16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Það er alveg ótvírætt nú í skattalögunum, að þessi samlög, sem hér hefur verið rætt um, eru skattskyld og ég tel, að þau hafi verið það áður einnig. Það er mitt álit og hv. 5. þm. Reykv. hefur ekki enn bent á neinn lagastaf í l., sem áður giltu, til stuðnings því, að samlögin hafi þá verið skattfrjáls, svo að ég get nú ekki tekið þetta tal hans um, að það hafi verið reynt að smygla þarna inn í löggjöfina einhverju, neitt alvarlega.

En viðvíkjandi því, sem hann var að tala um í ræðu sinni nú síðast, um skatta hlutafélaga annars vegar og samvinnufélaga hins vegar og ákvörðun skattskyldra tekna og eigna hjá þessum félögum og hann taldi, að þar væri munur á, þá vil ég minnast á atriði í því sambandi.

Í skattalögunum er ákvæði um varasjóðsfrádrátt hjá félögum. Þessi frádráttur má vera 1/3 af tekjum, sé sá hluti lagður í varasjóð hjá samvinnufélögum og hjá hlutafélögum, sem hafa sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, hjá öðrum hlutafélögum 1/5 hluti teknanna. En á það er að líta í þessu sambandi, að um varasjóðina gilda þau ákvæði í samvinnulögum, að þeim má aldrei skipta upp milli félagsmannanna við félagsslit, en aftur er það leyfilegt um sjóði hlutafélaga. Þarna er nokkur munur á. En eins og ég hef getið um áður, þá er skattprósentan sú sama, bæði af skattskyldum tekjum og skattskyldum eignum, hjá þessum félögum, svo að ég held, að því verði ekki með neinum rökum eða neinni sanngirni haldið fram, að hvað snertir skattgreiðslu til ríkisins, tekjuskatt og eignarskatt, sé nú ójafnt búið að þessum tveimur tegundum félaga, hlutafélögum og samvinnufélögum. Og næst þegar samnefndarmaður minn úr fjhn., hv. 5. þm. Reykv., fer að tala um þessi efni, þá vildi ég ráðleggja honum að hafa einhver haldbetri rök, en einhverjar 1. apríl-fréttir úr blöðunum fram að færa.