28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

1. mál, fjárlög 1959

Eysteinn Jónsson:

Ég vil fyrst leyfa mér að þakka n. fyrir það, að hún hefur tekið nokkuð til greina tvær af þeim brtt., sem við þm. S-M. fluttum hér við 2. umr. málsins.

Önnur till. var um að hækka framlag til hafnargerðar á Reyðarfirði, Búðareyri við Reyðarfjörð og tekur n. inn nokkra hækkun, sem er þó í áttina.

Hin till., sem n. hefur tekið til greina að nokkru leyti, var till. okkar um að hækka framlag til flugvallargerðarinnar í Neskaupstað. Við bentum á það við 2. umr., að ef ætti að hafa þessa fjárveitingu eins og gert var ráð fyrir hjá 1. hv. minni hl. n. og meiri hl. þingsins, þá mundi taka 8 ár að ljúka þessum flugvelli hér frá, en menn höfðu vonazt eftir, að honum gæti orðið lokið á 3 árum. Enn fremur hefði þá líklega ekkert verið hægt að vinna í sumar með sanddæluskipi því, sem að þessu verki starfar, því að þá hefði fjárveitingin orðið svo lítil, að það hefði sennilega ekki verið talið taka því einu sinni að hafa skipið við þessa vinnu. Nú hefur n. fallizt á að hækka þessa fjárveitingu upp í 500 þús. kr., og vil ég þakka n. fyrir það. En á hinn bóginn bendi ég þó á, að þessi fjárveiting er auðvitað allt of lítil, vegna þess að hún mun ekki endast til þess, að dæluskipið vinni þarna yfir sumarið, eins og verið hefur undanfarið og því setja þessa áætlun úr skorðum, nema það tækist með einhverju móti að semja um það við flugmálastjórnina í sumar, að hægt væri að halda verkinu áfram upp á einhver býti til haustsins, þótt fjárveitingin sé ekki meiri en þetta. Munum við taka það mál upp við hæstv. ríkisstj., þegar þar að kemur og svo flugmálastjórnina. En sem sagt, hér hefur verið stigið skref í áttina til þess, sem við lögðum til og við viljum þakka n. fyrir það og viljum a. m. k. vona, að þessi breyting verði til þess að koma í veg fyrir, að alger stöðvun verði á þessu þýðingarmikla verki.

Varðandi fjármálaafgreiðsluna í heild, þá vil ég í einu og öllu vísa til þeirrar glæsilegu ræðu, sem hv. frsm. 3. minni hl., hv. þm. S-Þ. (KK), flutti um það mál, og hef engu við það að bæta.

Þá vil ég minnast hér á lánamálin nokkrum orðum vegna þess, hve stórfelld þau eru og koma hér til afgreiðslu í sambandi við 3. umr. fjárl.

Ég vil fyrst taka það fram, að það er vitanlega ekki hægt að skilja sundur það, sem kallað er lánið sjálft og yfirfærslugjaldið af láninu, vegna þess að þetta yfirfærslugjald er í raun og veru aðeins gengisskráning og þeir, sem taka að láni hér innanlands í erlendri mynt, verða að fá yfirfærslugjaldið með um leið til sín, því að þeir verða að skila láninu aftur í erlendri mynt með yfirfærslugjaldi. Þetta er því alls ekki hægt að skilja í sundur, þó að það sé gert bókhaldslega í till. 1. minni hl. n. og ríkisstj. Þess vegna teljum við alveg eðlilegt, að hv. Alþ. geri nú strax ráð fyrir því, hvernig láninu verði ráðstafað í heild, eins og hv. frsm. 3. minni hl., hv. þm. S-Þ., gerði grein fyrir.

Ég vil aðeins bæta við það, sem hann sagði um fiskveiðasjóðinn. Hv. stjórnarlið segir, að fiskveiðasjóðurinn þurfi ekki meiri peninga, en hann hefur. Það eru nú ekki nema 2–3 dagar, síðan ég fór á fund skrifstofustjóra eða forstjóra fiskveiðasjóðsins og vildi fá fyrirheit um lán fyrir útvegsmann, sem ætlaði að kaupa sér myndarlegan bát og svarið var, að það væri ekki hægt að gefa loforð um slíkt, vegna þess að það væri ekki séð, hvort sjóðurinn hefði peninga til þess að lána, þegar til kæmi, að skipið kæmi til landsins, sem átti að verða núna í haust. Þetta skýtur þess vegna eitthvað skökku við. En látum það liggja á milli hluta, hvort fiskveiðasjóðurinn hefur eða hefur ekki peninga á næstu mánuðum til þess að fylla upp í einhverja ímyndaða lágmarksþörf til að lána út á báta til þess að endurnýja bátaflotann og vélarnar í bátunum. Látum það liggja á milli hluta. Hitt er aðalatriði þessa máls, að okkur virðist það alls ekki vera viðeigandi að taka jafngífurlega stórt lán eins og hér er gert ráð fyrir og fyrrv. ríkisstj. hafði undirbúið, án þess að einhver hluti af láninu sé hreinlega notaður til þess að auka skipastól landsmanna og lána til frystihúsaframkvæmda og annarra framkvæmda við sjóinn, sem fiskveiðasjóði, er ætlað að standa undir. Og þetta snertir í okkar huga ekkert einhverja þrönga, nánasarlega útreikninga um það, hvort hægt sé með því að skera niður allar lánbeiðnir í þessum efnum, hægt að pína áfram starfsemina einhverja mánuði, án þess að fiskveiðasjóður fái meira starfsfé.

Það er okkar föst skoðun, að af svona stóru láni sé alveg óhjákvæmilegt, að nokkur hluti gangi til uppbyggingar á þennan hátt við sjávarsíðuna. Á því er þessi till. okkar byggð, sem liggur fyrir og kemur hér til atkv. á hv. Alþ.

Ég vil benda mönnum á með fáum orðum, hvernig ástatt er í þessu efni. Ef einhver maður hefði áhuga fyrir því að kaupa myndarlegt fiskiskip, sem ekki yrði talið bátur og kæmi í fiskveiðasjóð, þá mundi hann vafalaust fá það svar, að það væri ekki hægt, að sinna slíku máli þar, ef um skipakaup væri að ræða, eitthvað, sem mætti kalla stærra, en venjulega báta. Og þegar nú undanfarið hefur staðið til að eignast slík veiðitæki, þá hefur þurft að fá allt andvirði þeirra að láni erlendis vegna fjárskorts fiskveiðasjóðs. Eftir lögunum um fiskveiðasjóð er honum ætlað að lána út á frystihús, en hann hefur sama og ekkert getað lánað út á frystihús undanfarið. Sama er um verbúðabyggingar. Það er ætlazt til, að fiskveiðasjóður láni út á verbúðabyggingar, en hann hefur mjög orðið að halda að sér hendinni um verbúðabyggingalán, ef ekki alveg undanfarið. Þetta er ástandið. Svo heyrum við, að stjórnarliðið kemur hér og segir: Það er alveg óþarfi að gera ráð fyrir því að fiskveiðasjóður fái nokkurn eyri af þessu stóra láni, sem á að taka, því að hann hefur nóga peninga. — Hann hefur nóga peninga. Þetta er nú risið á stefnu stjórnarflokkanna varðandi uppbyggingu sjávarútvegsins. Það er sem sagt þannig ástatt. Það er ekki hægt að fá lán til þess að kaupa stærri fiskiskip í landinu sjálfu, hvergi nokkurs staðar. Það er ákaflega takmarkað, sem hægt er að fá til frystihúsabygginga og annarra fiskiðjuvera við sjávarsíðuna, þótt fiskveiðasjóði sé ætlað það hlutverk. Og svo hef ég rakið um aðrar framkvæmdir. En þótt þessi mynd sé svona, þá kemur fram hér yfirlýsing um, að það þurfi ekkert af þessu láni að ætla til fiskveiðasjóðs, hann hafi nóga peninga.

Þetta álít ég ekki hyggilegt. Og við, sem stöndum að þessari till., álitum hitt að öllu leyti betur viðeigandi, að tileinka strax einhvern hluta af láninu þessari stofnun. Og þar með er það ljóst, að þeim peningum er ætlað að ganga til uppbyggingar sjávarútvegsins innan þess ramma, sem starfsemi fiskveiðasjóðsins setur og sá rammi er alls ekkert þröngur, því að honum er ætlað að hafa afskipti af mörgu varðandi uppbyggingu sjávarútvegsins.

Hæstv. fjmrh. var ekki ánægður með till. okkar um að hafa svona mikið fjármagn í hafnargerðir og taldi helzt, að það mundi geta spillt fyrir málinu. Ég veit hreint ekkert, hvað liggur að baki þeirra ummæla hjá hæstv. ráðh. Mér er það alveg ráðgáta. Hann sagði enn fremur, að þegar ég hefði verið að undirbúa þetta mál í haust í fyrrv. ríkisstjórn, þá mundu hugmyndir mínar ekki hafa verið þær að láta 50 millj. í hafnargerðir. Hér er um einhvern mikinn misskilning að ræða hjá hæstv. ráðh. í fyrsta lagi var í fyrrv. ríkisstj., eins og margtekið hefur verið fram, alls ekki búið að ákveða neitt sundurliðun á láninu. En ég þori ekkert að segja um, hvort það var farið að nefna nokkrar tölur. Ég man það sem sé ekki upp á víst, hvort farið var að nefna nokkrar tölur um það í ríkisstj. Hitt veit ég, að mínar hugmyndir um skiptinguna á láninu voru ævinlega nálægt því, sem ég o. fl. lögðum til í þáltill., sem núna liggur hjá fjvn. En nú raskast okkar afstaða af því, að nú gerum við ráð fyrir að vera með því, að meira fari í raforkuáætlunina, en þar var gert ráð fyrir, vegna þess að stjórnarliðið hefur skorið niður framlögin til raforkuáætlunarinnar á fjárl. Og þá höfum við lækkað nokkuð á móti til hafnargerðanna og fiskveiðasjóðsins, en álítum nauðsynlegt, að fiskveiðasjóðurinn verði efldur á þá lund, sem ég hef lýst og átak verði gert í hafnarmálunum samkv. okkar till.

Þá vil ég minnast nokkuð á þau nýju stórtíðindi, sem nú hafa komið fram í raforkumálunum og eru sannast að segja einhverjar nýstárlegustu fréttir, sem lengi hafa borizt af þjóðmálasviðinu. Það byrjaði með því í dag, að hv. 2. þm. Eyf., frsm. stærsta minni hl. og stjórnarflokkanna, fór að tala um, — það var inngangurinn, — að það hafi verið dregið undanfarið úr framkvæmdum raforkuáætlunarinnar. Þetta er slíkt öfugmæli hjá hv. þm., eins og honum hlýtur að vera ljóst, að framkvæmd áætlunarinnar hefur þvert á móti gengið hraðara núna undanfarið, en í upphafi var gert ráð fyrir og miklu hraðara, en nokkur maður hafði lengi gert sér vonir um, enda sést það náttúrlega bezt á því, að til þessara mála var á síðasta ári varið eitthvað rúmlega 100 millj. kr., en samkv. þessari nýju áætlun, sem nú er verið að segja fréttir af og hrósa, ætlast stjórnarliðið til þess, að framkvæmdir verði fyrir 40 millj. kr.

Þessir menn hafa náttúrlega ráð á því að tala um, að undanfarið hafi menn hægt á sér í framkvæmd raforkuáætlunarinnar, en nú eigi að herða róðurinn eða a. m. k. ekki minnka skriðinn, — menn, sem ætla að lækka framkvæmdirnar í heild úr 100 millj. niður í 40 frá því, sem þær voru árið áður.

En þegar hv. 2. þm. Eyf. hafði svo greint frá þessu, — þetta var eins konar inngangur, — þá fór hann að segja fréttir af nýrri áætlun, sem hefði verið gerð um raforkumálin og hæstv. ráðh. hélt þessari lýsingu á hinni nýju, „stórfelldu“ áætlun áfram. Og það var ekkert um að villast, að í því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, og því, sem hæstv. ráðh. sagði, kom fram, að þetta er sú nýja áætlun, sem stjórnarliðið ætlar að láta koma í staðinn fyrir tíu ára rafmagnsáætlun dreifbýlisins. Þessir hv. þingmenn, þessi hv. þm. og hæstv. ráðh. sögðu, að þessari áætlun væri hagað þannig, að það ætti ekki að draga úr framkvæmdum frá því, sem áður hefði verið og sérstaklega sögðu þeir um framkvæmdir ársins í ár, ársins 1959, að þrátt fyrir niðurskurðinn, sem gerður hefur verið á framlögum til raforkumálanna, þá ættu framkvæmdir í ár að vera það miklar, að raforkuáætlunin tefðist ekki. Og hæstv. ráðh. sagði, að það væri gert ráð fyrir jafnmiklum virkjunum og í upphafi voru áætlaðar. En hvernig stenzt þetta samanburðinn við raunveruleikann? Það stenzt þannig, að samkv. þessari nýju áætlun, sem menn verða víst að telja eftir umr., sem hér hafa farið fram, að sé ætlun þeirra að framkvæma, þá eru raforkuframkvæmdir skornar niður á þessu ári um 30–40 millj. kr. frá því, sem þær voru fyrirhugaðar í tíu ára áætluninni á þessu ári, sem nú er að líða. Síðan er gert ráð fyrir að halda niðurskurðinum áfram á næstu árum.

Og raunar, eins og ég sagði áðan, þá er það, sem gerist, það, að raforkuáætlunin, sem áður hafði verið gerð af fyrrv. ríkisstj., er felld úr gildi og önnur áætlun sett í staðinn. Og þessi niðurskurður á raforkuáætluninni, sem ráðgerður er samkv. þessari nýju áætlun og er kallaður sparnaður í öðru orðinu, en í hinu orðinu framkvæmdir, sem eigi að fresta, nemur 88 millj. kr. samkv. því, sem talsmenn þessarar nýju áætlunar upplýsa sjálfir. Og þetta liggur í því, að það er ráðgert að hætta við að tengja fjölmörg byggðarlög víðs vegar um landið raforkuveitum ríkisins. Það er ráðgert að hætta við þetta a. m. k. í bili, eins og sagt er, en að lappa í þess stað upp á eldri dísilstöðvar víðs vegar um landið til bráðabirgða. Það, sem þeir kalla sparnað, liggur í þessu, að það er hætt víð þá áætlun, a. m. k. fyrst um sinn, að tengja byggðirnar saman, en þess í stað farið inn á þá braut að lappa upp á eldri dísilstöðvar og jafnvel koma upp einhverjum nýjum dísilstöðvum til bráðabirgða í staðinn. Með þessu er verið að gerbreyta öllu raforkumálinu og tortíma þeirri eldri áætlun gersamlega, eins og allir sjá. Og við þetta verður stórfelld breyting, því að einmitt tengingarlínurnar milli byggðarlaganna áttu að vera grundvöllur að mikilli dreifingu rafmagnsins síðar meir, sem átti að byggjast á þessum tengingarlínum, jafnhliða því sem þær áttu vitanlega að vera uppistaðan í því, að þorpin og þéttbýlissvæðin víðs vegar um landið fengju einmitt sitt rafmagn frá rafmagnsveitum ríkisins. Þessu er öllu kippt í burtu, eins og áætlunin liggur fyrir núna og ýmist er það kallað sparnaður og gefið í skyn, að þetta eigi að falla alveg niður, eða þá að þessu eigi að fresta. Það er þetta, sem hæstv. ráðh. kallaði sparnað og þessar 88 millj. kr. hefðu verið kostnaður, sem hefði átt að leggja í vegna afskekktustu bæjanna í landinu og var hann að reikna út í því sambandi sem svaraði til 500 þús. kr. kostnaði á sveitabæ. Hér er annaðhvort um að ræða svo undarlega vanþekkingu hæstv. ráðh. á því, hvað átti að gera, að furðu sætir, eða einhverjar hinar verstu blekkingar, sem hægt er að hugsa sér. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann bera sér það í munn, að þessar tengingarlínur, þar sem byggðarlögin voru tengd við aðalorkuveiturnar víðs vegar á landinu, væru lagðar eingöngu vegna tiltölulega fárra sveitabæja. Þær átti að leggja til þess að fullnægja raforkuþörf fjölmargra bæja og kauptúna frá aðalorkukerfinu í fyrsta lagi og í öðru lagi til þess að verða svo í framhaldi af því grundvöllur að dreifingu raforkunnar út um sveitirnar, sumpart á þessum tíu árum, sem upphaflega voru tiltekin, þegar tíu ára áætlunin var gerð og sumpart síðar, alveg eins og landssíminn hefur verið byggður þannig út, að smátt og smátt hafa fleiri og fleiri fengið landssímann frá landssímalínunum. Þannig var vitaskuld hugsunin, að með tímanum gæti það orðið þannig, að fleiri og fleiri sveitabæir fengju rafmagn út frá þessum meginlínum.

Þessu er meiningin að kasta öllu saman fyrir borð og kalla þetta sparnað, en taka í staðinn upp þá stefnu, eins og ég sagði, að lappa upp á dísilstöðvarnar, sem í öðru orðinu er sagt að eigi að vera til bráðabirgða, en í hinu orðinu er túlkað eins og framtíðarsparnaður.

Í þessum umr., sem nú eru orðnar, er talað um raforkuáætlun dreifbýlisins, sem hefur verið það mál, sem Sjálfstfl. hefur gumað allra mest af á síðari árum að hafa tekið þátt í og taldi sig eiginlega upphafsaðila að, það er talað um hana núna eins og einhverja fjarstæðu, fullkomna fjarstæðu, sem menn hafi ætlað að ana út í að framkvæma. Það er ekki lengi að breytast veður í lofti.

Varðandi þessa nýju áætlun, sem gerð er, að því er manni skilst, af embættismönnum raforkumálastjórnarinnar og vafalaust í samráði við ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, eins og nú er komið fram, segir raforkumálastjóri, — það er í bréfi frá honum, þar sem hann ræðir nokkuð um þessa alveg nýju stefnu í þessum málum, — hann gerir grein fyrir því, að þessi lækkun á áætluninni liggi í því, að það verði þurrkaðar út þessar stóru tengingarlínur: samtenging Skagafjarðar og Eyjafjarðar, veitan frá Laxárvirkjun um Norðausturland, samtenging Laxárvirkjunar og Grímsárvirkjunar, tenging Vopnafjarðar, Bakkagerðis og fjarðanna sunnan Fáskrúðsfjarðar við Grímsárvirkjun, tenging Víkur og Mýrdals við Sogsvirkjun, tenging Dalasýslu við Laxárvirkjunina sunnan eða norðan og tenging Stykkishólms við Rjúkandavirkjun. Þessu á öllu að kasta burtu og tjasla í dísilstöðvarnar í staðinn. Síðan segir í þessari grg. og er þar vísað í aðra grg., sem á undan sé komin 7. marz, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þeirri grg. skýrðum við loks frá því, að lagning a. m. k. sumra framangreindra veitna mundi vafalaust verða tímabær síðar meir, þó að hún væri það ekki næstu árin og enn fremur, að það þýðir á engan hátt fráhvarf frá notkun vatnsafls, þótt fyrst um sinn sé stuðzt nokkru meira við dísilafl, en upprunalega áætlunin gerir ráð fyrir.“

Hér er sem sagt alveg greinilegur fyrirvari af hendi embættismannanna, sem vinna að þessu máli, að menn megi ekki halda, að það sé hægt að spara allar þessar framkvæmdir, að þetta sé nettólækkun á áætluninni, heldur sé stefnan sú, að þessu sé skotið á frest, en í staðinn tekin upp hin stefnan til þess að spara peninga í bili, til þess að lækka það, sem útlagt er í bili, sú stefnan að dytta að eða endurbæta og auka dísilstöðvarnar. Þess vegna er þetta tal hv. 2. þm. Eyf. og hæstv. ráðh. um það, að hér hafi verið fundin einhver leið til þess að ná sama árangri fyrir landsmenn með stórkostlegum sparnaði, allt saman gersamlega út í bláinn og styðst ekki við neina faglega umsögn, — síður en svo, — sem málinu fylgir.

Þar með er ég ekki að fullyrða það, að ekki hefði getað komið til greina og komi ekki til greina að breyta í einhverju því, sem áður hafði verið fyrirhugað í þessu tilliti. En hitt er alveg óforsvaranlegt og með engu móti verjandi, að kasta tíu ára áætluninni algerlega fyrir borð, eins og hér er gert, og taka upp allt aðra og nýja stefnu, sem er byggð á því að hreinsa út úr áætluninni allar þessar línur og setja í staðinn þá stefnu að dytta upp á dísilstöðvarnar. Það er að drepa tíu ára raforkuáætlunina hreinlega og tortíma henni og gera aðra nýja áætlun í staðinn, sem er byggð á allt öðrum grundvelli og er engin tíu ára áætlun, því að ef þessu yrði fram haldið, sem hér er stefnt til, þá mundi á næstu fimm árum verða lokið við að tjasla í dísilstöðvarnar og eitthvað byggt út af línum smávegis frá þeim til einstakra bæja, en þá væri á hinn bóginn allt hitt eftir, sem þyrfti að gera að tengingunum, og allar raunverulegar frambúðarráðstafanir til þess að útvega orku á þessi stóru svæði. Frambúðarráðstöfunin er alls ekki sú að hafa aðeins dísilstöðvar, heldur hitt, að koma byggðalögnunum, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, sem allra mest í samband, þó að það ætti kannske ekki að vera í öllu nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir.

Þetta er vitanlega engum ljósara en forráðamönnum raforkumálanna og þess vegna láta þeir að sjálfsögðu þessa greinilega getið, að menn verði að líta á þetta aðallega sem frestun. En hitt vita menn upp á hár auðvitað, að þau pólitísku öfl, sem standa að þessu, líta ekki á þetta sem frestun. Þau ætla sér að láta þetta verða varanlegt ástand, að menn tjaslist við dísilstöðvarnar. Það er auðvitað þeirra ætlun, og er alveg í samræmi við það, sem þeir eru yfir höfuð að fara í málefnum þessara héraða, sem hér eiga hlut að máli. En þeirra sjónarmið á ekkert skylt við sjónarmið þeirra manna, sem vinna að þessum málum blekkingalaust og frá faglegu sjónarmiði og gera aðeins áætlanir samkvæmt þeim fyrirmælum, er þeir fá um meginstefnuna.

Það er enginn vafi á því, að frá sjónarmiði þeirra í stjórnarflokkunum, sem standa fyrir þessari árás, á 10 ára raforkuáætlunina, á svo við þetta að sitja. En það er engin 10 ára áætlun og engin lausn, heldur aðeins bráðabirgðaráðstafanir, eins og fagmennirnir segja.

Fagmennirnir, sem vinna að þessum málum, höfðu sagt okkur í fyrrv. ríkisstj. frá því, að ef menn skorti algerlega fé, ef alls ekki væri hægt að útvega fé í 10 ára áætlunina, þá væri til einn neyðarútgangur, — ég þori þó ekki að ábyrgjast, að þeir hafi orðað það þannig, einn neyðarútgangur og aðeins einn og hann væri sá að fara inn á þá braut að tjasla upp á dísilstöðvar til bráðabirgða og fresta eða fella niður um ófyrirsjáanlegan tíma einn höfuðþáttinn úr 10 ára áætluninni.

Við vissum vel í fyrrv. stjórn, að þarna var neyðarútgangurinn, en það var ekki stefna fyrrv. ríkisstj. að notfæra sér þennan neyðarútgang. Hennar stefna var sú að halda við 10 ára áætlunina í raforkumálum og svíkja ekkert í því efni. Þess vegna brauzt fyrrv. stjórn í því að taka raforkuáætlunina inn í lánaumleitanirnar, sem stóðu fyrir dyrum. Og sannleikurinn er sá, að ef unnið hefði verið svikalaust að þessu máli, ekkert skorið niður á fjárl. og aðrir tekjuöflunarmöguleikar notaðir og notað af erlenda lánsfénu, þá þurfti ekkert að bregða fæti fyrir 10 ára áætlunina, það var hægt að halda henni áfram.

En nú er fleira í þessu máli, sem veldur furðu, þegar farið er að skoða þessa áætlun, sem gerð hefur verið, sumpart um framkvæmdir og sumpart um fjáröflun og bera hana saman við það, sem áður hafði verið fyrirhugað. Að vísu hefur mjög takmarkaður tími gefizt til þess að athuga hana, því að þetta kom ekki fram, fyrr en í gær og menn hafa verið mjög uppteknir við önnur störf og vantar enda upplýsingar um sum einstök atriði. Eitt mjög þýðingarmikið atriði kemur í ljós, og það er, að stjórnarliðíð lætur ekki reikna með því, að íslenzkir bankar leggi fram nokkurt fé til raforkuáætlunarinnar 1959, á þessu ári. En þó er þannig ástatt, að þegar raforkuáætlunin var fyrst sett upp af stjórn Steingríms Steinþórssonar og um hana samið af Framsfl. og Sjálfstfl., var einmitt gerður samningur við íslenzka banka um að leggja fram lánsfé til raforkuáætlunarinnar. Og þetta var sá megingrundvöllur fjárhagslega séð, sem raforkuáætlun dreifbýlisins var byggð á. Samkvæmt þessum samningi áttu að koma á þessu ári 14 millj. kr. inn í áætlunina. En nú er þetta strikað út. Það er alls ekki gert ráð fyrir því, að þetta fé komi frá bönkunum til raforkumálanna. Engum dettur í hug að halda, að embættismenn í raforkumálaskrifstofunni hafi tekið það upp hjá sér að fara að strika út slíkan póst úr tekjumöguleikum raforkuáætlunarinnar. Slík útstrikun getur ekki verið gerð nema eftir fyrirsögn stjórnarvaldanna, sem þessum málum ráða. Það er óhugsandi annað, þegar af þeirri ástæðu, að vitanlega er það með forráðamenn raforkumálanna eins og aðra menn, sem þýðingarmikil efni eru fengin til forráða, að þeir vilja náttúrlega sem allra mest draga fram sínar framkvæmdir og er ekki nema gott um það að segja. Það hefði því vitanlega aldrei hvarflað að þessum mönnum að fara að sleppa þessum lið niður. Það er því alveg augljóslega, einn liður í áætlun stjórnarflokkanna að fella það niður að taka 14 millj. úr íslenzkum bönkum inn í raforkuáætlunina á þessu ári og þá kemur í ljós, að niðurskurðurinn í raforkumálunum á ekki aðeins að vera þessar 10.7 millj., sem skornar voru niður á fjárl., það á líka að skera niður 14 millj. kr. framlag íslenzkra banka í þokkabót. Niðurskurðurinn á þessum tveimur póstum á að vera nærri 25 millj. kr., enda gefur heildarniðurstaðan auga leið. Hún er sú, að framkvæmd áætlunarinnar fyrir árið 1959 er skorin niður um á milli 30 og 40 millj. kr. frá því, sem gert var ráð fyrir í 10 ára áætluninni. Svo koma talsmenn stjórnarliðsins og segja, að nú sé staðið við allt, sem gert hafi verið ráð fyrir og fulltryggt, að það verði ekki minni framkvæmdir í raforkumálunum á þessu ári, en raforkuáætlunin ráðgerði.

Þessu vil ég mótmæla. Ég mótmæli kröftuglega þessum vinnubrögðum öllum saman og það er ekki hægt að sjá annað og er augljóst af þessu, sem hér hefur komið fram, að hér eru í uppsiglingu miklu stórkostlegri svik í raforkumálunum ,en menn höfðu látið sig dreyma um að gætu komið til mála.

Og það tekur alveg steininn úr í þessu máli, að bráðabirgðastjórn, sem sett er upp og lýsir því yfir, að hún hafi það hlutverk eitt að hanga, á meðan kjördæmamálið er afgreitt, hanga til næsta hausts, — að hún telur sig þess umkomna, auðvitað á útgerð og ábyrgð Sjálfstfl., að taka raforkuáætlun dreifbýlisins án þess að spyrja þingið nokkuð að því og umturna henni gersamlega, afnema hana og setja í staðinn alveg nýja áætlun, sem er byggð á allt annarri stefnu, sem aldrei hefur svo mikið sem komið til umr. á Alþingi fyrr. Og um þetta fá menn ekki vitneskju, fyrr en þetta er togað með töngum út úr stjórnarliðinu í sambandi við afgreiðslu fjárl. Og svona ætlar Sjálfstfl. að fara með raforkuáætlunina „sína“, sem hefur verið eitt höfuðáróðursefni flokksins á undanförnum árum.

Það, sem hér liggur fyrir, því miður og það er sorglegt að þurfa að trúa því, virðist vera það, að stjórnarflokkarnir, Alþfl. og Sjálfstfl., ætla að umturna allri framkvæmd 10 ára raforkuáætlunar dreifbýlisins og hafa látið búa til alveg nýja áætlun, sem er byggð á eftirfarandi:

Að skera niður raforkuframkvæmdir þessa árs um 30–40 millj. kr.

Að hætta við að tengja byggðarlögin víðs vegar um landið raforkuveitum ríkisins og taka fjölda aðalorkuveitna út úr planinu, en lappa þess í stað upp á dísilstöðvarnar, en viðurkenna þó, að þessar tengilínur verði að koma seinna.

Að telja þessar aðfarir 88 millj. kr. sparnað í heild á raforkuáætluninni og gera þá hreinlega ráð fyrir því, að þessar tengingar verði aldrei framkvæmdar, en búið við dísilstöðvabaslið til frambúðar.

Þetta er í framhaldi af 107.7 millj. kr. niðurskurði á framlögum til raforkumála á fjárl., og í áætlunum, sem liggja fyrir, er auk þess gert ráð fyrir því, að felldur verði úr gildi samningurinn við íslenzka banka um lán í áætlunina, sem gerður var af stjórn Steingríms Steinþórssonar og planið upphaflega byggt á. Þetta nemur 14 millj. kr. á þessu ári.

Þetta eiga að verða efndirnar á alveg nýju loforði stjórnarflokkanna um, að niðurskurður á raforkufé eigi engin áhrif að hafa á framkvæmd raforkuáætlunarinnar.

Afnám 10 ára raforkuáætlunarinnar og þessar fyrirhuguðu ráðstafanir þess í stað munu víða eyðileggja þann grundvöll, sem lagður var í 10 ára áætluninni fyrir dreifingu raforku víðs vegar um landið.

Ég vil að lokum enn á ný mótmæla alveg þessum aðförum sem algerlega óþingræðislegum. Það er algerlega óþingræðislegt, ef svona verður á málum haldið, að það verði án þess að bera málið undir Alþingi gerbreytt og umturnað þessari áætlun, sem búið er að hafa í gildi mörg undanfarin ár og menn eru í aðaldráttum farnir að treysta. Ég mótmæli því sem alveg óþingræðislegri málsmeðferð, að þannig sé á haldið, ekki sízt þegar þar stendur á bak við ríkisstj., sem telur sig og er bráðabirgðastjórn. Og ég mótmæli því jafnt fyrir því, þó að stærsti flokkur landsins gerist meðábyrgur að þessu pukri, að vega þannig í pukri að þeirri áætlun, sem hann hefur sjálfur átt þátt í að semja og mest haldið á loft undanfarin ár. Það er engin eðlileg þingræðisvenja, að þannig sé haldið á stærstu málefnum landsins. Og alveg sérstaklega vil ég mótmæla því, án þess að málið fái eðlilega þingmeðferð og það í löggjafarformi, að samningaumleitanir út á við um lánsframkvæmdir verði byggðar á þeirri nýju áætlun, sem gerð er með þessum hætti. Ég krefst þess, að slíkar lánaumleitanir fari fram á grundvelli þeirrar 10 ára raforkuáætlunar, sem í gildi hefur verið, og ef menn sjá ástæðu til þess að breyta henni, þá verði það gert á þingræðislegan hátt með því að taka málið fyrir á Alþingi og endurskoða þá löggjöf og önnur atriði, sem hér að lúta.

Ég mótmæli þessum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. og Sjálfstfl.