26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrsta verk þessarar ríkisstj., eftir að hún tók við 23. des. s.l., var að undirbúa samningaviðræður við bátaútgerðarmenn og sjómenn um næstu vertíð og úthald bátanna til fiskveiða. Strax daginn eftir, eða 24. des., var nefnd skipuð til þess að annast þessar viðræður. Í þessa n. voru skipaðir sömu menn og um þetta hafa fjallað áður, þ. e. a. s. þessir: Gunnlaugur Briem ráðuneytisstjóri, Jónas Haralz ráðuneytisstjóri, Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, Benjamín Eiríksson bankastjóri, Pétur Pétursson alþm., Tómas Árnason deildarstjóri og Haraldur Jóhannsson framkvæmdastjóri eða formaður útflutningssjóðs.

Þessir menn tóku svo til starfa 26. des., eða á 2. dag jóla, og hafa haldið áfram starfi sínu sleitulaust, þangað til samningum þessum var að fullu lokið um miðjan yfirstandandi mánuð.

Viðræðurnar hófust á því að ræða við bátaútvegsmenn. Og það má segja, að samkomulag hafi náðst við þá um áramótin, eða það skeikaði ekki meiru, en einum eða tveim dögum a. m. k., að þessum viðræðum við þá væri þá lokið, að undanskildu því auðvitað, að ef skiptaverðið til sjómanna breyttist frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir, þá breyttist einnig samningurinn við útgerðarmennina samkv. því.

Samningurinn við sjómennina var svo undirskrifaður 3. jan. og átti því að heita, að þessu væri öllu lokið rétt um mánaðamótin eða um áramótin, þannig að róðrarnir gætu hafizt, eins og gert var ráð fyrir, í byrjun mánaðarins. Þessi samningur við bátasjómennina var þó því skilyrði bundinn, að sjómannafélögin samþykktu samninginn, en um það var nokkur ágreiningur, sem ég mun koma að síðar.

Við ákvörðun samningsins við bátaútvegsmenn var gengið út frá tveim meginreglum: í fyrsta lagi, að lagður væri til grundvallar við þessa útreikninga meðalafli síðustu 5 ára, eins og gert hefur verið að undanförnu og í öðru lagi því, að útgerðarmennirnir fengju upp borna þá nettóhækkun tilkostnaðar, sem þeir hefðu orðið fyrir á s. 1. ári eða frá því, að síðasti samningur var gerður.

Fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafði gert ráðstafanir til þess, að nokkrar athuganir færu fram um þetta efni. Og þeir, sem þá athugun framkvæmdu, höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að til þess að mæta þeim hækkunum, sem orðið hefð, og til þess að mæta þeim hækkunum, sem þá var gert ráð fyrir að mundu verða á skiptaverðinu, sem reiknað var með að mundu verða eitthvað svipaðar og almennar launahækkanir hefðu orðið í landinu, þyrfti í kringum 105 millj. kr., eins og hér kom fram í umr. um frv. um niðurfærslu verðlags og launa, sem var hér til umr. s. l. fimmtudag og föstudag. Þessi áætlun var miðuð við 185 vísitölustig í kaupi.

Þegar farið var að athuga þetta betur og farið var að semja við útvegsmennina, kom í ljós, að þeir gátu bent á nokkra kostnaðarliði, sem hefðu breytzt á þann veg, að það væri ekki unnt að komast hjá því að taka tillit til þeirra. En það, sem mestu máli skipti, var þó hitt, að þegar lokið var samningunum við sjómennina, þá kom það í ljós, að hækkunin á skiptaverðinu til þeirra hafði orðið talsvert hærri, en gert hafði verið ráð fyrir í þessum undirbúningsáætlunum fyrrv. hæstv. ríkisstj.

Skiptaverð og hlunnindi bátasjómanna hækkuðu samkv. hinum nýja kjarasamningi meira, en búizt hafði verið við. Hækkun skiptaverðsins reyndist vera 13%, úr 1.55 kr. í 1.75 kr. pr. kg af slægðum fiski með haus, en við það bættist hækkun dánarbóta og dagpeninga vegna veikinda, er jafngilti um 1% af skiptaverðinu. Samtals varð því hækkunin á skiptaverðinu um 14%, en það svarar til u. þ. b. 16.5% hækkunar meðalhluts á bátum í Faxaflóa. Hækkun verkamannakaups, sem allar aðrar fyrri áætlanir voru miðaðar við, hafði hins vegar ekki verið meiri en 10.7% og hækkun skiptaverðs, sem til þeirrar hækkunar svaraði, 9%, ef miðað er við hlutaskipti þau, sem í gildi eru við Faxaflóa, þannig að hækkun á skiptaverðinu til hásetanna varð þarna upp undir það 50% meiri en gert hafði verið ráð fyrir, þegar áætlun fyrrv. hæstv. ríkisstj. var samin. Það fór þess vegna ekki hjá því, að endanlegir samningar við útgerðarmennina hækkuðu, enda gerðu þeir það mjög verulega, eða úr þessum 105 millj., sem gert hafði verið ráð fyrir, upp í 147 millj. kr., allt miðað við vísitölu 185.

Þeir, sem að þessum samningum unnu, sem sumir hverjir höfðu verið með í því að búa út áætlunina fyrir fyrrv. hæstv. ríkisstj., fullyrða, að það sé fullt samræmi á milli þeirrar áætlunar, sem gerð var í desembermánuði — eða nóv. og des. — og þeirrar útkomu, sem raunverulega hefur orðið af þessum samningum við útgerðarmennina, miðað við þá hækkunarliði, sem komið höfðu í ljós og við þá hækkun á skiptaverðinu, sem ég hef nú greint frá.

Þegar bátaútvegsmennirnir komu til viðtals við þessa nefnd ríkisstjórnarinnar, þá lögðu þeir fram kröfu um það, að hækkunin í bótunum til hvers báts skyldi nema 181.531 kr., eða sem svaraði 38.4 aurum á kg. Þegar um þetta var farið að ræða milli n. og útvegsmannanna, kom í ljós, að um verulegan hluta af þessari upphæð, eða um 99.256 kr., var ekki ágreiningur, þ. e. a. s. nefndin, sem um þetta mál fjallaði af hálfu ríkisstj., féllst á 99.256 kr. af 181.531 kr., sem fram var sett sem krafa, án nokkurra aths., vegna þess að þessir liðir voru óvefengjanlegir. Í viðbót við þessar 99 þús. kröfðust svo útgerðarmenn greiðslu á iðgjaldatryggingum, á sama hátt og þeir höfðu fengið seinni hluta ársins 1958, en átti að falla niður frá áramótum, sem nam 32.258 kr. á bát, og hækkunar á veiðarfæralið 36 þús., til að mæta kostnaði við bráðafúatryggingu 10 þús. kr., og síðan voru viðbótarliðir fyrir tryggingu á munum skipverja og áhættutryggingu samtals að upphæð 3.390 kr. Af þessum kröfum öllum voru teknar til greina af samninganefnd ríkisstj. 10 þús. kr. vegna bráðafúatrygginganna og upp í hina liðina alla 13.390 kr., þannig að það, sem útvegsmenn fengu umsamið af kröfu sinni, sem í upphafi var 181.531 kr. á bát, varð 122.646 kr., eða um það bil 2/3 hlutar. Langsamlega mestur hlutinn af þessari upphæð var óumdeildur af öllum, sem að þessum samningum komu. En um viðbótarkröfurnar, sem frá útvegsmönnum komu umfram þetta, þótti orka tvímælis um sumar og niðurstaðan af þeim samningaumræðum, sem um það fóru fram, varð, eins og ég sagði, sú, að teknar voru til greina 10 þús. kr. til greiðslu vegna bráðafúatrygginganna og 13.390 kr. upp í allar aðrar kröfur, sem frá útvegsmönnum komu og þjarkað var um, eins og gengur, þangað til þessi niðurstaða fékkst.

En á það vil ég leggja áherzlu, að það, sem samkomulagi þurfti að ná um, eða það, sem ekki var óvefengjanlega óumdeilt af þessum aðilum, var tiltölulega mjög lítill hluti af þeirri heildarupphæð, sem hér er um að ræða, eða 13 þús. kr. rúmlega af 122 þús. kr., rétt í kringum 10%.

Ég tel, eftir því sem ég gat fylgzt með þessum samningum og mér var sagt frá gangi þeirra frá degi til dags, að þá sé ekki unnt að segja annað, en þessir samningar hafi verið tiltölulega hagkvæmir. Mér er einnig sagt, að um þá hafi ekki verið ágreiningur í nefndinni, allir nefndarmennirnir, sem voru af öllum flokkum, hafi verið um þetta sammála og sumir meira að segja leyft að hafa eftir sér, eins og hér kom fram í umr. á föstudaginn var, að þessir samningar væru þeir beztu fyrir ríkisstj. og útflutningssjóð, sem hægt hefði verið að hugsa sér að ná.

Sjómannasamningurinn, sem gerður var 3. jan. s.l., gerði, eins og ég var raunar búinn að minnast á, ráð fyrir, að skiptaverðið til háseta hækkaði um 13% og þar að auki fengju þeir hækkaðar tryggingar og hækkaðar dánarbætur og sjúkradagpeninga og ýmislegt fleira. En í þessum samningum við sjómenn eru tvö meginatriði, sem vert er að vekja athygli á: annað sú hækkun fiskverðsins, sem ég hef lýst, og sú breyting, sem gerð var frá fyrrverandi samningi, að fiskverðið skyldi breytast með vísitölu miðað við 185 til hækkunar og lækkunar, eftir því sem vísitalan breyttist.

Þegar samningurinn var undirritaður, gerðu sjómannasamtökin fyrirvara um þetta atriði og óskuðu, að ríkisstj. gæfi svofellda yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta: Ef samningar takast á milli L.Í.Ú. og sjómannasamtakanna um fiskverð og kauptryggingu á þessu ári, þá er ríkisstj. því samþykk, að ef vísitalan breytist frá 185 stigum, skuli fiskverð hækka eða lækka í hlutfalli við breytingu þá. Enn fremur samþykkir ríkisstj., að í fyrirhugaðri lagasetningu um efnahagsmál muni hún leggja til, að kjör sjómanna samkvæmt samningi þessum verði ekki skert.

Þetta hefur af hálfu sumra viðsemjendanna, fulltrúa sjómanna í nefndinni, verið túlkað þannig, að þetta ætti að þýða það, að ríkisstj. skuldbindi sig til þess, að hvaða efnahagsaðgerðir sem hún kynni að bera fram á Alþingi, þá yrðu þær þannig úr garði gerðar, að sjómenn misstu einskis í við þær breytingar. Aftur á móti var sá skilningur lagður í þessa yfirlýsingu af hálfu nokkurra aðilanna frá samninganefnd sjómanna, að þessi áskilnaður gilti aðeins um grunnkaupsbreytingu eða um kauptryggingu sjómannanna, en ef efnahagsaðgerðirnar yrðu framkvæmdar með vísitölubreytingu, þá yrðu sjómennirnir að sætta sig við sams konar skerðingu á sínum kjörum og aðrir landsmenn yrðu að gera.

Ég vil taka það fram sérstaklega að gefnu tilefni hér í umr. á föstudaginn um lögin um niðurfærslu verðlags og launa, þar sem sagt var, að ríkisstj. hefði breytt um skoðun á þessu atriði, hún hefði verið um það spurð undir gangi málsins, hvort hún vildi á þetta fallast með þeim skilyrðum, sem ég lýsti fyrst, að kjör sjómanna yrðu á engan hátt skert með þessum efnahagsaðgerðum, og hún hefði fallizt á það. Þetta er ekki rétt, því að ríkisstj. hefur alla tíð verið þeirrar skoðunar, að ef farið yrði inn á þá braut, sem nú hefur verið farið, að fella niður eða lækka vísitölu án bóta, eins og borið hefur verið fram frv. um, þá yrði það að ná til allra stétta þjóðfélagsins, sjómannanna eins og annarra. Þetta undirstrikaði ríkisstj. í bréfi sínu til Alþýðusambands Íslands, sem ég vil leyfa mér að lesa hér upp hluta úr, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:

„Við undirskrift samnings Landssambands íslenzkra útvegsmanna og sjómannasamtakanna innan Alþýðusambands Íslands um fiskverð o.fl., dags. 3. þ. m., gerði sjómannasamninganefnd sjómanna fyrirvara svo hljóðandi — svo kemur fyrirvarinn, eins og ég las hann upp hér áðan. Síðan segir: „Þar sem ágreiningur hefur komið upp um það milli fulltrúa sjómannasamtakanna innan A.S.Í., sem að samningnum stóðu, hvernig skilja beri framangreindan fyrirvara við samninginn um fiskverð til skipta, þá tekur ríkisstj. fram, að hún samþykkir fyrirvarann með þeim skilningi, að fyrri málsliðurinn í fyrirvaranum taki til hvers konar breytinga á kaupgreiðsluvísitölu, en síðari liðurinn eigi eingöngu við grunnkaup og kauptrygginguna.“

Með þessum skilningi var svo samningurinn lagður fyrir sjómannafélögin hvert af öðru, bæði hér við Faxaflóa og annars staðar og þó að á því yrði nokkur töf að fá hann alls staðar samþykktan, þá hefur nú þetta samkomulag verið samþykkt alls staðar, þar sem ég veit til, með þessum skilningi á fyrirvaranum.

Ég skal ekki fara út í að ræða frekar þau átök, sem um þetta hafa orðið, né heldur þau viðbrögð, sem sjómannafélögin hafa haft um afgreiðslu málsins. En kjarni málsins er sá, að þessir samningar hafa tekizt og bátarnir eru nú flestir eða allir, sem til veiða er ætlað að fara, komnir á sjó og stunda sína róðra og hafa sem betur fer í mánuðinum aflað með allra bezta móti.

En afleiðingin af þessari hækkun skiptaverðs og annarra hlunninda til bátasjómannanna hefur svo orðið sú, að útkoman úr dæminu, sem varð 105 millj. kr. fyrir áramótin, eða í nóvember og desember, þegar þessi athugun var gerð, hefur nú hækkað upp í þessar 147 millj. kr., sem ég nefndi áðan.

Með því að umreikna þennan samning til 175 vísitölustiga verðs hefur tekizt að lækka þessa upphæð, bótaupphæð til bátanna, úr 147 millj. kr. um 80 millj. kr. röskar, en það þýðir fyrir útflutningssjóð og ríkissjóð útgjaldalækkun, sem þessu nemur, er vísitöluniðurfærslan verður gerð úr 185 niður í 175.

Síðan var þessum samningum haldið áfram við hraðfrystihúsin, við framleiðendur skreiðar og saltfisks og við togaraeigendur. Hraðfrystihúsin voru, ef ég má svo segja, sérstakt vandamál í þessum samningum, vegna þess að þeirra aðstaða til sinnar starfsemi er mjög misjöfn eftir því, hvar þau eru starfandi á landinu, hvaða möguleika þau hafa til þess að ná sér í afla og hvaða möguleika þau hafa til þess að vinna úr aflanum á hagnýtan hátt. Það fer ekki á milli mála, að vegna hins aukna afla, sérstaklega vegna hins aukna karfaafla hjá togurunum síðari hluta ársins, hafa nokkur frystihús, bæði hér í grenndinni og annars staðar, fengið miklu meira hráefni til vinnslu heldur, en þau nokkurn tíma óraði fyrir og heldur en reiknað hefur verið með í þeirra rekstraráætlun. Á sama tíma hafa þau fengið tæki til vinnslunnar mjög verulega bætt með flökunarvélum, sem gera tilkostnað við vinnsluna minni, en annars hafði verið reiknað með. Þessi frystihús eru aftur á móti tiltölulega fá, en stór. En vandinn liggur í því að miða ekki heildarfyrirgreiðsluna við frystihúsin við þessi stóru frystihús, vegna þess að þá mundu þau minni óumflýjanlega mörg og kannske flest vera dæmd úr leik. Í öðru lagi má segja, að þessi metvinnsla, sem stóru frystihúsin hafa haft í ár, er langt fram yfir það, sem teljast verður normalt hjá stóru frystihúsunum og engin trygging er fyrir, að svo haldi áfram á næsta ári, þó að sem betur fer séu nokkrar líkur til, að þessum karfaveiðum vestur við Ameríkustrendur verði eitthvað haldið áfram.

Vandinn í þessu var sá að miða þá aðstoð, sem frystihúsunum er veitt, við það, að þessi aðstoð kæmi fyrst og fremst minni húsunum til góða. Þetta var gert af samninganefndinni á þann hátt að miða þær auknu bætur, sem frystihúsin fengju, við sérbætur á smáfisk og tegundir og tímabundnar bætur í stað þess að miða þær við almennan fisk, sem hefði gefið stóru húsunum hlutfallslega meiri hlutdeild í þessum bótum, en þau fá nú.

Niðurstaðan af þessum samningum við frystihúsin varð þess vegna sú, að þau fá í auknar sérbætur 8.7 millj. kr. eftir samningnum, miðað við venjulegt aflamagn, en á hinn bóginn gefa þau eftir vegna lækkaðs rekstrarkostnaðar um 18 millj. kr. í hækkuðu verði til báta og togara, sem nemur 7 aurum á hvert kg. þannig að heildarniðurstaðan af aðstoðinni til frystihúsanna, ef maður má kalla hana svo, verður sú, að í staðinn fyrir auknar bætur upp á 8.7 millj. kr. greiða frystihúsin í hækkuðu verði til fiskimanna og útgerðarmanna 7 aurum meira en áður, en það nemur í heild um 18 millj. kr., sem verkar til þess að draga úr þeim bótum, sem útflutningssjóðurinn þarf að greiða bátunum. Sama hækkunin kemur fram á skreið og saltfiski og var talið, að þessar tegundabætur þyrftu einnig að ná til þeirra, vegna þess að það hefur verið talinn á því nokkur vafi, hvort saltfisks- og skreiðarverkun gæti haldið áfram í svipuðu formi og hún hefur verið undanfarið í samkeppninni við hraðfrystihúsin, ef þetta yrði ekki gert. En það er talið höfuðnauðsyn, að verkun skreiðar og saltfisks leggist ekki niður, vegna þess að það er sú tegund fiskframleiðslunnar, sem gefur okkur gjaldeyri til frjálsrar ráðstöfunar, en hraðfrystihúsin gefa aftur hlutfallslega meira af jafnkeypisgjaldeyri. En bæði skreiðarvinnslan og saltfisksvinnslan hafa fallizt á að gefa fyrir hráefnið 7 aurum meira á kg eins og frystihúsin vegna lækkaðs tilkostnaðar.

Dæmið kemur þá út fyrir saltfiskinn þannig, að þeir fá í bótum 9.4 millj. kr., en láta frá sér aftur vegna hækkaðs fiskverðs til bátanna 5.5 millj. kr., þannig að nettó í þeirra hlut verður aðeins 3.9 millj. kr. Og hjá skreiðarverkendum verður þetta þannig, að upphæðin, sem þeir láta af hendi, og upphæðin, sem þeir fá, verður nánast alveg sú sama.

Með þessum breytingum á bótum til sjávarútvegsins breytast líka útflutningsbæturnar á útfluttar landbúnaðarvöru, og er talið, að sú hækkun muni nema um 6.5 millj. kr., miðað við vísitölu 175.

Til viðbótar þessu er svo aðeins eftir að geta um samningana við togarana. Þeir hafa fengið í sinn hlut hækkað fiskverð frá fiskvinnslustöðvunum, þessa margnefndu 7 aura á kg. en aðrar auknar bætur fá þeir ekki neinar, þannig að þessi 12.7 millj. kr. hækkun, sem gert er ráð fyrir að togararnir fái, er eingöngu frá fiskvinnslunni runnin og ekki á neinn hátt frá útflutningssjóði né á annan hátt frá því opinbera.

Ég hef heyrt því haldið fram, að togararnir hafi haft svo gott ár árið sem leið, að af þeim hefði mátt eitthvað taka eða lækka þeirra verð. En því er til að svara, að fjöldi þeirra hefur að vísu haft miklu betri afkomu árið sem leið, en þeir hafa haft áður, en afkoman áður var líka svo hörmuleg, að flestir togaraeigendur drógu á eftir sér skuldahala frá þeim árum, þegar útgerðin hafði verið rekin með halla, sem langt frá því hefur verið unninn upp enn með því eina góða ári, sem þeir hafa upp á síðkastið, árinu 1958.

Auk þessa hefur svo verið farið út í það, sem ekki varð hjá komizt, vegna þess að kaupgjaldsvísitalan var 202 í janúarmánuði, en ekki 175, að veita sérstaka uppbót vegna þessa, sem talin mun nema í heild 6.8 millj. kr. Enn fremur var gengið inn á það og tekið upp í samninginn, að bráðafúatryggingin frá 1958 yrði nú greidd. Að vísu skilst mér, að alltaf hafi verið gengið út frá, að þetta yrði greitt af því opinbera, en hér hefur það verið staðfest.

Einhver smáatriði kunna að vera fleiri, sem ég hef ekki minnzt á, en það er þá svo óverulegt, að ég tel það litlu eða engu máli skipta og upplýsist þá kannske frekar í umr. síðar.

Loks er rétt að geta þess, að í þessum tölum, sem hafa verið fundnar um heildarútgjöldin á árinu, eru tvær áætlunartölur, þ. e. fyrir sumarsíldveiði og haustsíldveiði, sem ekki hefur verið samið um og því er ómögulegt að segja endanlega fyrir um, hve háar munu verða, en hér hafa verið teknar upp í heildartöluna 20.5 millj. kr. í þessu skyni og er þá reiknað með, að hækkunin til síldveiðanna verði nokkurn veginn hlutfallsleg við þá hækkun, sem orðið hefur á þorskveiðunum.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara út í þessa samningagerð frekar,og um einstakar gr. frv. eða frv. í heild er litlu við að bæta.

Þar eru í 1. gr. ákvæði, sem tryggja, að þessar bætur á smáfiskinn og sérbæturnar á fisk verði greiddar. Í öðru lagi er tekið upp ákvæði um bæturnar fyrir janúarmánuð. Og í þriðja lagi er tekið þar upp ákvæði um, að útflutningssjóður megi greiða niður verð á beitu, sem er þannig til komið, að þegar hraðfrystihúsin, sem tóku að sér þessa niðurgreiðslu áður, höfðu hækkað verð sitt til skipanna um 7 aura á kg, þá treystu þau sér ekki til þess að halda áfram þessari niðurgreiðslu og varð þess vegna að færa hana frá þeim yfir á útflutningssjóð.

Í 2. gr. eru ákvæði, sem tryggja það, að framleiðsluvörur landbúnaðarins á verðlagsárinu 1958–59 verði látnar njóta sömu aðstöðu eftir þessa samninga og þær höfðu áður, þannig að þær njóti beztu kjara.

Í 3. gr. er svo tekin upp heimild til þess að greiða vátryggingarnar, bæði almennar sjótryggingar og bráðafúatryggingar.

Fleira held ég ekki að sé ástæða til að taka fram. Ég ítreka það, að nefndin, sem frá þessu gekk, var öll sammála um afgreiðslu málsins, og ég tel, að þessir samningar séu eftir atvikum og meðan þessu skipulagi er haldið eins hagstæðir fyrir hið opinbera, bæði útflutningssjóð og ríkissjóð, og hægt er að búast við, og þó tryggt, að útgerðin geti haldið áfram óhindrað, eins og hún hefur gert.

Ég ætla, að þetta mál hafi verið í fjhn., og leyfi mér að leggja til að, að þessari umr. lokinni verði málinu til þeirrar nefndar vísað, sérstaklega með hliðsjón af því, að hv. fjhn. mun hafa fengið í hendur öll gögn, sem um þetta mál eru til, þá samninga, sem við útvegsmenn hafa verið gerðir og þau bréf, sem á milli hafa farið ríkisstj. annars vegar og fulltrúa hinna ýmsu samningsaðila hins vegar, og mun þess vegna þegar nokkuð hafa kynnt sér málið.

Ég leyfi mér sem sagt, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til hv. fjhn.