28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 1. minni hl. ( Magnús Jónsson ):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlfrv. var gerð grein fyrir því í nál. 1. minni hl. n., að ýmis erindi biðu afgreiðslu þar til við 3. umr., eins og títt hefur verið jafnan. Auk þess var jafnframt þess getið, að við þá umr. mundu verða lagðar fram till. til þess að jafna greiðsluhalla þann, sem þá var á frv., þannig að fjárlfrv. gæti orðið endanlega afgr. greiðsluhallalaust.

Síðan 2. umr. lauk, hefur fjvn. haft þessi ýmsu erindi til meðferðar, sem enn voru óafgreidd og enn fremur hefur verið unnið að því að gera till. um, hvernig jafna mætti þann halla, sem á frv. er.

Um flestar þær till., sem n. gerir, er alger samstaða í n., svo sem till. á þskj. 439 bera með sér og varða þær till. allar ýmsa útgjaldaliði frv. Hins vegar hefur ekki orðið samkomulag í n. fremur en við 2. umr. um ráðstafanir til þess að jafna greiðsluhallann á frv., og gerir 1. minni hl. n. á þskj. 447 sérstakar till. um það, hversu þetta verði gert. 2. minni hl. n. hefur svo lagt fram sérstakar till. á þskj. 450, og nú rétt í þessu var verið að útbýta einni till. frá 3. minni hl. n., og munu þeir aðilar að sjálfsögðu gera grein fyrir þeim till. En ég mun hér í mínu máli gera grein fyrir þeim till., sem sameiginlega eru fluttar af n., svo sem gert var við 2. umr. frv., og enn fremur fyrir þeim sérstöku till., sem við í 1. minni hl. flytjum um tekjuhlið frv. á þskj. 447.

Varðandi flesta liði í brtt. fjvn. á þskj. 439 get ég verið stuttorður, vegna þess að þelr gefa ekki tilefni til mikilla útskýringa, nema tiltölulega fáir þeirra. Rétt þykir þó að fara um þá nokkrum orðum, þar sem ekki hefur verið hafður sá háttur á eins og við 2. umr. að gera grein fyrir því í nál. Það þótti ekki ástæða til að gefa út framhaldsnál. frá hinum einstöku hlutum n. Vík ég þá örfáum orðum að þessum till. hverri um sig.

Fyrsta till. er þess efnis, að það verði hækkuð um 20 þús. kr. fjárveiting sú, sem er í fjárlfrv. á 13. gr. og varið er til þess að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum. Þessi fjárveiting er notuð til þess að stuðla að því að halda í byggð ýmsum jörðum í nánd við fjallvegi hér á landi til öryggis fyrir ferðamenn. Nú er þannig ástatt með jörð eina í Barðastrandarsýslu, að það þykir mikil hætta á því, að hún fari úr byggð, en hins vegar talin mikil nauðsyn af öryggisástæðum að halda jörðinni í byggð, ef kostur er á og er því lagt hér til að verja 20 þús. kr. á þessum lið með það í huga, að unnt verði að stuðla að því, að þessi jörð haldist áfram í byggð. Þessi jörð heitir Skálmardalur og það hefur verið leitað álits vegamálastjóra um þetta atriði, og hann telur, að það hafi mikla þýðingu, að jörðin haldist í byggð.

Við 2. umr. gerði n. till. sínar um skiptingu á hafnafé. Það hefur hins vegar orðið samkomulag um það í n. að mæla með tveimur breytingum á þeim fjárveitingum: Annars vegar það, að Borgarfjörður eystri fái 50 þús, kr. fjárveitingu, eins og var á síðustu fjárl. Það er ekkert sérstakt þar, sem er unnið að á þessu ári, en þeir hafa verið að safna sér fé með vissar framkvæmdir í huga og þykir rétt að ganga til móts við þær óskir, að þeir fái aðstöðu til að halda þeirri fjársöfnun áfram, þannig að unnt verði að hefjast handa um þessar framkvæmdir sem fyrst. Þá er enn fremur samkomulag um að mæla með því, að fjárveiting til Búðareyrar hækki um helming, eða úr 50 þús. í 100 þús. kr., þar eð talin er mikil nauðsyn bera til þess að gera sérstakar ráðstafanir í hafnarmálum og þetta mun vera fyrsta fjárveiting, sem varið er til þessarar hafnar. Þarna hefur verið bryggja, sem er í einkaeign, en sveitarfélagið mun hafa hug á því að koma þarna upp viðunandi hafnarmannvirkjum.

Þá er enn fremur lagt til í 3. brtt. n., að framlag til lánasjóðs stúdenta verði hækkað um 100 þús. kr. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í þá sálma. Það er að sjálfsögðu öllum vitanlegt, að fjárþörf lánasjóðsins er mikil og raunverulega mun meiri en hér um ræðir. En þetta er m. a. gert með það í huga, að hægt sé að auka aðstoð við læknastúdenta, sem þurfa að sinna löngu skyldunámi í sjúkrahúsum og fá ekki fyrir það neinar sérstakar greiðslur. Það þykir nauðsynlegt að greiða fyrir því, að þeir geti haft betri aðstöðu til náms síns að þessu leyti og er þessi hækkun fyrst og fremst gerð með það í huga.

Við 2. umr. var skipt upp fjárveitingu til barnaskóla og skólastjórabústaða. Það hefur hins vegar komið í ljós við nánari athugun og m. a. með hliðsjón af þeim brtt., sem fluttar voru hér við 2. umr., að það væri nauðsynlegt að greiða fyrir framkvæmdum á nokkrum stöðum, bæði varðandi ný barnaskólahús og skólastjórabústaði og er lagt til í till. n. að taka upp fjóra nýja liði þar. Það eru Bolungavík, Laugaland á Þelamörk, Hella og skólastjórabústaður í Bessastaðahreppi og enn fremur skólastjórabústaður á Egilsstöðum. Um þessa tvo skólastjórabústaði er það að segja, að þeir eru báðir langt komnir í smíðum og athugun hefur leitt í ljós, að það er miklum erfiðleikum bundið fyrir viðkomandi skólahverfi, ef ekki fæst viðurkenning fyrir þessum bústöðum og miðað við allar aðstæður hefur þótt rétt að mæla með því, að þessi viðurkenning yrði veitt og tekin upp nokkur fjárveiting til bústaðanna.

Varðandi þá nýju skólastaði, sem hér er að vikið, Bolungavík, Laugaland á Þelamörk og Hellu, þá er talið eðlilegt af þeim mönnum, sem þar þekkja mest til innan fræðslumálastjórnarinnar, að þessir bústaðir sitji í fyrirrúmi og á engra hlut verði gengið, þótt þeir séu samþ. En það var að sjálfsögðu meginsjónarmið n., að það væru ekki teknir fram fyrir, hvorki skólastjórabústaðir né skólahús, heldur væri fylgt eðlilegri röð í því efni, eftir því sem metið væri af fræðslumálastjórninni að sanngjarnt væri, með hliðsjón af öllum aðstæðum og hefur því sjónarmiði einnig verið fylgt varðandi þessar nýju tillögur.

Leitað var eftir því við n., að nokkurri fjárveitingu yrði varið til þess að vernda sögulegar minjar í Reykholti. Þau mál hafa nú verið hér til meðferðar í Alþingi og sérstök þáltill. flutt um verndun sögulegra minja. N. hefur þótt rétt með hliðsjón af upplýsingum, sem hún hefur fengið um þessi efni, að mæla með því, að nokkurri fjárveitingu yrði varið til þess að vernda sögulegar minjar í Reykholti.

Svo sem hv. þm. mun kunnugt, hefur fyrir nokkru orðið samkomulag um það milli hinna tveggja rithöfundafélaga að sameina sig og stofna sérstakt Rithöfundasamband Íslands, og er lagt til, að til þessa nýja rithöfundasamband sé tekinn upp15.þús. kr. styrkur.

Þá eru hér tveir smástyrkir, annar hækkun og hitt nýr styrkur til ritstarfa. Þessir styrkir eru hliðstæðir mörgum öðrum liðum, sem eru nú í fjárlagafrv. og hafa verið í fjárlögum undanfarin ár, og þær tölur, sem þar eru settar, eru ákveðnar með hliðsjón af þeim reglum, sem um það hefur verið fylgt. Sé ég ekki þörf á að útskýra það frekar, nema sérstakar fyrirspurnir gefi tilefni til þess.

Það hefur upplýsts, eftir að 2. umr. lauk, að það sé nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir, meiri en gert hefur verið ráð fyrir í sambandi við þá fjárveitingu, sem er í fjárlagafrv., að auka fyrirhleðslu við Miðskálaá og Írá í Rangárvallasýslu, vegna þess að þar sé mikil hætta á því, að vatn flæði yfir lönd bænda þar. Með hliðsjón af þessu er lagt til, að þessi fjárveiting verði hækkuð í 70 þús. kr.

Næsta brtt., hin 12., er ekki um neina nýja fjárupphæð, heldur aðeins um það að ræða, að það er fellt niður, að viðkomandi aðilar skuli greiða 1/8 hluta kostnaðar við þessa fyrirhleðslu, svo sem venja er, þar sem um fyrirhleðslur er að ræða, sem eiga að verja ræktunarlönd. Ástæðan til þess, að þessi 1/8 hluti er felldur þarna niður, er sú, að eins og breyting hefur orðið þarna á vegagerð, þá er þessi fyrirhleðsla nú algerlega orðin þáttur í vegagerðinni sjálfri. Slíkt fyrirhleðsluframlag hefur ekki verið veitt heima fyrir og þótti því eðlilegt að gera þessa breytingu einnig með þessa fyrirhleðslu með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem fyrir lágu um það efni.

Þá er 13. brtt. um það, að til kjarnfræðinefndar verði varið 100 þús. kr. Þessi fjárveiting var í fjárlögum ársins 1958, en féll þá niður og er lagt til, að hún verði tekin upp aftur, vegna þess að þeirri starfsemi, sem fjárveitingunni var þá ætlað að standa undir, er haldið áfram og það er að sjálfsögðu hin mesta nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með öllum nýjungum á þessu sviði.

Þá eru tveir nýir líðir í 14. brtt. Annað er til fávitahælis í Skálatúni. Fjárveiting til þess hælis var í fjárlögum í fyrra og reyndar um lengra árabil, en hefur af einhverjum ástæðum fallið niður úr fjárlagafrv. núna. En það er talin eigi síður ástæða til að veita þennan stuðning nú heldur en verið hefur og leggur því n. til, að sama fjárupphæð sé veitt og á s. l. ári.

Þá er hér lagt til að taka upp nýja fjárveitingu til Styrktarfélags vangefinna, og þessi fjárvelting er ætluð til alveg sérstakra þarfa, þ. e. a. s. í sambandi við það, að þetta félag, sem er nýstofnað, hefur komið hér á fót sérstökum skóla, leikskóla eða dvalarheimili fyrir vangefin börn, sem var hin mesta nauðsyn á. Þessi skóli tók til starfa á s. l. hausti og það hefur komið í ljós, sem raunar mátti vænta, að það væri ekki auðið að reka þennan skóla nema með nokkrum fjárstuðningi, svo sem er með slíkar stofnanir og það hefur verið sótt um að fá 25 þús. kr. til þessa skólahalds. Fjvn. þykir rétt að mæla með þeirri fjárveitingu, og það er þá gert ráð fyrir því jafnframt, að jafnhá fjárveiting komi til þessarar starfsemi frá Reykjavíkurbæ.

Þá er 15. brtt. einnig tveir nýir liðir. Annar er til æfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, 150 þús. kr. Eins og öllum hv. þm. mun kunnugt, hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra haldið hér uppi um nokkurt árabil mjög merkilegri starfsemi og rekið hér æfingarstöð í bænum fyrir lömuð og fötluð börn. Þessi stöð hefur gefið mjög góða raun og orðið mörgum að miklu gagni, og það er samróma álit allra þeirra, sem þessi mál þekkja, að það sé hin mesta nauðsyn, að starfsemi þessarar stöðvar geti haldið áfram og hún eflzt. Reyndin hefur hins vegar orðið sú, að það hefur verið erfitt með fjárhagsafkomu þessarar starfsemi. Að vísu hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra nokkur hlunnindi, vegna þess að það hefur fengið rétt til þess að setja merki sitt á eldspýtustokka og eru þeir seldir nokkru hærra verði. Hefur félagið alldrjúgar tekjur af þessu, en þó ekki nægar til þess að standa undir kostnaði við þessa stöð og hefur félagið bæði haft happdrætti og ýmsar aðrar fjáraflanir til þess að standa undir rekstrarkostnaði stöðvarinnar. En vegna þess að allt þetta fé hefur gengið til rekstrarins nú að undanförnu, hefur ekki verið auðið að byggja þarna neitt nýtt upp, þó að margt vanti þar. Þessi fjárveiting er að vísu ekki stór, sem hér er lagt til að veitt verði, en ætti þó að koma að nokkru gagni.

Þá er og lagt til hér, að veittar verði 100 þús. kr. til Sjálfsbjargar, þ. e. félagsskapar hinna fötluðu sjálfra. Hitt er styrktarfélag. Hér er um hliðstæð félög að ræða eins og Blindrafélagið annars vegar og Blindravinafélagið hins vegar. Sjálfsbjargarfélögin eru þegar orðin nokkur starfandi og það er mikið áhugamál þeirra að koma upp sérstökum vinnuheimilum fyrir fatlað fólk. Þessi fjárveiting hrekkur raunverulega ekki langt til þeirra hluta, en er þarna sett sem viðurkenning á því mikilvæga starfi, sem þarna er unnið að.

Í sambandi við bæði þessi mál er rétt að vekja athygli hv. þm. á því, að þessi mál öll þurfa að sjálfsögðu miklu nánari athugunar við. Þau voru allmikið rædd, þegar hér var til meðferðar frv. um framlengingu á happdrætti fyrir S. Í. B. S. og þá varð samkomulag um það í fjhn. Ed. að flytja þá till. um að taka öll þessi mál til heildarendurskoðunar. Sú till. hefur að vísu ekki verið endanlega samþ. hér á Alþ., en það er vissulega hið mesta nauðsynjamál, að öll þessi starfsemi sé tekin til rækilegrar athugunar með það í huga að reyna að samræma hana. Hér vinna mörg félög mjög merkilegt starf í þágu þeirra, sem eru miður settir ýmissa hluta vegna í þjóðfélaginu, vegna fötlunar eða af öðrum sjúkdómsástæðum og öll þessi starfsemi þarf að sjálfsögðu að vera þannig skipulögð, að hún gefi sem allra bezta raun fyrir þetta fólk. Einmitt með hliðsjón af því, að fjvn. gerði ráð fyrir, að till. þessi yrði hér endanlega samþykkt, þá þótti ekki rétt að fara á þessu stigi að gera tillögur um mjög stórar fjárveitingar til þessara aðila, fyrr en séð væri, hvernig þessum málum yrði háttað, hver niðurstaðan yrði varðandi verkefni þessara aðila í framtíðinni hvers um sig. Þetta taldi ég rétt að hér kæmi fram til skýringar á viðhorfi nefndarinnar í sambandi við þessar till. hennar.

Þá eru hér loks fluttar allmargar brtt. við 18. gr. um eftirlaun. Ég hirði ekki um að fara hér út í að rekja einstaka liði í því efni, vil aðeins vekja athygli á því, sem ég geri raunar ráð fyrir að ekki þurfi, öllum hv. þm. sé það kunnugt, að við mat á þeim fjárupphæðum, sem þarna er um að ræða, verður að hafa það í huga, að hér er aðeins um að ræða í flestum tilfellum viðbætur við lögmælt eftirlaun; — að vísu er sums staðar um að ræða aðila, sem hafa engan eftirlaunarétt, — og þó að upphæðirnar virðist þarna mjög misjafnar, þá þarf það ekki að benda til þess, að eftirlaunin séu svo misjöfn eins og þessar tölur benda til. Raunverulega væri mjög æskilegt, að þannig væri frá þessum tölum gengið í fjárlagafrv. og það þannig upp sett til þess að koma í veg fyrir misskilning, að þar væru einnig teknar inn þær upphæðir, sem viðkomandi maður hefur sem lögmælt eftirlaun, því að það hefur oft komið fyrir, að fólk hefur ruglazt á þessu og haldið, að þarna væri um mikið misrétti að ræða í 18. gr. fjárl. Það er að vísu rétt, að þar er kannske ekki allt eins og það ætti að vera. En það má að sjálfsögðu ekki meta eftirlaunin eftir þeim fjárhæðum einum, sem þar eru greindar, heldur verður að taka einnig til greina, að þessir aðilar hafa flestir eftirlaun samkv. lögum, sem þar eru ekki tilgreind.

Við 2. umr. fjárlagafrv. var allmikið rætt um flugvallagerðirnar og nú eru bornar fram margar brtt. við þá liði. Þetta mál hefur nokkuð verið athugað á milli umr., og með hliðsjón af þeim verkum, sem verið er að vinna að á ýmsum þessara staða, þá þótti óumflýjanlegt að leggja til, að tveir flugvellir, Akureyrarflugvöllur og Norðfjarðarflugvöllur, hækkuðu hvor um sig um 200 þús. kr.

Þá er lagt til, að smávægileg hækkun verði gerð á fjárveitingu til farkennslu í íþróttum, 20 þús. kr., á þskj. 448. Þessi farkennsla hefur verið mjög eftirsótt víða um land og þótt gefa góða raun og það hefur því þótt sjálfsagt að stuðla að því, að hún gæti orðið nokkuð aukin. Þó að ekki sé um mikla fjárhæð að ræða, þá er það þó nokkur viðurkenning fyrir þá starfsemi, sem þarna er um að ræða.

Þá er lagt til að verja 20 þús. kr. til Landssambands blandaðra kóra til útgáfu þjóðlaga. Landssambandið vinnur nú að því að gefa út íslenzk þjóðlög í nýrri útgáfu og sótti um 40 þús. kr. styrk í því sambandi. Þetta eru þjóðlög, sem dr. Victor Urbancic hafði búið undir prentun og við athugun þess máls alls þótti rétt að mæla með því, að 20 þús. kr. yrðu veittar til þessarar útgáfu.

Þá vík ég að nokkrum liðum, sem snerta heimildagrein fjárlagafrv., 22. gr.

Það er lagt til, að hækkaðar séu þær ábyrgðarheimildir, sem í gildi hafa verið og veittar hafa verið að undanförnu til tveggja síldarbræðslustöðva á Austurlandi, síldarbræðslunnar á Seyðisfirði og síldarbræðslunnar í Neskaupstað og er þar sett sú regla, sem eðlileg þykir, að þessar ábyrgðir verði miðaðar við 80% af stofnkostnaði verksmiðjanna. Ég gat þess hér í sambandi við till., sem flutt var við 2. umr. varðandi Krossanesverksmiðjuna í Eyjafirði, að það væri eðlilegt, enda þótt það væri ekki miðað við sérstaka prósentuupphæð, að ríkisstj. hefði hliðsjón af því, hvort ekki væri rétt að ábyrgjast að fullu kostnað þann, sem leiddi af þeim framkvæmdum, sem þar væri verið að vinna að. Eftir að þessi regla hefur verið sett og ef hæstv. Alþ. á hana fellst, þá virðist vera eðlilegt að miða þessar ábyrgðir fyrir síldarverksmiðjurnar, aðrar en þær síldarverksmiðjur, sem ríkið sjálft á, við 80% stofnkostnaðar.

Þá er lagt til í 21. brtt. n., að ríkisstj. verði heimilað að annast og ábyrgjast rekstur togarans Brimness frá Seyðisfjarðarkaupstað um tiltekinn tíma. Hér er um töluvert óvenjulega ráðstöfun að ræða, en þannig er málum háttað, sem sennilega flestir hv. þm. vita, að fjárreiður þessarar útgerðar og raunar fjárreiður Seyðisfjarðarkaupstaðar eru mjög bágbornar, fjárhagsástæður bæjarins, þannig að þar hefur raunverulega orðið algert þrot og í þessu sambandi var sett sérstök n. til þess að athuga þessi mál öll og eftir að þessi n. hafði rannsakað, hversu ástatt var með rekstur þessa togara, var það till. hennar til þess að bjarga því, að togarinn ekki gersamlega stöðvaðist, að þessi neyðarráðstöfun yrði gerð. Á þetta verður að sjálfsögðu að líta sem algera neyðarráðstöfun, því að það er að sjálfsögðu mjög óheppilegt og síður en svo til eftirbreytni, að ríkið þurfi að taka að sér rekstur einstakra togara á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Í till. segir svo, að það verði reynt, eftir því sem kostur verði, að landa afla skipsins á Seyðisfirði, en þó þannig, að rekstrarafkomu togarans sé ekki stefnt í hættu með löndun aflans þar. Hér er ekkert um það að ræða, hvað verður í framtíðinni um þetta vandamál. Það er aðeins um að ræða að fá heimildina til þess að gera skipið út til 1. sept., meðan þessi mál öll saman eru rannsökuð nánar, þessi fjárhagsmál og grundvöllur fundinn til þess að gera þá frekari tilhögun um frambúðarskipulag atvinnumála þar eystra.

Þá er 22. till. um að ábyrgjast fyrir Bæjarútgerð Akraness allt að 2 millj. af kaupverði togarans Akureyjar. Það er, eins og þar segir, endurveiting. Þessi heimild til ábyrgðarinnar var veitt á síðustu fjárl. og var þá ekki notuð, og þótti sjálfsagt að verða við þeirri ósk, að hún yrði endurnýjuð einnig nú, ef á henni þyrfti að halda á þessu ári.

Þá er hér einnig gamall kunningi á ferðinni í 23. brtt. Það er um að heimila að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað allt að 1 millj. kr. rekstrarlán vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku. Þessi ábyrgð hefur verið veitt um allmargra ára bil og miðað við þessa upphæð, sem þarna er nefnd. Það hefur verið endurnýjuð ósk um það, að þessi ríkisábyrgð yrði veitt. Því er auðvitað ekki að leyna, að það er nokkuð vafasamt að fara að ábyrgjast slík rekstrarlán fyrir einstakar verksmiðjur. Það er engum efa bundið, að verksmiðjan hefur þess fulla þörf. En það verður naumast hjá því komizt að vekja athygli á því, að það er að sjálfsögðu mjög óeðlilegt, að lánastofnanir skuli nota sér það, að farið hefur verið inn á þá braut að veita þessa ábyrgð og að þær skuli sérstaklega varðandi þessa verksmiðju gera slíka kröfu, að ríkisábyrgð verði veitt, til þess að lánastofnanir vilji veita verksmiðjunni rekstrarlán. Það auðvitað væri það eina eðlilega í málinu, að bankarnir veittu henni rekstrarlán svo sem öðrum verksmiðjum og sömu reglur yrðu látnar um það gilda. En það þótti rétt með hliðsjón af þeim atvikum, sem fyrir hendi eru, að það hefur ekki tekizt að fá lán án þessarar ábyrgðar, úr því að hún er á komin einu sinni, að þá er ekki talið fært að synja því að veita ábyrgðina einnig nú.

Þá er enn fremur till. um það að ábyrgjast allt að 1 millj. kr. lán fyrir hreppsnefnd Hveragerðishrepps, en þó verði það ekki yfir 80% kostnaðar við hitaveituframkvæmdir, sem þar eru í undirbúningi. Það er mikið nauðsynjamál fyrir Hveragerði að koma sínum hitaveitumálum í betra horf, en nú er. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það í einstökum atriðum, en þar er við ýmsa erfiðleika að stríða á þessu sviði og það er talið óumflýjanlegt til þess að koma hitaveitunni þar í gott lag að leggja þar í all kostnaðarsamar framkvæmdir. Ábyrgð hefur áður verið heimiluð í þessu sambandi, en er nú nokkuð hækkuð, en miðað við sama hlutfall og áður hefur verið samþ. af Alþingi í fjárl. að miða við.

Þá er hér 25. brtt. um að ábyrgjast allt að ½ millj. kr. lán fyrir Ferðaskrifstofu ríkisins til að bæta gistiaðstöðu í landinu. Það þarf naumast að rekja það, hversu mikið vandamál er hér varðandi gistingu fyrir ferðamenn og í sambandi við þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að fá erlent ferðafólk til landsins, hefur að sjálfsögðu mjög mikið skort á þessar nauðsynlegu forsendur þess, að hægt væri að fá slíkt ferðafólk og það er, að það væri hægt að hafa fyrir það hér eitthvert húsrými. Enn fremur hefur ferðaskrifstofan áhuga á því að efla og auka orlofsferðir innanlands og í sambandi við þetta hvort tveggja hafa verið uppi fyrirætlanir um að fá til afnota skóla að sumrinu. En í sambandi við það allt saman þarf að gera ýmsar ráðstafanir, sem hafa í för með sér töluverðan kostnað og er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast ½ millj. kr. lán fyrir ferðaskrifstofuna, ef henni tekst að fá slíkt lán til þess að bæta gistiaðstöðu.

Áður hafa verið samþykktar og nú er í fjárlagafrv. lagt til að veita ýmsar heimildir til undanþágu á aðflutningsgjöldum af bifreiðum til ýmissa sérstakra þarfa, einkum líknarstofnana, Rauða krossins og annarra slíkra stofnana og er hér lagt til, að Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra verði einnig veitt slíkt leyfi fyrir bifreið, sem sérstaklega verði notuð til starfsemi þeirrar stofnunar. En þannig er háttað, að það verður að sækja hin fötluðu börn og flytja þau heim á vegum stofnunarinnar og til þess að geta innt það af hendi er nauðsynlegt fyrir hana að eignast nýja bifreið. Það þykir rétt, þar sem hér er um beinlínis slíkt mál að ræða, sem ekki ætti að geta skapað hættulegt fordæmi, að verða við þessari ósk um það, að þessi aðflutningsgjöld verði gefin eftir.

Öllum hv. þm. er kunnugt um það hörmulega slys, sem varð, þegar vitaskipið Hermóður fórst. Það er augljóst, að það verður að hefjast handa um að koma upp nýju vitaskipi og það er því flutt hér till. um það, að ríkisstj. verði heimilað að hefjast handa um framkvæmdir í því sambandi og þá jafnframt gert ráð fyrir því, að vitaskipið verði þannig úr garði gert, að það geti samtímis því hlutverki sínu haft einnig á höndum landhelgisgæzlu og sinnt björgunarstörfum.

Á undanförnum þingum hefur nokkuð verið rætt um nauðsyn þess að koma hér upp sérstakri umferðarmiðstöð í Reykjavík vegna stóraukinna bifreiðaflutninga á landi ýmissa sérleyfishafa, sem flytja vörur til og frá Reykjavík og til margra annarra staða landsins. Til þess að koma þessari stöð upp hefur skort fé. Það er gert ráð fyrir því í lögunum um sérleyfisgjald af bifreiðum, að þeim sjóði verði raunverulega fyrst og fremst varið til þess að koma upp umferðarmiðstöðvum. Reyndin hefur hins vegar orðið sú um margra ára bil, að þá hefur sjóði þessum verið eytt eða verið ætlunin að eyða honum til þess að greiða rekstrarhalla Ferðaskrifstofu ríkisins með skírskotun til sérstakrar heimildar í lögum um ferðaskrifstofu um þetta efni, breytingu, sem gerð var á þeim lögum 1947. Það hefur hins vegar farið svo, enda þótt það hafi verið samþykkt af Alþingi, að þessi halli yrði greiddur af sérleyfisgjaldinu, að það hefur nú um margra ára bil ekki verið greitt úr sérleyfisgjaldasjóðnum, þannig að kröfu ríkissjóðs um endurgreiðslu á þessu gjaldi hefur ekki verið sinnt og það er því enn þá óafgert mál, hvernig um þessa fjárkröfu verður. Um síðustu áramót námu þessar vangreiddu skuldakröfur ríkissjóðs rúmlega 1.7 millj. kr. Það er nú till. hér flutt af fjvn. um það, að ríkisstj. verði heimilað að endurkrefja ekki sérleyfissjóð um rekstrarhalla ferðaskrifstofunnar á þessum árum. Ríkissjóður hefur þegar lagt út þetta fé, þannig að hér er ekki um nein ný útgjöld fyrir hann að ræða, heldur aðeins um það að ræða, að heimilað verði að falla frá þessari endurkröfu á sérleyfissjóðinn, þannig að hér fáist töluverð upphæð til þess að hefjast handa um byggingu hinnar nauðsynlegu umferðarmiðstöðvar. Í fjárlfrv. nú er að vísu gert ráð fyrir því, að rekstrarhalli ársins í ár verði greiddur úr sérleyfissjóði og það er ekki gerð till. um að breyta því í þetta sinn. En með því að samþykkja þessa heimild fengjust sem sagt rúmlega 1.7 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni.

Um allmargra ára bil hefur verið unnið að því að athuga möguleika á því að koma hér upp saltverksmiðju og til þess að vinna ýmis önnur efni úr sjó. Nú hefur komizt aukinn skriður á þetta mál og það hefur fengizt loforð fyrir nokkurri fjárveitingu erlendis frá til tækniaðstoðar til þess að ljúka athugunum á þessu máli. En til þess að það verði auðið, er nauðsynlegt að inna af hendi ýmsar athuganir einnig hér af hálfu Íslendinga, sem ekki fæst fé af þessari fjárveitingu til og er talið, að sá kostnaður geti orðið allt að 200 þús. kr. Nú er ekki vitað fyrir víst, hvort þetta fellur á, á þessu ári eða hvort það verður aðeins hluti þess, sem þá þarf að greiða og með hliðsjón af því hefur þótt rétt að setja þetta á heimildagrein. Hins vegar er tvímælalaus nauðsyn að fá endanlega úr því skorið, hvort hagkvæmt sé að reisa þessa saltverksmiðju hér eða ekki.

Þá eru hér tveir liðir, þar sem um er að ræða ábyrgð vegna kaupa á fiskiskipum. Annar liðurinn er þess efnis að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 85% af andvirði þriggja 250 tonna fiskiskipa. Mönnum kann að þykja þetta nokkuð óljóst orðað, en til frekari skýringar skal ég taka fram, að það hafa verið uppi ráðagerðir um það í fyrrv. ríkisstj. að semja um smíði á þremur skipum 250 tonna til viðbótar þeim tólf skipum, sem samið var um smíði á í Austur-Þýzkalandi. Af þessum samningum varð ekki. Hins vegar hefur ákveðnum aðilum verið gefinn mikill ádráttur eða raunverulega loforð um það, að þeir skyldu fá umrædd skip til ráðstöfunar. Það er ekki enn þá afgert, hvað gert verður í þessu efni, en með hliðsjón af því, að ef til þess kæmi, að ráðizt yrði í að kaupa slík skip, hvort sem þau verða nú keypt á þessum stað eða annars staðar, þá þykir nauðsynlegt, að ríkisstj. hafi heimild til þess að ábyrgjast andvirði þessara skipa allt að 85%, á hliðstæðan hátt og sú aðstoð var, sem veitt var kaupendum hinna tólf austur-þýzku skipa.

Hitt málið er um það að veita hlutafélagi í Hafnarfirði ríkisábyrgð vegna kaupa á togara frá Vestur-Þýzkalandi og nemi sú ábyrgð allt að 80% af kaupverði skipsins. Það mun ætlun þessa aðila að kaupa þar togara, sem er nokkurra ára gamall, enda er verð togarans það lágt, að það gefur auga leið, að þar er ekki um nýtt skip að ræða. En það þykir rétt að verða við ósk um það að greiða fyrir innflutningi á þessu skipi á þennan hátt, sem hér er lagt til.

Hér hafa oft verið til umr. ýmsar till. í sambandi við að koma upp vistheimili fyrir stúlkur. Það hefur verið komið upp slíku vistheimili vestur í Breiðuvík fyrir drengi og það hefur verið af mörgum aðilum mikill áhugi sýndur á því að koma upp slíku vistheimili fyrir stúlkur, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum, að því verði komið upp. Hefur dregizt mikið og allt of mikið að koma þessu heimili upp. Við 2. umr. fjárlfrv. flutti hv. 8. þm. Reykv. (RH) brtt. þess efnis, að varið yrði 300 þús. kr. til þess að hefja byggingu slíks hælis. Með hliðsjón af þeirri till. var þetta mál tekið til athugunar í fjvn. og um það rætt við viðkomandi ráðh. Sérstök n. hefur starfað að því að undanförnu að gera till. um, hvaða staður skuli valinn fyrir slíkt heimili og það liggur fyrir þegar nál. frá þeirri n. Till. hafa hins vegar ekki eða áætlanir verið gerðar á vegum rn. um það að stofnsetja slíkt heimili eða hvar það skuli staðsett. En þrátt fyrir það þykir með hliðsjón af mikilvægi þessa máls nauðsynlegt, að eitthvert fé sé til ráðstöfunar, ef hægt væri á þessu ári að hefjast handa um að leysa þetta mikla vandamál, sem þarna er við að stríða. Því þótti rétt að veita í heimildagrein ríkisstj. heimild til þess að greiða allt að 200 þús. kr. í þessu skyni, til þess að ekki þyrfti alger fjárskortur að verða því til hindrunar, að hægt væri að hefjast handa um lausn málsins. Till. er þannig orðuð, eins og hv. þm. sjá, að það er gert ráð fyrir því, að annaðhvort verði slík stofnun á vegum ríkisins eða í samvinnu við félagssamtök, og ástæðan til þessa orðalags er sú, að það þykir vera sjálfsagt að athuga, hvort einhver menningarsamtök vildu ekki þarna gjarnan ljá sitt lið og spurning, hvort það væri ekki miklu heppilegra í sambandi við starfsemi sem þessa, að það væru einhver sérstök áhugasamtök, sem að henni stæðu, heldur en það væri beinlínis ríkisstofnun með launuðu starfsliði, sem þar væri ráðið, til þess sem hverjir aðrir starfsmenn að gæta sinna skylduverka, því að sannleikurinn er sá, að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og veltur á miklu, að þeir, sem til þess veljast að vinna að þessum málum og við þetta heimili, leiðist til þess starfs af brennandi áhuga, en ekki af því einu saman að fá þarna launað starf.

Þá er loks 8. liður á þskj. 448 um að taka allt að 3 millj, kr. lán vegna aukningar á húsnæði ríkisspítalanna. Í fjárl. s. l. árs var heimild um 5 millj. kr. lántöku í þessu skyni. Það lán mun ekki hafa verið tekið að fullu, en það þykir nauðsynlegt í ár að hafa þessa heimild. Þarna er um mikla nauðsyn að ræða að ýta áleiðis hinni miklu byggingu landsspítalans og það þykja líkur til þess, að það sé hægt að fá lán til þeirra framkvæmda. En til þess að svo megi verða, þarf að sjálfsögðu að vera heimild til þess að taka lánið.

Þá er enn fremur ein heimildartill., sem ekki hefur verið útbýtt, en ég vildi leyfa mér samt að mæla hér fyrir. Hún er um það, að ríkisstj. verði heimilað að ganga í ábyrgð fyrir allt að 3.5 millj. kr. láni vegna kaupa á borvindu til notkunar við hinn mikla gufubor ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Það var skýrt hér frá því við 2. umr. málsins, að það hefðu komið fram óskir frá stjórn þessa jarðbors um, að það yrði lagt fram fé í þessu skyni, til að kaupa þessa borvindu. Hér er tvímælalaust um mikið nauðsynjamál að ræða. Þessi bor hefur gefið mjög góða raun, en með því að fá þetta tæki er hægt að bora miklum mun dýpra og mikil ástæða er til að halda, að það geti haft mjög mikla þýðingu. Hér er um það að ræða að veita ríkisstj. heimild til að ábyrgjast erlent lán, sem gert er ráð fyrir að fáist til kaupa á þessu tæki.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim till., sem n. sameiginlega stendur að, en vil þá víkja að till. þeim, sem eru á þskj. 447 og fluttar eru af 1. minni hl. fjvn.

Þessar till. varða allar nema ein tekjuhlið fjárlfrv., en þessi eina till., sem ég vil þá fyrst minnast á, er síðasta till. á því þskj., um það, að verja megi af framlagi á 19. gr. til útflutningssjóðs fé til þess að koma í veg fyrir verðhækkun erlends áburðar vegna efnahagsráðstafananna á s. l. ári umfram þá verðhækkun, sem orðið hefur á innlendum áburði.

Svo sem hv. þm. er kunnugt, hefur hér legið fyrir Alþingi þáltill. um þetta efni frá tveimur hv. þm., 1. þm. Rang. (IngJ) og 2. þm. Skagf. (JS), og er með þessari till. komið allmjög til móts við þá till. Þegar efnahagsráðstafanirnar gengu í gildi á s. l. ári, var búið að flytja inn allan þann áburð, sem notaður var á því ári, og yfirfærslugjaldið á áburði hefur því ekki komið til með að verka fyrr, en nú á þessu ári, á þau áburðarkaup, sem bændur gera nú í vor. Það hefur því ekki komið til að verka inn í verðlagið fyrr en nú og sú verðhækkun hlyti að koma fram við verðlagningu landbúnaðarvara í haust.

Það er með hliðsjón af nauðsyn þess að koma í veg fyrir þessi verðhækkunaráhrif, sem þessi till. er flutt og lagt til, að þessi heimild verði veitt til þess að koma í veg fyrir verðhækkun áburðarins. Það hefur hins vegar gerzt nú, að nokkur verðhækkun hefur orðið á áburði frá áburðarverksmiðjunni og það þykir eðlilegt, að hliðstæð verðhækkun komi einnig til greina á erlenda áburðinum, þannig að þessi niðurgreiðsla á verðinu nái ekki lengra en svo, að hún nægi til þess að koma í veg fyrir verðhækkun umfram þá verðhækkun, sem orðið hefur á hinum innlenda áburði.

Það er gert ráð fyrir því, að þetta kunni að kosta ríkissjóð um 3½ millj. kr. á þessu ári og þar sem það er talið vafasamt, hvort heimildir til niðurgreiðslu, sem veittar eru í l. um útflutningssjóð, nái til þeirrar niðurgreiðslu, sem hér er gert ráð fyrir, þá þótti rétt að flytja um það sérstaka till. og þar sem að sjálfsögðu er ekki hægt að ákveða með fjárlögum, hvaða niðurgreiðslur verði inntar af hendi af fé útflutningssjóðsins sjálfs, þá þótti rétt að gera ráð fyrir því, að þetta fé yrði tekið af þeirri fjárveitingu, sem í fjárlögunum sjálfum, er ætlazt til að renni til þess að standa straum af útgjöldum útflutningssjóðsins.

Hinar till., sem um ræðir á þessu þskj., varða allar tekjuhlið fjárlaganna og með þeim er gert ráð fyrir því, að hægt sé að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus. Þegar gerð var grein fyrir þessu máli við 2. umr. fjárlagafrv., var frá því skýrt, að í sambandi við lögin um útflutningssjóð væri ætlunin að leggja til, að hækkað væri leyfisgjald af innfluttum bifreiðum, þ. e. a. s. fyrst og fremst bifreiðum, sem veitt væri leyfi fyrir án gjaldeyris og enn fremur aukinn nokkuð innflutningur slíkra bifreiða og var gert ráð fyrir því, að með þessu mundu útflutningssjóði skapast 25 millj. kr. nýjar tekjur. Nú hefur sú breyting á þessu orðið, að gert er ráð fyrir því, að auk þess að hækkað verði leyfisgjald af gjaldeyrislausum bifreiðum úr 160% í 300%, þá verði innflutningsgjald af öðrum þeim bifreiðum, sem nú eru greidd leyfisgjöld af, hækkuð úr 160% í 250% og þá enn fremur aukinn nokkuð innflutningur leyfisbifreiða, þannig að áætlunin er við það miðuð, að 100 bílleyfum fleira verði veitt á þessu ári fyrir slíkum bifreiðum. Reiknað hefur verið út, að þessi gjöld muni veita útflutningssjóði auknar tekjur af leyfisgjöldum, sem nemi 30.4 millj. kr. En auk þess sem þetta veitir útflutningssjóði slíkar auknar tekjur, þá veldur hinn aukni bifreiðainnflutningur því að sjálfsögðu, að ríkissjóði bætast tekjur vegna verðtolls og söluskatts og þess 35% leyfisgjalds, sem rennur í ríkissjóðinn. Og það er gert ráð fyrir því, miðað við þá innflutningsáætlun, sem gerð hefur verið um bílainnflutning á þessu ári, að þessar tekjur nemi 9.1 millj. kr. Samtals mundi því tekjuauki vegna þessa bifreiðainnflutnings og hækkunar leyfisgjalds af bifreiðum nema 39.5 millj. kr. Áður hefur verið reiknað með 25 millj. kr. tekjuauka af þessum sökum og verður þá útkoman sú, að enn hefur ekki verið áætlað fyrir 14.5 millj. kr. tekjuauka, sem þessi innflutningur á að gefa og till. þær, sem fluttar eru á þskj. 447, gera ráð fyrir því, að liðirnir verðtollur, söluskattur og leyfisgjald verði hækkaðir sem nemur þessum fjárhæðum, þ. e. a. s. þeim fjárhæðum, sem í ríkissjóðinn eiga að renna, umræddri 9.1 millj. kr.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að óviss útgjöld, sem í fjárlagafrv. eru 6.5 millj. kr., verði lækkuð niður í 5 millj, kr. Þarna er raunverulega aðeins um lið að ræða til þess að mæta umframgreiðslum og mundu þá verða til að mæta umframgreiðslunum 20 millj. kr. til ráðstöfunar. Það er, eins og áður hefur verið sagt, ekki há fjárhæð. En það verður að sjálfsögðu að miða við það, að mjög strangt aðhald verði varðandi umframgreiðslur á árinu og umframgreiðslur alls ekki af hendi inntar, nema óumflýjanlegt sé með öllu.

Þá er tekin upp, sem jafngildir að sjálfsögðu tekjuöflun, aftur till. um það, að niður verði felld ½ millj. kr. útgjöld vegna orlofslaganna. Frv. um það efni hefur verið útbýtt hér í dag, en till. var tekin aftur við 2. umr. með hliðsjón af því, að frv. lá þá ekki fyrir.

Þá er enn fremur lagt til, að í stað þess, eins og við 2. umr. var lagt til, að fella niður fjárveitingu til iðnskóla í Reykjavík, þá verði sú fjárveiting lækkuð um helming eða 250 þús. kr. með hliðsjón af nýjum upplýsingum, sem komið hafa fram í því efni, og ættu þá að vera þar til ráðstöfunar á þessu ári þær 620 þús. kr., sem ekki hafa enn komið til greiðslu, en veittar voru á undanförnum árum, og auk þess þær 250 þús. kr., sem veittar yrðu á þessu ári, og ætti það að vera mjög viðunandi fjárhæð, miðað við þær framkvæmdir, sem gera má ráð fyrir að verði á árinu í ár.

Miðað við þessar till. allar, sem ég hef hér gert ráð fyrir og verði þær útgjaldatill. samþykktar, sem n. öll stendur að og auk þess 8. till. á þskj. 447 um niðurgreiðslu á áburði, þá eiga fjárl. að vera greiðsluhallalaus. Það er að vísu ekki há upphæð, enda hefur það ekki verið venja á undanförnum árum, að það væri há upphæð, sem þar væri um að ræða, en mér telst svo til, að greiðsluafgangur sé þá rúmar 100 þús. kr.

Ég á þá eftir að gera grein fyrir einni till., sem flutt er af 1. minni hl. n., en hún er um að heimila ríkisstj. að taka erlent lán allt að 6 millj. dollara, og skuli af þessum láni endurlánaðar vissar fjárhæðir, þannig að raforkusjóði verði lánaðar 45 millj. kr., ræktunarsjóði verði lánaðar 25 millj. kr. og til hafnarframkvæmda verði varið 28 millj. kr. Samtals er hér um að ræða að endurlána 98 millj. kr. og er þá ekki gert ráð fyrir, að ákvörðun sé á þessu stigi tekin varðandi ráðstöfun yfirfærslugjalds af þessu fé, sem nemur rúmum 50 millj. kr. Það hefur áður verið hér í umr., m. a. við 2. umr. fjárlagafrv., gerð grein fyrir því, hvaða lán hér væri um að ræða. Þetta er lán, sem alllengi hefur verið unnið að útvegun á í Bandaríkjunum og var þá þar frá því skýrt, að áður en lokið yrði afgreiðslu fjárlaga, mundi verða leitað heimildar til þess að taka umrætt lán og jafnframt leitað samþykktar Alþingis á því, hvernig láninu skuli skipt.

Þegar samþykkt var hér að taka út úr fjárlagafrv. 10 millj. kr. til nýrra raforkuframkvæmda, var því jafnframt yfir lýst, að þessi ráðstöfun ætti ekki að verða þess valdandi, að tefðist framkvæmd 10 ára áætlunarinnar um rafvæðingu landsins og yrði séð fyrir lánsfé, til þess að auðið væri að standa við þá áætlun. Það er augljóst, miðað við þá endurskoðun, sem nú hefur verið gerð á rafvæðingaráætluninni, að með því fé, sem hér er gert ráð fyrir að endurlánað verði til raforkuframkvæmdanna, er hægt að standa straum af kostnaði við þann lið áætlunarinnar, sem fellur á þetta ár og þessi nýja áætlun er við það miðuð, að auðið verði að ljúka 10 ára áætluninni á tilsettum tíma. Það hefur ekki enn þá verið gengið endanlega frá þessari endurskoðuðu áætlun, en hins vegar liggur fyrir í stórum dráttum, hvernig yfirstjórn raforkumálanna telur æskilegt að þessi endurskoðaða áætlun verði. Og eins og ég áðan sagði, þá er endurskoðunin miðuð við það sjónarmið, að ekki sé dregið úr þeirri þjónustu, sem veita átti landsmönnum samkvæmt 10 ára áætluninni. En þessi endurskoðun hins vegar hefur leitt af sér það, sem má telja óvenjulegt hér, að það er talið, að hægt sé að veita þessa þjónustu með miklu minni tilkostnaði, en hefði orðið, ef átt hefði að framkvæma 10 ára áætlunina eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Og það er talið, að þessi nýja áætlun geti minnkað tilkostnað við lokaframkvæmd 10 ára áætlunarinnar, sem nú er, — en það tímabil er nú hálfnað, — um 88 millj. kr. Og ekki aðeins fæst þessi árangur, að það sparast þarna 88 millj. í stofnkostnaði, heldur jafnframt mun þessi breyting leiða það af sér, að rekstrarafkoma rafmagnsveitna ríkisins á þeim árum, sem eftir eru af 5 ára tímabilinu, mun batna sem svarar 25 millj. kr. Nú er, eins og menn vita, geysilegur halli á rekstri rafmagnsveitnanna, þannig að rekstrarhalli á árinu 1959 er áætlaður 13 millj, kr. og er að sjálfsögðu mjög geigvænlegt, að svo mikil fjárveiting skuli fara til þess eins að greiða halla af rekstrinum. En miðað við þessa endurnýjuðu og endurskoðuðu áætlun er gert ráð fyrir, að rekstrarhallinn verði horfinn á árinu 1962 og er hér að sjálfsögðu um geysiveigamikið atriði að ræða fyrir allt það fólk í landinu, sem raforku notar, því að að sjálfsögðu er ekki hægt í framtíðinni að leysa greiðslu þessa rekstrarhalla með lánum, heldur yrði auðvitað að stórhækka rafmagnsverðið til þess að mæta þessum aukna kostnaði. Það er að vísu gert ráð fyrir, að nokkur hækkun verði á rafmagnsverði í tveimur áföngum, en sú hækkun er hverfandi á móts við þá miklu hækkun, sem orðið hefði að gera til þess að mæta þessum geysilega halla, sem ella hefði orðið.

Ég skal ekki, nema tilefni gefist til, fara að rekja í einstökum atriðum þær tölur, sem fyrir liggja í sambandi við þessa nýju áætlun, en get aðeins getið þess, að samkvæmt eldri áætluninni var gert ráð fyrir, að á þessu tímabili mundi raforkumagn aukast alls í raforkustöðvum, dísilstöðvum og vatnsaflsstöðvum um 6.100 kw., en samkvæmt hinni nýju áætlun er gert ráð fyrir, að aukningin verði 10.100 kw.

Ástæðan til þess, að kostnaður hefur svona mjög minnkað í þessari síðari áætlun, er fyrst og fremst sú, að það er gert ráð fyrir að leggja ekki nú á næstu árum hinar óhagstæðustu stofnlínur til ýmissa staða, heldur verði komið þar upp dísilstöðvum eða þær auknar að afli, þannig að þær geti veitt á þessum stöðum sömu þjónustu og þessar stofnæðar hefðu gert. Það kemur svo að sjálfsögðu síðar til athugunar, þegar raforkuneyzla vex, að leggja þessar stofnlínur, en almenning skiptir það vitanlega engu máli, frá hvernig stöðvum hann fær sína raforku, ef rafmagnsverðið verður það sama. Og það er gert ráð fyrir um þær dísilstöðvar, sem rafmagnsveitur ríkisins reka, að orkusala frá þeim til neytenda sé ekki kostnaðarmeiri. en frá dreifiveitum vatnsaflsstöðvanna. Miðað við þessa endurskoðuðu áætlun, sem eins og ég áðan sagði er byggð á því að veita fullkomlega þá þjónustu, sem gert var ráð fyrir í 10 ára áætluninni, þá er séð fyrir því fjármagni, sem þarf í ár til þess að framkvæma það, sem samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að framkvæmt verði á þessu ári. Ég get skýrt frá því hér, að um síðustu áramót hefði átt að vera búið að ljúka lagningu á 55% af þeim býlum, sem eiga að fá rafmagn samkv. 10 ára áætluninni. Að vísu er þessi tala í reyndinni nokkru lægri, vegna þess að á s. l. ári varð mjög mikill samdráttur í sambandi við lagningu héraðsveitna. Fyrstu árin var framkvæmd dreifiveitna út um sveitir hraðari, en gert var ráð fyrir í 10 ára áætluninni. Hins vegar hefur nú síðustu árin dregið mjög úr þessu, einkum á síðasta ári, því að þá var mjög verulegum hluta af þeim framkvæmdum, sem þá átti að vinna að, frestað til ársins í ár, eða rúmlega 12 millj. kr. og var þannig ástatt um síðustu áramót, að eftir var að leggja 17 línur af þeim línum, sem leggja átti á árunum 1957 og 1958. Þessi mikli samdráttur í framkvæmdum á þessum tveimur árum varðandi framkvæmd áætlunarinnar veldur því að sjálfsögðu, að það eru stórar fjárhæðir, sem verður nú að sjá fyrir til þess að ljúka þessum framkvæmdum. Samkvæmt hinni endurskoðuðu áætlun er hins vegar gert ráð fyrir því, að lokið verði lagningu allra þessara lína, sem í áætluninni eru, á þeim 5 árum, sem eftir eru af tímabilinu. — Þetta er það atriði, sem varðar raforkuframkvæmdirnar.

Um ræktunarsjóðinn er það að segja, að það hefur verið mikið vandamál á hverju ári að undanförnu að leysa fjárþörf hans og það er að sjálfsögðu þar við sama viðfangsefnið að glíma og verið hefur undanfarin ár og er nú lagt til, að 25 millj. kr. af þessari fjárhæð verði varið til þessa sjóðs. Það hefur valdið bæði ræktunarsjóði og byggingarsjóði geysilegum erfiðleikum yfirfærslugjald það, sem samþykkt var á s. l. ári, vegna þess, hve mikið af lánum þessara sjóða er í erlendri mynt og að sjálfsögðu verður að fara í það svo varlega sem nokkur kostur er á að taka erlend lán til þessara stofnlánasjóða, vegna þess að þeir geta ekki lánað aftur með gengisábyrgð og mér skilst eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um það, að það skipti mörgum milljónatugum í aukin útgjöld fyrir þessa sjóði það yfirfærslugjald, sem lagðist á þessi lán á s. l. ári. Ég hef ekki fyrir mér hér tölur varðandi afkomu þessara sjóða nú og geri ráð fyrir, að það verði upplýst af hæstv. ríkisstj., ef óskað verður nánari upplýsinga um það efni.

Þá er 3. liðurinn, sem er til hafnarframkvæmda. Það hefur mörg undanfarin ár verið talað um hina miklu nauðsyn þess að fá lán til hafnargerða. Það hefur hins vegar ekkert slíkt lán verið tekið og er það því fyrst nú, sem horfur sýnast á því, að hægt verði að fá lán til þessara mikilvægu framkvæmda. Hér er að vísu ekki gert ráð fyrir, að það verði hærri upphæð en 28 millj. kr., sem til þeirra framkvæmda renni af þessu fé. En það eru, eins og ég áðan gat um, engar ákvarðanir enn um það teknar, hvernig ráðstafað verði yfirfærslugjaldinu, sem nemur rúmum 50 millj. kr., og munu gerðar um það till. síðar eða áður, en því fé verður endanlega ráðstafað.

Það er gert ráð fyrir því í till. þessari, að n. sú, sem samþykkt hefur verið við 2. umr. að skuli annast ráðstöfun atvinnuaukningarfjár, hafi einnig með að gera skiptingu á þessu lánsfé milli einstakra hafna. Hinar fjárhæðirnar tvær, til ræktunarsjóðs og raforkusjóðs, ganga að sjálfsögðu eftir eðlilegum og föstum leiðum. En hér er um alveg nýtt fyrirbrigði að ræða, þar sem um er að ræða lán til margra liða, þar sem um hafnarframkvæmdir er að ræða, og fyrir hendi eru ekki neinar fastar reglur til þess að ráðstafa slíku fé, svo sem er, þar sem gerð hefur verið sérstök rafvæðingaráætlun og í annan stað fastar reglur, sem gilda um lán úr ræktunarsjóði. Það þykir því eðlilegt, að það séu sett sérstök fyrirmæli um það, hver skuli annast skiptingu á þessu tiltekna fé.

Ég hef þá, herra forseti, í stórum dráttum gert grein fyrir þeim till. annars vegar, sem fjvn. öll stendur a, og hins vegar þeim till., sem 1. minni hl. n. flytur á sérstökum þskj. og eiga, eins og ég áðan gat um, að geta tryggt það, að fjárl. geti orðið nú afgreidd greiðsluhallalaus, en þó að sjálfsögðu með þeim fyrirvara, að ekki verði samþykktar hér við þessa umr. nýjar útgjaldatill., nema þá hv. þm. sjái jafnframt fyrir því að gera ráð fyrir nýrri tekjuöflun þar á móti, þar sem með þessum till., sem hér liggja fyrir, er ekki gert ráð fyrir neinum teljandi greiðsluafgangi.