27.04.1959
Efri deild: 108. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir tilmæli hv. 6. þm. Reykv. (GTh), sem hann beindi til hæstv. forseta í ræðu, áður en síðasti þm. hélt sína ræðu.

Ræða hv. flytjanda brtt., hv. þm. S-Þ. (KK), var að mestu leyti endurtekning á ræðu hv. þm. V-Húnv. (SkG), sem hann flutti við afgreiðslu þessa máls í Nd., en sú hv. deild komst eftir allmikil ræðuhöld að þeirri niðurstöðu, að þessa 1. gr. ætti að orða eins og hún nú er í frv. En hv. þm. S-Þ. vill blátt áfram nema það orðalag í burtu. Ég held það væri misráðið — séð frá sjónarmiði þess að skapa réttlæti á meðal skattborgaranna — að fella þetta út úr frv., sem nú er komið í það. Það er eiginlega leiðrétting á því, sem fór fram í fyrra, þegar hv. flokksmenn brtt.flytjandans hér í þessari hv. deild, þegar hv. flokksmenn hans í Nd. beittu sér fyrir breytingu á tekju- og eignarskattinum, sem hafði það yfirskin að vera til leiðréttingar, en varð í raun réttri til ranglætingar.

Hitt er annað mál, að það er þörf á því, að skilgreint sé í lögum, hvað heyri undir sameignarfélög og samlög, hvaða skilyrði þau eigi að uppfylla til þess að hafa réttarstöðu í þjóðfélaginu. Þau komu hér mikið til tals í hv. Nd., en ég hlustaði þar á það, að flokksbróðir hv. þm., hv. þm. V-Húnv., talaði um svokölluð samlög o. s. frv. Þau eru nú flest á sama sviðinu, samlög til eflingar sölu á afurðum landsmanna. Þau eru það, þó að þau séu ekki löghelguð og lítilsvirðingin á samlögunum í ræðu hv. þm. V-Húnv. var augljós, þar sem hann stagaðist mikið á „svokölluðum samlögum“.

Þrátt fyrir það er ég á því, að það ætti að setja löggjöf um samlög, en það þarf ekki að standa í vegi fyrir þeirri réttarbót, sem farið er fram á í þessu frv., eins og það er.

Að öðru leyti vænti ég þess, að tilmæli hv. 6. þm. Reykv. um málið verði gaumur gefinn af hæstv. forseta og virðist vera á góðri leið með, að svo geti orðið, þar sem horfið var að þeirri millileið, þar sem ég setti fram í fyrstu þá kröfu, að málið væri tekið út af dagskrá, að þá féllst forseti á þá milli leið að leyfa mönnum umr. um brtt., sem fyrir lægju, og væri svo fram farið og atkvgr. frestað, þá náttúrlega getur hv. fjhn. að sjálfsögðu tekið málið til meðferðar á milli þess dags og til þess næsta, er það yrði hér á dagskrá.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en ég veit, að það liggur til grundvallar þeim óskum, sem fram eru komnar í frv., að eyða því ranglæti, sem komst inn í þessi lög í fyrra undir því yfirskini, að verið væri að bæta lögin.

Viðvíkjandi brtt. hv. 8. landsk. þm. og félaga hans verð ég að segja það, að ég hef fulla samúð með því, að skattar séu varlega innheimtir fyrir þá vinnu, sem lögð er fram á þann veg, sem brtt. gerir ráð fyrir og var flutt í Nd. af hv. samþingismanni mínum úr Vestmannaeyjum. Við höfum glöggan skilning á því, hvaða vandræðum það veldur að koma aflanum í lóg stundum og hversu mikils virði það er, að almenningur fórni hvíldartíma sínum til þess að hjálpa til við þessa framleiðslu, — að þessi stuðningur fólksins við framleiðsluna er mjög góðra gjalda verður — og finnst mér því, að ekki sé farið fram á annað í þessari till. en það, sem hver sanngjarn maður getur tekið sér í munn. Í Vestmannaeyjum væru t. d. núna þessa dagana — og hefur komið fyrir áður — hreinustu vandræði fyrir hendi með að koma aflanum undan, ef ekki vildi svo til, að skólastjóri gagnfræðaskólans hefur glöggan skilning á þessu og er praktískur maður í eðli sínu og hefur því gefið gagnfræðaskólanemendum frí um ákveðinn tíma til þess að vinna að framleiðslustörfum. Þetta sýnir, hversu mjög starfsmanna er þörf við framleiðsluna á vissum tímabilum á þessum stað. Og svo kann að vera á fleiri stöðum í landinu, að það ásæki framleiðsluna skortur verkafólks og það verkafólk, hvort það er heldur ungt eða gamalt, sem fórnar hvíldartíma sínum og setur heilsu sína í hættu við að vinna að framleiðslustörfunum, á allt annað skilið, en því sé gleymt, þegar talað er um að stuðla að framgangi sjávarútvegsins með því að losa eitthvað um skattaskrúfuna. Ég verð því persónulega að láta í ljós mikla samúð með þeirri brtt.