13.11.1958
Efri deild: 17. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

42. mál, eftirlit með skipum

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér tvær meginbreytingar á gildandi lagaákvæðum um eftirlit með skipum. Það er í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir því að fella niður ákvæði í lögum um svonefnda almenna aukaskoðun fiskiskipa, því að það er þegar orðið þannig í framkvæmd, að þessi aukaskoðun hefur fallið saman við aðalskoðunina, sem fer fram árlega og hefur það því í rauninni ekki neina eðlilega þýðingu lengur að hafa þetta ákvæði í lögum.

En hitt atriðið, sem er aðalatriðið í þessu frv., er það, að gert er ráð fyrir að breyta lögunum þannig að fella niður gjaldskrána, sem hefur verið bundin í lögunum, fella hana út úr lögunum sjálfum, en gera hins vegar ráð fyrir því, að gjaldskrá vegna skipaskoðunar verði sett með reglugerð og ákveðin af ráðherra, eftir því sem ástæður þykja til á hverjum tíma.

Það hefur komið mjög greinilega í ljós, að tekjur vegna skipaskoðunarinnar eru fjarri því að vera eins miklar og útgjöld þessarar stofnunar. En það var upphaflega til þess ætlazt, að ekki yrði verulegur halli á þessari stofnun. En m. a. vegna þess, að skipaskoðunargjöldin eru bundin í lögunum sjálfum, hefur þetta þótt svo torvelt eða seinvirkt til breytinga, að þetta hefur dregizt mjög aftur úr, miðað við þann tilkostnað, sem orðinn er á rekstri stofnunarinnar.

Þannig var það t. d., að árið 1956 reyndust útgjöld stofnunarinnar 678 þús. kr., en tekjur af skipaskoðunargjöldum 199 þús., og 1957 reyndust gjöld hjá stofnuninni vera 769 þús. kr., en tekjur 194 þús. kr., en eins og segir í grg. frv., þykir rétt, að tekjur af skipaskoðun og skipaeftirliti standi nokkurn veginn undir kostnaði hjá þessari stofnun. Það liggur því fyrir að hækka skipaskoðunargjöld allverulega og þykir það á engan hátt óeðlilegt né ætti að íþyngja neitt sem heitir útgerðinni í landinu, þó að þetta sé jafnað. En það hygg ég, að sú nefnd muni komast að raun um, sem athugar málið, að það er eðlilegt að gera þessa breytingu á þessum ákvæðum.

Sem sagt: aðalatriði frv. er það að taka gjaldskrána út úr lögunum og gera þetta að reglugerðaratriði og verði þá miðað við það, að tekjurnar verði því sem næst eins miklar og útgjöldin eru hjá þessari stofnun.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til að, að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til sjútvn. til fyrirgreiðslu.