12.05.1959
Neðri deild: 126. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. kom saman til fundar núna fyrir skammri stundu til þess að líta á þetta frv., eins og það nú er orðið, svo sem henni var falið á síðasta fundi.

Það er þannig um þetta mál, að afgreiðsla þess hefur dregizt of lengi og hefur það valdið töfum á störfum skattanefnda — bagalegum töfum. Og nú er komið að þinglokum og því erfitt um vik, þó að menn vildu gera enn á þessu breytingar. Niðurstaðan varð því sú í fjhn., að hún leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Þó er þetta með fyrirvara, því að þannig er a. m. k. um fleiri af nm., að þeir telja, að það muni verða óhjákvæmilegt að taka til endurskoðunar og leiðréttingar, það nýja ákvæði, sem hv. Ed. setti inn í þetta frv. nú í síðara skiptið, þegar það var hjá henni. En það ætti að mega takast að gera það á næsta þingi og væri þá hægt að gera þær breytingar á þessu, sem menn teldu óhjákvæmilegar, en í frv. segir, að þetta ákvæði skuli koma til framkvæmda frá og með 1. jan. 1960. Þetta ber sjálfsagt að skilja þannig, að undanþágan, sem þarna er veitt, eigi að gilda um störf, sem unnin verða eftir lok þess árs, sem nú er að líða. Hér er því nokkur tími til stefnu, þangað til þetta á að koma til framkvæmda og mögulegt að gera á þessu lagfæringar.

Í frvgr. segir, að því er þetta nýja ákvæði varðar, að ráðh. skuli ákveða í reglugerð, hver störf falli undir þetta ákvæði og skal þá við það miðað, að það verði einungis bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa. Ég verð að segja það, að ég tel hæstv. fjmrh. ekki öfundsverðan af því verki, sem honum er hér ætlað að vinna, að setja þessa reglugerð, því að það er vissa fyrir því, að þar koma mörg vafaatriði til athugunar. Það má vafalaust lengi um það deila, hvað séu bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa, eins og þarna segir. Og útflutningsvörurnar eru, sem betur fer, allmargar vörutegundir. Það er að vísu svo, að sjávarafurðirnar eru þar fyrirferðarmestar, en þar er um margar vörutegundir að ræða. En svo eru líka fluttar út vörur frá fleiri atvinnugreinum, en sjávarútveginum. Það er t. d. töluverður hluti af landbúnaðarvöruframleiðslunni seldur á erlendan markað. Þannig er um landbúnaðinn, eins og öllum er kunnugt, að við þau störf er stöðugt eftirvinna, helgidagavinna og oft næturvinna. Hjá þessu er ekki hægt að komast við þann atvinnuveg. Það verður áreiðanlega erfitt að greina þar í sundur, einmitt í þeirri atvinnugrein, vinnu við útflutningsvörurnar, sem landbúnaðurinn framleiðir og þann hluta framleiðslunnar, sem landsmenn nota sjálfir, enda fæ ég ekki séð, að það sé nokkur sanngirni í því að gera þarna upp á milli. Það er engu þýðingarminna að framleiða lífsnauðsynlegar neyzluvörur handa landsmönnum sjálfum heldur, en að framleiða vörur til útflutnings, og það ætti því að gilda alveg það sama um óhjákvæmilega eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu við þá framleiðslu eins og við útflutningsvörurnar. Ég nefni hér landbúnaðarvöruframleiðsluna til dæmis. En hér kemur auðvitað fleira til greina, en vörur frá sjávarútvegi og landbúnaði. Hér koma til greina ýmsar iðnaðarvörur líka, sem gildir svipað um.

Þegar þetta mál var hér til 2. umr. fyrir mánuði um það bil eða 11. apríl, þá benti ég á, að það væri mjög óheppilegt og varhugavert að tefja fyrir þessu máli með því að flytja brtt. við frv. um ágreiningsefni, en frv. var upphaflega aðallega um framlengingar á ákvæðum, sem áður höfðu gilt, með nokkrum breytingum, þ. e. a. s. um sérstakan frádrátt handa fiskimönnum og um lækkun skatts á lágtekjum. En því miður var ekki vinnubrögðunum hagað þannig, heldur var reynt að koma inn og með nokkrum árangri nýjum ákvæðum í frv., sem ágreiningur var um og hefur þetta mjög tafið málið. Skattamálin eru mjög vandasöm viðfangs og oft viðkvæm mál og þannig hefur það venjulega verið með breytingar á skattalögunum, að það hefur verið reynt að vanda undirbúning þeirra með störfum í mþn. og á annan hátt og þannig tel ég að þurfi að þessu að vinna.

Við teljum því — a. m. k. held ég mér sé óhætt að fullyrða — meiri hluti fjhn.-manna, að það verði óhjákvæmilegt fyrir hæstv. fjmrh. eða ríkisstj. að taka þetta nýja ákvæði til endurskoðunar fyrir næsta þing og fá á þessu einhverjar leiðréttingar, þannig að ákvæðin verði þó framkvæmanleg og það komi skýrt fram, hvernig á að framkvæma þau, ef menn á annað borð vilja fallast á að setja einhver slík ákvæði að efni til inn í lög.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. En eins og ég sagði áður, þá telur n.. úr því sem nú er komið og vegna þess, hvernig ástatt er með þinghaldið, að rétt sé að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir, en með þessum fyrirvara frá okkur ýmsum nm., sem ég hef nú gert grein fyrir.