26.01.1959
Neðri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu, sem hér hefur verið lagt fram, er gert ráð fyrir því að breyta lögunum um útflutningssjóð á þá lund, að ríkisstj. fái heimild til þess að greiða þær auknu bætur til framleiðslunnar, sem samningar hafa nú verið gerðir um við fulltrúa framleiðenda.

Eins og hæstv. forsrh. hefur gert hér grein fyrir, áætlar ríkisstj., að þessar auknu bætur muni nema, miðað við árið, fyrir útflutningssjóð 77.7 millj. kr. Auk þess hefur svo verið skýrt frá því, að þær niðurgreiðslur, sem þegar hafa verið ákveðnar á vöruverði til viðbótar við það, sem áður var í gildi, muni kosta í kringum 75 millj. kr. yfir árið og er útflutningssjóði einnig ætlað að greiða þessa fjárhæð. Þá hefur hér einnig verið skýrt frá því, að ríkisstj. muni bæta við þegar ákveðnar niðurgreiðslur nokkru og ég hygg, að það verði varlega metið, að það muni kosta 20–30 millj. kr., miðað við þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram í fyrri umr. um þessi efnahagsmál. Þessar viðbótargreiðslur á útflutningssjóður einnig að greiða. Auk þessa er svo einnig upplýst hér, að enn sé ósamið um bætur til framleiðslunnar vegna síldveiðanna á komandi sumri, en hins vegar sé í þessu dæmi reiknað með tiltekinni upphæð til aukinna útgjalda þar, en mér þykir alveg augljóst, eins og ég skal víkja að síðar, að sú áætlun sé hæpin og muni ekki fá staðizt og þar muni einnig verða um aukin útgjöld að ræða fyrir útflutningssjóð fram yfir það, sem hér hefur verið gert ráð fyrir af ríkisstj.

Þá hefur einnig verið bent á það réttilega, að nú eru samningar við framleiðsluna í því formi, að hún á kröfur fram yfir þetta, sem hér hefur verið talið. Hún á kröfur á að fá enn auknar bætur, sem nemur hækkun á grunnkaupi, ef slíkar hækkanir kynnu að verða og hækkun á vísitölu, sem kann að verða fram yfir það, sem þessir útreikningar eru byggðir á. Og hygg ég, að flestir verði að telja, að það séu verulegar líkur til þess, að þarna komi einnig nokkur viðbótargreiðsla, sem kemur til með að leggjast á útflutningssjóð.

M. ö. o.: Meginefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er það að heimila ríkissjóði að taka á sig þessar viðbótargreiðslur, sem hér hafa verið ákveðnar eða um samið eða hér er gert ráð fyrir, — viðbótargreiðslur, sem varla geta numið undir 200 millj. kr. yfir árið, það er varla hugsanlegt.

En sé það svo aftur athugað, hvað gert er ráð fyrir í frv. til þess að koma á móti þessum fjárhæðum, þannig að útflutningssjóður geti raunverulega staðið við þessar skuldbindingar, þá kemur í ljós, að þann kaflann í frv. vantar með öllu. Það er ekki gert ráð fyrir því í frv. að tryggja útflutningssjóði neinar tekjur á móti þessum skuldbindingum, sem hér á að festa í lög. Þetta er auðvitað furðuleg uppbygging á löggjöf, að koma hér aðeins með þennan þátt málsins, en ætla að láta hinn liggja með öllu eftir í fullkominni óvissu. Ég verð líka að álíta, að ríkisstj. hafi fundið þetta, þegar hún var að undirbúa málið. Hún lýsti hér yfir í umr. um fyrra frv., þar sem gert er ráð fyrir því að strika út 10 vísitölustig af kaupgjaldsvísitölunni, að hún væri ekki enn að fullu tilbúin með þetta frv. um breytingar á útflutningssjóði og það væri enn í smíðum og mundi koma síðar.

Það er alveg útilokað, að það hafi getað þvælzt fyrir ríkisstj. að semja frv. á þeim grundvelli, sem þetta frv. er uppbyggt. Það hefði átt að geta orðið til svo að segja samdægurs eða daginn eftir að samningar höfðu farið fram við útvegsmenn, því að frv. er þannig uppbyggt, að það gerir aðeins ráð fyrir því að veita ríkisstj. heimild til þess að mega auka greiðslur samkv. nokkrum tilteknum liðum. Nei, ég hygg, að miklu líklegra sé, að ríkisstj. hafi í upphafi ætlað sér, að jafnhliða því sem hún bað um lagalega heimild til þess að mega taka á sig auknar útgjaldabindingar, þá ætlaði hún sér að hafa með í frv. tekjustofnana þar á móti, til þess að sjóðnum væri þetta kleift. En svo hefur hún bara valið þennan ágæta kost, að gefast með öllu upp á því að leita uppi nokkrar tekjur, ná samkomulagi um nokkrar tekjur og biðja síðan Alþingi um að veita sér lagalega heimild til þess að mega lofa þessum útgjöldum, en láta sem sagt tekjuhliðina alveg eiga sig.

Hæstv. forsrh. hafði hér í umr. um vísitölufrv. gert nokkra grein fyrir því, hvernig hann gæti hugsað sér, að afla mætti tekna til þess að standa undir þessum auknu útgjöldum. Hann lýsti því þó yfir, að þetta væru aðeins lausar hugmyndir, e. t. v. væri hér um nokkra óskhyggju að ræða, eins og hann orðaði það. En hann gerði þó lauslega grein fyrir því, hvernig hann gæti ímyndað sér, að afla mætti tekna á móti þessum auknu útgjöldum, þó ekki nándarnærri að öllu leyti, miðað við þau útgjöld, sem sýnilegt er að hér muni til falla, en þó að mestu leyti. En í þessum sömu umr. benti ég á það, að vitanlega væri aðeins lítið sagt af þessu máli, þó að hæstv. forsrh. gæti sagt hér, væntanlega í nafni síns flokks, með 8 þm. að baki, að hann fyrir sitt leyti hefði viljað afla tekna á þennan hátt, sem hann lýsti. Það, sem öllu máli skiptir að fá að vita, er það: Hefur ríkisstj. eitthvert þingafl til þess að gera m. a. þessa óskhyggju hæstv. forsrh. að einhverjum veruleika? Ég spurði sérstaklega um það, hvort annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., vildi t. d. gangast við þessari tekjuöflun, sem þarna var lýst, hvort Sjálfstfl. mundi vilja fallast á það að lækka útgjöld á fyrirliggjandi fjárlagafrv. sem næmi 40 millj. kr. og þannig spara þá upphæð og það jafngilti vitanlega tekjuöflun fyrir útflutningssjóð. Ég spurði einnig um það, hvort Sjálfstfl. vildi styðja þá hugmynd, að hækka mætti tekjuhlið frv. um 83 millj. kr., þannig að það gæti jafngilt 83 millj. kr. tekjum fyrir útflutningssjóð. Ég spurði einnig um það, hvort Sjálfstfl. mundi standa að þeirri hugmynd að taka 20 millj. kr. af greiðsluafgangi s. l. árs og nota hann í þessu skyni. Aðaltalsmaður Sjálfstfl. hér í deildinni, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), svaraði þessu á þá lund, að hann sagði, að Sjálfstfl. væri á allan hátt óbundinn í sambandi við afgreiðslu fjárl. Hann hefði ekki gert neitt samkomulag um það og hann lofaði í þessu efni engu. Mér þótti það svo alveg ljóst á öllum hans málflutningi hér í sambandi við þetta mál, að Sjálfstfl. er ekkert líklegur til þess að samþykkja það, að þetta fé fáist, sem hæstv. forsrh. var hér að minnast á, að út af fyrir sig mætti e. t. v. fá í þessu skyni.

Nú er það alveg augljóst mál, að það er ekki hægt að bjóða hv. alþm. upp á það að taka hér við frv., sem gerir ráð fyrir auknum útgjöldum upp á 200 millj. kr., sem lofar framleiðendasamtökum í landinu ákveðnum fjárhæðum, án þess að það sé fengin einhver trygging þá um leið, þegar þetta frv. kemur fram og á að ganga til afgreiðslu, að fé fáist upp í þessar skuldbindingar og vitanlega á fjáröflunin að koma inn f frv. sjálft. Það er algert ábyrgðarleysi af hæstv. ríkisstj. að ætla einhliða að biðja um lögfestingu á þessu, án þess að þar fylgi með a. m. k. fullgild yfirlýsing frá meiri hluta Alþingis um, að það verði örugglega séð um að afla tekna í þessu skyni og þá vitanlega einnig hvernig.

Þetta er vitanlega aðalatriði þessa máls. Ég verð að segja, að eftir það, sem þegar hefur komið fram í þessu máli, þá þykir mér, að allt bendi til þess, að þannig sé ætlað að standa að afgreiðslu efnahagsmálanna hér að þessu sinni, að ganga frá loforðum um útgjöld, en skilja hins vegar algerlega eftir alla tekjuöflun, skjóta henni á frest, láta hana bíða þangað til næsta haust, láta sem sagt framleiðsluna og þetta allt saman ganga á loforðum þennan tíma, skapa hér lengri og meiri skuldahala, en hér hefur safnazt nokkurn tíma áður í þessum efnum og kalla þannig yfir sig nýja stórkostlega erfiðleika á komandi hausti.

Ég hef lýst því áður yfir í þessum umr., að út af fyrir sig get ég vel fallizt á ýmsar þær hugmyndir, sem fram hafa komið hjá hæstv. forsrh. um tekjuöflun í þessu skyni. Ég gæti vel hugsað mér það, að hægt væri að lækka fjárlagafrv. fyrirliggjandi um ca. 40 millj. kr. En ég veit það mætavel, ég hef tekið þátt í því að ræða við flokkana hér á Alþingi, m. a. í sambandi við stjórnarmyndun, um möguleika í þessum efnum. Og ég hafði skilið það svo, að það væru ekki möguleikar til þess að fá þetta í framkvæmd. Mér sýnist, að það komi hér glögglega fram enn. Og hvers vegna þá, ef málin standa þannig, að vera að flagga með svona till., sem ekki geta náð fram að ganga, en ætla, á meðan verið er að flagga með þeim, að þetta sé kannske hugsanlegt, að koma þannig í gegn skuldbindingum á móti? Nei, þeir, sem samþykkja skuldbindingarnar og vilja ganga frá þeim, eiga líka að standa við þær og afla tekna þar á móti. Ég veit, að Sjálfstfl. þykir ákaflega þægilegt að skjóta sér undan þessum vanda, þó að hann styðji ríkisstj., láta þennan hluta málsins vera óleystan og bíða fram á næsta haust, koma þessum vanda a. m. k. fram yfir einar eða tvennar kosningar.

Ég skal þá víkja með nokkrum orðum að samningum þeim við framleiðendur, sem þegar hafa farið fram og hæstv. forsrh. hefur gert nokkra grein fyrir.

Ég hef áður sagt í þessum umr., að augljóst sé að mínum dómi að þannig hafi verið samið nú að þessu sinni við útgerðina í landinu, að það sé gert ráð fyrir því að bæta rekstrarkjör útgerðarinnar nokkuð frá því, sem þau hefðu bezt orðið samkvæmt fyrri samningum. Ég er alveg sannfærður um þetta og því sannfærðari sem ég athuga málið betur. Aðeins þau atriði, sem hér eru viðurkennd af flestum og ég skal nú greina, sanna þetta.

Í grg. þessa frv. er frá því skýrt, að athugun hafi farið fram á því, hvaða bætur útgerðin öll þyrfti að fá, miðað við kaupgjaldsvísitöluna 185 stig, til þess að hún fengi að fullu bætt öll útgjöld, sem komið hefðu fram vegna grunnkaupshækkananna, sem orðið hafa á s. l. ári. Á þessu fór fram aðeins talnalegur útreikningur og efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. taldi, að samkv. beinum talnalegum reikningi mundi þetta nema í kringum 105 millj. kr. Það kom þó strax í ljós, að í þessari tölu hafði hann gert ráð fyrir því að breyta stórkostlega fyrningarafskriftum hjá framleiðslunni í landinu frá því, sem áður hafði verið, og gerði þar af leiðandi ráð fyrir allmiklu hærri bótum af þeim ástæðum. En ef hins vegar hefði átt að miða við hliðstæðar fyrningarafskriftir og áður höfðu gilt, þá hefði upphæðin 105 millj. orðið allmiklu lægri.

Það var svo einnig viðurkennt af þessum sömu aðilum, sem höfðu athugað þetta mál, að eins og grunnkaupshækkanirnar hefðu íþyngt útgerðinni, sem þessu næmi, sem sagt eitthvað minna en 105 millj., getum við sagt, þá höfðu aðrir liðir komið til í rekstri útgerðarinnar, sem höfðu orðið miklum mun hagstæðari, en sá grundvöllur var byggður á, þegar síðast var við útgerðina samið. Það hafði sem sagt sýnt sig, að útflutningsverð á fiski hafði hækkað allmikið á árinu í ýmsum greinum og að vegna stóraukins aflamagns hafði afkomugrundvöllur frystihúsanna í landinu breytzt frá því, sem miðað hafði verið við í samningunum við útgerðina. Meðaltals frystihúsið, sem lagt var til grundvallar við samningana, var orðið miklum mun stærra og átti vitanlega að byggja á því.

Þeir menn, sem ríkisstj. fól að gera samanburð í þessum efnum, komust að þeirri niðurstöðu, að þeir liðir, sem hefðu verkað til hagsbóta í rekstri frystihúsanna, næmu fyllilega til jafns við það, sem aukin útgjöld höfðu fallið á þessa framleiðslu vegna grunnkaupshækkananna og að af þeim ástæðum ætti ekki að bæta upp frystihúsunum sérstaklega vegna grunnkaupshækkunarinnar. Nú var stærsti hlutinn af þessum 105 millj., sem ég gat um áðan, að var þó of há tala, einmitt auknar bætur til frystihúsanna í landinu, eða um 37 millj. kr. Það gat því ekki farið neitt á milli mála, eins og grundvöllurinn lá fyrir, að þá áttu bæturnar til framleiðslunnar, miðað við vísitöluna 185, ekki að verða 105, heldur allmiklum mun lægri upphæð, þó að aðeins þetta sé tilgreint, sem ég hef nú nefnt. En það má nefna margt annað fleira, sem þarna kom inn í líka. Hins vegar er nú upplýst hér í umr. af hæstv. forsrh. og liggur fyrir í grg. frv., að raunverulega var samið við útgerðina á þessum grundvelli, miðað við vísitöluna 185, þannig að heildarbæturnar áttu að vera 159 millj. kr., þegar allt var talið. Það fer því vitanlega ekkert á milli mála, að hér var samið um allmiklum mun meiri bætur, miðað við hliðstæðan grundvöll, heldur en útgerðin bjó við áður.

Eins og ég hef einnig sagt áður í þessum umr., er það mál út af fyrir sig, hvort rétt þykir að bæta hag framleiðslunnar enn til viðbótar við það, sem áður var, t. d. um einar 60–70 millj. kr. Og séu a. m. k. efni á því að öðrum kosti að gera það, þá gat það komið til greina, sérstaklega, ef því hefði verið réttilega og skaplega deilt. En ég hef ekki séð það í þessu frv. né öðru, sem hefur verið lagt fram nú á Alþingi í sambandi við lausn þessara mála, að það hafi komið fram, að það hafi verið sérstök aðstaða til þess eða sérstök ástæða til þess að fara í það að bæta þann rekstrargrundvöll framleiðslunnar, sem hún hafði sjálf samið um áður og sjálf lýst yfir áður að væri mjög vel viðhlítandi og hafði skilað rekstri framleiðslunnar þannig, að flestir þættir hennar höfðu komið út með jákvæðan rekstur á s. l. ári. Hefði það legið fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefði haft getu til þess að auka bæturnar til framleiðslunnar um 50–60 millj. kr. fram yfir það, sem áður var, án þess að leggja þyrfti ný gjöld á landsmenn sérstaklega eða grípa hér til ráðstafana, sem ég hygg að muni verða til hinnar mestu ógæfu í þessum efnum, sem sé að reyna að knýja fram kauplækkun gegn vilja verkalýðssamtakanna í landinu, — hefði ríkisstj. getað fært útgerðinni þetta á tiltölulega auðveldan og léttan hátt og staðið við loforðin, þá skyldi ég hafa stutt hana til þess, því að ég er á þeirri skoðun, að út af fyrir sig megi enn örva meira, en gert hefur verið, þátttöku í þessari undirstöðuframleiðslu okkar Íslendinga, sem er okkar sjávarútvegur sem heild. En það hefur ekki verið vandinn fram að þessu að semja við útvegsmenn út af fyrir sig um það að veita þeim sem allra mestar bætur. Það er vitanlega hægt að fallast á hvaða kröfur sem þeir setja frá, og það er hægt að ná samningum við þá tiltölulega auðveldlega og fljótlega með því að ganga að þeirra kröfum. Vandinn hefur alltaf legið í því, að það sé hægt að tryggja, að því, sem við þá er samið, verði réttilega til þeirra skilað, að þeir geti fengið þetta greitt og það sé grundvöllur í landinu fyrir því að afla þeirra tekna, sem þarf til þess að standa við skuldbindingarnar, án þess að allt sporðreisist um leið.

Það eru auðvitað margir þættir í sambandi við þessa samninga, sem hefði verið nokkur ástæða til þess að ræða hér um, en ég skal nú gera það í mjög stuttu máli.

Mér er það alveg ljóst, að það hefur mjög skort á í þessum samningum, að þannig væri á málunum haldið, að það kæmi fram, sem koma átti fram og ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. hafi vanrækt að fylgjast svo með samningagerðinni sem hún átti að gera. Ég tók t. d. eftir því, að hæstv. forsrh. minntist hér á, að í sambandi við auknar kröfur útgerðarinnar, sem rétt hefði þótt vera að ganga inn á, hefði verið m. a. hækkaður veiðarfærakostnaður. Jú, ég hafði vitanlega verið búinn að kynna mér þessa samninga allmikið áður og fylgzt með þeim. Ég vissi mætavel um þessar kröfur af hálfu útgerðarmanna og þeir voru reyndar búnir að heyra mín andsvör í þeim efnum. Ég vissi, að það var rétt, að það hafði orðið hækkun á veiðarfærum á línuútgerð. Að vísu var sú hækkun sáralítil fram yfir það, sem beinlínis hafði verið gert ráð fyrir í því fiskverði, sem samið var um við útgerðina í maímánuði s. l. En það var þó um lítils háttar hækkun þar að ræða. En þar á móti kom svo aftur það, að skýrslur lágu fyrir um, að aðeins 20% af heildarafla bátanna er veitt með línuveiðarfærum. 80% af afla bátanna á s. l. ári var veitt í net, sem netafiskur. Þar hafði aftur breytingin orðið sú, að þar hafði orðið stórkostleg lækkun á veiðarfærum fram yfir það, sem metið var í samningunum við útgerðarmennina seinast. Lækkunin hafði orðið svo mikil í veiðarfærakostnaði netabáta, að þrátt fyrir það, þó að 55% gjaldið félli á veiðarfærin með löggjöfinni frá því í maí í vor, þá hækkaði útsöluverð á netum ekki. Hér kom nefnilega til nýr innflutningur á netum, sem var verið að taka hér í notkun, frá Japan, sem þýddi stórkostlega verðlækkun. Það vitanlega náði því aldrei nokkurri átt og hefði vitanlega ekki verið samþykkt af neinum þeim, sem var kunnugur þessum málum, að fallast á kröfur um að hækka þennan lið um veiðarfærakostnað, eins og þarna stóð á, síður en svo.

Þá er einnig að minnast á það, að þannig hafði verið haldið á samningum síðast, að raunverulega var um tvö bótatímabil að ræða fyrir útgerðina á s. l. ári. Annars vegar var öll vetrarvertíðin eða til 15. maí og gilti þar um allt annað bótakerfi, en frá 15. maí og út árið, en þá tóku við reglurnar, sem settar voru með löggjöfinni um útflutningssjóð, sem var samþ. hér á Alþingi 28. maí. Með löggjöfinni 28. maí var ákveðið að stórhækka fiskverð frá því, sem áður hafði verið. Þessi hækkun á fiskverðinu var byggð upp þannig, að hún átti að mæta auknum útgjöldum í rekstarkostnaði bátanna og skipanna frá því, sem hafði verið á fyrra bótatímabilinu og einnig til þess að jafnast á við vátryggingargreiðslur, sem bátarnir höfðu fengið sérstaklega á fyrra hluta ársins. Auk hins lægra fiskverðs fengu bátarnir greidd fyrir sig úr útflutningssjóði vátryggingariðgjöld bátanna. En síðari hluta ársins átti fiskverðið að hækka mikið og það var hækkað, en vátryggingastyrkurinn átti að falla niður jafnframt. Nú hefur hins vegar verið samið á þeim grundvelli, að bátarnir eiga áfram að njóta vátryggingastyrksins, en einnig hins háa fiskverðs, sem þeir höfðu fengið í staðinn fyrir það, að vátryggingastyrkurinn hafði verið felldur niður í áætluninni. Nú var það svo, að bátarnir fengu að vísu að halda þeim hlutanum af vátryggingastyrknum síðari hluta ársins, sem átti að falla niður, af því að þar var um aðeins tiltölulega lítinn hluta að ræða, því að meginhluti tryggingatímabilsins var liðinn, en þetta fengu bátarnir seinni hluta ársins sérstaklega vegna þess, að þeir fengu minni uppbætur á sumarsíldveiðina en þeir hefðu annars átt að fá og til viðbótar við of lágar sérstakar uppbætur á sumarsíldina fengu þeir að halda út árið vátryggingastyrknum.

Þegar samningarnir eru nú endurnýjaðir á þennan hátt, er því alveg augljóst mál, að með því að bátarnir fá nú að halda áfram vátryggingastyrknum og hinu hærra fiskverði, þá er hér um verulega aukningu að ræða á bótunum til þeirra frá því, sem áður hafði verið. Þess hefur nefnilega ekki verið gætt, hvernig þessir hlutir féllu þarna saman. Hins vegar er aftur það, að bæturnar til sumarsíldveiðanna þurfa að hækka tiltölulega meira, en aðrar bætur, vegna þess að þær höfðu verið jafnaðar upp í síðustu samningum m. a. með þessum vátryggingastyrk síðari hluta ársins. Ég er því ákaflega hræddur um það, að áætlunartala hæstv. ríkisstj. um það, hvað heildarbæturnar muni nú kosta vegna síldveiðanna á komandi sumri, að þær bætur muni í framkvæmd reynast meiri, en hún reiknar með og þær ættu að vera meiri, ef þær verða látnar hækka til samræmis við það, sem aðrar bætur hafa hér verið látnar hækka um í þessum samningum.

Eitt atriði er það enn, sem rétt er að minnast á í sambandi við þessa samningagerð og er mjög mikilvægt. Nú er gert ráð fyrir því í fyrsta skipti að hafa þann hátt á að breyta bótunum til útgerðarmanna á árinu eftir því, hvort grunnkaup hækkar eða vísitala hækkar. Þetta hefur aldrei verið gert áður. Það hefur verið talið nokkurn veginn lágmark að semja við útgerðina a. m. k. fyrir eitt úthaldstímabil í einu óbreytt, en ekki að þurfa að margbreyta því á sama útgerðartímabilinu. Eins og ég vék að áður, er vitanlega hætta á því, að þarna geti bæturnar þurft að hækka af þessum ástæðum og auk þess er ég alveg viss um, að þetta mun kosta mikið erfiði og mikinn vanda og margfalda útreikninga, því að ef ég þekki mína ástkæru útgerðarmenn vel í þessum efnum, þá munu þeir koma og sækja hverja smábreytingu, sem orðið hefur á grunnkaupi, hvar sem hún kann að verða, enda hafa mennirnir samning upp á það samkvæmt þessu.

En á sama tíma sem útgerðarmenn hafa vitanlega hugsað vel um sinn hag í þessum efnum og komið honum fram, þá dettur botninn úr af hálfu ríkisvaldsins á alveg hliðstæðum grundvelli hinum megin. Áður hafði verið gert ráð fyrir því, að svo gæti farið, að útflutningsverðið á afurðunum hækkaði. Vitanlega getur komið til þess, að verðið á frosnum fiski, saltfiski eða skreið erlendis hækki frá því, sem miðað hafði verið við í áætlunum. Og þá hafði áður verið gert ráð fyrir því, að heimild væri frá hálfu ríkisins til þess að draga af bótunum, ef um teljandi hækkun yrði að ræða á útflutningsverðinu sjálfu, frá því, sem áætlanir voru gerðar um. Nú sé ég ekki þetta ákvæði eða hef ekki heyrt minnzt á það hér. Sé það einhvers staðar að finna í samningum, þá væri æskilegt, að það væri upplýst. En mér er nær að halda, að þetta atriði sé þar ekki nú. Það hefur a. m. k. ekki verið greint frá því.

Nú liggur það hins vegar fyrir, að verðlag erlends hefur farið hækkandi á þýðingarmiklum útflutningsgreinum í þessum efnum og þar með breytist heildarafkoma framleiðslunnar. Og samningar hafa staðið yfir núna þessar vikurnar. Á meðan verið var að semja við framleiðendur, hafa samningar staðið yfir við einn stærsta kaupandann að frosnum fiski, og frystihúsin í landinu kröfðust þess í þessum samningum að fá 16% hækkun á útflutningsverðinu. (Gripið fram í: En fengu ekki?) Ja, ég veit ekki, hvort samningunum er lokið. (Gripið fram í.) Er samningunum lokið, já, og fengu ekkert? Og hefur kannske verið samið um það? Hitt veit ég, að víða er það svo, að verðbreytingar hafa orðið allmiklar til hækkunar og var vitanlega jafnréttmætt að hafa þetta ákvæði með í samningunum eins og hitt. Það má vel vera, að eftir að öllu þessu var lokið, hafi farið svo, að útvegsmenn hafi samið um að selja sinn frosna fisk á sama verði úr landi til eins af hinum stærri kaupendum eins og var áður, þó að þeir hins vegar væru með á borðinu kröfu um 16% hækkun.

Það kann vel að vera þrátt fyrir þær athugasemdir, sem ég hef hér gert varðandi þessa samninga, að það sé rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það hafi verið álit ríkisstj. og samningamanna hennar, að þeir samningar, sem voru gerðir við framleiðsluna, hafi verið þeir beztu og þeir hagstæðustu, sem hægt var að ná við útgerðarmenn. Það má vel vera. Ég skal ekki neita því. Ég vil ekki neita því á neinn hátt, að það hafi beinlínis þurft að semja um þessi atriði. En það út af fyrir sig, þó að svo sé, réttlætir ekki á neinn hátt að ætla að fara að segja rangt frá um það, að bæturnar eru raunverulega meiri, rekstrargrundvöllurinn á að vera hagstæðari, en útgerðin hefur búið við fram til þessa samkvæmt þessum samningum, því að það er hann tvímælalaust.

Hæstv. forsrh. vék hér nokkuð að einum lið í þessum samningum sérstaklega, en það voru samningarnir um skiptaverð til sjómanna. Hann gat þess, að fulltrúar sjómanna hefðu skrifað undir samkomulagið, sem gert var, með ákveðnum fyrirvara, þar sem m. a. sagði, að þetta væri háð því skilyrði, að ríkisstj. skuldbyndi sig til þess, að kjör sjómanna samkvæmt þessum samningi yrðu ekki í einu eða neinu skert með efnahagsmálalöggjöf hér á Alþingi. Og síðan gat hæstv. forsrh. þess, að í ljós hefði komið á eftir, að ýmsir fulltrúar sjómanna hefðu ekki skilið þennan fyrirvara allir eins, en ríkisstj. hefði svo aftur tilkynnt það á eftir, að hún hefði á þessu ákveðinn skilning, m. a. þann, að það mætti skerða kjör þeirra með efnahagsmálalöggjöf frá því, sem þessi samningur, sem undirskrifaður var við sjómenn, sagði til um. Mér fannst hæstv. forsrh. segja nokkuð vilhallt eða ónákvæmt frá því, sem þarna hafði gerzt. Það, sem þarna hafði gerzt, var það, að fulltrúar sjómanna, fulltrúar útgerðarmanna og fulltrúar ríkisstj. höfðu komizt að samkomulagi um ákveðið skiptaverð og ákveðin kjör til handa sjómönnum. Síðan skrifa allir aðilarnir undir og eitt ákvæðið í þessum samningum er þessi yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. las upp, að ekki mætti skerða kjör sjómanna frá því, sem segði í samningunum. Og undir samninginn og þar með undir þessa yfirlýsingu skrifuðu bæði fulltrúar sjómanna, útgerðarmanna og fulltrúar ríkisstj., þrír að tölu. Það er bezt að segja það eins og það er, að ráðuneytisstjórinn, formaður nefndarinnar, Gunnlaugur Briem, einn alþm., Pétur Pétursson, þm. Alþfl., og formaður stjórnar útflutningssjóðs, Haraldur Jóhannsson hagfræðingur, allir þessir þrír menn skrifa með eigin hendi undir samkomulagið með þessum fyrirvara á. Að vísu er það rétt, að þessir þrír fulltrúar ríkisstj., eins og fulltrúar sjómanna og eins og fulltrúar útvegsmanna, höfðu allir viðbótarfyrirvara á, fulltrúar sjómanna sögðu: Enda verði þessir samningar samþykktir í félögunum, — og fulltrúar útgerðarmannanna sögðu: Enda verði þessi samningur staðfestur af Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, og fulltrúar ríkisstj. sögðu: Enda verði þessi samningur samþykktur af ríkisstj. — Þetta er á ósköp venjulegan hátt, þegar gengið er frá samningum á milli samninganefnda.

En svo fóru bara málin þannig, að þegar hæstv. ríkisstj. fór að kynna sér þennan samning, sem þarna hafði verið gerður og hennar fulltrúar höfðu skrifað undir og hægt er vitanlega að sanna og sýna, hvenær sem er, því að undirskriftaplaggið liggur fyrir enn, — þegar hæstv. ríkisstj. sá þetta, þá vildi hún ekki fallast á að vera bundin samkvæmt þessari yfirlýsingu og lýsti því yfir, að hún vildi ekki staðfesta þetta svona, heldur með þeim skilningi, að hún mætti breyta kjörum sjómanna frá því, sem sagði í þessum samningum, m. a. með niðurskurði á vísitölu, sem yrði látinn ná til skiptaverðsins á fiski. Þetta var óneitanlega mjög sjaldgæfur háttur, að þetta skyldi koma svona fram.

Ég verð líka að segja, að það er alveg óvenjulegur hlutur að sitja að samningaborði, í þessu tilfelli við fulltrúa sjómanna, og pæla við þá um það, hvort eigi að hækka skiptaverð til þeirra á fiski um 15 aura á kg, 16 aura á kg eða 20 aura á kg, og það er búið að togast á um þetta, einn og einn eyri, í nokkra daga, og svo, þegar loksins er búið að ná samkomulagi, þá stendur annar aðilinn upp, sem gert hefur samkomulagið, og segir: Ja, þó að ég hafi nú gert þetta samkomulag og við höfum verið að pæla í þessu, þá áskil ég mér rétt til þess að breyta því, eftir því sem mér sýnist, bara núna næstu daga á eftir. — Ég segi það, það er hætt við því, að það verði erfitt að ætla að setjast að samningaborði með sömu mönnum aftur, þegar svona er á málum haldið. Miklu eðlilegra var, fyrst ríkisstjórnin hafði beinlínis í huga og var búin að ákveða á þessari stundu að ætla að lækka hið umsamda skiptaverð til sjómanna úr 20 aurum niður í 11 aura, að semja samtímis og hún var að ákveða það að ætla að setja þessa löggjöf, að semja þá við þá aðeins um 11 aura og ekkert annað. En hinn hátturinn er valinn, að semja fyrst um háa tölu, slá því síðan upp í blaði ríkisstj.: Mikil hækkun á verði til sjómanna, 20 aura fiskverðshækkun á kg, — og ýmsir sjómenn vitanlega samþykkja þetta og fara á stað og vilja veiða sinn fisk upp á góð kjör, en eftir örfáa daga kemur í ljós, að þetta var eintómt gabb, það var ekki svo mikið. Þetta eru óheppileg vinnubrögð og leiddu líka til þess, að við sjálft lá, að í stærstu verstöðinni í landinu, sem jafnan hefur verið kröfuhörðust í samningum um fiskverðið, yrði verkfall, sem hefði getað orðið verulegt tjón af. En þetta leystist þar á síðustu stundu á þann hátt, að þar tókst sjómönnum að knýja útgerðarmenn til þess að láta af sínum hluta sem þessu nam, þessum 9 aurum, sem ríkisstj. ætlaði með sérstakri löggjöf frá Alþingi að lækka skiptaverðið um og útgerðarmenn þar urðu að borga sjómönnum þetta viðbótarverðmæti, þannig að þeir gætu haldið áfram að fá það, sem þeir höfðu sannanlega um samið, þessa 20 aura á kg. Útkoman er svo sú, að sjómenn í stærstu verstöðinni, í Vestmannaeyjum, búa við allt önnur kjör, en sjómenn á öðrum stöðum.

Ja, hvað verður svo, t. d. 1. næsta mánaðar, þegar gert er ráð fyrir því, að lækkunarregla ríkisstj. komi til greina og fiskverðið detti niður um þessa 9 aura frá því, sem um var samið? Það skyldi vera, að það yrðu ekki einhvers staðar truflanir í rekstri af þessum ástæðum?

Ég tel fyrir mitt leyti, að þetta ákvæði eða vinnubrögðin í þessum efnum hafi verið mjög óheppileg og óeðlileg á allan hátt. Hitt er svo vitanlega ekkert nýtt atriði, að það er hægt að deila um það endalaust, hvort réttmætt hefði verið, að sjómenn fengju í þessu tilfelli meiri hækkun, en 11 aura á hvert fiskkíló eða minni. Það er vitanlega alltaf hægt að deila um það, hvað eigi að ganga langt til móts við þeirra kröfur um bætt kjör. Á undanförnum árum hefur verið reynt að bæta kjör bátasjómanna allverulega. Ég álít, að þar hafi verið stefnt í rétta átt. Það er mín skoðun, að þó að nú hafi verið samið við bátasjómenn um 20 aura hækkun á skiptaverðinu, þá hefði það aðeins verið til góðs. Ég segi það hins vegar alls ekki, að aðrar tillögur í þeim efnum hafi ekki átt fyllilega rétt á sér líka, að þarna yrði samið um eitthvað minna. Það er vitanlega alltaf álitamál og ég fyrir mitt leyti hefði ekki mælt með því að fara þarna upp í hæsta hún, hefði það orðið til þess, að allt hefði hér gengið úr böndunum í kaupgjaldsmálum af þeim ástæðum. En ég tel enga ástæðu til að búast við því í þessu tilfelli.

Eins og ég vék að í upphafi míns máls, þá er aðalatriðið í sambandi við þetta frv. ekki samningarnir, sem nú eru orðnir að veruleika, við útgerðarmenn, hvort þeir hafi fengið nokkru betri rekstrargrundvöll en þeir bjuggu við áður eða ekki eða búi hér við nákvæmlega sama. Það er vitanlega hægt að halda því fram. Ég hef gert hér grein fyrir minni skoðun í þeim efnum og hef mína skoðun alveg ákveðna í því. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hitt, að hér er verið að setja löggjöf til þess að leysa þann vanda, sem við var að glíma í efnahagsmálunum og það er vitanlega engin lausn á þeim vanda að lögfesta aðeins ný loforð, aukin útgjöld, en sjá ekki fyrir á sama tíma neinum nýjum tekjum. Ég er alveg sannfærður um það eftir þá reynslu, sem hefur fengizt í þessum efnum áður, að það verður útgerðinni í landinu ekki til góðs, að stefnt sé í þá átt að stórauka skuldahalann í sambandi við loforðin til útgerðarinnar. Það var það, sem háði henni alveg sérstaklega einmitt eftir að ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. lét af völdum 1956.

Ég vil svo ljúka þessum hugleiðingum frá minni hálfu með því að inna enn einu sinni eftir því við hæstv. forsrh., sem reyndar fleiri ræðumenn hér hafa gert, hvort ekki sé mögulegt, jafnhliða og gengið er frá þessu frv. hér á Alþ., að setja inn í frv. tekjuöflunarliðina á móti, ákveða nú í sambandi við afgreiðslu þessa frv., hversu mikið á að taka frá ríkissjóði til útflutningssjóðs í þessu skyni, ákveða tekjuhliðina hér jafnframt, eða þá a. m. k. fá hér hreina og klára yfirlýsingu frá hinum stjórnarflokknum, Sjálfstfl., að hann standi með Alþfl. að þessum hugleiðingum, sem hæstv. forsrh. gerði hér grein fyrir að hann gæti hugsað sér í sambandi við tekjuöflun til þess að leysa þennan vanda. Ég inni eftir því einu sinni enn, hvort ekki er hægt að fá hér afgreidda báða þætti þessa máls, svo þýðingarmikið sem málið er í eðli sínu.