20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

1. mál, fjárlög 1959

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Er fyrrv. hæstv. ríkisstj. lagði fram á Alþ. frv. að efnahagslögum s. l. ár, var í grg. fyrir því frv. gerð ýtarleg grein fyrir því, að frv. væri miðað við þær tekjur, sem almenningur í þessu landi gæti vænzt að hafa. Það var bent á það, að atvinnuvegir landsmanna þyldu ekki hærri launagreiðslur og bæri að stefna að því að halda sig við þann ramma, sem þar var lagður og mundi þá atvinnuvegunum vegna vel og útflutningur aukast, og gæti þá komið til nýrrar tekjuöflunar hjá almenningi í landinu.

Ekki hafði þessi löggjöf staðið lengi, þegar þáverandi stjórnarandstæðingar með Sjálfstfl. í broddi fylkingar tóku höndum saman um kauphækkanir og aðrar ráðstafanir til þess að eyðileggja áhrif þessarar löggjafar. S. l. sumar voru þessi mál sótt af kappi, svo sem kunnugt er og skorti þá ekki, að menn voru hvattir til kauphækkunar, og minnist ég þess, að Alþýðublaðið, blað núverandi hæstv. ríkisstj., spurði um það, hvernig stæði á því, að Dagsbrún hækkaði ekki kaupið eins og hinir. Ég held, að hæstv. fjmrh. hefði átt að athuga þá, að sjáandi menn hefðu þurft að sjá og heyrandi að heyra. Þessar aðferðir gengu fram til hausts. Framsfl. fylgdi þessari efnahagslöggjöf eftir betur, en aðrir stuðningsflokkar fyrrv. ríkisstj. Á s. l. hausti lagði hann til, að áfram yrði haldið á þeirri braut, sem mörkuð var, þegar efnahagslöggjöfin var sett og lagði fram till. í fyrrv. ríkisstj. til þess að fylgja eftir því, sem um var raunverulega samið, þegar löggjöfin var sett. Eins og kunnugt er, náðist þá ekki samstaða innan þeirrar ríkisstj. um endanlega lausn þessa máls, og fór því svo sem fór, að ríkisstj. baðst lausnar. Það verður að segja það eins og er, að þeir Alþýðuflokksmenn stóðu ekki á verðinum þá, þó að þeir brigzli öðrum um það núna, að þeir standi ekki á verði og horfi ekki á staðreyndirnar.

Ef efnahagslöggjöfinni frá því í fyrravor og till. Framsfl. í haust hefði verið fylgt eftir, þá stæðum við ekki frammi fyrir þeim vanda, sem við stöndum nú. Ég vil því skírskota til þess í upphafi máls míns nú, þegar hér hafa verið látin falla orð um það, að Framsfl. hafi magnað verðbólgudrauginn.

Þegar við hófum hér störf eftir nýárið í vetur, þá var því lýst yfir úr forsetastóli, að nú skyldu mál leyst innan þings, en ekki utan. Okkar virðulegi, ágæti forseti taldi sig mundu endurheimta virðingu Alþingis, sem mjög hefði skort á að hefði verið þá um skeið. Ég verð að segja það, þó að ég meti þennan hæstv. forseta mjög vel, að þá kunni ég líka vel við þann ágæta forseta, sem var að kveðja forsetastólinn um áramótin og taldi ástæðulaust að segja þetta í hans garð. Hann hafði séð vel fyrir virðingu Alþingis, meðan hann var í forsetastóli og satt að segja kunni ég miklu betur við hann þar, en í því sæti, þar sem hann situr nú. Ef til vill finna einhverjir ástæðu fyrir því, en ég hygg líka, að hæstv. forsrh. muni finna sjálfur ástæðu fyrir því seinna, að þetta er ekki mælt út í bláinn. En hvað hefur svo gerzt? Hvernig hefur málum verið til lykta leitt? Ég veit ekki annað, en það hafi verið ráðstafað í niðurgreiðslur á annað hundrað millj. án þess að tala um það við þm. Ég veit ekki annað, en það hafi verið samið við útveginn án þess að tala um það við alþm. Hæstv. fjmrh. gat um það hér áðan, að það hefði ekki verið vani að gera það. En ég vil segja þessum hæstv. ráðh.: það hefur ekki fyrr setið hér stjórn á Alþ., sem hefur stuðzt við álíka marga þm. og nú er. Ríkisstj. styðst ekki við þingmeirihluta og hefur ekki möguleika til þess að koma löggjöf fram í Alþ. Það var því fullkomin ástæða til þess, að hún bæri sig saman við Alþ., þegar hún tók jafnútgjaldamiklar ákvarðanir og þarna var gert. Og ég vil taka það fram, að ég tel mig ekki bundinn af þessum ákvörðunum hæstv. ríkisstj., enda ekki það skynsamlegar, að það sé ástæða til þess að fylgja þeim eftir. Við þetta er afstaða okkar framsóknarmanna miðuð í grg., sem við höfum lagt fram í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.

Það er nokkur ástæða til að veita sérstaka athygli afgreiðslu þeirra fjárlaga, sem nú er verið að afgreiða. Allt frá því 1950 hefur Framsfl. farið með fjármál í þessu landi. Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. S-M., hefur verið fjmrh. í öll þessi ár. Á þessu tímabili hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um 20 millj., nettóeignaauki ríkissjóðs hefur aukizt um 780 millj. Ríkissjóður hefur haft greiðsluafgang, sem hefur verið ráðstafað, og nú á að ráðstafa um 160 millj. og hefur þessu fé verið varið í framkvæmdir í landinu, til ræktunarsjóðs, byggingarsjóðs sveitanna, veðdeildar Búnaðarbankans, íbúðalána, verkamannabústaða, fiskveiðasjóðs og í aðrar nauðsynlegar framkvæmdir. Á þessu tímabili hafa verið tekin inn á fjárlög stórir fjárlagaliðir, svo sem atvinnuaukningarfé, fé til raforkuframkvæmda. Allt þetta hefur miðað í þá átt að byggja landið og byggja það allt. Það hafa verið stóraukin framlög til sjúkrahúsmála, til atvinnuleysistrygginga er nýr liður, til vísinda í þágu atvinnuveganna, þátttaka í skólakostnaði hefur verið aukin og annað eftir því.

Þó að þetta hafi verið gert á þessu tímabili, hefur þó jafnframt verið unnið að því að lækka beina skatta, svo sem gert var 1950 og 1954, þegar sparifé var gefið frjálst og beinir skattar á einstaklinga voru lækkaðir um 29%. Á s. l. ári voru samþ. skattfríðindi sjómanna og giftra kvenna, sem vinna utan heimilis.

Á allt þetta er vert að minna einmitt nú í sambandi við þá fjárlagaafgreiðslu, sem hér á að fara fram. Það má líka benda á, að það, sem gert hefur verið á þessu tímabili, er allt greitt og meira en það, eins og ég hef þegar tekið fram, en ekki miðað við það, að féð verði greitt af framtíðinni.

Því er ekki að neita, að þrátt fyrir það, þó að svona vel hafi verið á fjármálum ríkisins haldið, eins og ég hef hér greint, þá hafa verið til menn í þessu landi, sem hafa haldið því fram, að betur mætti með þau fara, það væri sukk, sem þyrfti að fjarlægja, mikið mætti spara á fjárlögum. Og meira að segja hæstv. forsrh. hélt því fram í áramótaræðu sinni, að það væri auðvelt að lækka útgjaldaliði fjárlaganna um nokkra tugi milljóna.

Það var því beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir þeirri fjárlagaafgreiðslu, sem nú er að fara fram. Menn biðu eftir því að sjá nú, hvar sukkið hafði verið, sjá nú sparnaðinn; sem var svo auðvelt að leysa af hendi og sjá nú, hvernig þessi nýja forusta í fjármálunum mundi afgreiða fjárlögin. Og hvernig er svo afgreiðslan hjá hæstv. núverandi ríkisstj. og stuðningsliði hennar? Ef ég lít á afgreiðsluna frá sjónarmiði þeirra stjórnarsinna, þá er hún þessi: Þeir ætla að nota til þess að afgreiða fjárlögin í ár 25 millj. kr. greiðsluafgang frá s. 1. ári. Það á að nota 30 millj. af Sogstollum, sem ekki koma heldur aftur. Það á að geyma 20 millj. kr. halla í útflutningssjóði. Og það á að lækka verklegar framkvæmdir og önnur áætluð útgjöld um 49 millj. Því er svo jafnframt lýst yfir í nál. 1. minni hl., að þetta sé ekki hægt að gera nema í eitt sinn, það verði að taka þetta inn á fjárlögin aftur. Og þær viðbætur, sem hafa verið núna samþykktar af skólum, mundu þýða það, að við mundum þurfa að verja til þeirra 5 millj. kr. hærri upphæð á næsta ári. Og hvað segir þá þetta? Þegar þetta er samanlagt, þá kemur út 130 millj. kr. Það eru tekjur, sem ekki er hægt að reikna með, eða lækkanir, sem ekki er hægt að nota aftur, þegar fjárlög verða samin á nýjan leik. Væri það sanngjarnt að fara að kenna þeim, sem við fjármálunum taka um, að þeir séu að leggja á nýja skatta, þegar þeir afla fjár til að mæta þessari fjárþörf? Það væri skrýtið, ef svo væri gert. Og svo er verið að tala um það hér, að það sé verið að afgreiða fjárlög með ábyrgð og framsýni og að við framsóknarmennirnir sýnum hið mesta ábyrgðarleysi í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, þegar við bentum á þetta.

Hér eru nú samt ekki öll kurl komin til grafar, því að þegar litið er á tekjuáætlun fjárlaganna, þá kemur þar annar hlutur upp. Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að menn vildu hafa það svo, að hér væri ekki um ábyrga afstöðu að ræða og hér væri ekki fyrir öllu séð og taldi, að þeir væru með þessu að drótta einhverju að ráðuneytisstjóranum í viðskmrn., sem hefur unnið að þessum málum. En hvað sagði sá ráðuneytisstjóri á fundi fjvn.? Hann sagði um tekjuáætlunina, að hún væri svo teygð, að það mætti ekkert út af bera. Hann lýsti því yfir á fundi fjvn., að það væri ekki hægt að reikna með því, þó að meiri gjaldeyrir væri til umráða á þessu ári, að það væri hægt að nota hann til að flytja inn hátollavörur. Ástæðan væri sú, að þær væru orðnar það háar í verði, það væri erfitt að selja þær og það væri erfitt að fá þá, sem verzla, til þess að verzla með þær. Það væri svo mikið fjármagn bundið í þessum vörum, að þeir, sem við viðskiptin eða verzlunina væru, veigruðu sér við að kaupa mikið af þeim. Þessi maður, þessi ráðunautur ríkisstj., hann lýsti þessu yfir, að þannig væri þetta, hér væri því allt á tæpustu nöf og væri ekki hægt að reikna með betri árangri, þó að gjaldeyrisaðstaðan yrði betri, en búizt væri við. Enn fremur sagði hann, að minnsta tilfærsla á milli flokka í hátollavörunum gæti haft hin mestu áhrif á þessa áætlun, eins og hv. 1. þm. S-M. benti hér á. Ofan á þetta bætist svo, að þegar búið er að teygja tekjuáætlunina á fremstu nöf eftir þessari innflutningsáætlun, sem ég er þegar búinn að sýna fram á að er í rauninni óhugsandi að geti staðizt, þá er aðeins gert ráð fyrir 15 millj. kr. til þess að mæta umframgreiðslum. Sjá allir, hvað hér er langt gengið, þegar fjárlögin eru upp á milljarð, að reikna þá með einum 15 millj. fyrir umframgreiðslum. Þess vegna mun hér bætast nokkuð við þetta, sem ég nefndi hér áðan. Og minn ágæti kunningi, hv. 2. þm. Eyf. (MJ), var að tala um það í sambandi við till. okkar framsóknarmanna um ráðstöfun á greiðsluafgangi s. l. ár, að það væri eins og að ætla sér að byggja húsið, en hugsa ekki um að stífla lækinn, sem flæddi inn á túnið. En hvernig verður með lækinn, þegar á að fara að semja næstu fjárlög? Þá vantar upp í gáttina og ég held, að hann flæði yfir, þó að það sé beðið eftir því núna, að hann flæði ekki inn á túnið, fyrr en kosningar eru um garð gengnar. Það er þessi stefna, sem hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar fylgir, að lifa fram yfir þær.

Þá er komið að sparnaðartill.

Það var fullkomin ástæða til að ætla, að þegar hæstv. núverandi stjórnarlið tæki við fjármálunum, þá mundi vera leitað eftir því að sýna sparnaðartill. Það var nauðsynlegt fyrir þá að sýna sukkið og ég held, að þeir hefðu gjarnan viljað láta það sjást núna fyrir þessar kosningar. Og hverjar eru svo sparnaðartill.? Það er auðvelt að lækka fjárlögin um nokkra tugi milljóna. Jú, vafalaust hefur það verið auðvelt, en merkilegt er, fyrst það er svona auðvelt, að menn skyldu þá ekki finna betri leið, en hér er fundin.

Um alþingiskostnaðinn ætla ég ekki að fara að ræða mikið. En ég verð að segja það, þótt ég að vísu þekki hæstv. fjmrh. sáralítið, en ég bjóst ekki við, að hann væri jafnfyndinn og hann er. Það er ekki nema mjög fáum mönnum gefið að gera skemmtilegt gys að sjálfum sér. En það er hæstv. ríkisstj. að gera með tillögunni um alþingiskostnaðinn. Ég vil benda á það, að á s. l. ári voru þm. heima janúarmánuð, nú komu þeir strax eftir áramót. Það vita allir, að þetta hefur í för með sér aukinn kostnað. Þing stendur nú fram í maí og það er reiknað með aukaþingi í sumar. Í sambandi við það er ferðakostnaður, sem ekki kom til á hinu árinu. Og svo ætlar nú stjórnarliðið sér að fjölga hér alþingismönnum. Einhvern veginn þarf að koma þeim fyrir hér á þessu hæstv. Alþingi, og það verður einhver kostnaður við það að koma inn nýliðunum. Og ég er sannfærður um það, að hæstv. fjmrh. er annaðhvort að gera að gamni sínu eða hann vonar — og það vildi ég nú frekar að væri hans skoðun og ósk, — að þeir nái ekki fram með sína þingmannafjölgun. Það væri vonandi, að svo færi. En annað getur ekki legið á bak við þetta spjall þeirra.

Þá var hæstv, ráðh. að tala hér um Skipaútgerð ríkisins. Það er hægt að benda á það í sambandi við rekstur skipaútgerðarinnar á þessu ári, að hafnargjöld og vörugjöld hafa aukizt. Á s. l. ári fékk skipaútgerðin greiddar skaðabætur, sem ekki koma til greiðslu á þessu ári. Þessar upphæðir samtals eru nærri millj. kr. Það er ekki litið á það, þegar er verið að gera áætlun núna. Og í sambandi við tryggingarnar man ég ekki betur en tryggingagjöldin væru tæpar 3 millj. kr. Ég man heldur ekki betur en forstjóri skipaútgerðarinnar upplýsti, að það væri upp undir 2 millj. kr., er tjónbætur á skipunum frá tryggingunum hafa numið. Það er líka um þessar tryggingar að segja, að skipin eru tryggð fyrir algeru tjóni, og það kostar líka sitt. Þess vegna er sparnaðurinn á þessari tillögu sáralítill. En það var annað: það átti að hækka þessi tryggingagjöld um 700 þús., og það var komið í veg fyrir það, en það var ekki farið að reikna með þeim sparnaði í þeim áætlunum, þegar fjárlögin voru samin.

Ég man það í fyrra, að þegar við þá lækkuðum tillag til iðnskólans í Reykjavík, vegna þess að hann hafði ekki eytt sinni fjárveitingu, þá var litið á það eins og venjulegt tillit framsóknarmanna til Reykjavíkur. Þá var það bara árás á Reykjavík, en ekki neinn sparnaður, sem þar var verið að innleiða. Nú þykir þetta góð og gild vara.

Stærsti liðurinn í sparnaðartillögum hæstv. ríkisstj. er á raforkumálunum. Þegar vinstri stjórnin kom að völdum, hækkaði hún framlag til raforkumálanna um 10 millj. kr. á fjárlögum. Þetta tekur nú stjórnarliðið til baka — og ekki nóg með það, heldur taka þeir 5% af því, sem þá er eftir. Mig minnir, að ég læsi það í blaði stjórnarliðsins, að sparnaður væri fögur hugsjón. Já, mikið held ég að fólkinu, sem þráir rafmagn og situr rafmagnslaust, mikið held ég að því finnist um þessa fögru hugsjón. Ég held, að það lýsi nú samt ekki af henni hjá því, sem ekkert rafmagn fær. En þar þarf ekki að jafna, á milli fólksins, sem í dreifbýlinu býr og ekkert rafmagn fær, þá þarf ekki að hugsa um jöfnuð með tilliti til hinna, sem að rafmagninu sitja. Nei, þá kemur stjórnarliðið og segir: Þetta getur beðið, hér má spara, það er svo fögur hugsjón að spara á þessum lið. — Og nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. Hún segist ætla að leysa þetta mál með því að taka lán. Til þess að hægt verði að sjá fyrir rafmagnsmálunum í ár, eins og til er ætlazt í framkvæmdaáætlun raforkuráðs og til þess að greiða greiðsluhallann af rafveitum og afborgun af erlendum lánum, bráðabirgðalánum, sem þarf að greiða á þessu ári, — til þess að framkvæma 10 ára áætlunina og þá raforkuáætlun, sem raforkuráð hefur samþykkt, þá þurfa þeir að útvega lánsfé, auk þess sem gert er ráð fyrir, að bankarnir láni hér samkv. eldri samningum, um 67 millj. kr. tæpar. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Ætlar hún sér að leysa málið á þennan veg? Ætlar hún sér að útvega auk þess, sem bankarnir lána, sem reiknað er með að séu tæpar 14 millj. kr., að útvega 67 millj. kr.?

Já, það var þá um orlofsmerkin. Ég get tekið undir það með hv. þm. S-Þ., að mér leiddust orlofsmerkin, þegar ég sem sveitarstjóri fór að fást við þau. Ég fór eitthvað að tala um það, hvort það væri ekki hægt að losna við þau og greiða orlofið út með launum. En þá kom til mín fullorðinn maður, Alþýðuflokksmaður, og hann sagði: Nei, þetta er ekki heppilegt. Það er nefnilega mikils virði fyrir okkur að fá þetta greitt í orlofsmerkjum. Ef þú borgar okkur þetta út vikulega eins og hin launin, þá týnist þetta hjá okkur, en þegar þú borgar okkur þetta í orlofsmerkjum og við límum það inn í orlofsbókina okkar, þá eigum við dálitla fjárhæð eftir árið, nokkra upphæð, sem kemur okkur að gagni og við vitum, að við höfum fengið orlofsmerki. — Ég skal segja ykkur það: Það var nokkur hugsjón í þessu máli hjá Sigurjóni Ólafssyni, sem ég held að hafi borið það fyrst fram hér á þingi og ég er sannfærður um það, að honum fyndust örlögin grimm, ef hann væri hér núna og sæi sína gömlu félaga, fyrstu ríkisstjórn Alþfl., sópa þessari hugsjón sinni í burtu.

Um ábyrgðirnar hefur verið rætt hér og ætla ég ekki sérstaklega að fara út í það. Byggingar á jörðum ríkisins eru einnig á þessum lista. Það er þó vitað mál, að það er búið að lofa hærri upphæð í greiðslum, en eftir stendur á fjárl. eða um það bil og þá er ekkert eftir fyrir því, sem kann að koma hér eftir. Það er kannske hægt að gera svona hluti, þegar menn hugsa um að komast aðeins fram yfir nokkra mánuði, en það er ekki hægt, ef menn ætla sér að lifa eitthvað lengur.

Hæstv. fjmrh. tók það fram hér áðan í sambandi við niðurskurðinn á verklegu framkvæmdunum, að þetta væri í raun og veru enginn niðurskurður, vegna þess að kaupgjaldið í landinu hefði lækkað frá því í fyrra og það ynnist meira fyrir þessar upphæðir núna, en í fyrra. En sannleikurinn í málinu er sá, að kaupgjaldið núna er hærra, en það var í fyrra. Þess vegna vinnst minna fyrir upphæðirnar núna, en vannst þá. Þetta getur hæstv. fjmrh. kynnt sér, ef hann hefur ekki vitað um það áður — og kannske hættir hann við niðurskurðinn, þegar hann fær þessi sannindi í hendurnar. Það er nefnilega ekki þetta, að kaupgjaldið sé lægra núna, heldur er það hærra.

Ein af þessum sparnaðartillögum þeirra, sem sprottnar eru af fögru hugsjónunum, er að taka út framlag til Menntaskólans í Reykjavík, lækka til Menntaskólans á Akureyri og Sjómannaskólans hér. Ég verð að segja það eins og er, að mér finnast þetta heldur kaldar kveðjur. Það er búið á nokkru árabili að vera með þessa liði á fjárlögum og það er búið að veita til Menntaskólans í Reykjavík tæpar 10 millj. kr., á Akureyri yfir 4 millj., Stjórnarráðshússins 7 millj. kr. — og svo förum við nú að sópa þessu öllu í burtu og við segjum, að það sé gert vegna þess, að það séu erfiðleikar í landinu. Það er þó sannanlegt, að s. l. ár var reglulegt góðæri og máli mínu til sönnunar vil ég nefna, að það er ætlazt til þess, að tekju- og eignarskatturinn gefi okkur 17 millj. kr. meiri tekjur nú, en árið áður. Það er ekki af því, að neitt hallæri sé í þessu landi, því að fólkinu vegnar vel. Samt þykir nú ástæða til að hafa þetta í sparnaðarliðunum.

Ýmislegt er það fleira, sem maður er nokkuð undrandi yfir. Það var verið að ræða hér um vegaviðhaldið áðan og hv. 2. þm. Eyf. var að tala um það, að við hefðum ekki verið svona sinnaðir í fyrra. Mig minnir nú, að hv. 2. þm. Eyf. væri ekki ánægður við okkur, af því að hann vildi gjarnan fá þessa fjárhæð hækkaða. En hækkunin, sem hefur átt sér stað á viðhaldsfénu, er bara fyrst og fremst miðuð við þær hækkanir, sem hafa orðið síðan og sérstaklega urðu miklar hækkanir hjá bifreiðastjórum á s. l. ári, auk þess sem þjóðvegirnir eru alltaf að lengjast og notkun þeirra að aukast. Það er þess vegna ekki undarlegt, þó að vegaviðhaldið fari hækkandi, og það er mjög fráleitt að ætla sér að lækka viðhald til þjóðvega, á sama tíma sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að ná verulegu fjármagni af innflutningi á bílum.

Það hefur hér verið rætt nokkuð um barnaskólana í sambandi við þennan niðurskurð. Það verður að segjast alveg eins og er, að það var auðvitað miklu eðlilegri máti að taka ekki fjárframlag til jafnmargra nýrra skóla inn á þessu ári eins og gert var, en að fara svona aftan að siðunum. Því er þannig varið, að þegar búið er að taka skóla inn á fjárlög, þá verður að ljúka greiðslunni á fimm árum. Og við það var miðað í frv., það gerði ráð fyrir fullum fjárveitingum handa þeim skólum, sem byrjað var á. Og það var auðvitað miklu eðlilegra, fyrst hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að fara að höggva í þennan lið, að byrja á færri nýjum skólum.

Ég minnist þess nú, að þegar fjárlög voru afgreidd hér 1957, þá var hækkað framlag til íþróttasjóðs úr 1200 þús. í 1600 þús. Þá var fjárþörf þessa sjóðs 8.4 millj. kr. Nú er hún 13.1. Samt þykir ástæða til að lækka nú liðinn um 5%. Ég man ekki betur en þá væri flutt hér á Alþingi till. um, að til Laugardals gengi 1 eða jafnvel 2 millj. Nú sé ég að vísu, að það er komin hér till. um 500 þús. og væri það eðlileg hækkun til íþróttasjóðs. En skrýtið finnst mér, að það skuli nú hafa verið lagt í þennan lið og höggvið á hann einnig.

Þá er það um framlag samkv. jarðræktarlögum. Hér er auðvitað um áætlunartölur að ræða og ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði haft fullkomna þörf fyrir það, að einhvers staðar hefði verið þannig áætlað, að hún hefði kannske getað haft þar afgang. Þegar fer að líða á árið, munu þeir, sem þá kunna að stjórna, ábyggilega finna fyrir því, að þörf hefði verið á slíku. En núv. hæstv. ríkisstj. telur sig ekki hafa þörf fyrir það. Við bíðum og sjáum, hvað setur. En ekki hef ég trú á því, að hún reynist í þessu öðrum stjórnum fremri um að halda fjárlagagreiðslum innan þess ramma, sem hugsað er.

Á undanförnum árum höfum við mjög keppt að því að klæða landið, bæði í sandgræðslu og skógrækt. Á s. l. ári var byrjað á því að dreifa áburði úr flugvél í tilraunaskyni í sambandi við sandgræðsluna. Þessi tilraun er hin merkilegasta og það var tekin inn á þetta fjárlagafrv. nokkur fjárhæð í þessu skyni. Nú er samt lagt til að fara í þennan lið allan og sömuleiðis skógræktina og taka 5% af því. Víða er nú við komið og ekki allt af hyggindum gert.

Þó er hér fyrir mér liður, sem vekur sérstaka athygli á sér. Eins og kunnugt er, hafa mörg óhöpp skeð í sambandi við sauðfjárveikivarnirnar, síðan fjárlagafrv. var samið. Upp kom í Dalasýslu sauðfjárveiki sunnan girðingar, meiri en reiknað hafði verið með, og það, sem mest er þó og hættulegast, er það tilfelli, sem kom upp á Reykjanesi nú fyrir stuttu. Samt lætur hæstv. ríkisstj. sér detta í hug að lækka liðinn til sauðfjárveikivarna, miðað við girðingar, um 5%. Ég hef ekki trú á því, að t. d. hv. þm. N-Ísf., sem flytur hér á Alþ. þáltill. um, að það skuli gera allt til þess að koma í veg fyrir, að sýkin komist til Vestfjarða, eins og mikla nauðsyn ber til, geti látið sér detta í hug að fylgja þessari till. Hér er ekki verið að hugsa um það, hvað er hægt, aðeins hugsað um það eitt, hvernig hægt er að krækja saman þeim endum, sem ríkisstj. þarf að krækja saman til þess að sýnast fram yfir kosningar.

Og þá er hér smáliður, sem er til vatnsveitna. Þessi liður hefur staðið óhreyfður um nokkurt skeið. Umsóknir munu vera yfir hálfa aðra millj., en liðurinn er aðeins 600 þús. kr. Samt er tekið af honum, til þess að enn þá færri njóti, en áður var og nauðsyn bar til.

Og svo kem ég hér að síðustu að lið, sem ekki er síztur og það er til ríkisspítalanna. Allir vita, að það er verið að byggja stórbyggingu við landsspítalann. Starfsskilyrði prófessoranna, okkar færustu manna, eru þar slík, að þeir hafa varla herbergi til að hafa fataskipti í og verða að skera sjúklinga upp á göngum spítalans. Þeir hafa sýnt mikinn dugnað í sambandi við þessa framkvæmd. Það hefur verið reynt að pota þessari fjárhæð upp og leysa mál þeirra eftir föngum. Nú á að klípa af þessum lið á 3. hundrað þús. Ég verð að segja það, að það er lítill myndarskapur yfir sparnaði, sem svona er framkvæmdur. Og ég skal játa það, að ég hef þá ekki skilið sparnað rétt, ef þetta er sparnaður. Það getur verið undir vissum kringumstæðum eðlilegt að draga framkvæmdir, þegar þannig er ástatt, en það er ekki sparnaður, þó að framkvæmdir séu dregnar og það hefur ekki reynzt okkur til þessa neinn sparnaður fólginn í því. Ég held, að það muni reynast eins í þessu tilfelli.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, að bændur í Þingeyjarsýslu mundu vafalaust benda þm. sinum á það, að hann þyrfti að gá betur að, hvort ekki væri einhvers staðar hægt að spara í ríkisrekstrinum. Ég held, að hæstv. ráðh. þyrfti að leita betur sjálfur að sparnaðartillögum, áður en hann fer að krukka í fjárl., eins og hér hefur verið gert.

Ég er á því, að leitin hafi ekki reynzt eins létt hjá hæstv. forsrh. að sparnaðartillögunum og hann hélt um áramótin, fyrst hann fór að skera í hafnarbótasjóðinn.

Nei, það, sem vekur sérstaka athygli, er þetta: Það eru engar sparnaðartillögur í þessu. Hér er aðeins um frestun á framkvæmdum að ræða og svo hitt, að áætla tölur án tillits til þess, hvað þær raunverulega verða.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, að það væri nauðsynlegt fyrir okkur Framsfl.-menn að reikna það út, hvað dýrtíðin hefði kostað. Honum og eins hv. 2. þm. Eyf. virtist koma það illa, þegar við framsóknarmenn vorum að benda á það með tölum, hvernig fé hefði verið ráðstafað í sambandi við niðurgreiðslurnar. Ég vil endurtaka, að það hefði verið þeim hv. Alþfl.-mönnum hyggilegra að athuga fyrr, að vinnubrögð þeirra í fyrrv. ríkisstj. voru ekki heppileg og koma þeim nú í koll.

Hv. 2. þm. Eyf. var mjög hneykslaður yfir því ábyrgðarleysi og því lýðskrumi, sem kæmi fram hjá okkur framsóknarmönnum í fjvn., yfir því, að við skyldum engar till. gera í sambandi við útflutningssjóðinn og afkomuna í heild. Ég hef drepið á það hér að framan. En skyldi nokkurn undra, þó að þessi hv. þm. væri nú hneykslaður? Þeir voru ekki seinir á sér, hv. sjálfstæðismenn, að bera fram sínar tillögur, þegar fyrrv. ríkisstj. sat að völdum. Þá komu þær bara vaðandi hér inn í d. fyrirhafnarlaust, — eða var ekki svo? Nei, mig minnir, að þá væri ekki hægt að bera þær fram, af því að þeir sætu ekki í ríkisstj., þá skorti allt, sem þyrfti, til þess að bera fram slíkar tillögur. Það er ekki að undra, þó að slíkir menn tali svo um lýðskrum og ábyrgðarleysi. — Og hvað er svo afgreiðsla fjárl. núna? Ber hún vott um mikla ábyrgð? Ég hef þegar bent á það. Það á að reyna að krækja saman með tekjuliðum, sem ekki er hægt að nota nema í þetta eina sinn og svo á að teygja tekjuáætlunina langt fram yfir það, sem hugsanlegt er að hún standist, og svo á að kalla þá, sem benda á þetta, sérstaka lýðskrumara og ábyrgðarlausa.

Já, það er nokkuð skrýtið. Ég verð að segja það, að mér finnst afgreiðsla þessara fjárl. að mörgu leyti merkileg. Það er ekki amalegt fyrir okkur framsóknarmennina að fara út um landið með þetta plagg, sýna sparnaðartill. hæstv. ríkisstj., sýna sukkið hjá hæstv. fyrrv. fjmrh., sem er fólgið í þessum liðum, sem hér eru. Fólkið verður ekki undrandi, þó að hafi þurft að taka í lurginn á slíkum fjmrh. — Nei, það er alveg furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki finna eina einustu till., sem gat heitið sparnaður og hún gat flaggað með. Ég verð að segja það, að ég stend mjög ráðþrota frammi fyrir því, að þeir skyldu vera svo litlir karlar. Hitt verð ég að segja, að það er öruggt, að hæstv. ráðh. þurfa ekki að kvíða því, að þeir verði skammaðir fyrir tekjuafgangana, sem þeir skilja eftir handa eftirmönnum sínum. En það getur verið, að þá finnist eitthvað af óreiðunni, skuldum, sem hv. þm. voru hér að tala mikið um í vetur, en óreiðan var bara sjóðir, sem þeir, sem við tóku, nota nú sér til framdráttar.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég endurtaka það, — ég vil spyrja hæstv. ríkisstj. um þetta: Er hún undir það búin að útvega það fjármagn í raforkuplanið, sem þarf til þess að koma fram þeirri framkvæmdaáætlun, sem gerð hefur verið? Og er hún undir það búin, ef henni tekst að koma hér í gegnum Alþ. að nota greiðsluafganginn í sína ríkisframfærslu, — er hún þá undir það búin að útvega byggingarsjóði ríkisins og byggingarsjóði Búnaðarbankans og veðdeildinni nýtt fé?

Á undanförnum árum hefur verið hægt að nota greiðsluafgang ríkissjóðs til framfara í landinu. En nú er skipt um, enda komin ný ríkisstj.

Það væri svo sem ástæða til þess fyrir okkur framsóknarmenn út af fyrir sig að vera ánægðir. En það er ekki ánægja yfir því að sjá, að það eigi að afgreiða fjárlög ríkisins með jafnmiklu gáleysi og ábyrgðarleysi og hér á að gera.