun koma fyrir kattarnef, eins og ætíð vill verða eða a. m. k. má segja að sé mannlegt, þótt ekki sé það stórmannlegt, að menn vilji halda í rangfengin völd og óréttlæti, ef það er þeim til hagsbóta. Þetta skilja menn og virða bæði þessum hv. þm. og öðrum flokksbræðrum hans til vorkunnar, en slíkt hefur að sjálfsögðu ekki nokkur áhrif varðandi afgreiðslu þessara fjárlaga. Fjárlög verður að afgreiða, hvort sem stendur til að framkvæma kjördæmabreytingu eða ekki og það verður að standa andspænis þeim vandamálum, sem við er að glíma, burt séð frá slíkum átökum í þjóðfélaginu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða lengri tíma til þess að ræða þau atriði, sem fram komu í ræðum þessara hv. tveggja málsvara Framsfl. Það er vitanlegt, sem enda kom fram í þeirra máli, að þeir að sjálfsögðu munu gera það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að afflytja þessar till. og gera þær tortryggilegar, eftir því sem geta þeirra leyfir. En ég held nú sannast sagna, að ef þeir hefðu hugsað sér að ná einhverjum árangri með slíkum málflutningi, þá hefðu þeir átt að gera till. sínar öðruvísi úr garði, þannig að það skini ekki svo í gegn ábyrgðarleysið eins og hér blasir við. Og ég held það hljóti að vera dálítið raunaleg staðreynd fyrir hv. framsóknarmenn og ekki sízt fyrir fyrrv. hæstv. fjmrh., að hann og flokkur hans skuli nú vera þeir, sem af mestu ábyrgðarleysi taka afstöðu til fjármála ríkisins.