21.04.1959
Sameinað þing: 42. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

1. mál, fjárlög 1959

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil benda á, að hér hafa gengið atkvæðagreiðslur um tvo af undirliðum í tillögum, sem gerðar eru á þskj. frá minni hlutum í fjvn., og með því að sá háttur, sem forseti hyggst hafa á framhaldi atkvgr., brýtur í bág við þá reglu, sem höfð er um byrjunina á henni, þá óska ég eftir því við hæstv. forseta, að hann hafi þann hátt á um þá liði, sem enn eru óafgreiddir og gerðar eru fleiri en ein till. um, að afgreiða þetta með því að bera undir atkv. hvern einstakan flugvöll, sem till. er gerð um, þannig að fyrst verði borin undir atkv. sú fjárveiting til hans, sem hæst er og að þeirri till. felldri, þá sú næsta o. s. frv., þar til Alþingi hefur skorið úr um það, hversu háa fjárveitingu það ætlar hverjum einstökum flugvelli. Ég mælist til þess við forseta, að hann afgreiði þetta með þessum hætti.