28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

1. mál, fjárlög 1959

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við þessa umr. í dag beindi ég fsp. til hæstv. forsrh. um það, hvort fyrirhugað væri af hálfu ríkisstj. að gera breytingar á um framkvæmdir í rafmagnsmálum í Austur-Skaftafellssýslu.

Hæstv. ráðh. hefur veitt svör við þessari fsp., og er ég út af fyrir mig þakklátur fyrir það og svarið er í sjálfu sér skýrt, eins og vænta mátti. En rök þau, sem fram koma hjá hæstv. ráðh., eru harla léttvæg, a. m. k. í hugum þeirra manna, sem unnið hafa að þessum málum að undanförnu og gerþekkja alla staðhætti og málavexti. — Hæstv. ráðh. segir, að það hafi lengi verið á döfinni, að gera þyrfti breytingar á 10 ára áætluninni um raforkumál og við þessa athugun, sem verið hafi á döfinni, hafi það komið í ljós, að það mætti leysa mál Austur-Skaftfellinga á hagkvæmari hátt, en gert hefði verið ráð fyrir.

Mér verður nú fyrst fyrir að spyrja: Hvar hefur þetta verið á döfinni svona langan tíma? Ekki hefur það verið heima í héraði. Það er búið að ræða mikið rafmagnsmál Austur-Skaftfellinga heima í héraði, nú eiginlega allt frá 1950 og í þeim umr., sem fram hafa farið um þau mál, hefur mér vitanlega — og mæli ég það af kunnugleika — enginn óskað eftir því að leysa rafmagnsmál héraðsins með dísilstöð á Höfn í Hornafirði. En þess má geta, að á tímabili kom til álita — það var um og eftir 1950 — að virkja Laxá í Nesjum, heldur litla vatnsaflsstöð, sem hefði skilað að mig minnir svipaðri orku og nú er ráðgert að hin nýja dísilstöð skili. En við nánari athugun á þessu máli, fyrst og fremst heima og hér hjá sérfræðingum á raforkumálaskrifstofunni, þá var algerlega horfið frá þeirri hugmynd að virkja Laxá í Nesjum og menn einbeittu sér að því að lögfesta heimild til að virkja Smyrlabjargaá í Suðursveit. Áætlanir hafa verið gerðar um þetta og þær eru kunnar heima í héraði, bæði um virkjunina sjálfa og um það kerfi, sem átti að leiða út frá henni og eftir því sem þessi mál hafa verið athuguð betur og menn kynnt sér málið betur, þá hefur náðst alger eining um það heima í héraði, að þetta væri sú lausn, sem hagkvæmust væri.

Þá má spyrja: Hefur það lengi verið á döfinni meðal sérfræðinga hér fyrir sunnan að gera þá breyt., sem nú virðist stefnt að? Ég hef haft þá aðstöðu undanfarin ár að fylgjast með málefnum Austur-Skaftfellinga hér í borginni og ekki sízt þessu rafmagnsmáli og ég hef ekki orðið þess var, að þessar breyt. hafi lengi verið á döfinni hjá sérfræðingunum. Og eitt er það, sem má segja að taki af allan vafa í því efni. Á s. l. sumri, í ágústmánuði, var haldinn á Hornafirði aðalfundur Sambands ísl. rafveitna. Þar voru saman komnir milli 50 og 60 manns, fulltrúar frá öllum rafveitum í landinu, undir leiðsögn og forustu beztu sérfræðinga í raforkumálum, þeirra Jakobs Gíslasonar og Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra í Reykjavík. Þessi hópur manna fór að virkjunarstaðnum við Smyrlabjargaá og skýrði, hvað fyrir lægi og gerði nákvæma grein fyrir því, hvernig virkjunin yrði gerð úr garði. Og við mannfagnað, sem haldinn var í héraðinu af þessu tilefni, var þetta rækilega skýrt. Það kom ekki fram þá hjá þessum sérfræðingum og öllum þessum hóp manna, að það væri á döfinni meðal þeirra að gera þær breyt. á þessu máli, sem nú virðist komið á daginn. Og mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið á döfinni í rn., meðan fyrirrennari hæstv. forsrh. gegndi embætti þar.

Í framhaldi af þessu má geta þess, að s. l. sumar eða snemma s. l. haust voru pípurnar, sem virkjuninni tilheyra, fluttar austur til Hornafjarðar að tilhlutun raforkumálaskrifstofunnar hér í Reykjavík. Og í janúarmánuði s. l. voru pípurnar fluttar frá hafnarsvæðinu á Hornafirði og að virkjunarstað við Smyrlabjargafoss að tilhlutun og í samráði við yfirmenn raforkumálaskrifstofunnar hér í Reykjavík. Héraðsbúar gátu ekki ráðið það af þeirri framkvæmd, að þá væri á döfinni meðal sérfræðinganna að gera stórvægilegar breyt. á þessum framkvæmdum. Nei, það virðist fyrst verða á döfinni, þetta mál, þegar kemur fram á þetta ár, eftir að hæstv. núv. ríkisstj. er setzt á valdastólana.

Þá er að athuga lítils háttar þau rök, sem hæstv. forsrh. ber fram máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er það svo, að gamla dísilstöðin í þorpinu á Höfn, sem er nú orðin nokkuð gömul, hefur verið endurbætt að undanförnu, þannig að hún er látin nægja enn fyrir þorpið og ætlunin hefur verið að láta við svo búið standa fram undir árslok 1960. En sú stöð, sem er þó í því ásigkomulagi að vera látin nægja nú fyrir nær 600 manna þorp, fyrir þann iðnað, sem þar er risinn upp og vegna þeirrar opinberu þjónustu, sem þar er rekin, sú stöð hefur hingað til verið álitin næg varastöð með vatnsaflsvirkjuninni frá Smyrlabjargaá. Og það hefur ekki verið fyrirhugað eða rætt um það í héraði, að það ætti að reisa nýja varastöð með vatnsaflsvirkjuninni. En nú virðist liggja fyrir, að það eigi að reisa nýja dísilstöð, sem síðar verði varastöð, en hæstv. forsrh. segir, að nýja stöðin fullnægi þeirri orkuþörf, sem um er beðið nú, að því er mér virðist nú á þessu ári. Ja, er það nú hagsýni að reisa fyrst dísilstöð, sem fullnægir þeirri orkuþörf, sem um er beðið og hefur hingað til ekki verið álitið þörf á sem varastöð framvegis, en ætla síðan eftir 3–4 ár að reisa vatnsaflsstöðina til viðbótar? Ég efast um, að það sé full hagsýni og ég hygg, að heima í héraði sé erfitt að telja mönnum trú um, að þessar ráðagerðir séu að öllu leyti gerhugsaðar.

Þá er það með línuna, að með þessari breyt. sé stefnt að því, að lína um héraðið komi einu ári fyrr, en ella hefði orðið. Samkv. tíu ára áætluninni átti að gera virkjunina úr garði á árunum 1959 og 1960 og þar sem þorpið, Höfn í Hornafirði, er langsamlega stærsti orkukaupandinn í sýslunni, þar sem er eina þéttbýlið í sýslunni, iðnaður og opinber þjónusta, þá hefur það alltaf verið frá öndverðu talið sjálfsagt, að lína frá virkjuninni í þorpið kæmi jafnhliða, þannig að hægt yrði að velta orkunni í þorpið, jafnskjótt og virkjunin væri fullgerð. M. ö. o.: þessi aðallína í þorpið átti að koma á árinu 1960.

Með þeirri breyt., sem fyrirhuguð er, segir hæstv. forsrh., að þessi framkvæmd með línuna færist fram um eitt ár. En jafnframt tekur hann fram, að það sé ekki búið að kaupa efni í Smyrlabjargavirkjunina nema að litlu leyti. Mér er nú nær að halda, að það sé búið að kaupa efni í sjálfa virkjunina að allverulegu leyti, en hef þó ekki sundurliðun um það og skal ekki fara lengra út í það. En mér er ekki kunnugt um það, hvort eða að hve miklu leyti búið er að kaupa efni í línuna. En ef það væri nú svo, að það væri ekki farið að kaupa efni í línuna, sem þyrfti að leiða um héraðið vegna vatnsvirkjunarinnar, er þá það sama efni til vegna dísilstöðvarinnar? Nú er komið fram undir maímánuð, að mánaðamótum apríl- og maímánaða 1959. Er nokkur trygging fyrir því, að lína út frá hinni væntanlegu dísilstöð verði lögð á þessu ári og er trygging fyrir því, að byggingu dísilstöðvarinnar verði lokið á þessu ári, þó að í það yrði ráðizt? En ef slík trygging er ekki fyrir hendi, færist hvort tveggja fram á árið 1960 og það munar þá ekki um heilt ár, heldur kannske e. t. v. nokkrar vikur, hvort framkvæmdin eftir breyt. kemur fyrr, en ráðgert var samkv. eldri áætluninni. Ég mundi fagna því, ef hæstv. forsrh. vildi gefa eða treysti sér til að gefa tryggingu fyrir því, að út frá dísilstöð á Höfn verði leitt vestur yfir Hornafjarðarfljót, en það eru áreiðanlega miklar efasemdir um slíka framkvæmd heima í héraði.

Þá er talað um það, að fólkinu megi alveg standa á sama, með hvaða hætti það fái rafmagn, ef það fái þá þjónustu, sem fyrirhuguð hefur verið á þessu sviði. Ja, þetta má nú segja. En sannleikurinn er sá, að fólkinu er ekki sama. Reynsla er fyrir því, t. d. á orkuveitusvæðinu hér frá Soginu, að þau heimili, sem hafa haft litlar vatnsaflsstöðvar, keppa að því að leggja þær niður og komast inn í samveitukerfið, af því að þeim finnst ekki sama, á hvern hátt þau fá rafmagn. Vitað er, að dísilstöðvar þurfa mikið viðhald og hafa ýmsa annmarka í för með sér. En þó að ekki sé eingöngu litið á þennan þátt málsins, hefur það hingað til verið talið skipta nokkru máli í þjóðarbúskapnum, hvort eyða þyrfti erlendum gjaldeyri eða nota innlenda orku. Og það virðist eiginlega furðuleg hagfræði, sem nú er farið að kenna í raforkumálum, að nú eigi að hverfa frá því að nota innlenda orku, vatnsaflið, sem við höfum keppt að því að nota sem orkugjafa, en í þess stað að keppa nú að stórauknum framkvæmdum á sviði dísilstöðva, sem vitanlega kalla á aukinn innflutning af orkugjafa eða brennsluefni, sem keypt er fyrir erlendan gjaldeyri. Þetta er þáttur í málinu, sem vel má líta á.

Enn vil ég taka fram, að alveg er ósýnt, þótt staðið yrði nú við það að virkja Smyrlabjargaá 1963–1964, sem og raunar getur nú enginn fullyrt, hverjir þá verða við völd eða hvernig þá verður ástatt um fjármál í þjóðfélaginu, að jafnvel þó að yrði nú staðið við það á sínum tíma, þá er ekki hægt að segja fyrir um það í dag, hvort sú virkjun verður jafnhagstæð fjárhagslega séð eins og þó í dag. Þær verðsveiflur, sem hafa átt sér stað að undanförnu hér á landi, hafa verið í þá átt að hækka verðlag, fremur en lækka það og vitanlega er óvissa fram undan, í þessu efni, ekki síður en að undanförnu.

Ég skal ekki fara öllu lengra út í þetta mál, en ég vil ljúka því með að minna á ummæli hæstv. fjmrh. hér í dag. Þegar hann talaði um raforkuáætlunina almennt, en ekki sérstaklega þennan þátt Austur-Skaftfellinga, þá sagði hæstv. ráðh. orðrétt: Hér er ekki verið að vanefna neitt.

Þetta er eigið mat hæstv. ráðh. á verkum ríkisstj., en verði svo fram haldið um framkvæmdir á þessu sviði í Austur-Skaftafellssýslu sem líkur benda til eftir svörum forsrh., verður það ekki mat fólksins, sem þar á í hlut, að hér sé ekki verið að vanefna neitt. Sú breyt., sem hér er stofnað til, verður skoðuð af öllum, sem hlut eiga að máli heima í héraði, án tillits til stjórnmálaskoðana mikil vanefnd og alvarleg.