11.05.1959
Efri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Við þær umr., sem fram fóru um þetta mál hér á laugardaginn var, gat hv. þm. S-Þ. (KK) þess, að okkur hefði borizt í fjhn, afrit af áður sendri umsögn skattstjórans um sams konar till. og þá brtt., er liggur hér fyrir frá hv. 8. landsk. þm. Hann minntist þess einnig, að skattstjórinn hefði, eins og hann minnir að hann hafi komizt að orði, eins og flestir opinberir embættismenn haft á móti breytingum á lögunum. Ég hefði talið rétt málsins og málsmeðferðarinnar vegna, að þetta álit skattstjórans kæmi fram og ég vil undirstrika það skýrt, að ég geri það ekki að minni skoðun á einn eða neinn hátt, þar talar skattstofan sínu máli, — en ég tel, að það sé ekki mögulegt að skilja svo við umr. um málið, að það álit komi ekki fram. Og með leyfi hæstv. forseta vildi ég mega lesa þetta álit skattstofunnar, en það hljóðar svo:

„Skattstofan hefur fengið til umsagnar frv. til l. um breyt. á l. nr. 46 1954, um tekju-og eignarskatt, sem flutt er í Nd. Skv. frv. þessu skal yfir- og næturvinnuálag á tímakaup við störf í þágu útflutningsframleiðslunnar vera undanþegið tekjuskatti. Ekki verður hér rætt um, hvort slík undanþága sé æskileg eða nauðsynleg frá þjóðhagslegu sjónarmiði, aðeins skal bent á, að allar slíkar undanþágur á vissum tegundum tekna einstakra starfshópa eru mjög varhugaverðar að því leyti, að þær gera allt skattaeftirlit torveldara og opna oftast nýjar leiðir til beinna og óbeinna skattsvika.

Höfuðgalli frv. er annars sá, að undanþágunni er ætlað að ná til viss hluta launa þeirra, er að útflutningsframleiðslu vinna, án þess að skilgreint sé, hvaða starfsgreinar skuli teljast til þeirrar greinar framleiðslunnar. Samkvæmt yfirliti Hagstofu Íslands yfir útflutning íslenzkra afurða á árinu 1957 eru fluttar út 41 tilgreind vörutegund og auk þess ýmsar vörur 1.108.6 tonn. Af þessari 41 tegund er 31 tegund sjávarafurða, 7 tegundir landbúnaðarafurða, auk þess gamlir málmar, skip, köfnunarefnisáburður og ýmsar vörur. Hlutdeild innanlandsneyzlu í sjávarafurðum er í mörgum tilfellum svo lítil, að segja má, að það framleiðslumagn, sem verulegu máli skiptir, falli beint undir útflutningsframleiðslu. Þó gildir þetta ekki um allar tegundir sjávarafurða, svo sem um freðsíld, sem notuð er að verulegum hluta til beitu og þá er aðeins óbeinn liður í útflutningsframleiðslunni. Og sama er að segja um alls konar fóðurmjöl úr fiski. Þessar vörutegundir nema verulegu magni og auk þess eru aðrar vörutegundir, sem nema ekki miklu magni, en þó nokkru í vinnulaunum, en eru að mestu seldar innanlands, sbr. niðursoðinn fisk. Virðist ógerningur að draga hér nokkra markalínu í framkvæmd, og yrði að telja öll vinnulaun við framleiðslu sjávarafurða til starfa í þágu útflutningsframleiðslunnar.

Hvað landbúnaðarafurðum við kemur er magn þeirra að yfirgnæfandi meiri hluta selt innanlands og hvernig á þá að draga markalínu milli framleiðslu og aðvinnslu þess hluta og hins, sem selt er úr landi? Að vísu eru aðeins fá sláturhús í landinu, sem vinna að því kjöti, sem út er flutt og mætti hugsa sér, að þeir, sem framleiða kjöt fyrir þau og þeir, sem að vinnslu þess vinna, falli einir hér undir. Sú regla yrði ef til vill nothæf í framkvæmd við skattálagningu, en virðist að öðru leyti hrein fjarstæða. Allar aðrar landbúnaðarvörur, sem seldar eru úr landi, eru í framleiðslu og vinnslu svo blandaðar þeim hluta, sem neytt er innanlands, að ógerningur virðist að greina þar á milli.

Um aðra vöruflokka útflutningsframleiðslunnar er erfitt að gera sér grein fyrir að þessu leyti. En þar sem menn ganga eðlilega eins langt og mögulegt er í því að krefjast þeirra ívilnana, er skattalög heimila, er það að takmarka tilvikin alltaf erfiðast viðfangs í framkvæmd, ef ætlunin er að standa gegn því, að ívilnunin gangi óhæfilega langt.

Þótt skilgreina mætti hugtakið útflutningsframleiðsla svo, að haldi mætti koma hér, yrðu þó ýmsir erfiðleikar í framkvæmd þessara laga. Má í því sambandi benda á, að ef koma ætti í veg fyrir stórfellda misnotkun á þessari skattaívilnun, yrði skriffinnska í launauppgjöf atvinnurekenda og samanburðar- og eftirlitsstarf skattyfirvalda mjög erfitt, og virðist á hvorugt bætandi, enda er reynslan sú, að launauppgjöf atvinnurekenda er nú orðið svo flókin og margþætt, m. a. eftir setningu laga um atvinnuleysistryggingar og skyldusparnað, að erfitt er að fá frá þeim fullnægjandi skýrslur um sundurliðanir á þeim hlutum, sem þeim er þegar gert að gefa upplýsingar um nú. Virðist framkvæmd laga um orlof vera svo í molum, að ekki verður haft neitt gagn af þeim í sambandi við þetta mál.“

Þetta er sem sagt álitsgerð skattstofunnar, er skattstjóri lét n. í té skv. óskum nm.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði í upphafi þessara orða minna: ég kem þessu áliti skattstofunnar hér á framfæri, án þess að ég vilji gera það að mínu áliti í þessum umr., heldur taldi ég nauðsynlegt og skylt, að það kæmi fram, úr því að það var nefndinni sent.

Svo sem kunnugt er, fékk Alþfl. fyrir eigi alllöngu samþykkta þál. hér á þingi um rannsókn á möguleikum til þess að afnema tekjuskatt með öllu og afla tekna í ríkissjóð á annan hátt. Það mál er nú í mþn. og erfitt að segja á þessu stigi málsins um niðurstöður þess. Það er a. m. k. vilji okkar Alþfl.manna, að nákvæm rannsókn fari fram á því, hvort leggja megi þennan skatt niður og höfum við fært fyrir því rök, sem ég hirði ekki um að tína hér upp.

Áður en breyt. var gerð á þeirri brtt., er hv. 8. landsk. flutti hér, þá verð ég að játa það, að við fyrsta yfirlestur var ég mjög hlynntur þeirri brtt., en komst að því við nánari íhugun, að ef hún yrði samþ. í því formi, sem hún var, áður en þeirri brtt., sem nú hefur verið leitað afbrigða fyrir, var við hana bætt þá gæti hún að nokkru leyti orðið blekking. Ég vil þó taka undir með honum í þeim rökum, að vissulega er nauðsyn á því, að fólk fáist til að vinna þessi nauðsynlegu störf. Ef slík eftirgjöf mætti verða til þess að auka og bæta vinnuaflið við þessi undirstöðustörf, þá er þar vissulega mikilvægum áfanga náð. En ég kveið því, áður en þessi brtt. var flutt, að það yrði sýndur biti, en ekki gefinn til þessa fólks.Ég tel, að sú breyting, sem nú hefur verið við hana flutt, sé mjög í þá átt, að rannsókn geti farið fram á því til næstu áramóta, hvernig framkvæma eigi þessa eftirgjöf á raunhæfan hátt og tel hana enn eina sönnun þess, að nauðsyn var á þeirri rannsókn, sem Alþfl. beitti sér fyrir og nú stendur yfir í fyrrnefndri mþn. um afnám þessa skatts alveg. En ég get þó ekki orða bundizt um það, að þeir hv. flm., hv. 8. landsk. og þm. Barð., hafa verið viðstaddir hér a. m. k. eina, ef ekki tvær breyt. á skattalögunum í tíð okkar fyrrv. ágætu vinstri stjórnar, en þá gleymdu þeir þessari breyt., sem svo mjög er eins og ég áðan sagði, nauðsynleg og góð. Ég tel það traustsyfirlýsingu á hæstv. núv. ríkisstj., að henni er nú treyst til þess að undirbúa þetta ágæta mál og setja um það nánari reglugerðir, og vona, að það traust sé nægilega sannað með flutningi þessarar till.