10.11.1958
Neðri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

40. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Thors:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði, að það mundi vera rangt hjá mér, að ætlazt væri til þess, að undirnefndin í utanrmn. yrði kosin á fyrsta fundi nefndarinnar. Ég skal ekki um þetta deila. Ég staðhæfði það ekki skilyrðislaust, en taldi það þó vera rétta skýringu hjá mér. Hæstv. ráðh. sagðist skilja það þannig, að það væri nóg að kjósa hana svo tímanlega, að hún væri reiðubúin, þegar utanrrh. óskaði eftir því. Ég styð mitt álit við það, að það á að bera undir þessa nefnd öll meiri háttar mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma og eins og ég sagði áðan: Hvernig á að bera mál undir nefnd, sem ekki er til. — Atvik geta legið til, að snögglega þurfi að kjósa þessa nefnd, ef hún er ekki kosin á fyrsta fundi, þegar nefndin kýs sér formann. Hver segir þá, að viðstaddir séu þeir menn, sem bærir eru til þess að kjósa nefnd? Það getur vel verið, að þótt þessir þrír menn, sem kosnir hefðu verið á fyrsta fundi, séu allir staddir í bænum, þegar ráðh. þarf að tala við þá, þá séu hinir fjórir, sem þá mundu hafa kosið, ekki í bænum. Hvernig á þá að kjósa undirnefndina? Og það er einmitt í utanríkismálum, sem oft þarf að taka snöggar ákvarðanir. Ég hygg þess vegna, að mínar ályktanir séu réttar í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. sagði, að Alþfl. hefði eitthvað sérstaklega viljað koma í veg fyrir vald kommúnista 1951. Það var ekkert frekar Alþfl. en aðrir þessir svokölluðu lýðræðisflokkar. Þeir voru þá að punta sig með þessu og nú eru þeir að taka þessar orður af sér.

Ég veit ekki, hve margir hafa trúað því, sem hæstv. ráðh. sagði, að eins og utanrmn. er skipuð, þá yrði enginn kommúnisti í henni, það yrðu tveir framsóknarmenn og einn sjálfstæðismaður. Ja, trúi því hver, sem trúa vill. Trúi því hver, sem trúa vill, að Framsfl., þó að hann hafi þrjá menn í nefndinni, hefði fengið því ráðið, að hann fengi tvo menn kosna, en hvorugur stjórnarflokkanna hinna fengi neinn mann kosinn. Svona rök geta menn fært fram, þar sem ekki eru viðstaddir þeir, sem til þekkja.

Ég skal svo ekki deila við hæstv. ráðh. Mig langar bara að vekja athygli á því, að hann hefur ekki fært fram nein rök fyrir því, hvers vegna nú rekur nauður til að afnema þetta fyrirkomulag. Ég sagði áðan, að hann getur auðvitað kallað saman alla utanrmn., þótt þessi undirnefnd væri til og ég hygg, að mér trúi líka allir um það, sem ég áður sagði, að ástæðan fyrir því, að verið er að afnema þessa undirnefnd núna, er sú, að kommúnistar létu ekki bjóða sér það að vera utan við hana, en út á við má ekki sýna þá af ýmsum ástæðum. Skal ég svo ekki fara um það fleiri orðum.

Hæstv. sjútvmrh. kom hér til þess að loka mig inni í gildrunni eða það held ég að hann hafi ætlað að gera. En ég vil alveg segja honum hiklaust, eins og minn er vandi, að það, sem ég fyrst og fremst ámæli honum fyrir og er það þó ekki það eina, það er, að hann skyldi ekki nota þann rétt, sem Íslendingar höfðu til að færa fyrst og fremst út grunnlínurnar, svo 12 mílur á eftir. Það vita allir, að útfærsla grunnlínunnar fagnaði miklu meira fylgi á Genfarráðstefnunni, heldur en 12 mílurnar og það vita þar af leiðandi allir, að það sætti miklu minni gagnrýni, að grunnlínurnar væru færðar út, heldur en 12 mílna útfærslan, sem líka er nauðsynleg. Og hann á eftir að svara því fyrir dómstóli þjóðarinnar, þó að það ekki verði gert hér í dag, hvers vegna hann lagði aðaláherzluna á 12 mílurnar, en vildi aldrei neitt ræða um grunnlínurnar. Hann á eftir að svara því. Það er ekki af því, að það sé ekki fleira, sem ég vil finna að honum í því máli og skal gera. Ég vil bara ekki á þessu stigi málsins gera það, vegna þess að ég skaða ekki málstað Íslands út á við, þó að ég staðhæfi þetta um grunnlínurnar, en það gæti skaðað málstað Íslands út á við, ef ég færi nú að gagnrýna ýmislegt annað, sem hann hefur gert.