12.05.1959
Neðri deild: 125. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Mig langaði til að bera hér fram við hæstv. fjmrh. — þetta mál mundi heyra undir hann — fsp. í sambandi við brtt., sem samþ. var í Ed. við þetta frv. Hann virðist ekki vera hér. (Gripið fram á: Hann mun vera á leiðinni.) Jæja, gott er það.

Efni þessarar brtt. er það, að aukatekjur þær, er skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- eða helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar, séu undanþegnar tekjuskatti. Þetta virðist vera miðað við ákveðnar stéttir að vísu. Svo er nánari útfærsla á því í gr., hvaða gögn beri að leggja fram fyrir þeim tekjum, sem falla eiga undan tekjuskatti, en síðar í gr. segir svo og þá er ég kominn að því efni, sem ég ætlaði að gera hér um fsp. til hæstv. fjmrh., að ráðherra ákveður í reglugerð, hver störf falli undir þetta ákvæði og skal þá við það miðað, að það verði einungis bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa.

Ég vil bera fram þessa fsp. með tilliti til þess, hvort sú stéttin í þessu landi, sem vinnur við sína framleiðslu langsamlega mest í eftir-, nætur- og helgidagavinnu, sem eru bændur þessa lands, hvort þetta ákvæði gr. taki ekki einnig til þeirra um þann hluta teknanna, sem eðlilegt væri að telja að þeir afli sér með eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. — Ég held, að það hljóti að vera, að þeir komi þarna einnig til greina, því að réttur þeirra er auðsær samanborið við þann rétt, sem veittur er í upphafi gr. — Því miður er nú hæstv. fjmrh. ekki kominn enn. Það liggur engin brtt. hér fyrir við frv. En nauðsynlegt er að hraða afgreiðslu þess, því að það hefur í rauninni orðið allt of mikill dráttur á samþykkt þessa frv., því að skattanefndir um allt land bíða eftir því að geta gengið frá skattframtölunum, að þær samþykktir öðlist lagagildi hér um frádrátt fyrir fiskimenn, sem raunar var strax í byrjun þessa árs samið um að þeim skyldi falla í skaut.

Ég mun greiða atkvæði með þessu frv., en ég geri það hvað þessa áminnztu gr. snertir, sem ég ræddi hér um, í fullri vissu um, að réttur bændanna sé skýlaus í þessu efni að, að í reglugerðinni, sem gefin verði út, verði þannig frá gengið, að bændur hafi rétt til þess að draga frá þær tekjur, sem þeim ber fyrir eftir-, nætur- og helgidagavinnu, eins og aðrar stéttir.