28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 3. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Till. þær, sem fjvn. gerir sameiginlega, eru á þskj. 439. Hv. 2. þm. Eyf. (MJ), frsm. 1. minni hl., hefur reifað þessar till. Ég læt því vera að ræða þær. Við í 3. minni hl. gerum engan ágreining um þessar till., þó að þær séu okkur misjafnlega vel að skapi, eins og oft vill verða, þegar samkomulag er gert um afgreiðslu. Eitt er látið mæta öðru og fyrir mig get ég sagt það, að mér þykir betri samstaðan, sé hún fáanleg og forsvaranleg, heldur en klofningurinn. Ég sækist miklu frekar eftir samstöðunni, en klofningnum, þó að hjá honum verði löngum ekki komizt, þ. á m. alls ekki við afgreiðslu þessara fjárl. í undirstöðuatriðum. Fjárlagaafgreiðslan mótaðist af stjórnarstefnu, sem hagar sér líkt og maður, sem veit, að hann á ekki nema nokkrar vikur ólifaðar og gerir ekki ráð fyrir heldur, að hann þurfi sem einstaklingur að svara fyrir gerðir þessara vikna í öðru lífi. Að þessu kem ég nánar síðar.

Hv. 1. minni hl. fjvn. flytur till. sérstaklega á þskj. 447. Flestar eru þær um tekjuöflun og ég mun koma að þeim síðar f ræðu minni, en á þessu stigi vil ég minnast á 8. till., þ. e. þá síðustu. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, að heimilt sé:

„að verja af framlagi á 19. gr. til útflutningssjóðs fé til að koma í veg fyrir verðhækkun erlends áburðar vegna efnahagsráðstafananna á s. l. ári umfram þá verðhækkun, sem orðið hefur á innlendum áburði.“

Við, sem erum í 3. minni hl., lýstum því yfir, að við gætum vel verið flm. með 1. minni hl. að þessari till., en 1. minni hl. færðist undan því, bar fyrir formsástæður, sem þó voru ekki fyrir hendi. Mér fannst 1. minni hl. í sambandi við þessa till. vera líkur dreng í réttum, sem langar til að eignast lamb, ekki af því, hvað það er vænt, heldur af því, hvað honum finnst það vera fallegt á litinn.

Ég vil segja það um þessa till., að hún er ekki sérstaklega mikilsverð. En samt sem áður er hún þó með lit, sem gerir það að verkum, að við gátum talið, að hún væri fremur til bóta og það var þessi litur, sem 1. minni hl. fannst svo fallegur, að hann vildi ekki láta aðra standa með sér að till.

Í till. er, eins og hv. frsm. 1. minni hl. réttilega skýrði frá, gert ráð fyrir því, að greiddur verði niður áburður til bænda og áætlað er, að það muni nema um 3.5 millj. Þessi niðurgreiðsla hefur þá þýðingu, að bændurnir fá aftur ekki tekið inn í verðlagsgrundvöll sinn það, sem tilkostnaður þeirra hækkar, miðað við hækkandi verð á áburði, og þess vegna hækkar ekki verðið á vörum þeirra með tilliti til hans og þarf ekki þá niðurgreiðslu til þess að koma í veg fyrir þá hækkun og það tel ég nokkuð mikilsvert, vegna þess að nú er farið að greiða vörur bænda svo mikið niður, að það er þeim sjálfum til óhagræðis, fyrst og fremst af því, að þeir njóta ekki þeirrar niðurgreiðslu í sama mæli og aðrir og líka fyrir það, að þetta skekkir hugmyndir fólks um verðmæti þeirrar vöru, sem þeir framleiða og verði einhvern tíma horfið að því ráði að hætta niðurgreiðslum og komist fjármálalíf okkar á svo heilbrigðan grundvöll, að hægt sé að fella niður niðurgreiðslurnar, þá verður vafalaust dálítið óþægilegt að skapa skilning á því, hvað þessar vörur þurfa að vera hlutfallslega hærri, en neytendunum finnast þær vera nú.

Næst vil ég þá minnast á till. á þskj. 451, sem við í 3. minni hl. flytjum. Þessi till. er um heimild til að taka erlent lán og um ráðstöfun á því. Till. er hliðstæð till., sem 1. minni hl. flytur á öðru þskj. Það er líka heimild til jafnhárrar lántöku, en sú tillaga er frábrugðin þessari till. okkar að því leyti, að við teljum rétt, að Alþingi skipti allri fjárhæð lántökunnar og leggjum til, hvernig henni skuli skipt. 6 millj. dollara gera í íslenzkum krónum með yfirfærslugjaldi um 150 millj. kr. og það er sú upphæð, sem við leggjum til um skiptingu á. En hv. 1. minni hl. skiptir aðeins upp upphæð, sem svarar til lántökufjárhæðarinnar án yfirfærslugjalds.

Till. okkar um skiptingu eru á þá leið, að við leggjum til, að til raforkusjóðs gangi 45 millj. kr., en þetta er sama upphæð og hv. minni hl. leggur til að raforkusjóður fái. Við miðum við það, að þessi fjárhæð sé upphæð, sem þurfi að nota til þess að framkvæma rafvæðingaráætlunina, 10 ára áætlunina um rafvæðinguna, að því er þetta ár snertir — og með tilliti til þess, að búið er að taka út úr fjárlfrv., eins og gert var við 2. umr., 10 millj. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði til rafvæðingarinnar á þessu ári.

Hins vegar virtist vera dálítið á huldu um það, hvað fyrir stjórnarflokkunum vekti með þessari fjárveitingu. Það kom í ljós jafnvel í viðræðum, að þeir töldu, að þetta væri nægileg fjárveiting til raforkuframkvæmdanna fyrir tvö ár. Það kom sem sé upp fyrir örstuttu kvittur um það, að breyta eigi hinni svonefndu 10 ára raforkuáætlun. Sá kvittur skaut, að ég held, fyrst upp kollinum hér í þingsalnum, þegar hv. 1. þm. Reykv. (BBen) gat þess, að það hefði komið í ljós á einum litlum eða stuttum fundi, minnir mig að hann segði, að hægt væri að spara á raforkuplaninu bara hvorki meira né minna en 160 millj. kr. Ég fyrir mitt leyti hafði ekkert heyrt um þetta áður.

Þetta var náttúrlega engin smáfrétt og eftir þá frétt hófum við framsóknarmenn eftirgrennslan um, hvort þetta væru staðreyndir, og seint í gær skýrði hæstv. forsrh. fjvn. aðspurður frá því, að uppi væru hugmyndir um það að breyta framkvæmdaáætlun rafvæðingarinnar og hann sýndi okkur í fjvn. bréf, sem mér skildist að hann hefði pantað frá raforkumálaskrifstofunni og þar með skýrslur nokkrar um þetta efni. Eins og gefur að skilja, hefur ekki verið tími til þess síðan í gærkvöld, að kynna sér svo sem skyldi efni þessara hugmynda. Þó stendur skýrum stöfum í þessum skjölum, að lækka megi framkvæmdakostnað rafvæðingarinnar frá því, sem áður var ætlað, um 88 millj. kr. og hv. frsm. 1. minni hl. staðfesti þetta í ræðu sinni hér áðan. Það er því, að því er virðist, um fréttina, sem hv. 1. þm. Reykv. flutti hér, að hún stenzt ekki vel. Að vísu munar ekki nema nærri því um helming. En þannig er stundum með fiskifréttir.

Mér virtist hæstv. forsrh. í gær, vísa í þessi skjöl, sem ég nefndi, sem grundvöll fyrirætlana í rafvæðingarmálum í ár og eftirleiðis og þá gat hann þess, eins og ég sagði áðan, að 45 millj. ættu að geta hrokkið til þessara mála sem lántökur, aðallántökur fyrir árið í ár og næsta ár og af skjölum þessum virðist liggja ljóst fyrir, að lækka eigi framkvæmdaáætlun ársins um 30–40 millj. kr. frá því, sem áður var fyrirhugað í samræmi við 10 ára áætlunina og ég heyrði ekki betur, en hv. frsm. 1. minni hl., 2. þm. Eyf., staðfesti þetta í ræðu sinni áðan.

Við framsóknarmenn teljum þetta fráleitt. Tíu ára áætlunin er eins og loforð til þeirra, sem bíða eftir rafmagni samkvæmt henni. Það væru hreint og beint svik við þá að víkja í verulegum atriðum frá henni. Tillaga okkar er miðuð við þá áætlun og að við hana verði staðið af fullum myndarskap.

En í skjölunum, sem við sáum hjá hæstv. forsrh. og einnig í ræðu hv. 2. þm. Eyf. kom fleira fram. Þar kom fram, að fella á niður nokkrar línur frá virkjunum vatna eða fresta þeim um óákveðinn tíma, en taka upp þess í stað að efla dísilstöðvar til þess að veita frá þeim rafmagni í umhverfin og ætla ýmsum heimilum, sem áður voru samþykkt vera á samveitusvæðum, að koma sér upp dísilrafstöðvum til einkanota. Með þessu á að spara sagði hv. 1. þm. Reykv. — spara í bili, held ég, að hv. 2, þm. Eyf. hafi sagt, — en með því rjúfa heit við þá, sem áður áttu að fá rafmagn frá samveitum og fossafli.

Þetta eru alvarleg brigð og stefnuhvörf. Við mótmæltum þessum brigðum. Vitanlega telja rafmagnsnotendur með réttu allt annað og verra hlutskipti, ef þeir eiga nú að koma sér upp dísilrafstöðvum eftir alla biðina, meðan verið var að leiða rafmagn til þeirra, sem búnir eru að fá rafmagn frá samveitum. Dísilrafstöðvar endast illa, á þeim er mikið viðhald, og þeim fylgir ekki sama öryggi og Rafmagnsveitum ríkisins, sem séð er um sameiginlega.

Við, sem skipum 3. minni hl. í fjvn., teljum því þessa hugmynd um breytingu á rafvæðingaráætluninni óalandi og erum henni mótfallnir. Með því segjum við þó alls ekki, að áætluninni kunni ekki að mega breyta eitthvað til bóta frá því, sem í upphafi var gert, án þess að nokkurn saki. En slík gerbreyting sem þarna virðist vera á ferðinni er óforsvaranleg. Sé það alvara hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar að gera hana, þá teljum við það hnefahögg í andlit fólksins, sem fyrir breytingunni verður. Við teljum það einn vott ranglætis þess, sem þessu fólki á að bjóða líka í sambandi við fyrirhugað afnám kjördæma þess. Það er eins og kveðja til hinna fornu kjördæma, um leið og þau á að svipta sínum sérstöku fulltrúum til að halda uppi rétti þeirra í framtíðinni. Sú kveðja stjórnarflokkanna er nöpur og köld. Það er ekki vinarhönd, sem réttir höggið.

Annar liður um skiptingu lánsins er, að til ræktunarsjóðs verði látnar ganga sem lán 30 millj. kr. Hæstv. stjórnarflokkar leggja til, að 25 millj. gangi til ræktunarsjóðs. Við teljum réttara að hækka þessa upphæð upp í 30, vegna þess að það er í samræmi við þarfir ræktunarsjóðs á undanförnum árum.

Til hafnarframkvæmda viljum við að ætlaðar séu 50 millj. kr. Allir vita og um það er ekki hægt að deila, að hafnarframkvæmdir kalla mjög að víða og fé vantar til þess að fullnægja þeim þörfum, sem þar eru mest aðkallandi, þó að aðrar séu ekki nefndar. Ég veit, að hæstv. forsrh. hefur áhuga fyrir hafnarframkvæmdum og ég vænti þess, að hann leggist ekki á móti þessum lið till. Ég minnist þess, að í áramótaávarpi sínu gat hann þess alveg sérstaklega að því er hafnarframkvæmdir snertir, að þar þyrfti betur að gera, en að undanförnu.

Þá leggjum við til, að til fiskveiðasjóðs verði látnar ganga 25 millj. Hv. frsm. 2. minni hl. gat þess áðan, að forstöðumenn fiskveiðasjóðs væru ekki ákafir í það að fá á þessu stigi hluta af þessu láni og hann sagði réttilega, að þetta væri af því, að þeir treystu ekki fjármálastjórninni í landinu svo vel, að ekki gæti komið til þess, að það yrði skaði fyrir sjóðinn sem sjóð að taka á móti þessu fé. En þó að vantraust sé borið til fjármálastjórnar í landinu, þá geta menn ekki hætt að lifa og ekki lokað sjóðum og það er víst, að eftirspurn eftir lánum úr fiskveiðasjóði er svo mikil og þörfin, sem stendur á bak við þá eftirspurn, svo mikil og sönn, að ekki mun af því veita, hvað sem forstöðumennirnir segja, að leggja þeim þetta fé í hendur til þess að gera úrlausnir fyrir þau verkefni, sem fiskveiðasjóður á sérstaklega að sinna.

Ég sé hér tvær brtt. frá hv. 2. minni hl. fjvn. á þskj. 450. 3. minni hl. hefur ekki tekið afstöðu til þessara brtt., svo að ég get ekkert mælt fyrir hönd hans um þær, en hins vegar vil ég í leiðinni lýsa því yfir að því er mig sjálfan snertir, að ég mun greiða fyrri till. atkv.

Mér virðist nauðsynlegt, að það sé tryggt, að framleiðendur í landinu og þar með atvinnulífið geti fengið greitt úr útflutningssjóði það, sem honum ber að greiða og mér virðist sú till. styðja að því. Hjá ríkissjóði verður þá a. m. k. ekki sú fjárhæð, sem honum er ætlað að greiða til útflutningssjóðs, sýndarfjárhæð á undan öðrum slíkum.

Skáldið Einar Kvaran sagði: „Allir eru að semja sögu, ef ekki sögu af öðrum, þá a. m. k. sína eigin sögu, með því að vera til.“ Hæstv. ríkisstj. er að semja sögu í þessum skilningi, en sú saga tilheyrir þeim flokki sagna, sem nefnist reyfarar. Aðalfyrirsögn reyfarans, sem hæstv. ríkisstj. er að semja með stefnu sinni og starfsemi, er að mér virðist: Syndaflóðið kemur ekki fyrr, en eftir minn dag. — Undirfyrirsögn er þar líka innan sviga: (En þá má syndaflóðið koma).

Þessi reyfari hófst með myndun hæstv. ríkisstj. og heldur áfram dag frá degi í sama stíl að lengjast. Sjálfstfl. segir fyrir um efni reyfarans og atburðarás og hann annast prófarkalesturinn líka svona til frekara öryggis. Afgreiðsla fjárl. við 2. umr. var efnismikill kapítuli í þessum reyfara. Fyrirsögn þess kapítula gæti verið: Hvernig Sjálfstfl. lætur Alþýðuflokksstjórn fara að ráði sínu. — Áætlun um tekjur ríkissjóðs var hækkuð, eftir því sem reyfarinn þarfnaðist, án tillits til allrar sannfræði. Gjöld voru lækkuð einnig á pappírnum, þótt óraunhæft væri auðsæilega, af því að þetta hentaði líka reyfaranum. Enn fremur voru skornar niður fjárveitingar, hvort sem vit var í eða vit ekki, ef litið er á atvinnulíf og uppbyggingu, af því að lokleysa reyfarans þurfti á þessu að halda.

Eina raunverulega sparnaðartillagan var 500 þús. kr. og hún var um það að leggja niður orlofsmerki, sem voru eitt sinn hjartans mál Alþfl., og sú till. var tekin aftur þá, rétt eins og hún hefði verið borin fram að fyrirsögn Sjálfstfl, í því skyni að reyna auðsveipni Alþfl., en afturkölluð, þegar sönnunin var fengin um, að hlýðnin var fullkomin. Þetta var próftillaga. Nú sé ég, að hv. 1. minni hl. leggur þessa till. fram aftur, svo að ekki skal hlíft hinum auma.

Lokafrágangur fjárl. við 3. umr. er svo kapítuli reyfarans út af fyrir sig. Mér finnst, að sá kapítuli mætti heita: Áfram veginn í vagninum ek ég — og: Aldrei verður bíll of dýr.

Við 2. umr. kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. hafði hugsað sér að afla tekna með því að leyfa innflutning á bílum fyrir frjálsan gjaldeyri. Sá bílainnflutningur átti að vera 250 bílar talsins fram yfir þá bílatölu, sem innflutningur nam á s. l. ári. Hugmynd stjórnarflokkanna mun vera að taka ekki hart á því, þó að fram komi við kaup á þessum bílum felugjaldeyrir. Álag til ríkisins á alla gjaldeyrisfrjálsa bíla á að hækka úr 160% upp í 300%. En af því að nú við 3. umr. var sýnilegt, að það vantaði tekjur, þá hefur stjórnarliðið ákveðið að auka innflutning bíla, sem innflutnings- og gjaldeyrisleyfi þarf fyrir, um 100 og hafa álag á þá hækkað úr 160% í 250%. Með þessu hyggst stjórnin og stuðningsflokkar hennar ná endum fjárl. saman, eins og hv. frsm. 1. minni hl. gerði grein fyrir og einnig fá um leið drjúgan skilding í útflutningssjóð.

Þessa hækkun gerir stjórn, sem heldur því samt blákalt fram, að hún hækki ekki álögur á almenning á nokkurn hátt. Þetta stendur meira að segja enn í aðalblaði stjórnarflokkanna, Alþýðublaðinu, í dag. Hver heilvita maður veit, að hækkun innflutningsgjalda á þessum bílum bitnar á fjölda manns, ef bílarnir þá verða fluttir inn.

Í áætlunum sínum í sambandi við fjárl. og útflutningssjóð er þessi stjórn, sem ætlaði að stöðva verðbólguna með niðurgreiðslum og því líku án þess að auka álögur, búin að ákveða nýjar álögur, sem nema yfir 60 millj. kr. Samt segir Alþbl.: „Engar nýjar álögur, sem snerta almenning.“

Á hinn bóginn er svo það, að það er ósennilegt, að með þessu hækkaða álagi á bílana verði innflutningurinn eins mikill og hæstv. ríkisstj. vill vera láta eða sem nemur 350 bílum meiri, en hann var s. l. ár. Það eru áreiðanlega takmörk fyrir því, hvað menn geta og hvað menn vilja kaupa bíla dýru verði, þó að mikil sé eftirsóknin eftir þeim. Hækkunin, sem þarna er á lögð, er gífurleg: 17 þús., 20 þús., 30 þús. eða jafnvel nálega 50 þús. kr. á bíl eftir tegundunum. Í þessari tekjuöflunaráætlun er því engin raunhæfni, með henni er byggt á sandi. Slíkar áætlanir hljóta að koma illa í koll síðar. En hæstv. ríkisstj. býst að sjálfsögðu ekki við, að það verði fyrr en eftir sinn dag og ætlast til, að þetta fyrirhitti ekki sinn koll. Hún ætlar þá að vera búin fyrir sitt leyti að ljúka reyfaranum.

Í þessum fjárl. er tekjuáætlunin svo óábyggileg, svo þanin, svo viðaveik, að ef hún væri t. d. skip, mundi ábyrg skipaskoðun ekki telja hana sjófæra. Hún mundi ekki fá haffæriskírteini. Hver er það, sem gefur henni haffæriskírteini? Það er nú ekki Alþfl., hún telst hans skip, en það er Sjálfstfl., sem gefur henni haffæriskírteini. Ekki er ólíklegt, að hann verði síðar meir sóttur til saka fyrir þetta.

Hæstv. ríkisstj. hlýtur að vita það, að hún er með þessum fjárl. að gefa út ávísun, sem ekki er ábyggileg innstæða fyrir og vanta mun innstæðu fyrir. En þó að tekjuáætlunin sé langt úr hófi fram, þá er líka skorið niður gjaldamegin framkvæmdafé, svo að verklegu athafnalífi í landinu blæðir, eins og sýnt var fram á við 2. umr. fjárl. Einnig er fé til þess að standa við skuldbindingar skert, svo sem fé, sem leggja þarf út vegna ábyrgða ríkisins. Og innan um þetta skín svo í snjáldrið á þeirri hófleysu að ætla, hvað sem hver segir, að gefa milljónamæringum, engu síður en fátækum útgerðarmönnum, upp þurrafúalánin, en auðvitað ekki strax, heldur með ávísun á framtíðina. Sjálfstfl. var trúandi til þess að vilja gefa milljónamæringum upp skuldir við févana ríkissjóð, en Alþfl. átti ekki að vera trúandi til þess eða hefði ekki átt að vera það, en svona er saga hans, reyfarinn orðin.

Mig furðar á því, að hinn fáliðaði Alþfl. skyldi, þó að jólaljósin í Reykjavík væru björt í vetur, vera svo bjartsýnn, að hann héldi, að hann væri nógu stór til að valda þeim verkefnum, sem hann þá tókst á hendur. Vafalaust hefur ekki verið meining hans að semja með því slíkan reyfara sem á daginn er kominn. Sennilega hefur hann ætlað að semja frægðarsögu til þess að vaxa á. En til þess voru engin efni og hann átti að vita það sjálfur. Án efa sér hann þetta nú, því að jólaljósin eru löngu slokknuð og skuggar vanmáttarins vefjast um fætur hans, enda er, eins og fjárl. glöggt sýna, leitazt við að slá á frest öllum erfiðleikum og fara í felur með staðreyndir, reynt með flótta og felum að komast þann stutta spöl, sem eftir er fram yfir kosningarnar. Aftur á móti furðaði mig ekkert á því í vetur, að Sjálfstfl. féllst á það að styðja við bakið á stjórn Alþfl. án ábyrgðar og fá um leið aðstöðu til að stýra skrefum hans inn á glapstiguna. Sjálfstfl. hafði verið í öngum sínum allan tímann, sem vinstri stjórnin sat að völdum. Hann var farinn að halda stytzta dag ársins, að enginn Íslendingur ætlaði að gráta sig. Það er hans afsökun. Eftir atvikum virtist honum stuðningur við Alþfl. á þann hátt hyggilegur fyrir sig sem undanfari þess, að hann tæki svo við, þegar kraftana þryti hjá Alþfl., sem hann vissi að fljótt mundi verða og hann taldi sig geta ráðið nokkuð um hvenær yrði.

Auðvitað er aldrei hægt að sjá, hvað fyrsti leikur í tafli getur af sér leitt að lokum, þó að hyggilega sýnist hann vera leikinn og trúað gæti ég því, að Sjálfstfl. væri nú dálítið farinn að óttast um sinn þátt í þessum reyfara, að það sé farið að hvarfla að Sjálfstfl. í kjördæmamálinu og einnig við afgreiðslu fjárlaganna, að vont verði að fást við eftirleikinn, að hann geti ekki þvegið hendur sínar af grómi glapstiganna og fái á sig sakir og áfellisdóm fyrir þátttökuna við að semja reyfarann, sem getur ekki endað nema illa. Hann hefur nefnilega orðið að koma opinberlega við söguna miklu meira, en hann mun hafa ætlazt til í fyrstu. Ég veit, að hann hlýtur t. d. að sjá, að efnahagsmálastefnan við afgreiðslu þessara fjárlaga og í sambandi við útflutningssjóð er sú horaða kýr, sem gleypir upp í topp fyrningarnar frá fyrra ári og étur einnig af forða framtíðarinnar í óheyrilega stórum stíl án þess þó að fitna sjálf eða mjólka fyrir fóðrinu. Saga næstu ríkisstjórnar strax eftir næstu kosningar, hverjir sem þá stjórn skipa, hlýtur að verða saga um erfiða baráttu við syndaflóðið, sem kemur á eftir þessum reyfara, sem afleiðing hans. Alþfl. verður að sjálfsögðu um kennt, en þó ekki einum, enda væri það ekki sanngjarnt, heldur Sjálfstfl. líka, því að svo mikill þátttakandi hefur hann verið í því, sem gerzt hefur í Alþfl.-reyfaranum.