28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

1. mál, fjárlög 1959

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði í sambandi við þær brtt., sem hér liggja nú fyrir við þessa umr., sem ég vildi koma á framfæri.

Það er þá fyrst að því að víkja, að hér er till. frá fjvn., sem gerir ráð fyrir nokkuð sérstakri ábyrgð af hálfu ríkisins í sambandi við togararekstur á Seyðisfirði.

Í sambandi við þessa till. var þess getið, að ríkisstj. hefði skipað sérstaka n., sem hefði gert tillögur varðandi rekstur togarans þar og orð látin liggja að því, að þessi heimild, sem hér er gerð till. um, væri í rauninni í samræmi við það, sem þessi sérstaka n., sem sett var af ríkisstj., hefði lagt til í þessu máli.

Ég vil taka það fram, að ég, sem á sæti í þessari sérstöku n., sem skipuð var af ríkisstj., lít ekki svo á. Ég álít, að hér sé vikið í mjög veigamiklum atriðum frá því, sem þessi n. gerði tillögu um og þar með inn á þá braut, sem ég hygg að kunni að draga nokkuð á eftir sér síðar. Hér er það lagt til, að ríkisstj. fái heimild til þess að taka að sér rekstur á togara eins bæjarfélags í landinu.

Það er löngu kunnugt mál, að það eru ýmsir staðir, sem hafa verið að brjótast í því að reka fiskiskip í atvinnuaukningarskyni á sínum stöðum. Þeir hafa gjarnan sótt eftir því, að ríkið vildi taka algerlega af þeim allan vanda í þessum efnum og annast rekstur þessara skipa. En hingað til hefur verið staðið á móti þessum kröfum, sem hafa þó komið úr ýmsum áttum, á meðan enn hafa legið til athugunar tillögur um það, hvort ætti að ráðast í meiri háttar ríkisrekstur á togurum eða ekki. En nú er sem sagt skyndilega gripið til þess að ákveða, að ríkið skuli taka að sér rekstur á einum togara á einhverju tilteknu tímabili. Og þá er sá háttur enn fremur hafður á, að ákveðið er, að einn tiltekinn maður skuli annast þennan rekstur, sem er á ábyrgð ríkisins, án nokkurrar rekstrarstjórnar og það tel ég líka með nokkuð sérstökum hætti og mjög óeðlilegt.

Það, sem þessi n., sem hefur verið vitnað til, gerði tillögu um, var, að þar sem svo var komið, að togari þeirra Seyðfirðinga hafði stöðvazt og þeir voru ekki einfærir um að halda honum til rekstrar, eins og komið var, þá var lagt til, að ríkisstj. aðstoðaði þá til þess að koma skipinu á stað aftur og að settur yrði upp millibilsrekstur þar á staðnum, þar til tillögur lægju betur fyrir um það, hvernig yrði búið að þessu eða farið með formið á rekstrinum þarna til frambúðar. Til þess var sem sé ætlazt, að þarna kæmi til aðstoð ríkisins, en togarinn yrði að sjálfsögðu rekinn á ábyrgð viðkomandi eigenda skipsins og ríkið hefði ekki aðra íhlutun í þeim efnum, en þá að samþykkja í samráði við þann aðila, sem átti skipið, þann útgerðarstjóra og þá útgerðarstjórn, sem hefði með rekstur skipsins að gera á þessu tímabili. En hér var tekinn upp allt annar háttur. Það er sagt við eiganda skipsins, Seyðisfjarðarkaupstað: Þið skuluð afhenda skipið í hendurnar á tilteknum manni — og þessi einstaklingur rekur síðan skipið einn og án allrar rekstrarstjórnar, en á ábyrgð ríkissjóðs. Hér var vitanlega geysilega mikill munur á. Og það mætti vel segja mér, að það gæti komið til þess í ýmsum fleiri tilfellum, að til þess háttar forms þyrfti þá að grípa aftur, þegar ríkið er komið inn á þessa braut, ekki aðeins að veita tiltekinn stuðning bæjarfélagi með kannske einhverjum skilyrðum og eftirliti, heldur beinlínis að taka að sér á ábyrgð ríkissjóðs á allan hátt rekstur skipsins á vissu tímabili og setja þá til þess aðeins einn mann án allrar rekstrarstjórnar.

Ég vil aðeins segja það sem mitt álit, að ég er andvígur þessu formi, sem þarna hefur verið tekið upp og það er ekki í samræmi við þann vilja, sem fram kom í þessari n., sem vitnað hefur verið til. En þessi háttur hefur nú verið tekinn upp af hæstv. ríkisstj. og hún vitanlega ber þar fulla ábyrgð á, hvernig með er fari, og það er greinilegt, að þessi till., sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á því, sem ríkisstj. hefur gert í þessum efnum, að taka þetta skip í vörzlu ríkisins og reka það á kostnað ríkisins á þessu tímabili og fela einum tilteknum manni að annast það.

Þá eru nokkur orð, sem ég vildi segja í sambandi við þær till., sem hafa komið fram varðandi útflutningssjóð.

Mér sýnist það liggja nokkuð ljóst fyrir, að stefnan sé sú í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna að skilja það eftir, sem upp á vantar af nauðsynlegum tekjum, skilja þann halla eftir hjá útflutningssjóði. Það er augljóst, að það er búið að auka við skuldbindingar útflutningssjóðs sem nemur um 200 millj. kr., eftir því sem er viðurkennt hér af hálfu ríkisstj. og ég hygg, að það viti líka allir, sem þekkja til í sambandi við samninga um síldveiðar sumarsins, að þar á eftir að koma til allveruleg fjárhæð til aukinna útgjalda hjá útflutningssjóði frá því, sem gert er ráð fyrir í þeim till., sem fyrir liggja. Það er alveg augljóst. Það getur því aldrei farið svo, að aukin útgjöld útflutningssjóðs verði ekki frá því, sem áður var um samið, a. m. k. 220–230 millj. kr.

Nú er að vísu gert ráð fyrir því, að ríkissjóður eigi að greiða útflutningssjóði um 150 millj. kr. En þar sem þannig er gengið frá málum, að tekjur ríkissjóðs verða sýnilega allmiklu minni en þau útgjöld, sem ríkissjóður tekst á hendur, þá er ákaflega mikil hætta á því, að útflutningssjóður fái ekki það fé, sem honum er ætlað á fjárlögum frá ríkinu. Þetta álít ég líka að komi mjög glögglega í ljós, að þeir, sem standa að afgreiðslu fjárlaga, óttast einmitt, að svona fari, fyrst þeir vilja ekki fallast á það, að ríkið skuldbindi sig til þess að greiða þessa fjárfúlgu til útflutningssjóðs á tilteknum gjalddögum. Hvers vegna er ekki sjálfsagt að ákveða það, að ríkissjóður greiði strax útflutningssjóði þann hluta, sem nú þegar á að vera fallinn í gjalddaga af þessari heildarupphæð? Og hvers vegna má það ekki standa alveg bundið í samþykktum frá Alþ., að ríkissjóður skuli greiða af þessari fjárhæð síðan 1/12 part mánaðarlega? Það er vitanlega vegna þess, að þeir, sem standa að afgreiðslu fjárlaganna, meiri hl. hér á Alþ., treysta því ekki, að ríkissjóður hafi fé til að standa við þessar skuldbindingar og þá á að fara að eins og stundum áður, skilja skuldahalann eftir hjá útflutningssjóði, láta útgerðina í landinu eiga þetta inni hjá ríkinu. Og svo verður það þannig, þegar líður að næstu áramótum og þá á að semja við framleiðsluna á nýjan leik, þá þykir þó alltaf heppilegra að geta haft málin þannig, að hægt sé að segja við landsmenn: Ja, nú þarf þó að leggja á nýja skatta og nýja tolla, — eða: nú þarf þó að breyta genginu, til þess að hægt verði að greiða vesalings framleiðslunni, sem allir landsmenn lifa þó á, þessa upphæð, — þegar aðrir eru búnir að taka og eyða til allt annarra hluta þeim fjármunum, sem áttu raunverulega að fara til framleiðslunnar.

En það er ekki nóg með það, að það sé veruleg hætta á því, að útflutningssjóður og þar með framleiðslan í landinu fái ekki það fé, sem tilgreint er á fjárlögum að ríkið eigi að greiða til útflutningssjóðs. Hér við þessa fjárlagaafgreiðslu er jafnframt verið að gera ráð fyrir því, að útflutningssjóður skuli fá nýja tekjustofna og einn af þessum nýju tekjustofnum útflutningssjóðs er nýr, stórfelldur bílaskattur og það er reiknað með því, að þessi nýi bílaskattur eigi að gefa samtals fullar 30 millj. kr. Nú fullyrði ég, að engum lifandi manni, sem komið hefur nærri þessum málum, kemur í alvöru til hugar, að þessi nýi tekjustofn muni skila útflutningssjóði þessari fjárhæð. Því fer vitanlega alls fjarri. Það eru engar líkur til þess, að inn verði fluttur sá fjöldi bifreiða, sem hér er reiknað með, það sem eftir er af þessu ári, engar líkur til þess, því að til þess þyrfti innflutningurinn að verða svo miklum mun meiri, en hann hefur verið, að engar vonir standa til slíks. Ég álít því, að það muni líka vanta verulega upp á, að útflutningssjóður fái þær tekjur, sem hér er verið að draga upp á pappír að hann muni fá í gegnum þennan nýja bílaskatt. Þar er því einnig um blekkingar að ræða. Mér þykir því alveg einsýnt, að svo fari, að þegar kemur fram á haustið, þá muni sérstaklega sjávarútvegurinn og að nokkru leyti landbúnaðurinn eiga inni stórar fjárfúlgur hjá útflutningssjóði, sem engar líkur séu til að útflutningssjóður geti greitt. Það á sem sagt að sækja aftur í sama gamla horfið og var í tíð ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., að það á að standa svo á, að sjávarútvegurinn eigi inni hartnær eins árs uppbætur hjá ríkinu eða talsvert mikið á 2. hundrað millj. kr., um það leyti sem ný vertíð á að hefjast. Hér álít ég að sé stefnt út í hreinan voða, sem vel geti leitt til þess, að um beina framleiðslustöðvun verði að ræða, þegar líður fram á haustið, því að það er vitanlega alveg gefið mál, að þegar útflutningsbæturnar eru orðnar jafnháar og þær eru nú, jafnstór hluti af heildarfiskverðinu, þá er erfitt að halda framleiðslunni gangandi, ef ekki er staðið að miklu leyti í skilum með þessar útflutningsuppbætur.

En ofan á þetta allt saman er svo verið að leggja hér til við fjárlagaafgreiðsluna að bæta nýjum böggum á útflutningssjóð. Nú er verið að leggja til að greiða niður úr útflutningssjóði verð á innfluttum áburði. Það hefur verið gerð grein hér fyrir því í umr., að það sé líklegt, að þessi niðurgreiðsla muni nema, miðað við svipaðan innflutning og var á erlendum áburði á s. l. ári, í kringum 5½ millj. kr. og verði innflutningurinn meiri, þá vitanlega er hér um enn þá meiri útgjöld að ræða fyrir útflutningssjóð. Ég tel, að hér sé um allsendis óeðlilega niðurgreiðslu að ræða í sambandi við innfluttan áburð. Það var búið að gera fyllilega ráð fyrir því, að áburðurinn hækkaði í verði með þeim aðflutningsgjöldum, sem ákveðin voru á s. l. ári og það var búið að gera ráð fyrir því, að landbúnaðurinn fengi þetta upp bætt í hækkuðu verðlagi og þetta er allt saman komið inn í þann útreikning, sem fyrir liggur og hér er því um hreina tvígreiðslu að ræða, þegar á nýjan leik á að fara að borga þetta verð niður, eftir að verðlagning á landbúnaðarafurðum hefur verið ákveðin. Það eru vitanlega engin rök, þó að því sé haldið fram, að 55% yfirfærslugjaldið hafi ekki fallið á innfluttan áburð fyrr en nú, vegna þess að áburðurinn á s. l. ári hafi allur verið þegar innfluttur og greiddur, áður en lögin um 55% yfirfærslugjaldið komu í gildi. Það eru vitanlega engin rök fyrir því, þó að svo hafi háttað til, að þá eigi nú að fara að undanþiggja áburðinn. Þannig er vitanlega ástatt með margt annað.

Ég skal t. d. nefna annað í sambandi við útgerðarmál. Um það leyti sem 55% yfirfærslugjaldið var lagt á eða í maílok 1958, lágu í landinu miklar birgðir af síldartunnum. Og síldarverðið á því sumri var þá ákveðið með nokkru tilliti til þess, að miklar tunnubirgðir lágu þá fyrir í landinu og verð á tunnum á því ári hlaut því að verða nokkru lægra, en reikna mátti með að það yrði, eftir að 55% gjaldið væri komið til framkvæmda. En nú á þessu ári verður vitanlega að greiða 55% gjaldið af öllum innfluttum tunnum. Ætti nú að fara að lækka eða greiða niður úr útflutningssjóði verð á innfluttum tunnum af þessum ástæðum?

Þá kemur hin röksemdin, að menn tala um, að sá hluti áburðarins, sem framleiddur er innanlands, hafi hækkað í verði um 15% og af því megi nú borga niður verðið á innflutta áburðinum þannig, að hann hækki ekki meira, en áburðurinn hækkaði, sá, sem var framleiddur hér innanlands.

Á sama hátt mætti líka taka ýmsa aðra hluti, sem nákvæmlega stendur eins á um. Vitanlega vissu það allir, þegar efnahagslögin voru sett hér í lok maímánaðar s. l. ár, að verðlag á þeim hlutum, sem framleiddir eru hér innanlands, við skulum segja t. d. fiskibátar, sem eru byggðir innanlands, verðhækkunin varð minni á þeim, en á aðfluttu bátunum. Verðhækkunin á aðfluttu bátunum varð vitanlega miklu meiri, en á innanlandsbyggðu bátunum og ef svo ætti að fara að greiða niður aftur á nýjan leik þá verðhækkun á aðfluttu bátunum, sem er fram yfir þá verðhækkun, sem varð á innanlandsbyggðu bátunum, þá væri hér vitanlega um eintóma vitleysu að ræða, og hefði aldrei átt að fara út í það, sem þá var gert.

Nei, það eru vitanlega engin rök fyrir því að taka upp þessa niðurgreiðslu og það er heldur engin geta hjá útflutningssjóði til þess að standa undir þessari niðurgreiðslu. Það, sem hér er á ferðinni, er einfaldlega það og það er bezt að segja það, eins og það er, að hér er um beint kapphlaup að ræða. Sjálfstfl., sem ætlar að senda her af sínum mönnum út á landsbyggðina í sumar og sækja atkvæði, ætlar að segja, að hann hafi létt af nokkru af þeim gjöldum, sem Framsfl. lagði á bændur. Til þess er leikurinn gerður. Hann ætlar að segja, að hann hafi þó lækkað þessi gjöld. En þessi flokkur, sem ætlar að segja þetta, er þó með í erminni tillögu um að hækka þetta aftur miklum mun meira eftir kosningar. Hann er tvímælalaust með þá tillögu á ferðinni að samþykkja hér stórkostlega gengislækkun, sem vitanlega mundi þýða miklum mun meiri hækkun á áburðinum, en þá hækkun, sem hér er á skollin. Hér er því um hreinan skollaleik að ræða frá hálfu sjálfstæðismanna. Það er ótrúlegt, að það sé í rauninni nokkur kjósandi til í landinu, sem tekur þessa yfirborðstillögu alvarlega. Og þeir gætu því hæglega fallið frá henni þess vegna. Ég hygg, að þeir hafi ekkert gott upp úr þessu, þó að þeir séu nú að reyna þetta. En það er tvímælalaust, að einasta ástæðan til þess, að þessi till. er fram komin, er þessi. Engin rök standa til þess að öðru leyti. Ég vil því aðeins undirstrika það í sambandi við þessar till., sem hér liggja fyrir varðandi fjárhag útflutningssjóðs, að mér sýnist beinlínis vera stefnt að því að halda því að framleiðendum nú á þessum tíma ársins, að það sé raunverulega séð fyrir þeim tekjum, sem þurfa að vera til staðar, svo að hægt sé að standa við skuldbindingar þær, sem gerðar hafa verið við framleiðsluna, án þess þó að nokkrar líkur séu til, að þær tekjur verði til staðar, þegar raunverulega á að greiða þær framleiðendum.

Þá er eitt atriði enn, sem mér finnst þess eðlis, að full ástæða sé til, að það sé rætt.

Í þessum umr, hefur nokkuð verið á það minnzt, að það væri sýnilegt, að búið væri að slá fastri nýrri framkvæmdaáætlun í sambandi við raforkuframkvæmdir í landinu og raunverulega sé búið að ákveða að fresta hinni margumtöluðu tíu ára áætlun í sambandi við rafvæðingu landsins. Og fallið hafa hér um það allstór orð og mér sýnist það á þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að það sé í rauninni alveg augljóst, að það sé stefnt að því að gerbreyta tíu ára áætluninni og falla a. m. k. á tímabili frá því að byggja eins mikið á vatnsorku og ráðgert hafði verið í tíu ára planinu, en byggja þess í stað allmargar dísilstöðvar víða á landinu og ætla ýmsum þorpum og sveitum rafmagn frá þeim dísilstöðvum. Það er út af fyrir sig stórmál, að það skuli hafa verið ákveðið að breyta þessari tíu ára áætlun á þennan hátt.

En mér sýnist, að það sé einnig stefnt að því eða búið að ákveða að gerbreyta annarri áætlun í þessum efnum. En það er sú áætlun, sem snýr að útlánum til sjávarútvegsins og uppbyggingu sjávarútvegsins í landinu. Þegar nú er tekið 150 millj. kr. lán erlendis frá, þá eru lagðar hér fram tillögur á Alþingi um að ráðstafa nú þegar af þessu láni 98 millj. kr. og lagt er til, að 45 millj. kr. verði ráðstafað af þessu láni til raforkusjóðs, 25 millj. kr. til ræktunarsjóðs og 28 millj. kr. til hafnarframkvæmda. Og það vekur vitanlega athygli, að ekki er lagt til að verja neinu fé til fiskveiðasjóðs eða til lánveitinga beint í þágu sjávarútvegsins, nema þá að því leyti til, sem hafnarféð kynni að fara til nokkurra framleiðsluhafna. Og því hefur verið haldið hér fram í þessu efni, að fiskveiðasjóður þurfi ekki á meira fé að halda í sambandi við sínar nauðsynlegu lánveitingar, en hann þegar ræður yfir. Og í þessu efni hefur verið vitnað til tillagna eða til grg., sem Framkvæmdabankinn hefur gert um fjárhagsástæður fiskveiðasjóðs og möguleika hans til lánveitinga á næstu árum og því er beinlínis haldið fram, að fiskveiðasjóður búi svo vel, að hann muni ekki þurfa á neinum nýjum tekjum að halda, ekki þá fyrr en eftir árslok 1961 í fyrsta lagi, því að það sé búið að sjá honum svo vel fyrir tekjum, — þá vitanlega af fyrrv. ríkisstj., — því að annars staðar frá hefur það ekki getað komið, því að fiskveiðasjóður var tómur, þegar fyrrv. ríkisstj. tók við og illa á sig kominn.

En það er nú augljóst, þegar þessi grg. frá Framkvæmdabankanum er athuguð, að þá byggist þetta á því, að það á að gerbreyta um stefnu í þessum efnum og draga stórkostlega úr lánveitingum í sambandi við fiskiskipakaup og öðrum lánveitingum í sambandi við uppbyggingu sjávarútvegsins. Og það á ekki einu sinni að standa við þær skuldbindingar, sem búið er að gefa út. Þessi áætlun miðast við það, að fiskveiðasjóður láni með nokkuð sérstökum hætti út á nýja fiskibáta, 28 talsins, sem nú þegar eru í byggingu erlendis eða búið er að semja um smíði á og þá skortir að taka tillit til margra leyfa, sem þegar er búið að úthluta ýmsum aðilum í landinu og ef þeir aðilar ganga eftir því að fá yfirfærslur vegna þessara leyfa, þá er alls ekki gert ráð fyrir því í þessari áætlun.

Áætlunin er ákaflega skýr í þessum efnum, og ég óska eftir því, að hæstv. forsrh. geri hér grein fyrir því, ef hann telur, að hér sé ekki rétt með farið. Ég hef, auk þess sem ég þekkti vel til þessara mála áður, borið þetta saman við forstjóra fiskveiðasjóðs og þar fer ekkert á milli mála. Í þessari grg. er gert ráð fyrir því, eins og ég sagði, að taka tillit til lánveitinga til 28 fiskiskipa, sem þegar er búið að semja um eða hefja byggingu á eða sumpart eru komin til landsins, en á vitanlega eftir að greiða nokkurn hluta fyrir. En þá eru eftir allmörg leyfi, sem voru gefin út í tíð fyrrv. ríkisstj., sem ekki eru hér komin til reiknings og vantar í rauninni alveg fjármuni til þess að standa undir. Auk þessa er svo rætt um það, reiknað með möguleikum á því að veita lán til 3–5 skipa, sem sagt er í áætluninni, að vilyrði hafi verið veitt fyrir.

Og gæti þá sú tala komið upp í nokkurn hluta af þeim leyfum, sem í umferð eru, en vitanlega hrekkur hvergi nærri upp á móti þeim öllum.

En það er ekki nóg með það, að hér sé alls ekki gert ráð fyrir því, að hægt sé að standa við það, sem þegar hefur verið gert í þessum efnum, en áætlunin er auk þess þannig upp sett, að svo er gert ráð fyrir því, að á næsta ári á eftir eiga lánveitingar til fiskiskipa að minnka stórkostlega frá því, sem er á þessu ári. Þá er gert ráð fyrir því, að þó að hér sé nú á þessu ári gengið út frá samtals lánveitingum upp á 108 millj. kr. eða fyrir fiskiskipakaup upp á 108 millj. kr., þá verði hins vegar á næsta ári á eftir verðmæti innfluttra báta aðeins 68 millj. í staðinn fyrir 108 millj., eða m. ö. o.: það er gert þá ráð fyrir því að minnka innflutning á bátum upp á yfir 40 millj. kr. (Gripið fram á: Smíðaðir bátar innanlands sér.) Já, þeir eru sér og í öðru tilfellinu 18 millj. kr. og í hinu tilfellinu 23 millj. kr.

Hér er því reiknað með því, að bæði á árinu 1960 og 1961 eigi að verða um miklu minni innflutning á bátum að ræða, heldur en hefur verið. Á þessu er þessi áætlun byggð.

Ég tel, að það sé alveg ljóst, að sú upphæð, sem reiknað hefur verið með fyrir yfirstandandi ár, sé mikils til of lág, það sé engan veginn hægt að rúma innan þeirrar fjárhæðar það, sem þegar hefur verið gefið út af leyfum eða lofað af leyfum. En fjárhæðin, sem gert er ráð fyrir á næsta ári, er svo auðvitað þaðan af fjarstæðari, nema þá eigi að stöðva með öllu að gefa út ný leyfi og það virðist vera samkvæmt áætluninni að, að því sé stefnt.

Það er líka í þessari áætlun gert ráð fyrir því, að þessar lánveitingar séu miðaðar við innflutning á skipum á árinu 1959, sem nema samtals 2.700 rúmlestum, en á árinu 1960 bara 1.700 rúmlestir og eins á árinu 1961 bara 1.700 rúmlestir.

Nú var það svo, að á tímabilinu frá 1950–56 var bátafloti landsmanna að rýrna allverulega. Innflutningur og uppbygging bátaflotans var þá allmiklum mun minni, en árleg fyrning og það þurfti því að gera nokkurt átak á árunum 1958 og 1959 og einnig á árinu 1960, aðeins til þess að jafna upp þann skakka, sem orðinn var. En nú er greinilega stefnt að því, að þetta sæki í sama horfið, að hér verði beinlínis um rýrnun frá ári til árs á bátaflota landsmanna að ræða.

En svo kemur hitt atriðið, fullyrðing um það, að fiskveiðasjóður hafi nægilegt fé nú þegar og þurfi ekki á meiri fjármunum að halda. Ja, nú er það svo, að í tíð fyrrv. ríkisstj. reyndist það vera óhjákvæmilegt að haga framkvæmd þessara mála þannig að knýja þá aðila, sem fengu fiskibátaleyfi, til þess að semja um sérstök erlend lán í sambandi við hvern bát, 3–4 ára lán fyrir um 64–70% af andvirði hvers báts, vegna þess að fiskveiðasjóður hafði ekki nægilegt fé til þess að mæta öllum þeim útgjöldum, sem annars hefðu hlaðizt á hann, ef leyfin hefðu verið veitt með eðlilegum hætti, þannig að lánin hefðu verið greidd út. Þetta var gert til þess að reyna að drýgja allt of lítið fé, sem fiskveiðasjóður hafði milli handa, reyna að drýgja það, koma því fyrir á lengra tímabili, minnka útgjöld hans á þessu ári og næsta ári, með því að hver aðili, sem flutti inn bát, gæti útvegað með bátnum 3–4 ára erlent lán, sem var raunverulega lántaka fyrir fiskveiðasjóð.

Nú var öllum mönnum ljóst, að það var í rauninni mjög óeðlilegt að þurfa að framkvæma þetta á þessa lund. En þetta var gert vegna þess, að það skorti fé hjá fiskveiðasjóði. Eða hvaða rök mæla með því, að allir aðrir aðilar, sem flytja inn varning til landsins, geta fengið andvirði varningsins greitt þegar í stað, en þegar menn flytja inn fiskiskip, þá fá þeir ekki að greiða andvirðið, þá verða þeir að skulda verulegan hluta af andvirðinu um nokkurra ára bil til erlendra aðila? En svo er manni sagt, þegar er verið að taka erlent lán að fiskveiðasjóður sé nú þannig á vegi staddur fjárhagslega, að hann þurfi alls ekkert af þessu láni að fá, því að þetta geti gengið til á þennan hátt.

En miklu hefði verið nær vitanlega að breyta þá þessum reglum og heimila þeim, sem eru að kaupa fiskibáta, að fá lán með eðlilegum hætti útborgað strax hjá fiskveiðasjóði, eins og áður fyrr var og nota þá hið erlenda lán til þess að greiða nokkurn hluta af erlendum kostnaði skipanna.

En auk þessa, sem ég nú hef sagt um fjárhagsástæður fiskveiðasjóðs, er það svo þannig, að það er fjarri því, að fiskveiðasjóður hafi getað sinnt þeim öðrum verkefnum, sem hann hefur átt að sinna og hefur verið nauðsynlegt að hann sinnti fyrir sjávarútveginn í landinu. Í þessari áætlun, sem hér er byggt á, er gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður láni til allra annarra framkvæmda, en bátakaupa, í sambandi við byggingu fiskvinnslustöðva, verbúða og annars þess háttar, 6 millj. kr. á ári.

Það var verið að skýra hér frá því fyrir stuttu, að fiskiðjuverin á Seyðisfirði og í Hafnarfirði hefðu kostað í kringum 13–14 millj. kr. Þetta væru heldur lítil lán til eins slíks fiskiðjuvers og hið sanna er það, að fiskveiðasjóður hefur ekki getað sinnt þessum verkefnum nema að sáralitlu leyti, af því að hann hefur ekki haft fé til þess.

Þegar byggðar voru á s. l. ári t. d. tvær síldarverksmiðjur á Austurlandi, sem kostuðu í kringum 13 millj. kr. hvor, þá reyndist með herkjum mögulegt að fá út á ríkisábyrgð hjá fiskveiðasjóði ½ millj. kr. í stofnkostnað þessara mannvirkja, vegna þess að fiskveiðasjóður taldi sig ekki hafa nægilega fjármuni, til þess að hann gæti sinnt verkefni sínu að þessu leyti. Og það er vitað af öllum, sem koma nærri þessum málum, að fiskveiðasjóður er daglega að vísa frá sér hverri beiðninni af annarri, þar sem þó er brýn þörf fyrir hendi, vegna þess að hann ræður ekki yfir nægilega miklum fjármunum. Þeir fjármunir, sem hann á nú lausa, ef lausa skyldi kalla, eru þeir fjármunir, sem hann hefur lagt til hliðar á móti erlendu lánunum, sem eigendur innfluttra báta hafa tekið og eigendur þessara báta ráða raunverulega yfir þessum bundnu fjármunum hjá fiskveiðasjóði og þessir fjármunir eiga að ganga til þess að borga af þessum stuttu lánum. Þetta er því í rauninni ráðstafað fé að verulegu leyti.

Nei, um það er ekkert að villast, að fiskveiðasjóð skortir stórkostlega mikið fjármagn, ef hann á að sinna sínu verkefni eins og nauðsynlegt er og það er því í rauninni alveg furðulegt að standa að því nú að taka erlent lán, sem nemur um 150 millj. kr. og ætla þá ekkert af því til lánveitinga til sjávarútvegsins.

Auk þessa alls er svo það, að einn þáttur þessara mála í sambandi við lánveitingar til togarakaupa hefur algerlega legið óbættur, þannig að ríkisvaldið hefur ekki enn þá fundið leiðir til þess að útvega fé í þeim efnum. Fiskveiðasjóður hefur lýst því yfir, að hann réði ekki yfir fé til þess að lána til slíkra skipakaupa. Það eru þó margir aðilar, sem nú sækja um það, bæði til fiskveiðasjóðs og annarra lánsstofnana, að fá lán, til þess að þeir geti keypt togara. En lánastofnun sjávarútvegsins, sem tekur árlega allverulegan skatt einnig af togaraútgerðinni, svarar togaraútgerðinni því á hverju ári, að hún geti ekki lánað henni í sambandi við endurnýjun togaraflotans. Það hefði því verið full þörf á því, að nokkur hluti af þessari erlendu lántöku hefði gengið til fiskveiðasjóðs í því skyni, að hann gæti farið að byrja að byggja sig upp í sambandi við lánveitingar til togarakaupa. En svo er það bara sagt blákalt hér, að fiskveiðasjóður hafi nóga peninga og þurfi alls ekki á meiru að halda. Það er alveg furðulegt að heyra það eftir það basl, sem við í fyrrv. ríkisstj. áttum í þessum efnum, að reyna að útvega fé í þessu skyni. Og það er alveg sýnilegt, að þeir menn, sem hafa samið það plagg, sem hér er um að ræða, hafa verið alveg steindauðir, líflausir talnamenn, sem hafa étið upp tölur úr einhverjum plöggum án þess að skilja nokkuð, hvernig ástatt var í þessum efnum.

Það er einn þáttur enn í sambandi við þetta mál, sem rétt er að minnast á. Það er alveg rétt, að það er ekkert nýtt fyrirbæri hjá forstöðumanni fiskveiðasjóðs og stjórn hans, að þessir aðilar hafa gjarnan óttazt það nokkuð að taka erlend lán á þeim tímum, er þeir hafa talið, að fjármálaástandið væri mjög ótryggt. Það vitanlega gerir það enginn sér til gamans að taka lán erlendis upp á 20 millj. kr. og lána það út á því gengi, sem þá er um að ræða, og fá á sig gengisbreytingu eftir örstuttan tíma og vitanlega stórkostlegan skell á viðkomandi sjóð, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því, að ríkisvaldið hjálpi þar til, þegar slíkt kemur fyrir. Það hefur því átt sér stað nú eins og áður, að forstöðumaður fiskveiðasjóðs hefur mjög um það spurt: Ja, hvernig fer, ef við tökum nú nokkuð af þessu erlenda láni? Vissulega þurfum við á því að halda, vissulega erum við alltaf að neita nauðsynlegum lánum, — en hvernig fer, hver borgar þann mismun, ef verður skellt á okkur gengislækkun innan skamms, sem manni skilst á öllu að til standi? — En það vitanlega réttlætir það ekki á neinn hátt, þó að um ótta hjá þessum aðilum sé að ræða, að ætla að afskipta jafnnauðsynlegan lánasjóð eins og fiskveiðasjóð af þeim ástæðum. Það verður vitanlega að tryggja hann eins og aðra slíka lánasjóði fyrir skakkaföllum af snöggum gengisbreytingum. Það er óhjákvæmilegt.

Það mætti margt fleira um þessa áætlun segja. Ég sá það undireins, þegar ég leit á þessa áætlun og forstöðumaður fiskveiðasjóðs viðurkenndi það strax við mig, þegar ég bar það upp við hann, að það er greinilega ranglega upp byggð þessi áætlun í sambandi við þær skuldbindingar, sem fiskveiðasjóður hefur tekið á sig. Það var alls ekki reiknað með öllum þeim útgjöldum hjá honum, sem hann er búinn að lofa, — ekki einu sinni sem fiskveiðasjóður er búinn að lofa. Ég skal nefna eitt dæmi í þessum efnum. Þegar 55% gjaldið var lagt á á s. l. vori, þá vitanlega fór það svo, að allmargir aðilar, sem þá höfðu flutt inn fiskibáta á næsta ári á undan, skulduðu þá erlendis talsverðan hluta af andvirði fiskibátanna. Þessar skuldir námu þá yfir 15 millj. kr., skuldir einstakra fiskibátaeigenda, sem þá stóðu úti. Þessar 15 millj. kr. fengu þá á sig yfirfærslugjald, sem nam 55%, eða skuldirnar hækkuðu í höndunum á einstökum bátaeigendum um 55%. Þeir aðilar, sem urðu fyrir þessu, sóttu mjög fast á ríkisstj. um það að fá bætur á móti þessu, að fiskveiðasjóður mætti þessum vanda á þann hátt, að hann umreiknaði þau lán, sem hann var búinn að áætla áður á hvern fiskibát, og hækkaði sín lán sem þessu næmi. Samningar voru gerðir við fiskveiðasjóð um þetta og fiskveiðasjóður á að taka að sér að greiða með hækkuðum lánum til þessara lántakenda, að greiða sem 55% af þessum 15 millj. kr. nemur. Þessi útgjaldaupphæð kemur ekki inn í þessi útgjöld fiskveiðasjóðs. Það er ekki reiknað með þessum útgjöldum, þó að búið sé beinlínis að semja um þetta. Og fleira mætti þar til greina, enda kom í ljós, að forstöðumaður fiskveiðasjóðs upplýsti, að þessi áætlun væri ekki byggð á hans upplýsingum að öllu leyti.

Ég tel því, að það sé ekki hægt að ganga svo frá þessum málum hér á þessu þingi, að það sé ekki gert ráð fyrir því, að nokkrum hlut af þessu erlenda láni sé ráðstafað til fiskveiðasjóðs, miðað við öll þau gífurlegu verkefni, sem hann hefur með höndum og ég mun því síðar flytja till. um það, að nokkrum hluta verði ráðstafað til fiskveiðasjóðs.

Það má segja, að hér hafi aðeins verið gerðar till. upp á 98 millj. kr. af upphæð, sem þó er 154 millj. með yfirfærslugjaldinu, svo að það ættu að geta verið möguleikar til þess, ef menn sannfærðust um það, að fiskveiðasjóður raunverulega þurfi á þessu að halda, svo framarlega sem hann á að sinna öllum þeim verkefnum, sem honum er ætlað að sinna samkvæmt lögum, en ekki miða það við það, að hann haldi sig aðeins við þau þrengstu útlán, sem hann hefur verið bundinn af vegna fjárskorts að undanförnu.

Ég vildi láta þetta koma hér fram og sýnist mér þá, að þetta haldist mjög í hendur við hina nýju 10 ára áætlun í sambandi við raforkuáætlunina, ef ætlunin er að skera á þennan hátt einnig niður lánveitingar í sambandi við sjávarútveginn.