28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

1. mál, fjárlög 1959

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að leyfa mér að bera fram eina fsp. til ríkisstj., sé nú ekki neinn hæstv. ráðh. viðstaddan, en væri æskilegt, að einhver þeirra, helzt hæstv. forsrh., gæti hlýtt á mál mitt. — Jú, þarna er hæstv. fjmrh.

Afgreiðsla fjárl. gefur í sjálfu sér tilefni til langra umræðna. Ég ætla þó ekki að ræða það mál almennt og þær till., sem ég hef lagt fyrir fjvn., hafa fengið tiltölulega góða afgreiðslu hjá n. og þakka ég henni fyrir það.

En það eru þær umr., sem hér hafa orðið í sambandi við rafmagnsmál og raforkuáætlun dreifbýlisins, sem eru ástæða þess, að ég tel mér nauðsynlegt og skylt að segja hér nokkur orð um þann þátt þeirra mála, sem snýr að því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir.

Þegar ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar var mynduð á árinu 1953, þá var það eitt meginatriðið í þeim málefnasamningi, sem Framsfl. og Sjálfstfl. gerðu þá sín á milli, að gera úr garði 10 ára áætlun um framkvæmdir í raforkumálum í landinu. Síðan hefur verið unnið að framkvæmd þessara mála í samræmi við þessa áætlun með mikilli atorku af hálfu raforkumálaskrifstofunnar og þeirra manna, sem hún hefur í þjónustu sinni.

Nú hefur það komið fram í þessum umr., að fyrirhugað væri að gera breytingar á framkvæmd þessara mála, en það hefur ekki legið fyrir hér á hv. Alþingi fyrr, en nú í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Það mátti skilja á orðum frsm. 1. minni hl. fjvn., hv. 2. þm. Eyf. (MJ), að það lægi nú þegar fyrir endurskoðuð áætlun um framkvæmd þessara mála og af orðum hans var helzt að ráða, að samkvæmt þeirri áætlun mundi fólkinu verða veitt eins góð eða betri þjónusta, en samkvæmt eldri áætluninni og auk þess yrði um verulegan sparnað að ræða.

En af ræðu annars frsm. minni hl. fjvn., þ. e. a. s. þm. S-Þ. (KK), mátti ráða ýmislegt, sem benti til þess, að nokkur óvissa væri um, hvað þessi nýja áætlun fæli í sér, a. m. k. á vissum sviðum. En ég og þm. almennt munu ekki hafa haft tök á því að hafa þessi skilríki með höndum, sem kölluð er hin endurskoðaða áætlun um þessi mál. Og í ræðu hv. 1. þm. S-M. (EystJ) komu nú raunar fram enn fyllri rök fyrir því, að hér muni vera fyrirhugaðar mjög stórvægilegar breytingar á ýmsum sviðum í þessu efni.

Ég tel mér skylt af þessu tilefni að segja nokkur orð um þetta í sambandi við framkvæmdir á þessu sviði í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir.

Þessum málum er þannig háttað þar, að í þorpinu á Höfn í Hornafirði er dísilstöð, sem orðin er nokkurra ára og er í raun og veru þegar orðin ófullnægjandi fyrir þorpið, þó að ekki sé hugsað til þess að leiða þaðan til nokkurra sveitabæja. Kauptúnið er mjög vaxandi þorp með aukinni útgerð og auknum iðnaði. Þetta kallar á aukna raforkuþörf, bæði fólksfjölgunin, ný heimilamyndun og fiskiðnaðurinn, sem er í örum vexti og auk þess hafa opinberir aðilar staðið fyrir framkvæmdum í þorpinu, sem krefjast raforku. Vil ég í því efni nefna endurvarpsstöð á vegum útvarpsins og þráðlaust samband símans vegna talsambands milli Reykjavíkur og Austurlands, en einmitt í sambandi við þá framkvæmd hafa verið sett upp tæki á Hornafirði, sem krefjast raforku.

Nú er það svo, að samkvæmt 10 ára áætluninni frá 1953 er fyrirhugað að virkja fyrir fjóra hreppa Austur-Skaftafellssýslu, þ. e. a. s. meginhluta héraðsins, Smyrlabjargafoss í Suðursveit og heimild til þess er veitt í lögum frá 1952, en þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, að „ríkisstj. er heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Smyrlabjargaá í Austur-Skaftafellssýslu til raforkuvinnslu í allt að 1.000 hestafla orkuveri og leggja frá því aðalorkuveitur til Hafnarkauptúns og um nálægar byggðir.“

Ég vil taka fram, að síðar, eftir að þessi lög voru sett og eftir að mælingar höfðu farið fram á vatnsmagni árinnar, þá var gert ráð fyrir, að hægt yrði að virkja þarna jafnvel meiri orku, en greint er í þessari lagagrein.

Samkvæmt 10 ára áætluninni var ráðgert, að þessar framkvæmdir í Austur-Skaftafellssýslu yrðu leystar af hendi á árunum 1958, 1959 og 1960, — þeim yrði lokið í árslok 1960. Við þetta hefur að öllu leyti verið staðið af fyrrv. ríkisstj., þannig að hér er ekki einungis um lagaheimild að ræða, ekki loforð, sem eru orðin ein, heldur er þegar byrjað á undirbúningsframkvæmdum, því að á árinu 1958 var lagt fram af því fé, sem þá var dregið saman í raforkuáætlunina, nokkur fjárhæð sem byrjunarframlag í þessar framkvæmdir. Fyrir þá fjárhæð var lagfært á virkjunarstaðnum dálítið, lagður vegarkafli að virkjunarstaðnum og keypt nokkuð af efni til virkjunarinnar. Pípurnar, sem eru alllangar og liggja upp fjallshlíð, sem mun hafa yfir 100 metra fallhæð, eru komnar austur og búið að flytja þær á virkjunarstað. Eitthvað af öðru efni er komið í þorpið á Hornafirði og ég hef það fyrir satt, að það sé búið að kaupa vélarnar í þetta fyrirhugaða orkuver og þær séu hér í Reykjavík.

Nú þykir mér ástæða til í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram og í sambandi við þá endurskoðuðu áætlun í raforkumálum, sem gerð er grein fyrir á þessum fundi að fyrir liggi, að bera fram til hæstv. ríkisstj, og þá einkum þess ráðh., sem fer með rafmagnsmál, þessa fsp.:

Er fyrirhugað af hálfu ríkisstj. að gera breytingar á framkvæmd rafmagnsmála í Austur-Skaftafellssýslu? Og ef svo er, í hverju eru þær breytingar fólgnar?