20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

1. mál, fjárlög 1959

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Á þskj. 409, í IX. lið, hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjárlaga um, að við 14. gr. bætist nýr liður: til uppeldisheimilis fyrir ungar stúlkur, 300 þús. kr.

Þessi till. er um nauðsynjamál, sem oft hefur verið lagt fyrir hæstv. Alþ. Gísli Jónsson bar fram tillögur um þetta mál ár eftir ár. Í fyrra og hittiðfyrra voru fluttar um þetta till. Og fyrir hátt á þriðja tug ára bar frú Guðrún heitin Lárusdóttir fram till. um stofnun hælis fyrir vangæf börn og unglinga og var þar átt við unglinga, sem framið höfðu afbrot eða að öðru leyti reynzt svo erfið, að þeirra eigin foreldrum eða uppalendum, barnaverndarnefndum og lögreglu reyndist ókleift að koma þeim á réttan kjöl.

Slíkt hæli eða heimili er ekki enn þá til í landinu fyrir telpur og hefur þó þörfin fyrir það mjög vaxið, enda þjóðin langtum fjölmennari nú, en þá. Fólksfjölgun hefur orðið mikil í þéttbýli og bæjum og skapast vitaskuld hér á landi eins og annars staðar ýmis sérstök vandamál í þéttbýlinu varðandi unglinga og þeirra félagsskap og því meiri yfirleitt sem á byggðinni er meira stórbæjarsnið.

Barn, sem er ístöðulítið, ósjálfstætt eða viðkvæmt, getur á unga aldri leiðzt út í hnupl, önnur afbrot eða lausung, aðeins vegna þess félagsskapar, sem það lendir í, sjálfrátt eða ósjálfrátt, án þess að í því búi nokkur afbrotahneigð. Svona barn getur orðið að forhertum glæpamanni síðar meir, ef það fær ekki á unga aldri hina réttu aðstoð, hvort sem það er fólgið í leiðbeiningu, aðhaldi og umhyggju, kennslu eða eftir atvikum refsingu, þegar það á við. Má þá oft lítið út af bera, til þess að þær ráðstafanir komi að haldi, þegar um mjög erfið börn er að ræða. Eins getur barn, alveg án þess að í því sé nokkur eðlislæg brotahneigð, hneigzt til afbrota vegna beiskju út í umhverfi sitt, heimili eða forráðamenn og er þá aðalatriðið að styrkja öryggi þess, traust og tengslin við heimili þess og uppalendur.

En svo illa getur tekizt til, að góður vilji og skynsamlegar ráðstafanir foreldra og umráðamanna þessara barna nái ekki tilgangi sínum, dugi ekki börnunum til bjargar. Þá er það skylda þjóðfélagsins að hlaupa undir bagga, alveg eins og við teljum það skyldu þjóðfélagsins að styðja þá, sem ekki geta bjargað sér sjálfir vegna örorku, elli, sjúkdóma o. s. frv. Alveg eins teljum við það skyldu þjóðfélagsins, sem er og hefur verið höfuðatriðið í allri okkar fræðslulöggjöf, að koma öllum til nokkurs þroska. Það þarf bara meira til að koma þessum börnum til nokkurs þroska, en öðrum börnum.

Það var nú ekki ætlunin með mínum örfáu orðum að reyna að boða hér einhverja sálfræði- eða uppeldiskenningu og því síður að fara að flytja vandlætingarprédikun. Ég skírskota aðeins til lífsreynslu hv. þm. sjálfra, velvilja þeirra og skilnings á vandamálum unglinga og viðhorfum þeirra til lífsins. Flest okkar eru foreldrar og öll höfum við einhvern tíma verið börn. Aldrei finnst okkur horfandi í fé til að bjarga manni frá drukknun. Þeir unglingar, sem hvað eftir annað brjóta gegn lögum eða almennum siða- eða velsæmisreglum þjóðfélagsins í svo ríkum mæli, að þeim sjálfum, samborgurum þeirra eða verðmætum stafar háski af, eru á vissan hátt að drukkna, án þess að neytt sé tiltækra björgunaraðgerða, ef þau fá ekki þá aðstoð, sem þau eiga lagalegan og siðferðilegan rétt til. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa bréf, sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur sendi hv. fjvn. í janúar s. 1. og hljóðar svo, — það er dagsett 19. jan. 1959:

„Í 37. gr. laga nr. 29 frá 1947, um vernd barna og ungmenna, segir svo:

Ríkisstj. er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum, að setja á stofn og reisa hæli, þar sem vistuð skulu börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Skulu hæli þessi að minnsta kosti vera tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum.

Eins og hv. nm. er kunnugt, hefur nú um nokkurra ára skeið verið rekið slíkt heimili fyrir drengi að Breiðuvík í Rauðasandshreppi, og er árangurinn af þeirri starfsemi með miklum ágætum. Sambærilegt heimili fyrir stúlkur er nú orðið knýjandi nauðsyn og hefur raunar verið svo um alllangt skeið. Samkvæmt upplýsingum kvenlögreglunnar hér í Reykjavík hefur hún á s. l. ári haft afskipti af eða verið beðin að aðstoða 57 stúlkur á aldrinum 12–18 ára. Nokkrum þessara stúlkna, sennilega 20–25, hefði tvímælalaust verið fengin hælisvist, ef slík stofnun hefði verið til reiðu. En eins og nú standa sakir, er næstum ókleift að gera málum þessara stúlkna þau skil, að til verulegs gagns megi verða. Nú, þegar líður að afgreiðslu fjárlaga, leyfir barnaverndarnefndin sér að vekja athygli yðar á þeirri brýnu þörf, sem hér er fyrir hendi og skorar á yður að gera um það till., að nú verði tekið upp í fjárlög nokkurt framlag til stofnunar og rekstrar slíks stúlknahælis sem gert er ráð fyrir í lögum um vernd barna og ungmenna.

Allra virðingarfyllst,

Guðmundur Vignir Jósefsson, formaður.“ Jafnframt hef ég í höndum bréf frá þeim tveimur lögreglukonum, sem starfa hér í bæ, og felur það í sér áskorun til Alþ. um sama efni.

Hv. fjvn. sá sér ekki fært að taka upp þennan nýja lið, fremur en sæg af öðrum erindum, sem vafalaust hafa mörg góð mál að geyma. En skiljanlegt er á þeim tímum, sem nú eru, að ógerningur er að sinna öllum málum, sem menn vildu annars gjarnan styðja, þegar fjárhagurinn væri betri.

Mér er ljóst, að upphæðin í þessari till. hrekkur ekki fullkomlega til, langt í frá. Hitt vakti fyrir mér, að strax væri veitt þetta byrjunarframlag og svo mætti hugsa sér, að veitt yrði meira fé síðar meir, þar til framkvæmdum væri lokið.

Fjárveiting þessi, þótt lítil sé, hlyti að flýta fyrir því, að þetta heimill kæmist upp og má þá búast við, að sá hæstv. ráðherra, sem þessi mál hefur með höndum, kveði upp úr um staðarval í þessu skyni, en álit nefnda, sem starfað hafa að rannsóknum í þessum málum, fela í sér ýmiss konar lausnir. Aðalatriðið er ekki, hvar þetta vistheimili verður stofnað, heldur að það verði stofnað. Skiptir þá miklu, að til forstöðu fáist gott fólk, helzt með sérmenntun til þeirra starfa. Er mér kunnugt um, að til mun vera sjóður, sem ber nafn Guðrúnar heitinnar Lárusdóttur. Upphæð hans er nálægt 100 þús. kr. Tilgangurinn er að styrkja með framlögum úr honum stúlkur til að búa sig undir starf við eða forstöðu slíks uppeldisheimilis. Það væri vafalaust gott og gagnlegt að hafa samband við stjórn þessa sjóðs, ef stofnun uppeldisheimilis verður ráðin.

Nú í vetur hefur hæstv. menntmrh. (GÞG) valið sem bráðabirgðalausn þá leið, að stúlkum, sem eru hælisvistarþurfi, verði séð fyrir dvöl á uppeldisheimilum erlendis, en ríkissjóður standi straum af kostnaði.

Sú tilhögun mun ekki ætluð til frambúðar samt og leysir vitanlega ekki af hólmi þörfina á vistheimili hér á landi fyrir stúlkur. Þess vegna er þessi till. flutt. Það hefur oft munað litlu hér á hæstv. Alþ., að mál þetta næði fram að ganga og ég vona, að hv. fjvn. athugi till. þessa gaumgæfilega fyrir 3. umr., og í trausti þess, að af því verði jákvæður árangur, leyfi ég mér að taka hana aftur til þeirrar umr.