11.04.1959
Neðri deild: 105. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 107 fluttum við hv. þm. V-Ísf., hv. 2. landsk. þm., hv. þm. Siglf, og ég, brtt. við löggjöf um tekjuskatt og eignarskatt. Brtt. okkar flm. fjallaði um það, að sölusamtök, er hafa með höndum sölu á íslenzkum afurðum meðlima sinna, skuli undanþegin greiðslu á tekjuskatti og eignarskatti. Gerðu flm. ráð fyrir, að þessi brtt. okkar yrði tekin inn í frv, um breyt. á löggjöfinni um tekjuskatt og eignarskatt á þskj. 250 og fengi afgreiðslu hv. fjhn., um leið og n. gæfi út nál. sitt varðandi það frv. Nú sé ég, að hv. fjhn. leggur til í nál. sínu á þskj. 359, að þau þrjú frv., sem liggja hér fyrir hv. d. og öll fjalla um breyt. á löggjöf um tekjuskatt og eignarskatt, verði sameinuð í eitt frv. eða felld inn í frv. á þskj. 284, 122. mál.

Mér er ekki vel ljóst, hver er ástæðan fyrir því, að hv. fjhn. tekur ekki þessa brtt., sem við fjórir þm. höfum flutt hér í hv. d., og er það síður en svo, að ég taki það samt sem neinn mótþróa frá n. En ég mun og aðrir hv. flm.brtt. á þskj. 107 flytja við 3. umr. brtt, við 122. mál, á þskj. 284. Hér er um mikilsvert mál að ræða, og mun ég um leið og 3. umr. fer fram, reifa málið og sýna réttmæti þess, að slík sölusamtök eigi að vera undanþegin greiðslu tekjuskatts og eignarskatts og ég vil raunar halda því fram, að slík undanþága ætti að ná til þess, að samlögin greiddu ekki útsvar í Reykjavík, þar sem vitað er, að það er lagt á meðlimina, sem standa að þessum samlögum, bæði útsvör og tekju- og eignarskattur á þeim stöðum, sem þeir starfa víðs vegar úti um byggðir landsins.

Ég vil ekki hafa þessi orð mín fleiri að þessu sinni, en við flm. munum færa fram brtt. við frumvarpið við 3. umr.