15.10.1958
Efri deild: 3. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

3. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Undanfarin ár hefur verið innheimtur með álagi vörumagnstollur og einnig verðtollur. Enn fremur hafa verið í gildi undanþágur frá tollum fyrir tilteknar vörutegundir. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að framlengja þau ákvæði, sem gilt hafa áður um þetta efni og er þeirra að leita í hinum þremur aðalgreinum frv. Þetta mál er svo gamalkunnugt, að ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það nánar, aðeins taka fram, að þetta frv. er orðrétt eins og gildandi lög um þetta efni, að ártalinu einu breyttu. Leyfi ég mér að óska eftir, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að lokinni 1. umr.