02.04.1959
Efri deild: 93. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

128. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og í nál. allshn. á þskj. 335 segir, hefur n. yfirfarið frv. þetta, sem felur það fyrst og fremst í sér að framlengja um 15 ára skeið leyfi Happdrættis háskólans til þess rekstrar áfram, og samkv. tillögum menntmrn. er nú bætt inn í frv. heimild til þess að nota ágóða happdrættisins til greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabyggingarinnar, fegrun háskólalóðar og til þess að koma á fót og efla rannsóknarstöðvar við hinar ýmsu deildir háskólans og enn fremur til kaupa á rannsóknar- og kennslutækjum, sem háskólinn telur sér nauðsyn að eignast. Gert er ráð fyrir því í hinni nýju háskólareglugerð frá 17. júní 1958, að komið verið á fót rannsóknarstöðvum, eftir því sem fé er til þess veitt.

Í samráði við skrifstofustjóra Alþingis er gerð till. um að breyta fyrirsögn frv. Athugun hans hafði leitt í ljós, að tilvitnanir þær, sem í fyrirsögn frv. voru, væru ekki tæmandi og ekki talin þörf á að bæta þeim við, sem þar vantaði, heldur mundi það fullnægja tilgangi málsins, að sú fyrirsögn væri á því, sem lagt er til í brtt. á nál. 335.

Við umr. um þetta mál í hv. allshn. lá ekki fyrir bréf, sem nú hefur borizt, þar sem er rökstuðningur fyrir þeim tilmælum menntmrn. til fjmrn., er fram koma í aths. um frv. Það var því ekki hægt að prenta þetta bréf sem fylgiskjal með nál. og tel ég því rétt að lesa þennan rökstuðning menntmrn. hér með. Í því bréfi þess, sem er dagsett 4. marz 1959, segir svo:

„Hér með sendist fjmrn. frv. til l. um breyt. á l. nr. 44 19. júlí 1933, um stofnun happdrættis fyrir Ísland, sbr. l. nr. 125 30. des. 1943, um breyt. á þeim l. og er þess beiðzt, að fjmrn. hlutist til um, að frv. þetta verði lagt fyrir Alþingi.

Svo sem grg. frv, ber með sér, hefur háskólinn og menntmrn. fjallað um frv. Það rn. vill taka fram, að það leggur áherzlu á, að háskólinn leggi af happdrættistekjum fram fé til að byggja hús yfir Náttúrugripasafn ríkisins, þótt eigi hafi enn fengizt fjárfestingarleyfi til þess að hefjast handa um þá byggingu. Háskólinn hefur hins vegar lagt fram fé til þess að leysa brýna þörf safnsins á þann hátt að kaupa hæð í húsinu Laugaveg nr. 105 og er nú verið að innrétta húsnæði þetta fyrir safnið. Þá telur rn. æskilegt, að náttúrugripasafnið fái hlutdeild í tekjum háskólans til kaupa á vísindaáhöldum, sérfræðiritum og hirzlum fyrir safngripi.

Rn. hefur þó eigi sett ákvæði um þetta í frv., og var það eigi gert við síðustu framlengingu happdrættisleyfisins árið 1943. En hins vegar kom það fram við meðferð málsins, bæði í grg. og nál., að hluti af happdrættisfénu var ætlaður til náttúrugripasafnsbyggingar.

Ef frv. verður að lögum, væntir rn. þess, að leyfisveiting til háskólans til happdrættisrekstrar verði bundin því skilyrði, að lagt verði fram fé eins og þarf til byggingar náttúrugripasafnshúss, til kaupa á nauðsynlegum vísindaáhöldum, sérfræðiritum og safnhirzlum fyrir náttúrugripasafnið.

Menntmrn., 4. marz 1959.

Gylfi Þ. Gíslason,

Birgir Thorlacius.“

Þetta eru tilmæli menntmrn. til fjmrn. um flutning þessa máls.

Eins og í nál. á þskj. 335 segir, mælir n. með samþykkt frv. með þeirri leiðréttingu, sem ég hef gert grein fyrir á fyrirsögn þess. Einn nm., Jón Kjartansson, hv. þm. V-Sk., var fjarstaddur afgreiðslu málsins í n. Nm. áskilja sér rétt um afstöðu til brtt., er fram kynnu að koma.