07.04.1959
Neðri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

138. mál, gjaldeyrissamningur Evrópu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar Greiðslubandalagi Evrópu var komið á fót árið 1950, gerðist Ísland aðili að því, enda hafði Ísland árið áður gerzt aðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Með stofnun þessa greiðslubandalags var komið á marghlíða greiðslujöfnunarkerfi milli aðildarríkjanna að Efnahagssamvinnustofnuninni í því skyni að auðvelda greiðslur milli landanna. Tilgangur þessarar stofnunar náðist mjög fljótlega. Hún reyndist koma að mjög miklu gagni við að auðvelda greiðslur og viðskipti milli þeirra ríkja, sem stofnuðu Efnahagssamvinnustofnun Evrópu.

Eftir að stofnunin hafði starfað í nokkur ár, hófust umræður um að auka enn verksvið stofnunarinnar og gera henni enn kleifara að sinna markmiði sínu. Þeim umr. lauk þannig, að árið 1955 var gerður nýr samningur um gjaldeyrismál milli þeirra ríkja, sem eru aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Var sá samningur nefndur Gjaldeyrissamningur Evrópu. Var gert ráð fyrir, að Greiðslubandalag Evrópu hætti störfum, þegar fyrrnefndur samningur hefði verið staðfestur af öllum aðildarríkjum stofnunarinnar. Það hefur nú verið gert, og hefur Gjaldeyrissamningur Evrópu nú tekið gildi.

Ísland hafði mikið hagræði af aðild sinni að Greiðslubandalagi Evrópu. Þar var um að ræða sjálfkrafa yfirdráttarheimildir eftir vissum reglum, og voru þær m. a. þannig, að ¼ hluti yfirdráttarins gat orðið lán til langs tíma. Þegar Greiðslubandalag Evrópu hætti störfum um s. l. áramót, skulduðu Íslendingar í bandalaginu 7.2 millj. dollara.

Í hinum nýja Gjaldeyrissamningi Evrópu er gert ráð fyrir því, að svokallaður Evrópusjóður, sem komið hefur verið á fót, fái mun meira stofnfé en Greiðslubandalag Evrópu hafði yfir að ráða. Það er gert ráð fyrir, að stofnfé hins nýja Evrópusjóðs verði 600 millj. dollarar, en gamli stofnsjóður greiðslubandalagsins nam 272 millj. dollara, og er því um mikla aukningu stofnfjárins að ræða eða nokkuð á fjórða hundrað millj. dollara, sem gert er ráð fyrir að aðildarríkin leggi fram. Framlag Íslands í þennan nýja Evrópusjóð er 1 millj. dollara, og er í frv. lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að leggja fram 1 millj. dollara sem stofnframlag í þennan sjóð og taka að láni innanlands samsvarandi fjárhæð vegna aðildar Íslands að Gjaldeyrissamningi Evrópu.

Hagræðið af því að taka þátt í hinum nýja Evrópusjóði mun verða svipað og hagræðið af því að taka þátt í Greiðslubandalagi Evrópu, og þó ekki eins mikið, þar eð ekki er nú í hinum nýja gjaldeyrissamningi gert ráð fyrir jafnsjálfkrafa yfirdráttarheimildum og reglur höfðu gilt um í Greiðslubandalagi Evrópu. Engu að síður er gert ráð fyrir því, að gjaldeyrissjóðurinn annist marghliða greiðslukerfi milli aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar með nokkurri yfirdráttarheimild, þannig að að því er augljós hagnaður fyrir Ísland að vera áfram aðili að þessum nýja samningi, sem í raun og veru er fyrst og fremst framhald af Greiðslubandalagi Evrópu.

Samningar standa nú yfir um greiðslu þeirra skulda, sem Ísland var í við Greiðslubandalag Evrópu, þ. e. þeirra 7.2 millj. dollara, sem ég nefndi áðan. Er gert ráð fyrir því, að aðild Íslands að hinum nýja greiðslusamningi geti gert Íslendingum kleift að greiða þessa gömlu skuld með hagkvæmum hætti, og standa vonir til, að samningar náist um greiðslu skuldarinnar á allt að 7 árum.

Í þessu frv. er m. ö. o. ekki gert ráð fyrir annarri lántökuheimild til handa ríkisstj. en þeirri, sem nauðsynleg er til þess að leggja fram stofnfé í hinn nýja gjaldeyrissjóð, og lántökuheimild í sjóðnum til að greiða gömlu skuldina við Greiðslubandalagið.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2, umr. og hv. fjhn.