28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

1. mál, fjárlög 1959

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal nú reyna að stytta mál mitt líka. Það er þegar farið að líða á nóttina og allmargir á mælendaskrá. En það voru nokkur atriði, sem fram komu í umr. fyrr í kvöld og aðallega hjá hæstv. forsrh. í tilefni af minni ræðu áðan, sem ég vildi nú víkja hér að.

Mig undraði það stórlega í sambandi við ræðu hæstv. forsrh., hve laklega hann virtist hafa kynnt sér ýmsa þýðingarmikla þætti í sambandi við lög og reglur um sjávarútvegsmál og hve illa hann hefur undirbyggt sína skoðun þar af leiðandi í sambandi við mjög þýðingarmiklar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn í landinu í sambandi við þær till., sem hér liggja fyrir.

Hæstv. forsrh. hóf mál sitt á því að fullyrða það hér, að ég hefði farið með rangt mál varðandi ætlunarverk fiskveiðasjóðs og verkefni hans almennt, fullyrti, að lögin væru á allt annan veg, en hann veit nú að lögin eru, af því að honum var bent á það í miðri ræðunni. Hann sagði það af nokkrum þjósti til mín, að ég hefði þá átt að sjá um það í minni ráðherratíð að breyta lögunum, en vissi það þá ekki, að ég var búinn að sjá um það að breyta lögunum á þessa lund, sem hann var að gera kröfu um.

Forsrh. sagði, að það væri bundið í lögum, að fiskveiðasjóður ætti ekki að lána út á stærri skip en 200 rúmlestir. Þessi tala er nú úrelt, auk þess sem það er vitanlega með öllu rangt, að það hafi nokkurn tíma verið bundið í lögum, að fiskveiðasjóður mætti ekki eða ætti ekki að lána út á stærri skip, en 200 rúmlestir. Það ákvæði, sem var í eldri lögum, var á þá lund, að fiskveiðasjóður skyldi lána stofnlán til fiskiskipakaupa, en hins vegar tekið fram, að lánveitingar til fiskiskipa, sem væru undir 200 rúmlestum, en í núgildandi lögum undir 300 rúmlestum, lánveitingar til slíkra skipa skyldu sitja fyrir, ef sjóðurinn hefði ekki nægilegt fé milli handa til þess að sinna öðrum lánveitingum líka. Þetta kemur mjög greinilega fram í lögunum um fiskveiðasjóð, en þar stendur, eins og þau eru nú, í 4. gr. laganna:

„Fiskveiðasjóður má eingöngu lána til: a. Fiskiskipa, þar með taldir opnir vélbátar. Skip innan 300 rúmlesta sitja fyrir lánum. b. Vinnslustöðva fyrir sjávarafurðir svo og annarra mannvirkja, sem bæta aðstöðu til útgerðar og hagnýtingar sjávarafla.“

M. ö. o.: verkefni fiskveiðasjóðs er að lána, ef hann hefur fé til þess, út á öll fiskiskip, sem keypt eru, af hvaða stærð sem er, þó að skip undir 300 rúmlestum sitji þar fyrir, ef um fjárskort er að ræða og svo er verkefni sjóðsins einnig að lána út á fiskvinnslustöðvar, stórar og smáar. Og það atriði, sem hæstv. forsrh. vitnaði þarna í einnig, að lánveitingarupphæðin væri takmörkuð og ekki mætti lána einstakt lán, sem væri hærra en 1 millj. 250 þús. kr., þetta var afnumið með breyt. á l. 1957 og þá tekið fram hér á Alþ., að þetta væri gert vegna þess, að fiskveiðasjóður ætti framvegis að taka þátt í því að lána einnig til hinna stærri mannvirkja. Breyt. var beinlínis framkvæmd hér á Alþingi í þessu skyni. En þetta virðist allt hafa farið fram hjá hæstv. forsrh., sem jafnframt er sjútvmrh., svo að það vitanlega stendur fullkomlega rétt, sem ég sagði um verkefni sjóðsins og það enn fremur, að hann hefur ekki getað sinnt öllum þeim verkefnum, sem honum var ætlað að sinna, vegna fjárskorts. Þessi fullyrðing hæstv. forsrh. sem sagt er algerlega röng.

Annað atriði sagði hann í ræðu sinni, sem var á sama hátt algerlega rangt. Það var viðvíkjandi reglum þeim, sem í gildi eru varðandi 55% yfirfærslugjaldið og lánveitingar fiskveiðasjóðs. Hæstv. ráðh. sagði, að ég mælti hér gegn betri vitund um þessar reglur, eins og ég hafi skýrt frá þeim og hann sagði, að sig langaði til þess að sjá þann samning, sem hér hefði verið gerður um það, hvernig með þessi mál skyldi fara. Og svo bætti hann því við, að hann hefði skipað n. manna nýlega til þess m. a. að setja reglur um þessi atriði. Ja, það er alveg furðulegt að heyra þetta frá sjútvmrh. í landinu. Ég get fullvissað hæstv. forsrh. um það, að frá þessu hefur verið tryggilega gengið og það þurfti ekki að skipa neina n. til þess að ganga frá þessu. Um þetta eru glögg gögn í hans eigin ráðuneyti til.

Þegar ég ræddi m. a. við forstöðumann fiskveiðasjóðs í dag til þess að bera saman vissar tölur við hann og ég gat þess við hann, að það væri greinilegt, að ekki væri gert ráð fyrir þessum útgjöldum í þessari áætlun, sem hér hefur nokkuð verið rædd, frá hálfu Framkvæmdabankans um útgjöld fiskveiðasjóðs, að ekki væri gert ráð fyrir þeim útgjöldum, sem fiskveiðasjóður hefði beinlínis samið um að greiða vegna yfirfærslugjaldsins af sérstökum lánum, þá viðurkenndi forstöðumaður fiskveiðasjóðs það, að hér væri um villu að ræða og þessi áætlun væri ekki byggð á upplýsingum hans í þessum efnum, af því að hann veit fullvel um það, að hann hefur samið um það við ríkisstj. að taka að sér að greiða yfirfærslugjaldið í þessum efnum. Og mér þykir alveg furðulegt að heyra það, að núv. sjútvmrh. skuli ekki vita um þetta.

En það er rétt að fara um þetta fleiri orðum, ef það mætti verða til þess, að hæstv. ráðh. áttaði sig á því, hvað hér er raunverulega um að ræða. Hér er um það að ræða, að þegar lögin um útflutningssjóð frá 28. maí á s. l. ári tóku gildi, þá skulduðu einstakir útvegsmenn erlendis um 15 millj. kr. í stuttum lánum út á bátakaup sín. Þegar reglurnar um 55% gjaldið komu til greina, hækkuðu vitanlega þessi lán hjá hinum einstöku bátaeigendum um 55% yfirfærslugjaldið. Þessi lán, sem var búið að stofna til, þegar lögin voru sett, sköpuðu því sérstakt vandamál hjá þeim bátaeigendum, sem hér áttu hlut að máli, hvernig ætti með þetta að fara og það var frá þessu gengið við fiskveiðasjóð með sérstöku samkomulagi, að hann hækkaði lán sín til þessara aðila sem næmi 55% hækkunargjaldinu, eða 2/3 hlutum af því, eins og lánveitingar fiskveiðasjóðs miðast við.

En ég býst við því, að hæstv. forsrh. hafi e. t. v. ætlað þeirri n., sem hann var að skipa, enn þá víðtækara verkefni en þetta, sem þegar er leyst og þegar komið til framkvæmda hjá fiskveiðasjóði í einstökum tilfellum, sem sagt það vandamál, að þeir, sem nú eru að taka 3–4 ára lán úti í sambandi við bátakaup sín, eiga vitanlega yfir sér vofandi þá áhættu, að það kunni að verða gengisbreyting eða yfirfærslugjaldið kunni að hækka úr 55% og bankar landsins eru að heimta sérstaka ábyrgð fyrir sína bankaábyrgð á þessum stuttu lánum vegna hættunnar, sem stafar af gengislækkun, sem kann að koma og ekki er komin. Og það hafa verið uppi kröfur um það, að Fiskveiðasjóður lofaði því nú þegar, að hann tæki einnig á sig þá áhættu, sem stafaði af gengisbreytingu, sem kynni að verða og kann að skella á þá aðila, sem gera samninga sína um erlend lán, eftir að lögin frá 28. maí 1958 voru sett og það er alveg rétt, að það er vitanlega eftir að ganga frá því atriði. Fiskveiðasjóður hefur ekki tekið á sig neina skuldbindingu í sambandi við hugsanlega gengisbreytingu, sem kann að verða leidd í lög.

En hitt atriðið, viðvíkjandi þeim vanda, sem þarna stóð fyrir, það var leyst og viðurkennt af Fiskveiðasjóði og kunnugt þeim mönnum, sem höfðu orðið fyrir þessum auknu útgjöldum og Fiskveiðasjóður hefur þegar orðið að aðstoða í þessum efnum.

Þess skal einnig getið í þessu sambandi, að Fiskveiðasjóður hafði einmitt óskað eftir því í ýmsum tilfellum að breyta þeim lánum, sem hér komu inn í, á þá lund, að hann tæki á sig þessar auknu lánveitingar vegna 55% gjaldsins með þeim hætti, að þær afborganir og vextir, sem þessir lántakendur áttu annars að greiða Fiskveiðasjóði, yrðu einnig notaðir til þess að ganga upp í þessi auknu lán, á þann hátt, að aðilarnir greiddu það upp í viðaukalánið, en þyrftu ekki að greiða afborganirnar og vextina til Fiskveiðasjóðs.

Ég held því, að það sé auðvelt fyrir hæstv. forsrh. að kynna sér þetta efni með því m. a. að hafa bara beint og milliliðalaust samband við forstöðumann Fiskveiðasjóðs og þá mun hann sannfærast um, að það er rétt, sem ég segi í þessum efnum og sjálfsagt að taka þetta sérstaka verkefni af þessari n., sem hefur verið skipuð til þess að leysa þetta verkefni, sem er löngu leyst.

Það getur svo vitanlega ekki gengið, að sjútvmrh. fullyrði það hér æ ofan í æ, að Fiskveiðasjóður hafi alls ekki heimild samkvæmt gildandi lögum til þess t. d. að lána út á byggingu síldarverksmiðja eða stærri mannvirkja eða út á togara. Hann verður að kynna sér lögin og sjá það með eigin augum og sannfærast um það, að l. segja allt annað. Og að því leyti til, sem Fiskveiðasjóður hefur þegar byrjað á því að lána til svona mannvirkja, þá hefur hann ekki verið að brjóta lögin, síður en svo. En hann hefur gert þetta af allt of skornum skammti og borið fyrir sig fjárskort. Og einmitt af þeim ástæðum gerði ég hér aths. við þá fullyrðingu, að það þyrfti ekki nú, þegar er verið að taka erlent lán, að láta Fiskveiðasjóð hafa neitt af þessu erlenda láni, af því að hann hefði nægilegt fé. Slík fullyrðing fær ekki staðizt, á meðan Fiskveiðasjóður getur ekki sinnt sínum verkefnum.

Það er nauðsynlegt líka, að menn átti sig á því, hvað raunverulega er um að ræða, þegar því er haldið fram, að það megi láta tekjur Fiskveiðasjóðs endast nú a. m. k. um tveggja ára skeið til þess að standa undir útlánunum, án þess að hann fái nokkra nýja tekjustofna, á þann hátt, að þegar maður kaupir nýjan fiskibát, þá á fiskveiðasjóður að lána 66% af andvirði fiskibátsins, en segir bara við þann, sem kaupir bátinn: Ja, svo verður þú sjálfur að útvega þér lán erlendis til fjögurra ára upp á a. m. k. 60% af þessum 66% og Fiskveiðasjóður lætur ekki nema örlítið brot af hendi af sínum tekjum upp í sjálft lánið. Sá, sem kaupir bátinn, verður að útvega meginhlutann af peningunum af láni Fiskveiðasjóðs. Það er vitanlega hægt að segja, að með því að taka svona örlítið af tekjum sjóðsins megi þetta endast æði lengi, enda segir þessi tafla Framkvæmdabankans, sem gerir grein fyrir fjárhag Fiskveiðasjóðs, að með þessum hætti fari það þannig á árinu 1959, að erlend lán, sem einstakir fiskibátaeigendur taka á þennan hátt, eigi að hækka brúttó um 65 millj. kr., en þeir, sem flytja inn fiskibáta, verða sjálfir að útvega að láni til fjögurra ára um 65 millj. kr. og þegar svo er búið að taka tillit til þess, að Fiskveiðasjóður borgar nokkuð niður af eldri lánveitingum, sem svona hafði verið stofnað til, þá segir skýrslan, að nettó-aukningin af svona bráðabirgðalánum, sem einstakir bátaeigendur verða að stofna til, sé 56.1 millj. kr. á árinu 1959.

Vitanlega er það svo, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að menn gripu til þess að knýja þá, sem voru að kaupa fiskibáta, til þess að taka þessi bráðabirgðalán, vegna þess að Fiskveiðasjóð skorti fé. En við ætluðum að leyfa svo mikinn innflutning af bátum á stuttum tíma, einu eða tveimur árum, að það þyrfti að nota allt fé Fiskveiðasjóðs og einnig að taka nokkuð af erlendum lánum til stutts tíma til þess að reyna að drýgja þetta.

En svo virðist hins vegar áætlunin gera ráð fyrir því og er alveg glöggt mál, að hún gerir ráð fyrir því, að þannig eigi með að fara aukningu á innflutningi báta á árinu 1958 og á árinu 1959, að þá eigi að skera þetta stórlega niður eða sem nemur að verðmæti úr 108 millj. kr. árið 1959 niður í 68 millj. kr., eða um 40 millj. kr. á að skera niður andvirði á innfluttum bátum og reikna þá með, að á árinu 1960 verði ekki flutt inn af bátum meira, en sem nemur 1.700 rúmlestum og þá er það komið talsvert niður fyrir það, sem jafngildir eðlilegu viðhaldi bátaflotans. Þá á sem sagt aftur að byrja á þessari ógæfustefnu, sem var, þá á að ganga á bátaflotann í landinu, láta hann rýrna meira, en endurnýjuninni nemur. Og þetta er vitanlega alveg hrópleg stefna, að boða þetta nú á þessum tíma. Það var full þörf á því að halda hér áfram þeirri stefnu, sem upp var tekin í tíð fyrrv. stjórnar, að bæta um það, sem var vangert í þessum efnum í tíð stjórnarinnar þar á undan og það þurfti að halda áfram, en ekki fara strax í sama farið aftur. Þetta er það, sem liggur í rauninni alveg glögglega fyrir í þessum efnum, enda reyndi hæstv. forsrh. ekki að hnekkja þessu, enda liggur það fyrir mjög skýrt í þessari skýrslu.

Aðalatriði þessa máls, sem ég hef hér gert aðallega að umræðuefni, eru því þessi: Það hlýtur að vera óumdeilt, að vegna fjárskorts á undanförnum árum og einnig á þessu ári hefur fiskveiðasjóður ekki getað sinnt nema litlum hluta af þeim verkefnum, sem honum er falið að sinna, eins og ég nefndi dæmi um. Það er gert ráð fyrir því, að hann láni samtals á heilu ári einar 6 millj. kr. til fiskvinnslustöðva og annarra slíkra framkvæmda í öllu landinu, 6 millj. kr. Það er út á eitt lítið frystihús. Og þetta hefur aðeins verið svona vegna mikils fjárskorts hjá sjóðnum.

Það er staðreynd, að það hefur verið stórkostlega haldið í það að gefa út innflutningsleyfi fyrir fiskibátum. Einnig í tíð fyrrv. ríkisstj. var það svo, að það var ekki hægt að sinna nema litlum hluta af þeim beiðnum, sem fyrir lágu. Ég hygg, að það muni liggja núna fyrir beiðnir frá aðalverstöðinni í landinu, frá Vestmannaeyjum, fyrir um það bil 20 bátum, og fer mjög fjarri því, að það hafi verið hægt að veita innflutningsleyfi fyrir fiskibátum til Vestmannaeyja nú að undanförnu sem nemur eðlilegri rýrnun flotans þar og hvað verður þá, þegar nú á að draga saman til mikilla muna? Það eru því fjöldamargir, sem liggja fyrir með beiðni og svo er því bara kastað fram, á sama tíma og þær staðreyndir liggja svona fyrir, að fiskveiðasjóður þurfi ekki neitt fé af þessu láni, það megi allt fara í eitthvað annað.

Og svo er hitt, að stærri skipin, einkum og sérstaklega togarar, hafa engan stofnlánasjóð. Þó að, eins og mér er kunnugt um, hér séu efnaðir útgerðarmenn, við skulum bara taka dæmi eins og útgerðarfélagið Júpíter og Marz, sem hefur margsótt um að fá að kaupa togara og hefur allmikið fé fram að leggja til þess að kaupa togara, þó að það geti lagt fram margar millj. kr. í hvern togara, þá fær það ekkert lán. Það er engin lánastofnun til á Íslandi, sem lánar neitt til kaupa á togara. Stofnlánadeild Landsbankans er löngu lokuð og lánar ekki neitt og fiskveiðasjóður svarar, að hann hafi ekki fé til þess.

Það er því vitanlega mjög fjarri því, að hægt sé að segja það í þessum efnum, að fiskveiðasjóður hafi yfir nægilegu fé að ráða og það séu því efni á því að setja hann algerlega til hliðar, þegar er verið að ráðstafa erlendu láni, sem nemur 150 millj. kr.

Það er ómögulegt annað, en vekja athygli á því, að í sambandi við innflutning á fiskibátum hafa verið notaðar vegna þessa fjárskorts allt aðrar reglur, en í sambandi við allan annan innflutning til landsins. Þegar fluttir eru inn bílar eða þegar flutt er inn hvað annað sem er, þá fá viðkomandi aðilar aðstöðu til þess að borga þessi tæki, sem inn eru flutt, að fullu og öllu. Þeir hafa komið þeim tækjum inn í landið á því verðlagi, sem nú er gildandi, hagnast vitanlega á óbeinan hátt að hafa þessi tæki í höndunum, verði t. d. gengisbreyting. Verði gengislækkun, þá vitanlega mundu þau tæki af sömu tegund, sem inn verða flutt á eftir, verða talsvert miklu dýrari. En viðvíkjandi þeim, sem kaupa báta, fiskiskip, þá eru reglurnar þessar, að þeir verða að eiga svo að segja allt stofnlánið sitt í stuttu erlendu láni, á ábyrgð viðkomandi bátskaupanda og verði svo gengislækkun, þá hækkar þessi bátur þeirra stórlega í verði. Þannig hafa þessir aðilar verið settir þarna á miklu lakari kjör en aðrir og þetta var gert út úr þeirri neyð, eins og ég sagði, að það var verið að reyna að kaupa inn til landsins fleiri báta og fleiri skip en Stofnlánasjóðurinn, sem til var, gat svarað út lánum út á.

En nú er það meiningin að halda áfram þessari reglu að pína þá, sem kaupa fiskibáta, til þess að taka 4 ára lán erlendis og hafa eigin áhættuna á sér, en taka að verulegu leyti nú orðið fyrir nýjar leyfisveitingar. Þetta þykir mér heldur harðir kostir.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, aðeins geta þess um leið, að ég hef leyft mér hér að flytja brtt. í sambandi við ráðstöfun á þessu láni og þarf ekki að tala langt mál fyrir sjálfri brtt. Það hef ég í rauninni gert hér áður fyrr í mínum ræðum.

Ég legg til í brtt. á þskj. 460, að ákveðið verði að ráðstafa af þessu heildarláni 50 millj. kr. til fiskveiðasjóðs, en þó verði það áskilið, að helmingur þeirrar fjárhæðar verði ætlaður til lánveitinga til togarakaupa og þannig byrjað á því að tryggja fé í því bráðnauðsynlega skyni, sem það er að endurnýja okkar togaraflota. Ég álít, að það megi ekki minna vera, þegar tekið er erlent lán upp á 150 millj. kr., en það sé tryggt, að um það bil þriðjungurinn af því láni fari til höfuðútflutningsframleiðslu landsmanna, því að á því veltur þetta þó allt saman, að það takist að byggja upp útflutningsframleiðsluna og hafa hana trausta, annars dettur hitt allt um koll. Þó að út af fyrir sig sé indælt og ágætt að verja myndarlegum fjárhæðum til þess að rafvæða landið og rækta landið, þá er ekkert um það að villast, að það er ekki hægt að eyða öllu fé í slíkar framkvæmdir, á sama tíma sem við ætlum að skáganga alveg lánveitingar til okkar höfuðatvinnuvegar, þegar hann þarf verulega á þessum fjármunum að halda.

Ég vænti þess því, að brtt. mín verði samþykkt.