16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þær umr. neitt verulega, sem hér hafa orðið um þetta mál. Ég tel þó rétt með tilliti til þess, að ég á sæti í fjhn. Nd., sem um þetta mál hefur fjallað og einnig átti ég sæti í sömu n. í fyrra, þegar skattamálalöggjöfin var þar til meðferðar, aðeins með örfáum orðum að lýsa afstöðu minni til þeirrar till., sem mikið hefur verið rædd hér.

Ég get út af fyrir sig alveg á það fallizt, sem mér skilst í rauninni að ekki hafi verið ágreiningur um meðal þeirra, sem talað hafa í þessu máli, hve mikið sem greint hefur á um annað, að rétt muni vera að setja sérstaka löggjöf um þau samtök, sem hér er um að ræða, þar sem mörkuð sé þeirra afstaða í þjóðfélaginu á svipaðan hátt og gert er með hlutafélagalögunum, samvinnulögunum o. s. frv. og séu þar einnig ákvæði um skattskyldu þessara samtaka. En þar sem það er mál, sem hlýtur alltaf að bíða næstu þinga, þá tel ég eftir atvikum rétt að samþykkja þá till., sem hv. þm. Snæf. (SÁ) og nokkrir aðrir hv. þm. hafa hér fram borið og skal í örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég tel það sanngjarnt.

Eins og þegar hefur komið fram hér í umr., m. a. í ræðu hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), bar það aldrei á góma, svo að ég muni, á síðasta þingi, en ég var til loka þess í fjhn., þar til málið var endanlega afgr., að tilgangurinn væri með þeirri breytingu á skattalögunum, sem þá var gerð, að breyta aðstöðu þeirra samlaga, sem hér er um að ræða. Ég skal fúslega játa það, að ég er ekki tæknilegur sérfræðingur í skattamálum, enda kvöddum við hv. 5. þm. Reykv., sem áttum sæti í n. af hálfu sjálfstæðismanna, okkur til aðstoðar tvo sérfræðinga í skattamálum. Þeir tóku ekki eftir því, — og ég er ekki að leggja þeim það út til neins ámælis, — að hér væri um að ræða neina breytingu á aðstöðu þessara félaga í skattamálum. Það, að lögin hafa samt verið túlkuð þannig, eins og raun hefur orðið á, að þetta gerbreytti aðstöðu þeirra, er nokkuð, sem hefur gerzt án þess, að komið hafi fram, hvorki í fjhn. né hér á hæstv. Alþingi í umr. um þessi mál, að það væri yfirleitt tilgangur löggjafans að breyta nokkru í þessu efni. Hins vegar var sá tilgangur þeirrar löggjafar, sem sett var hér í fyrra, eins og kom fram í ræðu hv. þm. V-Húnv. (SkG), að létta einmitt skattabyrðinni af öðrum félögum og þá fyrst og fremst hlutafélögum. Það á að vísu ekki við um öll hlutafélög, að þetta hafi létt skattabyrði þeirra, það á ekki við um minni hlutafélögin, en eins og fram kom í grg. fyrir frv. þá, var tilgangurinn sá að létta skattabyrðinni a. m. k. af hinum stærri félögum.

Það var ekki meiri háttar ágreiningur um samþykkt þessa frv. hér á Alþingi. Nokkrir hv. þm. tjáðu sig því að vísu andvíga, en allir þeir, sem telja, að æskilegt sé að auka fjármagnsmyndun í atvinnurekstrinum, töldu þó, að hér væri um spor í rétta átt að ræða og þess vegna fylgdum við sjálfstæðismenn þeim ákvæðum frv., sem skiptu mestu máli.

En einmitt með tilliti til þessa, að tilgangur þeirra laga, sem samþ. voru í fyrra, var sá að létta frekar skattabyrðinni af félögum, þannig að möguleiki yrði fyrir meiri, sjálfstæðari fjármagnsmyndun innan þeirra heldur en áður var, þá virðist mér mjög óeðlilegt, að þau samlög, sem hér er um að ræða, verði gerð verr sett ,en áður var. Tel ég því eðlilegt, að þessi brtt. verði samþ., en síðar er svo sjálfsagt að setja ákvæði um réttarstöðu þessara samtaka í þessum efnum sem öðrum.

Ég get vel á það fallizt út af fyrir sig, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að það, að fjármagnið færist á færri hendur í þjóðfélaginu, hvort sem þar er um einkaaðila að ræða eða aðra aðila, skapar þjóðfélagsleg vandamál, sem ekki má loka augunum fyrir, heldur vera á verði gegn. Ég vil að vísu við það bæta, að hér stafar að mínu áliti ekki eingöngu hætta af því, að fjármagn safnist í óeðlilega stórum stíl á hendur samtaka einkaaðila og samvinnufélaganna, heldur tel ég, að þessi hætta sé einnig fyrir hendi, ef fjármagninu er í allt of ríkum mæli stjórnað af hálfu opinberra aðila. Allur samdráttur hins efnahagslega valds í þjóðfélaginu eða það, að hið efnahagslega vald færist á tiltölulega fáar hendur, skapar hættu, jafnvel þó að þarna sé um opinbera aðila að ræða og fulltrúa þeirra. En þetta er stærra vandamál en svo, að eðlilegt sé, að það sé rætt og krufið til mergjar í sambandi við það mál, sem hér er um að ræða.