06.05.1959
Neðri deild: 122. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

128. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, er að framlengja einkaleyfi Háskóla Íslands til þess að reka happdrætti til 1. jan. 1974.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., hefur sú breyting verið gerð á eldri lögunum um þetta efni, að heimilað er að verja happdrættisfénu til nokkurra nauðsynjamála háskólans annarra, en til að reisa byggingar, svo sem greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabyggingarinnar, til fegrunar á háskólalóðinni, til þess að koma á fót og efla rannsóknarstöðvar við hinar ýmsu deildir háskólans o. s. frv.

Nefndin hafði kynnt sér það sérstaklega, hvort þessi breyting á lögunum hefði verið gerð í samræmi við óskir háskólaráðs og kom það í ljós, að svo var, að eftir því hafði eindregið verið óskað af háskólaráði, að heimilað yrði að veita eitthvað af fé þessu til áðurgreindra nauðsynjamála háskólans.

Það er kannske eðlilegt, að það sjónarmið komi fram, að rétt sé að takmarka notkun happdrættisfjárins við byggingar. En það er nú einu sinni þannig, að með öðrum hætti hefur ekki verið séð fyrir fé til þeirra málefna, sem nú hafa verið nefnd og meðan svo er ekki, verður ekki hjá því komizt, þar sem þessi málefni þurfa úrlausnar, að heimila, að fé sé veitt til þeirra með einhverjum hætti og mun þessi breyting þannig til komin, að um þetta hefur verið samkomulag á milli hæstv. ríkisstj. og forráðamanna háskólans.

Eins og fram kemur í nál., kynnti nefndin sér það sérstaklega, hver mundi verða hlutur væntanlegs náttúrugripasafns í sambandi við happdrættið og kom fram við meðferð másins, að um það er samkomulag milli þeirra aðila, sem eiga hlut að máli, að lagt verði fram fé af happdrættistekjunum til byggingar safnsins og í því sambandi hefur fjhn. leyft sér að birta sem fylgiskjal með nál. bréf frá menntmrn. til fjmrn., sem sent var um það leyti, sem undirbúinn var flutningur þessa frv.