20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

1. mál, fjárlög 1959

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það fer nú að líða svo á nóttina, að ég býst við, að menn hætti að heyra, skilja eða sjá, eins og hæstv. fjmrh. komst svo vel að orði um þessi efni hér í kvöld. Það er þess vegna til lítils að fara að bæta við þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að fá menn til þess að skilja og sjá, hvernig stefnt er um afgreiðslu fjárlaganna, sem hér liggja nú fyrir og till. eru um frá hv. stjórnarstuðningsmönnum.

Það er því aðeins til þess að geta ekki ásakað sjálfan sig eftir á fyrir að hafa látið sinn hlut eftir liggja í þessum efnum, að ég segi hér örfá orð í þessum umræðum. Ég skal ekki hafa þessi orð mörg, enda gerist þess engin þörf, svo ljóst liggur fyrir, hvernig þessar till. tala.

Í nál. hv. 1. minni hl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Afgreiðsla fjárlaganna hlaut að markast af þeirri stefnu, er mörkuð yrði í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar .... beri að afla þeirra tekna án þess að hækka almenna skatta eða tolla.“

Það er því ekki að efa það, að hér liggur stefnan fyrir, sú er stjórnarliðar ætla að fylgja. Hún er alveg afmörkuð og skýr. Og hver er þá þessi stefna og á hverju á þjóðin von í þessum efnahagsmálum sínum í framtíðinni, ef núv. stjórnarflokkar ráða þar einhverju um í næstu framtíð? Sjálfsagt er þó hér svo hægt og svo varlega af stað farið í þessari stefnu, að meira mun von í framtíðinni og stærri skrefa í stefnunni, þegar frá líður. Það er sjálfsagt ekki talið varlegt að byrja mjög stórum skrefum við að sýna þessa stefnu, svo frýnileg virðist hún ekki vera, þegar á hana er litið og allra sízt nú undir tvennar kosningar.

Þessi stefna, sem kemur fram í þessum till. hv. 1. minni hl., er í fáum orðum þessi: Skera niður allar verklegar framkvæmdir, byrja með 5% og enda — ja, hvar? Kannske verða það orðin 50% eftir eitt til tvö ár, ef þessir aðilar fengju þar um að ráða. Í öðru lagi færa inn fullkomið ábyrgðarleysi og sýndarmennsku um meðferð fjármála, eins og ljóst er af þeim liðum, sem þeir taka til niðurfærslu í þessum efnum. Og í þriðja lagi setja inn óskhyggju talna, en láta staðreyndir lönd og leið, m. ö. o. blekkja um, hvað hægt sé að gera og hvað ekki sé hægt að gera. Þetta er þá stefnan. Og hún liggur alveg ljós fyrir þjóðinni eftir þessum tillögum, sem fram eru lagðar. Það verður ekki annað lesið út úr þessari stefnu og skal ég nú benda á það með örfáum orðum og ljósum dæmum, að svo er.

Niðurskurðurinn er alveg augljós, 5% á flestar verklegar framkvæmdir, en auk þess stórir liðir stórlega lækkaðir um framkvæmdir eða alveg þurrkaðir í burtu. Má þar fyrst nefna t. d. raforkuframkvæmdirnar, 10 milljónir, alveg þurrkað út. Og það er sagt, að í stað þess eigi að koma lán, sem verði tekin til þessara framkvæmda. En hvar er trygging fyrir, að það komi? Það er gengið hér inn á nýja leið í þessum efnum, í þessum aðaláhugamálum dreifbýlisins um að fá raforkuframkvæmdirnar áfram og haldið áfram 10 ára áætluninni og stuðningur ríkisins við það er alveg þurrkaður burt. Flugvellirnir eru stórlega lækkaðir, eins og bent hefur verið á og allt féð, sem lagt hefur verið til hliðar til framkvæmda í framtíðinni og má þar benda á í till. hv. 1. minni hl. til stjórnarráðsbyggingar, til skólanna, Menntaskólans á Akureyri og í Reykjavík, það er tekið í burtu. Það er búskapurinn, sem nú á að taka upp, að passa að safna ekki fyrir fé til þeirra framkvæmda, sem eru stórar og verður að safna til, ef á að vera hægt að framkvæma þær einhvern tíma. Atvinnuaukningarfé er stórlega lækkað, og allt er eftir þessu.

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ), frsm. 1. minni hl. n., talaði hér um bónda, tók líkingu af því, sem þyrfti að verja jörð sína, hvort hann mundi ekki fyrst byrja á því að byggja flóðgarðinn til þess að verja land sitt, áður en hann færi í byggingarnar. Jú, það er sjálfsagt alveg rétt. Hann mundi gera það. En ég hygg, að hann mundi reyna að hafa varnargarðinn traustari, en hér er gert í þessum till. og ég hygg líka, að það væri lélegur bóndi, sem hugsaði eingöngu um varnirnar, en ekkert um það að byggja upp. Til hvers eru varnirnar þá, ef hætt er öllum framkvæmdum? Myndarlegur bóndi mundi vitanlega bæði reyna að verja jörð sína og um leið að byggja upp, því að ella er vörnin ónýt. Ef við gefumst upp við verklegar framkvæmdir í landinu, eins og hér virðist vera stefnt að, þá er vitanlega til lítils unnið á aðra hliðina. Till. hv. minni hluta í þessum efnum benda allar í þessa átt.

Þá sagði hv. frsm. 1. minni hl. enn fremur, að Framsfl. sýndi sérstaklega ábyrgðarleysi við afgreiðslu þessara mála. Mér sýnist, að það sé hann einn, eins og alltaf hefur verið, sem sýnir fulla ábyrgð um það, að fjárlög séu afgreidd eins og raunveruleikinn liggur fyrir, en ekki eftir einhverri sýndarmennsku og eftir einhverri óskhyggju, sem kemur alls staðar fram í gegnum þessar tillögur, sem 1. minni hl. ber fram. Það er vitað mál, að þær geta ekki staðizt, þessar áætlanir, sem hann er með, það hljóta alveg óumflýjanlega, ef þessu er framfylgt, að myndast meiri skuldir, en verið hefur hjá fyrirtækjum hvarvetna, og sömuleiðis hlýtur líka að verða að koma fram margvíslegum lagabreytingum, ef þessar till. eiga að ná sínum tilgangi.

Þetta er eins á öllum sviðum. Hæstv. fjmrh. bar sig að vísu mjög mannalega og sagði, að ríkisstj. hefði gert allt í raun og veru, sem þyrfti að gera og hún hefði lofað, hún hefði fært allt niður og allt væri í raun og veru í bezta lagi. Þó að búið sé að sýna honum fram á, hversu óraunhæfar þessar till. eru, sem fram eru bornar, þá er hans svar ekki annað en það, að þetta sé allt saman í bezta lagi, það sé eins og það eigi að vera, og detta manni helzt í hug, þegar maður hlustar á hann, þessí orð: „Vakri-Skjóni hann skal heita, honum mun ég nafnið veita, þó að meri það sé brún.“

Það er augljóst mál, að ef ekki verður annað gert í þessum efnum, en afgreiða fjárlög eftir þessu, þá verður komið í strand og stórlega skuldasöfnun, sem safnast hvarvetna, bæði hjá fyrirtækjum og öðru, sem nú er sýnt að eigi að skera niður. Ég álít því, að það sé fullkomið ábyrgðarleysi að afgreiða fjárlög, eins og nú standa sakir, eftir þessum till., sem hér liggja fyrir frá hv. 1. minni hl., og tel, að það þurfi, — ég vil ekki fara að fara út í einstaka liði, það er búið að rekja það svo rækilega áður og þess er engin þörf, — en ég vildi aðeins árétta það, að það er sjáanlegur hlutur, að það verður stórlegur halli á fjárlögum, ef þessar till. verða samþykktar og fjárlög afgreidd eftir því.