09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Vegna veikindafjarveru hv. formanns fjhn. boðaði ég fyrir hann tvisvar sinnum til fundar í fjhn. um þetta mál og fjhn. ræddi það svo ýtarlega sem hún gat. Og það er alveg rétt, sem hv. 8. landsk, þm. sagði, að hún sleit svo umr., að hún taldi sínu starfi lokið. Hins vegar var engin till. afgr. í n. og engar samþykktir gerðar um afstöðu hennar til þeirra brtt., sem fyrir liggja. Hún boðaði til fundar við sig skattstjórann og fékk hjá honum greinargóðar skýringar, sérstaklega að því er snertir fyrri tillöguna, brtt., sem fyrir liggur við 1. gr., og þau mál, sem á bak við hana standa. En 1. gr. er komin inn í frv. aðallega vegna þess, að ágreiningur hafði orðið um skatt fyrirtækja og þó sérstaklega eins fyrirtækis, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og í sambandi við það vitanlega líka útsvar. Það var upplýst, að búið væri að fella þann skatt niður af yfirskattanefnd Reykjavíkur og þess vegna í raun og veru tilefni greinarinnar úr sögunni, nema svo færi, að málinu yrði áfrýjað til hærri úrskurðar, seinni úrskurðaraðila og skattstjórinn taldi, að svo mundi vera, að skattamáli þessu hefði veríð áfrýjað til ríkisskattanefndar. Seinna lét hann mig vita, og það lét ég meðnm. mína vita, — að fjmrn. hefði þá einmitt þann dag, sem við héldum fundinn, afturkallað áfrýjunina og þess vegna leit ég fyrir mitt leyti svo á, en ég mæli ekki fyrir hönd n., að ástæðan fyrir því, að 1. gr. er komin inn í frv., sé niður fallin og alveg réttmæt till. mín um að fella hana niður.

Að því er snertir aðrar brtt., sem fyrir liggja, var ekki eins skýrt um málsástæður. Skattstjórinn taldi nokkra örðugleika á að framkvæma það, sem í till. felst. En svo er nú með skattyfirvöld, að þeim þykja skattamál gerast fyrirhafnarsöm og flókin og eru yfirleitt á móti breyt., sem mundu auka fyrirhöfn, þykir hún ærið nóg fyrir. Því var það, að fjhn. tók enga afstöðu í málinu og allir nm. óbundnir og hún hefur engar till. að gera hér inn í þessa hv. d., en hefur hins vegar framkvæmt þá athugun, sem d. ætlaðist til af henni. — Ég hef ekki frekar um þetta að segja.