29.04.1959
Sameinað þing: 44. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

1. mál, fjárlög 1959

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á því er nú sem fyrr mikil þörf, að ríkissjóður eða íþróttasjóður inni af hendi miklu stærri fúlgur, en hingað til hefur verið til hins mikla leikvangs í Laugardal, sem er aðalíþróttaleikvangur landsins. Einn mesti erfiðleikinn á undanförnum árum í þessum málum hefur verið mikil andstaða Framsfl. á þingi og í ríkisstj. gegn þessu máli. Það ber því nokkuð undarlega við, þegar hv. þm. Framsfl. sameinast nú um að greiða þessari till. atkv. Ég fullyrði, að atkvgr. þeirra í þessa átt er ekki sprottin af áhuga fyrir málinu, heldur eingöngu vísvitandi tilraun þeirra til þess, að fjárlögin verði afgreidd með tekjuhalla. Þó að ég hafi mikinn áhuga á því, að fjárveitingar verði auknar, þá er það samkomulag þeirra þm. meiri hl. þings, sem bera ábyrgð á afgreiðslu fjárl., að afgreiða þau tekjuhallalaus og það er ekki unnt með því að samþykkja þessa till. Af þeirri ástæðu segi ég nei.