09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var eitt sinn á dagskrá um daginn, kvaddi ég mér hljóðs og benti á, hvað það hefði mikla þýðingu og hversu nauðsynlegt væri að afgreiða þetta mál mjög fljótlega eða a. m. k. þannig, að það lægi fyrir, hvað Alþ. ætlaði að gera í þessu máli. En ég verð að segja það, að mér finnst það nokkuð hart aðgöngu, að d. skuli nú krefjast þess í fjarveru hæstv. fjmrh. að láta ganga atkv. um þetta mál. Maður veit, að það hefur verið skæð inflúenza hér í bænum undanfarið og mönnum hefur slegið niður aftur og aftur. Og þó að ég viðurkenni fyllilega, að þetta mál þurfi að afgreiða sem fyrst, þá get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að mér finnst þetta nokkuð harkaleg vinnubrögð gagnvart hæstv. fjmrh., einkum þar sem hér er um mjög efnismikið og íhugunarvert atriði að ræða, sem ég hygg að engan veginn hafi farið fram næg athugun á. Ég mun því alls ekki geta treyst mér til þess að vera samþykkur því, að málið verði afgreitt á þessum fundi.