09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál kom hér frá Nd. breytt, var því vísað til fjhn. d. og hún hefur haft það til meðferðar á fundi eða fundum og kallað til sín sérfræðinga um þessi mál, þ. á m. skattstjórann hér í Reykjavík. N. hefur alveg lokið sinni athugun á frv. og brtt. og fengið, að ég held, þær upplýsingar, sem um getur verið að ræða að fengnar verði í þessu máli. Ég sé þess vegna ekki annað, en málið og till. hafi í alla staði fengið þinglega meðferð og það sé ekki af þessum ástæðum nein ástæða til þess að fresta umr. Þegar öllu er á botninn hvolft, hlýtur það að vera hv. d., sem ræður málinu til úrslita, en ekki hæstv. fjmrh.

Varðandi veikindaforföll verð ég að segja það, að vitað er, að hæstv. ráðh. var hér mættur á þingi í gær, en málið var engu að síður tekið út af dagskrá. Það kann svo að fara, þar sem hér er um brtt. að ræða, að málið fari fyrst til hv. Nd. og síðan í Sþ., og ég tel, að ef þessari umr. lýkur ekki fyrr, en á mánudag, þá sé fullkomin óvissa um úrslit málsins. Ég tel þess vegna, að öll efni standi til þess, að málið verði afgreitt nú á þessum fundi.