27.04.1959
Efri deild: 108. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Efni þessarar till., sem við flytjum hér til breyt. á frv. um tekjuskatt og eignarskatt, hv. þm. Barð. (SE) og ég, er hv. dm. allvel kunnugt, þar sem hún hefur á nokkrum undanförnum þingum verið flutt sem sérstakt frv. af þeim hv. 2. landsk. þm. (KGuðj) og hv. 6. landsk. þm. (GJóh). Vil ég þó víkja að því nokkrum orðum.

Brtt. gerir ráð fyrir því, að við álagningu skatts verði frádráttarhæfur sá hluti eftir-, nætur- og helgidagavinnu, sem ekki er skylt að greiða af orlof, þ. e. a. s. þessi yfirvinna verði skattlögð eins og unnin væri öll með dagvinnukaupi; aukagreiðslan, sem nemur 50% á eftirvinnu og 100% á nætur- og helgidagavinnu, verði undanþegin skatti.

Það er skoðun okkar flm., að þessi breyt. frá gildandi lögum sé hvort tveggja í senn nauðsynleg og réttlát. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að það er orðið mikið vandamál, að skortur er á nægu innlendu vinnuafli í þeirri framleiðslugrein, sem þjóðin byggir á alla sína afkomu, sjávarútveginum og gildir þetta jafnt um vinnuafl á sjó og á landi, á báta- og togaraflotanum sem í frystihúsum og fiskvinnslustöðvum. Það er áhyggjuefni mörgum og sízt að ástæðulausu, að vinnuaflið dregst fremur að óarðsamari og þá gjarnan um leið hægari störfum, en útflutningsframleiðslunni, en þeirri vinnu fylgir vosbúð, meira erfiði og lengri vinnutími en flestum, ef ekki öllum störfum, sem unnin eru í þjóðfélaginu. Enginn mælir því í móti, að sjómennirnir og þeir, sem aflann vinna í landi, leggi harðar að sér, en flestir aðrir til tekjuöflunar fyrir þjóðarheildina. Frá fornu fari hefur það verið talin siðferðileg skylda, fremur en kvöð, af beinum fjárhagslegum toga að sinna björgun sjávarafla á nótt sem degi, helgum degi sem virkum, hvort sem þreyta, vosbúð og veðrahamur sóttu að og yfirleitt við hvaða ytri skilyrði sem við var að etja. Enn í dag er þessi björgunarskylda hverjum verkamanni og sjómanni í blóð borin. Öðrum, sem ætíð njóta eðlilegrar hvíldar og værðar, finnst þessi skylda ekkert tiltökumál og í okkar löggjöf, sem tryggja á verkamönnum 8 stunda lágmarkshvíld á sólarhring hverjum, er undantekning gerð varðandi vinnu við björgun sjávarafla. Og meira að segja hin trúarlega helgi hvíldardagsins hefur orðið að víkja fyrir skyldunni við það bjargræði, sem sjómanninum tekst að ná úr hafinu.

Nú á tímum tækninnar er meiri afli dreginn að landi, en nokkru sinni fyrr. Og hann krefst meiri vinnu en áður, þó að nútímatækni sé þar einnig beitt á mörgum sviðum. Og það er mikið vafamál, að skyldan við bjargræðið hafi áður lagt þyngri kvaðir á það fólk, sem að því vinnur. Í mestu aflahrotum á vertíðum er nótt lögð við dag og sólarhringur við sólarhring, staðið, á meðan nokkur snefill af starfsorku er eftir. Á því leikur enginn vafi, að mjög oft er vinnutími þess verkafólks, sem vinnur við fiskaðgerð og fiskvinnslu, lengri en eðlilegt og heilsusamlegt getur talizt. Það er gengið á þann höfuðstól, heilsu og starfsþreks, sem hverjum manni er dýrmætastur allra eigna. Slíkt verður auðvitað aldrei bætt, hvorki með hærri launum né skattfríðindum. Hitt er annað, að meðan þessi oft óhæfilega mikla yfirvinna er talin þjóðarnauðsyn og allt að því skylda, verður það að teljast alger lágmarkskrafa, að hún sé ekki skattlögð tvöfalt eða meira, en önnur vinna og hver eyrir, sem þannig er aflað, sé ekki eltur uppi með margfaldri skattlagningu bæði ríkis og bæjarfélaga.

Út á þá braut hefur verið farið í vaxandi mæli að veita sjómannastéttinni meiri skattafrádrátt, en öðrum gjaldendum og flestra mál er það, að þar sé enn sízt of langt gengið. Og raddir eru uppi um það að veita þeim algert skattfrelsi. Rökin fyrir þessu eru þau, að lækkun skattbyrði örvi menn til sjósóknar og sjómannastéttinni beri slík hlunnindi, vegna þess að hún leggi harðara að sér til að afla þjóðarbúinu undirstöðuverðmæta, en aðrar stéttir. Í öllum meginatriðum gilda hin sömu rök fullkomlega varðandi verkafólkið, sem að sjávaraflanum vinnur í landi. Það hefur enn enga úrlausn fengið í þá átt, en við flutningsmenn teljum, að tími sé til þess kominn. Þó má geta þess, að einstaka bæjarfélög hafa hin síðustu ár sýnt nokkurn lit í þessu efni varðandi álagningu útsvara.

Ég tel, að óvarlegt sé að treysta um of á langlundargeð þeirra, sem að útflutningsframleiðslunni vinna varðandi þessi mál. Ef þjóðfélagið sýnir á engan hátt, að metið sé að verðleikum það vinnuálag, sem það tekur á sig umfram aðra, er næsta líklegt að, að því hljóti að reka, að það krefjist eðlilegs hvíldartíma, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar njóta. Samkv. kjarasamningum verkalýðsfélaga er það á valdi hvers félags, hvort næturvinna er unnin eða ekki. Með einfaldri samþykkt geta verkalýðsfélögin því veitt meðlimum sínum vinnuvernd að þessu leyti. Ef svo færi, yrði þjóðfélagið að leysa þessi vandamál framleiðslunnar með einhverjum öðrum hætti, en hingað til hefur verið gert. En auðvelt mundi það ekki reynast um sinn a. m. k., án þess að dregið væri úr framleiðslunni og við því megum við illa. Hvernig sem á málið er litið, virðist því hyggilegast að mæta hóflegum kröfum þeirra, sem að framleiðslunni vinna, með sanngirni og veita þeim þá réttarbót, sem þessi till. felur í sér og þeim hefur verið of lengi synjað um.

Viðkomandi þeim tilmælum, sem hér hafa borizt um frestun málsins, get ég tekið undir það að því leyti, að mér finnst eðlilegt, að atkvgr. sé frestað sökum þess, hve margir hv. þdm. eru fjarstaddir vegna veikinda.