26.01.1959
Efri deild: 53. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

42. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á lögum um eftirlit með skipum, felur í sér tvennar breytingar frá gildandi lögum, Í fyrsta lagi þá, að niður falli ákvæði laganna um aukaskoðun, en aftur á móti verði aðalskoðun viðhöfð á hverju ári á öllum skipum. Í 24. gr. núgildandi l. er svo ákveðið, að aðalskoðun skipa skuli fara fram á hverju ári á öllum farþegaskipum, öllum stálskipum, sem eldri eru en 12 ára og öllum tréskipum, sem eldri eru en 16 ára, en á öðrum skipum annað hvert ár. En hins vegar á aukaskoðun að fara fram annað hvert ár á þeim skipum, sem aðalskoðun er ekki framkvæmd á, á hverju ári.

Nú er það upplýst af skipaskoðunarstjóra, sem hefur samið þetta frv., sem hér liggur fyrir, að í reyndinni sé heildarskoðun ekki aðeins látin fram fara annað hvert ár á þessum skipum, sem ég nefndi, heldur sé eingöngu orðið um aðalskoðun að ræða, þannig að niðurfellingin á ákvæðinu um aukaskoðun er nánast staðfesting á reglu, sem þegar er orðin viðtekin.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir því í frv., að gjaldskrá sú, sem felst í lögunum, verði felld niður, en ráðuneytinu verði hins vegar heimilað að setja reglugerð um hana. Þetta mun vera byggt á því, að þegar lögin voru sett fyrir 11 eða 12 árum, þá hafi verið gert ráð fyrir því, að skoðunargjöldin stæðu nokkurn veginn undir kostnaði við skipaeftirlitið, en að sjálfsögðu hefur sá kostnaður breytzt mjög mikið, sem hefur leitt til þess, að halli á skipaskoðuninni hefur hin síðari ár orðið um eða yfir ½ millj. kr. árlega. Þar sem eftir atvikum má telja eðlilegt, að útgerðarmenn og skipaeigendur standi undir þessum kostnaði, er talið rétt að breyta þessu á þá lund, að ráðuneytið geti hverju sinni sett reglugerð um hæð gjaldanna, en ekki þurfi að leita lagaheimildar í hvert sinn, sem ástæða þykir til að breyta henni.

Sjútvn. hefur athugað frv., og voru nefndarmenn sammála um að mæla með samþykkt þess með einni breytingu, sem er gerð samkvæmt ábendingu samgmrn., en hún er sú, að inn í 10. gr. frv. sé bætt tilvísun í lög nr. 21 frá 1. marz 1956, en hún hafði fallið niður í frv., þegar það var lagt hér fyrir.