18.04.1959
Neðri deild: 111. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við þetta frv. höfum við hv. 6. landsk. þm. og ég flutt brtt. Efni hennar er ekki nýtt hér á þingi. Við höfum hér flutt það áður, en það fjallar um, að eftir verði gefinn skattur af þeirri vinnu, sem unnin er beint við útflutningsframleiðsluvörurnar utan hins venjulega vinnutíma, þ. e. a. s., að niður verði felld skattskylda á þeim tekjum, sem launþegar hafa við þess háttar störf og borguð eru með hærra verði, en dagvinnukaup er ákveðið, þ. e. sá hluti kaupsins, sem er umfram dagvinnu. Þetta mundi færa skattskylduna til samræmis við orlofsskylduna, því að samkvæmt orlofslögum er ekki skylt að borga orlof á eftirvinnu eða nætur- og helgidagavinnu, nema sem dagvinna væri og á sama hátt yrði að samþykktri þessari till. okkar heldur ekki skattskyld yfirvinnan nema sem dagvinna væri. Það er enn þá meiri ástæða til þess að flytja þessa till. nú en nokkru sinni áður, þar sem — eins og hv. þm. mun kunnugast um — voru gerðar fyrir nokkru ráðstafanir til þess að lækka verulega tekjur þess fólks, sem hefur atvinnutekjur sínar með þeim hætti, að það vinnur að verulegu leyti umframvinnu við framleiðslustörfin. T. d. má geta þess, að samkvæmt þeim lögum um niðurfærslu verðlags og kaupgjalds, sem hér voru samþykkt og gildi tóku um mánaðamótin janúar-febrúar, var næturvinnukaup almennra verkamanna lækkað um hvorki meira né minna en kr. 6.38 á hvern klukkutíma og væri það lítil skaðabót, þó að á móti kæmi, að það, sem greitt er fyrir yfirvinnuna umfram venjulega dagvinnu, yrði gert skattfrjálst.

Ég skal taka fram, að það hefur til flestra annarra þjóðfélagsþegna verið litið með meiri sanngirni að undanförnu en þeirra, sem hér um ræðir. Við könnumst við það, að sjómenn hafa réttilega verið látnir njóta nokkru betri kjara varðandi skattgreiðslur, en áður tíðkaðist og þróunin hefur gengið í þá átt að undanförnu að auka skattfríðindi þeirra, sem rétt er og maklegt. En það er einnig annar aðili, sem ekki gegnir alveg óskyldu máli um. Það eru þeir, sem vinna við framleiðslustörfin í landi og þýðing starfa þeirra fyrir þjóðfélagið er engu minni en sjómannanna sjálfra, þótt ekki hafi verið tekið neitt tillit til þeirra í skattalöggjöfinni til þessa. Ég skal benda á það, að á þeirri vertíð, sem nú er tekið að síga á seinni hlutann á, hefur starf þess fólks, sem vinnur við verkun fiskafla, verið alveg sérstaklega mikið í þessum yfirstandandi mánuði og raunar einnig í síðasta hluta fyrra mánaðar, þannig að almennt talað hefur vertíðin gengið þannig, að afli var sáralítill fram eftir vertíð, en hefur verið óvenju mikill og kallað á óvenju mikla yfirvinnu hjá verkafólki í landi að undanförnu. Ég hef bent á það hér áður, að sú hætta vofir jafnan yfir og fer vaxandi, eftir því sem þrengt er að kjörum þessa fólks, eins og Alþingi hefur gert á þessum vetri, að verkalýðsfélögin, sem hér eiga hlut að máli, hætti að leyfa yfirvinnu, nema því aðeins að einhverjar bætur komi a. m. k. á þann hluta vinnunnar, sem er umfram það, sem þjóðfélagið yfirleitt krefst af þegnum sínum, þ. e. a. s. sérstaka gjaldið fyrir yfirvinnuna. Það er mikil hætta á því, að verkalýðsfélögin ákveði það einn góðan veðurdag, að slíkri vinnu skuli þau hætta. Og hvar stendur íslenzka þjóðfélagið þá, ef ekki á að vera tiltækur nægur vinnukraftur verkamanna til þess að verka þann afla, sem mest berst af í aflahrotum á útmánuðum? Ég vil ekki kalla yfir framleiðslu íslenzka þjóðarbúsins þá hættu, sem Alþingi vissulega gerir með því að daufheyrast við þessari kröfu, sem rís æ hærra, eftir því sem tímar líða, hjá verkalýðshreyfingunni og verður ábyggilega áður en langt um líður gerð tilraun til þess að samningsbinda skyldu þjóðfélagsins til þess að láta niður falla skattheimtu á það, sem sérstaklega er greitt fyrir umframvinnuna. Það væri þjóðfélaginu ekki hollara, að slík ákvæði yrðu tekin upp eftir harkaleg átök og framleiðslutap, sem af því gæti hlotizt, heldur en að Alþingi líti á það með fullum skilningi, hvað hér er í húfi, hvað hér er að gerast og samþykkti þessa tillögu, sem tryggja mundi a. m. k. á næstu tímum vinnufrið, einnig varðandi þá yfirvinnu, sem hér er um að ræða og þjóðfélaginu er alveg sérstaklega nauðsynleg, en sannast að segja hlýtur að verða þeim þjóðfélagsþegnum, sem hana framkvæma, stöðugt minna keppikefli, eftir því sem það liggur augljósar fyrir, að ríkið hirðir verulegan hluta af henni, enda þótt hún sé í rauninni unnin að verulegu leyti sem þegnskylda við þjóðfélagið.