20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

1. mál, fjárlög 1959

Eysteinn Jónsson:

Ég vil fyrst mæla hérna nokkur orð fyrir tillögum, sem við þm. S-M. flytjum á tveimur þskj.

Það er þá fyrst, að við leggjum til, að framlag til Eiðaskóla til að byggja á Eiðum hækki úr 136.500 kr. upp í 436.500 kr., eða um 300 þús. kr. Á Eiðum hefur undanfarið verið unnið að byggingu verknámshúss, allmikillar byggingar, en miðar seint áfram vegna þess, hve fjárveitingar hafa verið lágar. Þó mundi nú taka steininn úr, ef ekki fengist meira en gert er ráð fyrir í till. fjvn. Kostnaðaráætlun þessa húss hefur hækkað allverulega á síðustu missirum og þess vegna mun það taka nokkur ár að koma því upp, ef ekki fæst meira fé, en nú er gert ráð fyrir. Ég vil leyfa mér að vonast eftir því, að hv. fjvn, treysti sér til að mæla með þessari till. og taka hana til greina og er ekki ósennilegt að við, við atkvgr. mundum taka hana til baka til 3. umr., til þess að hún yrði skoðuð nánar.

Þá eigum við 3 till. á þskj. 424.

Það er fyrst till. um, að framlag til hafnargerðar á Búðareyri við Reyðarfjörð verði hækkað úr 50 þús. í 150 þús. kr. Hér er um verulega stóra framkvæmd að ræða og því óviðeigandi að veita svo lága fjárhæð eins og 50 þús. kr. til hennar og viljum við mjög eindregið óska eftir því, að hv. Alþ. vildi fallast á þessa brtt. og veita þess í stað 150 þús. kr.

Þá er till. um að hækka framlag til hafnargerðar á Eskifirði úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr. Þar stendur yfir mjög þýðingarmikil bryggjugerð, sem hefur ákaflega mikla þýðingu fyrir plássið og mundi satt að segja miða sorglega lítið áfram, ef eingöngu væru veittar þessar 100 þús. kr. En ofurlítið mundi þó miða betur, ef fallizt yrði á þessa brtt. Teljum við henni mjög í hóf stillt.

Loks eigum við þarna brtt., afar þýðingarmikla. Hún er um að hækka fjárveitingu til Norðfjarðarflugvallar úr 300 þús. kr., sem 1. minni hl. eða fulltrúar stjórnarliðsins leggja til, — að hækka þessar 300 þús. kr. í 800 þús. kr.

Ég gat um það hér fyrr í dag, að gert var ráð fyrir að ljúka þessum flugvelli á fjórum árum og það mundi verða mögulegt a. m. k. að ljúka honum á 5 árum, þremur árum hér frá, ef fengist 800 þús. kr. fjárveiting. En ef ætti að veita eingöngu 300 þús. kr., mundi taka 8 ár að ljúka við þennan flugvöll. Slíkt er alveg óhæfa að okkar dómi og ég vona að dómi allra, sem kynna sér þetta mál. Leggjum við því til, að þessi fjárveiting verði færð í 800 þús. kr. og þá veitt álíka mikið og raunverulega hefur verið látið til þessarar flugvallargerðar á undanförnum tveimur árum árlega. Væri þá hægt að ljúka þessum velli á 5 árum alls, í stað þess að áður hafði verið gert ráð fyrir 4 árum alls.

Þá vil ég svara nokkru af því, sem fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh. og hv. frsm. 1. minni hl. fjvn., en þeir véku mjög að því, sem ég sagði í kvöld, í sínum ræðum. Kemst ég ekki hjá að svara því að nokkru, þótt áliðið sé orðið nætur.

Hæstv. fjmrh, sagði, að við framsóknarmenn gerðum okkur það til dundurs að leggja saman niðurgreiðslur þær hinar nýju, sem stjórnin og stjórnarflokkarnir hefðu efnt til og jafna þessum fjárhæðum saman við fjárveitingar til verklegra framkvæmda á fjárlögunum. Hann talaði um þetta í hæðnistón og jafnvel fullur af glensi, hæstv. ráðh. Honum virtist vera þetta mikið léttúðarmál og hafa gaman af, að þetta skyldi vera gert. En ég vil segja hæstv. ráðh. það alveg í fullri alvöru, að þetta er ekkert léttúðarmál eða nokkurt glens, sem hér er á ferðinni og þessi samanburður er gerður til þess að sýna þjóðinni það, hvert stefnt er af núv. ráðamönnum í þessum málum, þar sem þeir ráðast í hverja niðurborgunina annarri kostnaðarsamari og leggja svo til, að þessu fé sé mætt með því að skera niður verklegar framkvæmdir á fjárlögunum. Það er þess vegna engan veginn út í bláinn að bera þetta tvennt saman, eins og hæstv. ráðh. vildi láta í skína. Þvert á móti er það augljóst, að ekkert er þjóðinni nauðsynlegra, en að fá einmitt hugmynd um það, hvað verið er að gera með þessu niðurgreiðslufargani og hvað bíður framfaranna í landinu, ef þessu verður haldið áfram.

Ég get ekki heldur stillt mig um í sambandi við þetta að benda einmitt á þann hugsunarhátt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. út af þessu. Hann sagði, að menn skyldu bara gera sér grein fyrir því, hvað gerðist eða hafði gerzt eða mundi gerast hér í landinu varðandi vöxt dýrtíðarinnar, ef ekki væri þessi háttur á hafður, sem sé sá háttur að greiða niður og nota framkvæmdaféð til þess. Samkv. þessum skilningi hæstv. ráðh. á verðbólgunni og dýrtíðarmálunum virðist það vera í hans huga eins konar náttúrulögmál, að verðbólgan hljóti að halda áfram að vaxa, það verði haldið áfram að nota vísitöluspóluna til þess að skrúfa hana upp og að engin leið sé til í þessu efni önnur en sú að kasta síðan framkvæmdafénu í gin þessarar sívaxandi verðbólgu, sem eigi sér stað eftir einhverju alveg ófrávíkjanlegu náttúrulögmáli, sem ekkert verði við ráðið. Þetta er hugsunarháttur hæstv, ráðherra. Þetta er hugsunarháttur þeirra manna, sem tala fyrir þeirri stefnu, sem mótar þetta fjárlfrv. eða þessa afgreiðslu á fjárlögunum, sem nú er verið að standa að. Og menn, sem hugsa svona, menn, sem hugsa á þennan hátt, að menn megi bara þakka fyrir það, að framkvæmdafénu sé kastað í þessa hít, því að annars komi annað verra, — hvert fara þeir með þessi mál?

Þeir halda áfram að kasta fyrir ófreskjuna, þangað til allar verklegar framkvæmdir verða þurrkaðar út af fjárlögunum. Þeir halda áfram að kaupa sér stundarfrið þangað til.

Það er þess vegna ekkert út í bláinn, að þjóðin skoði annars vegar, hverju kostað er til nýrra niðurgreiðslna og hins vegar, hve miklu fé er varið í verklegar framkvæmdir og framfarir víðs vegar um landið, því að hvað endist þessum mönnum lengi það fé, sem fer til verklegra framkvæmda, ef þeir fara fram sem nú horfir. Þetta er bara byrjunin, bara lítil byrjun, sem við sjáum núna, bara svona til prófs fyrir kosningar. Eftir kosningarnar er meiningin að halda þessari stefnu áfram. Þessi hugsunarháttur á að ráða: Verðbólgan sé eins konar náttúrulögmál, sem enginn geti við ráðið, og menn megi bara þakka fyrir, að það sé kastað í þá hít í niðurgreiðsluformi því fjármagni, sem áður hefur verið varið til framfaranna í landinu. Það er eins og þessir menn séu komnir í álög. Ég þekkti ekki þennan hugsunarhátt hjá hæstv. fjmrh. áður, sem hér kom fram. Ég hafði vanizt því, að hann hugsaði um þetta mál þannig, að það þyrfti að gera ráðstafanir, raunverulegar ráðstafanir til þess að taka vísitöluspóluna úr sambandi við kaupgjald og afurðaverð og koma þannig í veg fyrir þennan brjálaða víxlgang í þessum efnum og gera aðrar slíkar raunhæfar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna.

Þá hafði ég gert grein fyrir innflutningsáætluninni og bent á, að með því að áætla tekjurnar eins og gert er og byggja það á innflutningi hátollavara og lækka innflutning fjárfestingarvara að sama skapi og jafnvel helztu neyzluvara og rekstrarvara til framleiðslunnar væri stefnt í sjálfheldu, sem hlyti að enda með öðru hvoru, að tekjuáætlunin hlyti að svíkja stórkostlega eða þá að almennar neyzluvörur og brýnustu nauðsynjar hlyti að vanta, en landið verða fyllt af lúxusvörum. Þessu svaraði hæstv. ráðh. bókstaflega engu. Það, sem hann sagði um þetta, var hreinlega út í hött. Hann fór að greina frá því, að ég hefði verið að deila á þá sérfræðinga, sem hefðu samið gjaldeyrisáætlunina, áætlunina um útflutninginn og gjaldeyristekjurnar. Ég minntist ekki á þessa áætlun einu orði og deildi ekkert á þá menn, sem að henni stóðu. Ég vefengdi þá áætlun, gjaldeyristekjuáætlunina, ekki í neinu. Það, sem ég gerði, var að vefengja eða benda á veilurnar í þeirri innflutningsáætlun, í þeirri áætlun um það, hvernig gjaldeyrinum yrði varið, sem hæstv. ráðh. og hans pólitísku hjálparmenn hafa gert, en ekki sérfræðingarnir í stjórnarráðinu. Þessar dylgjur hæstv. ráðh. um það, að ég hafi verið að ráðast hér á embættismenn, sem ekki bera neina pólitíska ábyrgð, eru þess vegna ósæmandi og alveg út í hött og bara til þess að leiða athyglina frá höfuðatriðinu, sem hæstv. ráðh. treysti sér ekki til þess að ræða, hvað þá heldur verja.

Kem ég þá að því, sem hæstv. ráðh. sagði um innflutningsáætlunina, sem var höfuðmálið. Það eina, sem hann sagði efnislega um innflutningsáætlunina, var það, að bankarnir hefðu fengið fyrirmæli um að verja tiltekinni fjárhæð til þess að láta kaupa fyrir hátollavörur. Um það höfðu verið gefin út skýr fyrirmæli, svo sem menn skyldu ekki hafa áhyggjur af neinu. Það var það eina, sem máli skipti að dómi hæstv. ráðh., að það væru nægilega skýr fyrirmæli til bankanna um það, að innflutningur lúxusvara skyldi sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru. Og það var ekki laust við, að hæstv. ráðh. væri hróðugur, þegar hann var að lýsa því, hvað þessi fyrirmæli væru skýr, því að hann tók það fram, held ég, tvisvar eða þrisvar, hvað þau væru greinileg, fyrirmælin, sagði hæstv. ráðh. Og hann gerði meira, hann var að útskýra það í talsvert löngu máli, hvað hann stæði miklu myndarlegar að þessu, en fyrrv. ríkisstj., því að hún hefði gefið mjög ógreinileg fyrirmæli um innflutninginn á lúxusvörunum og þess vegna hefði það farið svo hjá henni, að þar hefði allt of mikið orðið flutt inn af nauðsynjum, en of lítið af lúxusvörunum. En nú skyldi þetta ekki koma fyrir aftur, því að þessi fyrirmæli væru það greinileg, að menn ættu ekki neinar áhyggjur að hafa. Stefnan væri klár og framkvæmdin í góðum höndum og þar vel frá öllu gengið. Já, þetta er nú ekki neitt lítið til þess að státa af.

Mér sýnist á hinn bóginn hér stefna heldur óvænlega, þegar litið er á gjaldeyrisáætlunina í heild og þessi fyrirmæli, sem hæstv. ráðh. er svo hreykinn af, að hann hafi gefið bönkunum eða stjórnin. Þegar litið er á þetta tvennt og svo að hinu leytinu á það, hvernig horfir þá með innflutning á öðrum vörum, því að það þarf ekki lengi að skoða innflutningsáætlunina, sem liggur fyrir og ég ræddi hér í kvöld eða í dag, til þess að sjá fullgreinilega, að það verður þröngt fyrir dyrum um innflutning helztu nauðsynja, ef það á að standa á þessum fyrirmælum, sem ríkisstj. hefur gefið bönkunum, — hvernig lízt mönnum yfirleitt á þessa stefnu? Hvernig skyldi landsmönnum lítast á þessa stefnu, þegar þeir fara að átta sig á því, hvað verið er að gera? Ég er hræddur um, að margir verði undrandi yfir þessu og ekki alveg eins hrifnir og hæstv. ráðh. sýndist vera af þessum margumtöluðu „fyrirmælum“, sem hefðu verið gefin. Hæstv. ráðh. tók þannig til orða í þessu sambandi, að í fyrra hefði verið of lágt úthlutað í hátollavörur framan af árinu. — Fyrr máttu nú vera mistökin. — Og þess vegna varð of lítið af þeim, sagði hæstv. ráðh. En sem sagt, menn skyldu ekki hafa áhyggjur af þessu, það yrði séð um þetta núna.

Þá minntist hæstv. ráðh. nokkuð á Sogsvirkjunartollana og hann sagði, að seðlabankinn mundi taka að sér að annast sölu skuldabréfanna og jafnvel tryggja það, að bréfin seldust upp og ef rafmagnsvísitalan yrði notuð, þá reiknaði hann með því, að seðlabankinn tæki ábyrgð á því, að bréfin seldust upp og hann treysti því, að það yrði svo í framkvæmd, sagði hæstv. ráðh. Allar eru nú þessar yfirlýsingar hæfilega loðnar hjá hæstv. ráðh. En það segi ég alveg hiklaust, að ef seðlabankinn tekur það að sér að kaupa sjálfur þessi bréf, án þess að geta selt almenningi þau, þá er þar verið að gera ráðstöfun, sem er hreinlega verðbólguaukandi, því að það verkar nákvæmlega eins og halli á fjárlögunum, sem því svarar, sem jafnaður er þá með lánum úr seðlabankanum og er það í raun og veru, þegar dýpra og rétt er skoðað, engin tekjuöflun, heldur aðeins halli eða hluti af halla, sem fengið er fjármagn til með lántöku í þessu formi. Ætla ég, að hver fjmrh. ætti að þurfa að átta sig á þessu, því ef menn þykjast vera að vinna á móti verðbólgunni og áframhaldandi vexti hennar, þá þýðir ekki að hugsa sér að ætla að gera það með því að taka fé einmitt með verðbólguaukandi móti til þess að kasta í hítina. Þess vegna er það, að öll þessi hallaafgreiðsla á efnahagsmálunum stefnir vitaskuld alls ekki á nokkurn hátt að því að stöðva verðbólguna, heldur mun hún verða til þess í reyndinni að stórauka skrið verðbólgunnar. Það er aðeins verið að kaupa stundarfró og við vitum, til hvers sú stund á að notast. Hún á að notast til þess, að stjórnin geti hangið, á meðan er verið að koma kjördæmabreytingunni fram.

Hæstv. ráðh. sagði hvað eftir annað í sinni ræðu, að menn mættu ekkert kippa sér, upp við það, þó að það ætti að lækka verklegar framkvæmdir um 5%, menn ættu líka að vera þakklátir fyrir það. Það var tónninn: Menn ættu líka að vera þakklátir fyrir það, því að það væri bara liður í svo miklu stærra máli, vegna þess að ráðstafanir ríkisstj, hefðu lækkað þannig vísitöluna, að það væri alveg óhætt að gera þennan niðurskurð, — það væri í raun og veru enginn niðurskurður, því að vísitalan hefði lækkað kostnaðinn við framkvæmdirnar svo mikið á móti. En hæstv. ráðh. gleymdi bara að geta þess, að þrátt fyrir lækkun vísitölunnar er kostnaðurinn við framkvæmdirnar núna meiri vegna grunnkaupshækkananna heldur en hann var, þegar fjárlagafrv. var samið og lagt fyrir Alþingi. Þess vegna falla allar þessar hrókaræður um þetta steindauðar niður.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það þyrfti að gera einhverjar ráðstafanir um ábyrgðirnar og þess vegna væri alveg óhætt að lækka áætlunartölur um útgjöld vegna þeirra, eins og ráð væri fyrir gert. Það yrði að sýna festu í því að láta menn greiða af ábyrgðarskuldum o. s. frv. Hann hefði sannfært sig um, að þessar 20 millj. mundu duga. Væri ekki viss um, á hverju fyrrv. ráðh. hefði byggt 30 millj. kr. áætlun. Máske væri það vegna yfirvofandi tjóns í sambandi við ábyrgðir út af Flugfélagi Íslands.

Þessu er nú því til að svara, að það er létt í vasa að tala um „einhverjar ráðstafanir“ varðandi ábyrgðirnar. Þær eru staðreynd, sem ekki verður umflúin. Það er líka létt í vasa að tala um, að hæstv. ráðh. hafi sannfært sig um, að 20 millj. mundu duga, þegar þess er gætt, að ábyrgðartöpin reyndust 23 millj. í fyrra og verulegar ábyrgðir hafa verið teknar síðan, sem nokkuð augljóslega valda töpum, enn fremur þegar þess er gætt, að yfirfærslugjald, sem kemur á margar ábyrgðarskuldbindingar, gilti ekki nema hluta úr árinu í fyrra, en allt árið núna. Ég held, að það hefði þess vegna átt að vera tiltölulega auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að sannfæra sig um, að það er mjög óvarlegt, að ekki sé meira sagt, að gera þessa ráðstöfun, sem hann nú leggur til. Það eina, sem verulega gæti breytt í þessu tilliti, væri það, ef það kæmi mjög mikil síldveiði og síldarverksmiðjurnar gætu greitt af sínum lánum. Við skulum vona, að svo verði, en reynsla undanfarinna ára sýnir alveg glöggt, að það er mjög óvarlegt að gera ráð fyrir því, að síldarverksmiðjurnar geti greitt sjálfar af sínum lánum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að menn ættu ekki að hafa svo miklar áhyggjur af niðurskurði atvinnuaukningarfjárins, vegna þess að atvinnuleysistryggingasjóður væri farinn að lána til framkvæmda. Hér er blandað saman algerlega óskyldu efni og þessi ábending hæstv. ráðh. er engin rök. Atvinnuleysistryggingasjóðurinn lánar aðeins gegn fullgildum tryggingum og helzt alls ekki nema gegn ríkisábyrgð, en atvinnuaukningarféð var einmitt áhættufé, sem lagt var fram til þess, að hægt væri að koma upp nýjum fyrirtækjum á stöðum, þar sem fjármagn er lítið fyrir og einmitt til þess að koma upp framkvæmdum og ríða baggamuninn, eftir að búið var að notfæra sér allar ríkisábyrgðir og alla lántökumöguleika til fulls, hliðstæða þeim, sem atvinnuleysistryggingasjóðurinn gefur nú. Það eru því hrein tyllirök að ætla sér að fara að vísa til lánveitinga úr atvinnuleysistryggingasjóðnum til þess að bæta úr því tjóni, sem það hlýtur að verða fyrir fjöldamörg byggðarlög í landinu, að nú á að fara að skera niður atvinnuaukningarféð og fleygja því eða nota það eins og fóður fyrir dýrtíðarspóluna, sem hæstv. stjórn og hennar lið hefur auðvitað alls ekki tekið úr neinu sambandi, en er í fullu gildi enn.

Þá var svo að heyra sem hæstv. ráðh. þætti það bara gott að taka nú út af fjárl. þá fjárhæð, sem þangað var sett til þess að standa undir kostnaði við byggingu Stjórnarráðshúss í tilefni af 50 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi og hann sagði, að það væri öllu óhætt, það væru til 8 millj. í þessu skyni og það væri hægt að byggja stjórnarráð fyrir 12 millj. kr. Það mundi ekki verða ómyndarlegt Stjórnarráðshús, sem væri byggt núna fyrir 12 millj. kr. Það er sjálfsagt öllu óhætt að dómi hæstv. ráðh. Það eru til 8 millj., og stjórnarráðsbygging kostar 12 millj. En ég hefði nú álitið, að það hefði verið ögn minni kotungsblær á því að halda áfram að leggja fyrir, þótt ekki væri nema svona litla fjárhæð á hverju ári, til þess að geta einhvern tíma byggt sómasamlegt hús fyrir stjórnarráðið og ríkisstarfræksluna. En það finnst hæstv. ráðh. ekki, það sé alveg tilvalið að fella nú þetta niður, af því að það séu til 8 millj., þá sé öllu óhætt.

Síðan var hæstv. ráðh. að ræða talsvert mikið um það, að það sæti ekki á mér að vera að ræða um þetta, þar sem ég hefði ekki staðið fyrir því undanfarið, að byrjað væri á byggingu Stjórnarráðshússins og ekki gengið fram fyrir skjöldu, til þess að byggt væri fyrir áfengisverzlun, ríkisútvarp o. s. frv. En hvernig stendur á því, að þessir byggingarsjóðir hafa ekki verið notaðir, sem hafa safnazt hjá þessum stofnunum, — hvernig stendur á því? Það er vegna þess, að þessar stofnanir hafa ekki fengið fjárfestingarleyfi á undanförnum árum og ég hef alls ekki orðið var við, að hæstv. núv. fjmrh. eða aðrir úr því liði yfir höfuð hafi gengið fram fyrir skjöldu til þess að veita þessum stofnunum fjárfestingarleyfi. En þessir hv. þm. hafa á hinn bóginn látið sér sæma það hér á undanförnum árum að vera með alls konar dylgjur í garð ríkisstjórnanna undanfarið fyrir það, að þær hafa neyðzt til þess að leigja húsnæði fyrir stofnanir ríkisins, þegar byggingar fengust ekki framkvæmdar og það situr vel á þessum mönnum, sem þannig hafa hagað sér, að strika nú út af fjárl. þá einu smáfjárhæð, sem veitt er til þess að bæta úr í þessu efni, að ég nú ekki tali um, hvernig þetta lítur út fyrir flokk fyrrv. forsrh., Ólafs Thors, sem stóð fyrir því með miklu yfirlæti á 50 ára afmæli heimastjórnarinnar að gefa út tilkynningu um, að nú hefði stjórnin ákveðið að beita sér fyrir nægilega mikilli fjárveitingu til þess, að myndarlegt stjórnarráðshús gæti fljótlega risið af grunni. Það er ekki ömurlegt hlutskipti fyrir flokk þessa sama hæstv. ráðh. að grafa nú undan þessu minnismerki um 50 ára heimastjórnina, sem til stóð að reisa. Þetta kalla ég kotungshátt.

Þá var komið að því hér, bæði af hæstv. ráðh. og raunar hv. frsm. 1. minni hl. líka, að þeir vildu nú ekki halda því fram, að í þessum till. væri í raun og veru mikill sparnaður, en þeir sögðu, að það væri hægt að spara mikið. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hægt að spara mikið. Ég skrifaði það orðrétt eftir honum, það mætti mikið spara í ríkisbákninu, — það var önnur setning, sem ég skrifaði eftir honum, en það þyrfti tíma til þess. — Það er sem sé hægt að spara mikið, en það þarf tíma. Það er bara ekki hægt núna. Þó voru þessir menn búnir að hafa þrjá og hálfan mánuð til þess að skoða þessi mál og allir eru þeir þaulkunnugir þessum málum fyrir, þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu, að þetta eru yfirleitt sömu mennirnir sem hafa staðið fyrir útþenslu ríkisbáknsins á undanförnum árum og hafa staðið í gegn, bæði forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl., hverri einustu till., sem fram hefur komið úr fjmrn. um sparnað í rekstri ríkisins. Það eru þessir sömu menn, sem núna hafa í þrjá og hálfan mánuð verið að rannsaka þessi mál, sem koma svo hingað og hafa enga till. um neinn sparnað, því að nú er það meira að segja komið upp úr dúrnum, að till. um orlofsmerkin getur ekki komizt í framkvæmd, nema þeir setji sérstaka löggjöf. Það bólar ekki á henni enn þá. Hún á kannske að koma næstu daga. En það eru þessir menn, sem enga till. hafa fram að færa, sem hafa staðið á móti sparnaðinum á undanförnum árum og koma núna og segja: Það er hægt að spara mikið, það er hægt að spara mikið í ríkisbákninu, en það þarf tíma. — Og þeir hafa ekkert til að leggja, ekki núna, — seinna. Hver trúir því, að þessir menn hefðu látið það undir höfuð leggjast núna á örlagastundu, þegar þeir ætla að fara að skera niður verklegar framkvæmdir víðs vegar um landið, — hver trúir því, að þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að koma fram með þessi úrræði núna, ef þeir hefðu þau til? Þvi trúir enginn og sízt þeir sjálfir.

Svo er hæstv. fjmrh. að tala hér allt í einu, alveg upp úr þurru, um það, að hægt sé að leggja niður sendiráð. Í fyrravetur voru till. í ríkisstj. um það að leggja niður sendiráð, m. a. sendiráðið hjá NATO í París. Þá sagði þessi hæstv. ráðh., að það væri ekki hægt að leggja niður neitt sendiráð, stóð á móti því. Batnandi manni er bezt að lifa. Það var sagt áðan, að það væri ekki hægt að leggja niður sendiráð fyrr en um áramót. En bara að hann verði þá ekki aftur búinn að skipta um skoðun fyrir næstu áramót í þessu efni.

Þá sagði hæstv. ráðh. og hv. frsm. 1. minni hl. mun hafa vikið að því líka, að með þessu væri verið að stöðva vöxt verðbólgunnar. Það hefur aldrei verra öfugmæli verið sagt, því að með þeirri afgreiðslu, sem nú er stofnað til á efnahagsmálum landsins og þeim stórfellda halla, sem í þessari afgreiðslu felst, er einmitt verið að magna verðbólguna meira, en nokkru sinni fyrr, eins og augljóst er, ef menn reyna að leiða hugann að því, hvað muni gerast síðast á þessu ári, þegar kemur að skuldadögunum. Og í þessu sambandi dettur mér í hug það, sem hv. frsm. sagði hér áðan einmitt um þetta, hvað verið væri að gera, þegar hann var að tala um stíflugarðinn, sem núverandi stjórn og stjórnarflokkar væru að gera. Ég veit, að allir hv. þm. hafa séð börn leika sér í litlum læk. Þeim dettur það í hug stundum, blessuðum sakleysingjunum, að það sé hægt að stöðva læk með því að hlaða í hann stíflu. En er þetta hægt? Hvað stöðvast lækurinn lengi? Hann stöðvast bara á meðan það er að fyllast fyrir ofan stífluna. Það tekur ekki nema svolitla stund, kannske ekki nema tíu mínútur eða örlitla stund eftir því, hvað lækurinn er stór, sem börnin leika sér í. Alveg nákvæmlega sama er það, sem ríkisstj. og hennar stuðningslið er að gera. Það, sem hún er að gera, er að hlaða stíflu í vatnsfall, en vatnsfallið heldur áfram, það stöðvast ekki nema örlitla stund, á meðan er að fyllast fyrir ofan stífluna. Það eiga að verða þrír mánuðir, fjórir mánuðir. Það á að duga fram yfir kosningar, en eftir kosningarnar, þegar orðið er fullt fyrir ofan stífluna, þá fossar elfan fram með nákvæmlega sama afli og áður, vegna þess að það hefur ekkert verið gert til þess að draga úr rennsli elfunnar.

Ég hef undanfarið verið að hugsa með mér: Hvaða líkingu er bezt að taka um þessa stórfelldu blekkingu, sem núverandi ríkisstj. stendur fyrir? Og viti menn, í kvöld kemur líkingin, sem sýnir betur en nokkuð annað, hvað það er, sem verið er að gera og hún kemur frá sjálfum frsm. 1. minni hl., frá sjálfum höfuðtalsmanni stjórnarliðsins: Það er verið að hlaða stíflu í vatnsfall, sem heldur áfram með nákvæmlega jafnmiklu afli og áður, vatnsfall verðbólgunnar. Og það á með þessu að reyna að láta þjóðina trúa því, að elfan sé hætt að renna, á meðan er að fyllast fyrir ofan stífluna. Það eru þessar aðfarir, sem við erum vitni að.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að illa væri komið fyrir Framsfl. Hann sýndi minnsta ábyrgðartilfinningu allra flokka, meira að segja Alþb. sýndi meiri ábyrgðartilfinningu, en Framsfl. Nú er svo komið, að í augum Sjálfstæðisflokksmanna og Alþýðuflokksmanna er það eitt ábyrgðartilfinning að skera niður verklegar framkvæmdir. Það eitt er ábyrgðartilfinning og svo að fylgja þeirri stefnu að flytja inn lúxusvörur til þess að afla tolla, en láta aðrar vörur vanta í staðinn. Þeir, sem ekki eru með þessu, sýna skort á ábyrgðartilfinningu. Ég tek glaður á mig þann vitnisburð frá hæstv. fjmrh. og hv. sjálfstæðismönnum.

Og svo sögðu þessir menn: Framsfl. víkur sér undan að benda á úrlausnir í efnahagsmálunum. — En þeir ganga bara alveg fram hjá því, að Framsfl. lagði fram sínar till. um lausn efnahagsmálanna í vetur og stendur ábyrgur fyrir þeim till., hvar sem er. Það voru framkvæmanlegar till., þær voru öðruvísi en þær till. eða sú stefna, sem stjórnarflokkarnir hafa tekið upp. Með þessu hefur Framsfl. gert hreint fyrir sínum dyrum. Það er ekki verk Framsfl. að útfæra till. stjórnarliðsins. Það verður stjórnarliðið að gera sjálft. En við höfum með nál. framsóknarmanna í fjvn. gert öfluga tilraun til að sýna þjóðinni fram á, hvert stjórnarliðið og meiri hl. á Alþingi er að fara með sínum till. í efnahagsmálunum. Og það var okkar skylda að gera það. En hitt var ekki okkar skylda: að útfæra þeirra till. Það gera þeir sjálfir. En við höfum okkar eigin till., sem við höfum lagt fram og þjóðin getur borið saman við þeirra leiðir og á þeim till. ætlum við að bera ábyrgð, en ekki öðrum.

Hv. frsm. 1. minni hl. var að tala um það eins og einhverja fjarstæðu, að sjálfstæðismenn hefðu staðið fyrir kauphækkunum hér á s. l. ári, og það væri ánægjulegt fyrir sjálfstæðismenn að vita, ef það væri raunverulega svo, að þeir gætu ráðið öllu um kaupgjald, ef þeir væru í stjórnarandstöðu. Ég ímynda mér, að það megi ráða þó nokkru um kaupgjald með þeim aðferðum, sem Sjálfstfl. hefur viðhaft, því að hann lagði svo mikið við í þessu sambandi, að ef honum fannst vera tregða hjá ýmsum verkalýðsfélögum að ganga út í kauphækkunarkapphlaupið, þá lét hann útsendara atvinnurekendanna bjóða fram kauphækkanir til þess að losa um skriðuna í þeirri grein. Með þessum aðferðum er sjálfsagt hægt að ráða talsvert miklu um kaupgjaldsmál í landinu, ef menn eru svo ábyrgðarlausir að grípa til aðferða af þessari tegund, eins og Sjálfstfl. gerði. Svo er ágætt að koma á eftir og senda mönnum reikning yfir ofreiknað kaup að áeggjan Sjálfstfl., eins og Sjálfstfl. hefur gert í vetur.

Þá sagði þessi hv. þm., að áhyggjur út af því, sem þeir hafi sagt um lánamálin annars vegar og því, sem þeir þyrftu að gera nú í lánamálunum hins vegar, hefðu aldrei haldið andvöku fyrir sjálfstæðismönnum. Um þetta skal ég ekkert segja. Hitt vil ég segja, að hafi það ekki haldið andvöku fyrir þeim, þá hafa þeir sterkari taugar, en maður hefur leyfi til þess að álíta. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. og aðrir honum líkir eru búnir að gleyma því, sem forkólfar Sjálfstfl. hafa látið sér um munn fara í þessum efnum. Í því sambandi vil ég minna á, að í Morgunblaðinu 20. nóv. 1957 stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í svipaðan mund og samið var um nýju hersetuna, fékk vinstri stjórnin stórt dollaralán hjá Bandaríkjunum. Var engin dul dregin á það af hálfu lánveitandans, að þar var um að ræða endurgjald fyrir áframhaldandi varnarstöðvar á Íslandi.“ Síðan segir: „Út yfir tekur niðurlægingin, þegar það er athugað, að ríkisstj., sem lofaði að reka varnarsveitir NATO frá Íslandi, kemur nú með betlistaf til þessara samtaka og biður þau að efna til samskota fyrir sig.“ Síðan kemur úr ræðu eftir formann Sjálfstfl.: „Alls staðar höfðu þeir gengið bónleiðir til búða, hvergi fengið eyri nema fjögurra milljón dollara lánið, sem þeir fengu með því skilyrði, að framlengd yrði dvöl varnarliðsins á Íslandi, þ. e. a. s., að þeir seldu réttinn til að verja landið.“

Í Morgunblaðinu er mikið rætt um sönnun, sem komin sé fram fyrir þessu ódæði og sönnunin er það, sem rússnesk kona hafi sagt austur í Moskvu, kona, sem Tamara heitir, og stendur um það í Morgunblaðinu: „Þar er ekki farið dult með kaupin, sem gerð voru í sambandi við framlengingu varnarsamningsins í fyrra, þótt sum stjórnarblaðanna standist ekki reiðari, en þegar sagt er opinberlega frá því, sem gerðist.“ Það er átt við, að í grein Tamöru í einhverju blaði í Moskvu sé ekki farið dult með þetta og þá þurfti nú ekki frekar vitnanna við. Svona lágt lögðust forkólfar Sjálfstfl. í sambandi við lántökumálin. En þetta minnti ekki lítið á það, þegar kommúnistar voru að ræða um framkvæmdir samstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. einmitt í lánamálunum, því að þá sagði Einar Olgeirsson t. d.:

„Það var ekki af neinum mannúðarhvötum, sem auðvald Bandaríkjanna kom Marshalláætluninni í framkvæmd og það var engin tilvlljun, að samningarnir um Atlantshafsbandalagið voru undirritaðir á ársafmæli Marshalláætlunarinnar. Atlantshafssamningarnir voru bein borgun á Marshallframlögunum.“ Og enn fremur sagði Einar Olgeirsson í umr. á Alþingi 1948: „Í hvert skipti, sem hæstv. ríkisstj. kemur til Washington með nýjan betlilista,“ — það eru nærri því sömu orðin og sjálfstæðismenn notuðu aftur síðar, — „getur hún átt von á því, að hún verði að ganga að nýjum afarkostum.“

M. ö. o.: þetta sýnir, að varðandi lánamálin og framkvæmd þeirra á vegum fyrrv. stjórnar lagðist Sjálfstfl. svo lágt og forkólfar hans, að hann notaði sams konar dylgjur og ósannindi eins og kommúnistarnir höfðu áður notað um Sjálfstfl. og Framsfl.

Og svo héldu þeir áfram og héldu því fram í þokkabót, eins og ég minntist á hér í kvöld, að þessi lán hefðu verið eyðslulán. En nú er það ætlun Sjálfstfl. að standa að sams konar lántöku eftir allt saman og trúi því hver sem trúa vill, að þeir hafi ekki haft áhyggjur af þessum málum, enda er sannleikurinn sá, að þetta gekk svo nærri forkólfum Sjálfstfl., að þeir voru að athuga það vikum saman, hvort það væri ekki mögulegt, að þessi kaleikur yrði tekinn frá þeim, hvort það væri ekki með einhverju móti mögulegt að fleyta þessu öllu fram yfir næstu kosningar, án þess að þeir þyrftu að drekka þennan kaleik í botn líka ásamt öllu hinu, sem þeir höfðu orðið að láta ofan í sig. En eftir vandlega rannsókn, sem stóð vikum saman, var kveðinn upp sá dómur, að þeir yrðu að drekka þennan kaleik í botn, því að ríkisstj. gæti ekki setið með nokkru lifandi móti, ekki einu sinni með öllum töfrabrögðum varðandi fölsun fjárl. og allt slíkt, — gæti ekki setið með nokkru lifandi móti, ekki einu sinni fram yfir fyrri kosningarnar, hvað þá heldur fram yfir síðari kosningarnar, nema þessi lántaka ætti sér stað. Þennan bikar varð því að stinga út. Og það verður gert, alveg á sama hátt og þeir hafa orðið að stinga út úr launahækkunarbikarnum og eyðslu- og sukkbikarnum, sem allir kannast við, sem nokkuð hafa fylgzt með þessum málum hér undanfarin missiri.

Að lokum aðeins þetta: Hv. 2. þm. Eyf., frsm. 1. minni hl., fannst það furðulegt, að ég skyldi undrast þá dirfsku, að þeir leyfðu sér að lýsa því yfir, að þessi niðurskurður ætti að vera aðeins í bili, hann ætti ekki að vera til frambúðar. Sýndi ég þá fram á, hvernig súpan hlyti að verða orðin um þær mundir, sem þyrfti að fara að afgreiða efnahagsmálin á nýjan leik næsta vetur. Hv. þm. reyndi ekki með einu orði að bera brigður á það, að höfuðdrættirnir í þeirri mynd, sem ég dró upp af ástandinu, eins og það hlyti að verða þá, væri rétt. Hann bar ekki brigður á það með einu einasta orði. En hann reyndi að draga athyglina frá þessu með því að segja, að það yrði að líta þannig á þetta, sem nú væri að gerast, að það væru neyðarráðstafanir. En ef þetta eru neyðarráðstafanir og ef núna þarf að gera neyðarráðstafanir á vegum þessarar hæstv. ríkisstj. og þess meiri hluta, sem hana styður, þar sem þeir hafa tekið við ríkisbúskapnum í fyllsta lagi fyrir örfáum mánuðum, þar sem afgangur var á ríkisbúskapnum og hægt var að byggja á hreinum og góðum grundvelli, — ef það þarf að gera neyðarráðstafanir við þessi skilyrði, hvers konar ráðstafanir verða það þá, sem þarf að gera næsta haust eftir þær aðfarir, sem nú er stefnt að af stjórnarflokkunum og ríkisstj.? Hvers konar ráðstafanir verða það, sem þarf að gera þá? Ég held það sé ekki vandi að geta sér til þess, hvernig þær verða. En það væri æskilegt, að þeir, sem fyrir þessu standa, reyndu að gera þjóðinni einhverja grein fyrir því, hverjar afleiðingarnar hljóti að verða af því, sem þeir eru nú að aðhafast. En um það sagði hv. 2. þm. Eyf., að það væri ómögulegt að segja. Það væri alveg ómögulegt að segja, hverjar afleiðingarnar yrðu af því, sem þeir nú væru að aðhafast og engum getum hægt að því að leiða, hvernig ástatt yrði hér eftir síðari kosningarnar, ef tvennar verða, eða í byrjun næsta vetrar. Ég hugsa, að það sé nú ráðlegast fyrir hv. þm. einmitt að halda þessu fram, því að ég held, að hann mundi lenda í slæmum ógöngum, ef hann færi að reyna að skýra hreinskilnislega frá því, sem hann álítur sjálfur um þetta og aðrir þeir, sem standa að þessum málum.

En í þessu sambandi er full ástæða til þess að spyrja um eitt og það verður mitt síðasta orð: Það hefur verið boðið, að það þyrfti einhverjar nýjar og aðrar og meiri ráðstafanir eftir næstu alþingiskosningar, því að þessar væru aðeins til bráðabirgða og ég spyr því að lokum: Hverjar eru þessar nýju ráðstafanir, sem fyrirsjáanlegt er, þrátt fyrir allt, að þörf sé á eftir næstu kosningar? Hver er hin nýja stefna í efnahagsmálunum, sem Sjálfstfl. talar um, að hann ætli að beita sér þá fyrir? Væri ekki heiðarlegast fyrir Sjálfstæðisflokksmenn og Alþýðuflokksmenn að segja þjóðinni eitthvað um það núna, áður en farið verður að kjósa, hvað þeir ætli að gera á eftir, heldur en gera það eitt að reyna að breiða yfir það, hvernig raunverulega er ástatt í landinu, eins og þeir gera með þeirri afgreiðslu, sem þeir nú stefna að í þessum efnum?