12.05.1959
Neðri deild: 125. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er það ákvæði, sem ég sé að hv. Ed. hefur sett inn í þetta frv. um það, að atvinnutekjur, eins og það er orðað, sem skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- og helgidagavinnu o. s. frv., sem ég ætlaði með nokkrum orðum að gera hér að umtalsefni.

Eins og ég tók fram, þegar ég sagði nokkur orð um þetta mál við 2. umr. málsins, þá viðurkenni ég fullkomlega, að það vandamál, sem þessari breyt. á skattal. er ætlað að ráða bót á, er fyrir hendi og þarf úrlausnar. Það er ekki vafi á því, að það er rétt. Vegna þess, hve stighækkun tekjuskattsins er orðin tilfinnanleg, er mjög sennilegt, að það geri menn ófúsari til þess að vinna slíka eftirvinnu og eins og ég benti þá á, er þetta m. a. afleiðing af verðbólgunni, en vegna hennar bitnar hækkun tekjuskattsins nú á tekjum eins og t. d, eftirvinnutekjum verkamanna, sem alls ekki hefur verið ætlazt til í upphafi að þessi stighækkun bitnaði á.

En ég varpaði þá fram þeirri spurningu, hvaða skattatæknilegir möguleikar væru á því að framkvæma þetta og enn þá hefur ekki komið fram neitt svar við þessari spurningu. Þess vegna vil ég ítreka hana hér og fara um það nokkrum orðum.

Hér er gert ráð fyrir því, eins og það er orðað, að það séu störf í þágu útflutningsframleiðslunnar, sem þessara skattfríðinda eigi að njóta. Það mun nú út af fyrir sig skapa ýmis vandamál að ákveða, hvaða störf séu í þágu útflutningsframleiðslunnar og hvaða störf ekki, því að nú er það þannig með margs konar starfsemi í þjóðfélaginu, að sumt af framleiðslunni er notað á innlendum markaði, en sumt er flutt út. Ég vil nefna hér sem dæmi yfirvinnu, sem unnin er í sláturhúsum landsins. Á sú yfirvinna að falla undir þetta eða ekki? Nú er hluti af þeirri framleiðslu fluttur út, þótt það sé meira, sem notað er á innlendum markaði.

Ég vil einnig taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Borgf. (PO), varpaði hér fram, en það er spurningin um bændurna. Það er ekki fyllilega ljóst, hvort ætlazt er hér til þess, að eftirvinna bænda eigi að njóta þessara skattfríðinda. Hvað sem því líður, virðist það þó alveg ljóst, að bændur eigi á því sanngirniskröfu að njóta þeirra skattfríðinda, sem hér er um að ræða, því að ekki er vafi á því, að þeir vinna eftirvinnu og meira eða minna af landbúnaðarframleiðslunni er flutt út. En þá kemur einmitt vandamálið um það, hvernig á að meta þeirra eftirvinnu í þessu sambandi, — vandamál, sem ég hef enn þá ekki komið auga á, hvernig á að leysa frá skattatæknilegu sjónarmiði.

Nú er það út af fyrir sig mjög umdeilanlegt, hvort sérstök ástæða sé til þess að undanþiggja þá eftirvinnu, sem unnin er í þágu útflutningsframleiðslunnar, sköttum, því þó að slík vinna sé vissulega nauðsynleg, þá eru auðvitað þau störf, sem unnin eru fyrir innlendan markað, einnig nytsamleg og í mörgum tilfellum alls ekki síður, svo að það að setja ákvæði um þetta skapar þannig ranglæti í skattaálagningunni.

En svo er líka annað í sambandi við þetta, sem mundi gera málið erfitt í framkvæmd, og það er þetta, að það er alls ekki svo auðvelt að skilgreina það, hvað sé eftirvinna. Ég skal nefna nokkur dæmi um þetta.

Nú er það þannig, að mismunandi stéttir í þjóðfélaginu vinna störf sín á mismunandi tímum sólarhringsins, svo að þá kemur þessi spurning upp í sambandi við þetta:

Falla undir eftirvinnu störf, sem unnin eru t. d. á tímabilinu frá því kl. 5 á daginn til kl. 7 á morgnana eða á að draga markalínurnar einhvern veginn öðruvísi? Það er ekki svo einfalt, að í þessu efni sé hægt að miða við það, sem venjulega er talið til eftirvinnu verkamanna samkv. samningum, sem gerðir eru.

Í öðru lagi má í þessu sambandi vekja athygli á því, að með sumar stéttir þjóðfélagsins er það þannig, að þær vinna á vöktum, sem kallað er. Það má nefna t. d. ýmsa opinbera starfsmenn og ýmis fleiri störf, t. d. áburðarverksmiðju ríkisins og ýmsar slíkar stofnanir, sem starfrækja þarf jafnvel allan sólarhringinn, svo að fólk verður að vinna þar á vöktum. Á að telja hluta af því kaupi, sem unnið er í vaktavinnu, yfirvinnu, og hvaða markalinur á, í því efni að draga? Enn fremur er það þannig með ýmsa aðila í þjóðfélaginu, að þeir hafa það að meira eða minna leyti í hendi sinni, á hvaða tímum sólarhringsins þeir vinna sín störf, og verða þannig miklir möguleikar á misnotkun.

Ég tel satt að segja, að þó að ég sé í sjálfu sér, eins og ég hef sagt, hlynntur þeirri grundvallarhugmynd, sem liggur að baki þessari tillögu, þá finnst mér það varla samboðið sóma hins háa Alþ. að samþykkja till. í þessari mynd, nema einhver grein sé gerð fyrir því af einhverjum ábyrgum aðila, hvernig hugsanlegt mundi að framkvæma þetta fyrir skattayfirvöldin. Það segir að vísu svo í till. og því mun hafa verið bætt við síðan hún var til meðferðar hér í hv, d.: „Ráðherra ákveður í reglugerð, hver störf falli undir þetta ákvæði, og skal þá við það miðað, að það verði einungis bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa.“ Það má nú fyrir það fyrsta sjálfsagt um það deila, hvaða störf séu bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa, eins og það er orðað, en að öðru leyti kemur það auðvitað að ákaflega litlu gagni að samþ., að þetta sé ákveðið í reglugerð, nema menn hafi gert sér einhverja grein fyrir því, hvernig sú reglugerð eigi að vera eða hvernig eigi að leysa þau skattatæknilegu vandamál, sem hér er um að ræða. Ég fæ í rauninni ekki annað séð, en skattalöggjöfin yrði gerð að hreinum óskapnaði, ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það er nú, en mér þætti vænt um það, ef einhver þeirra, sem hyggjast standa að þessari till., gæti gert einhverja grein fyrir, hvernig það vandamál ætti að leysa, sem ég hef drepið á.

Hvað snertir önnur ákvæði frv., þá tel ég það auðvitað sjálfsagt, að þau verði samþ. En það er mjög óheppilegt, þegar hnýtt er aftan í mál, sem allir eru sammála um, ákvæði eins og þessu, sem mikill ágreiningur hlýtur að verða um.