27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. S-M. lagði hér fram í gær nokkrar fsp., sem ég skal leyfa mér að reyna að svara.

Hann spurði fyrst, hvort sami háttur yrði hafður á og áður um greiðslu útflutningsbóta á landbúnaðarafurðir og ég get svarað því til, að í meginatriðum er ekki ætlað að gera neina breytingu þar á, heldur verði sami háttur hafður um uppbætur á landbúnaðarafurðir hér eftir og verið hefur hingað til.

Þá virtist þessi hv. þm. hafa nokkrar áhyggjur út af því, að í bréfi til Landssambands ísl. útvegsmanna, til fiskvinnslustöðva innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og fiskvinnslustöðva innan Sambands ísl. samvinnufélaga væri ákvæði, þar sem segir, að samkomulagið, sem gert hafi verið, sé miðað við grunnkaup það, sem ríkjandi var hinn 1. jan. s. l. og kaupgreiðsluvísitölu 185, en breytist þetta, þá skuli samkomulagið endurskoðast í samræmi við þær breytingar. Hann virtist hafa af því nokkrar áhyggjur, að yfirleitt væru í þessu samkomulagi við útvegsmenn og fiskvinnslustöðvarnar nokkur ákvæði um endurskoðun, því að hann sá ekki leið til þess, að þessi endurskoðun gæti farið fram án nýrrar lagasetningar eða á annan hátt nægilega tryggilega frá því gengið.

Út af þessu vildi ég aðeins segja það, að það er ekki nýtt, að ákvæði um endurskoðun sé í slíku samkomulagi. Slíkt ákvæði er í því samkomulagi, sem gert var við útvegsmenn um áramótin 1957–58, eins og hv. 2. þm. S-M. lýsti hér. Að vísu er það um annað atriði, en þó þannig, að þar er um endurskoðunarákvæði að ræða, svo að það er ekki algerlega neitt nýmæli, að það sé tekið upp í samningana við þessa aðila ákvæði um, að endurskoðun skuli fara fram, heldur hefur það verið gert áður. Nú felst í þessu orðalagi, að endurskoðun fari fram, náttúrlega það, að taka verði tillit til þeirrar breyttu aðstöðu, sem komin er fram og hefur orðið til þess, að endurskoðunin er gerð, og þó að það sé orðað endurskoðun, þá er náttúrlega meint með henni það, að endurskoðunin skuli að því stefna að leiðrétta þá skekkju, sem orðið hefur í samkomulagsgrundvellinum.

En nú vildi ég í þessu sambandi mega spyrja — og spyrja einmitt hv. 2. þm. S-M.: Hafa ekki verið gerðar breytingar, síðan lögin um útflutningssjóð voru sett, um bótagreiðslu, bæði til útgerðarmanna og fiskverkenda? Og hvernig hefur til þeirra breytinga verið stofnað? Og hvernig hefur verið aflað samþykkis Alþingis eða annarra til þeirra breytinga? Mér hefur skilizt, að síðan l. um útflutningssjóð voru sett, hafi verið ákveðnar aukauppbætur fyrir skreiðarverkendur, sem munu nema um 1.4 millj. kr., eftir þeim upplýsingum, sem ég hef frá forstjóra útflutningssjóðs, og fyrir saltfisksverkendur um 0.7 millj. kr. Þetta er á fisk, sem veiddur var fyrir 15. maí, en verkaður eftir þann tíma. En eigi að síður, bæturnar eru hækkaðar frá því, sem l. um útflutningssjóð gera ráð fyrir, um þessa upphæð.

Þá var alveg sérstaklega hækkað verð á austfjarðaveiddri síld, greiddar bætur á austfjarðaveidda síld, þ. e. síld, sem veidd er fyrir sunnan Langanes, á s. l. sumri, að því er forstjóri útflutningssjóðsins segir mér, og bæturnar hækkaðar úr 55% upp í 65% að meðaltali og látið heita, að það væri gert vegna þess, hve síldin hefði að verulegu leyti verið smá. Þetta hefði tekið til 2/3 hluta síldveiðinnar á þessum slóðum, þar sem bæturnar hefðu verið hækkaðar úr 55% og upp í 70%, en í heild hefði þetta verið jafnað með 65% gjaldi í stað 55%, eins og lögin ákveða. Er þetta ekki að endurskoða samkomulagsgrundvöllinn? Og er þetta ekki að endurskoða hann, ja, ég vil segja nokkuð einhliða og án þess, að aflað sé heimildar til þess?

Ég vil enn bæta því við, að mér er sagt, að uppbæturnar á Faxasíld hafi verið hækkaðar úr 70% upp í 80% á s. l. hausti. Ég veit ekki, hvort þetta kallast að endurskoða samkomulagið eða hvort það er að ákveða breytingu án þess, að leitað sé samþykktar á henni.

Nú veit ég ekkert, hvernig hugsað hefur verið til þess að fá þessar breyt. staðfestar. Til mín eða til Alþfl. hefur a. m. k. ekki verið leitað um það, svo að ég veit ekkert, hvaðan hæstv. fyrrv. ráðh. sjávarútvegsmála hefur talið sig hafa þingmeirihluta á bak við þessar aðgerðir.

Enn ein uppbót var svo greidd til sjávarútvegsins á s. l. ári, án þess að tekið væri fram í l. um útflutningssjóð og það var þegar búin var til ný uppbót á saltfisk seldan til Jamaica. Um þá uppbót segja a. m. k. ráðh. Alþfl., að þeir hafa aldrei verið spurðir í ríkisstj. Og einn fulltrúi í stjórn útflutningssjóðs hefur tjáð mér, að hann hafi ekkert um hana vitað. En þetta kom fram, þegar farið var að semja við saltfisksverkendur nú í janúarmánuði. Þá töldu þeir sig þurfa að fá áframhaldandi a. m. k. sömu uppbæturnar og þeir höfðu fengið á þennan fisk frá hæstv. fyrrv. stjórn.

Ég veit ekki, og mér er ekki kunnugt um, við hvern hæstv. fyrrv. sjútvmrh. hefur ráðgazt, þegar þetta var ákveðið. En mér er sagt, að þessi uppbót ein út af fyrir sig á saltfiskinn til Jamaica nemi 7 shillingum á pakka eða í allt líklega um 1.3 millj. kr.

Þessar bætur, sem ég hef hér talið, eru þá a. m. k. frá því, sem gert er ráð fyrir í l., um 7 millj. kr. Nú er ég ekki út af fyrir sig að segja, að þetta hafi ekki verið réttmætt í sjálfu sér. Ég skal ekkert segja um það. Ég hef ekkert sett mig inn í það og ekki haft tækifæri til þess. En það, sem ég er að segja, er, að þarna hefur farið fram, kannske ekki endurskoðun á því samkomulagi, sem gert var við þessa aðila áður, en það hefur vissulega farið fram einhliða ákvörðun um breytingu og ekki í öllum tilfellum þannig, að einu sinni hafi verið borið undir ríkisstj. alla, heldur virðist hér hafa verið um einhliða ákvörðun hæstv. fyrrv. sjútvmrh. að ræða.

Ég nefni þetta aðeins til þess að sýna, að þessi fimm tilfelli, sem hér hafa verið nefnd um breyt. á bótum, sem ákveðnar voru í l. um útflutningssjóð í maímánuði s. l., hafa orðið á þeim 7 mánuðum, sem síðan eru liðnir. Og það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, að það fari fram endurskoðun og breyt. á töxtunum. En það er óeðlilegt, að hún fari fram svo, að enginn viti um það nema hæstv. sjútvmrh. einn, og það er líka óeðlilegt, að hæstv. ráðh. úr fyrrv. ríkisstj. komi og geri aths. um það, að í því samkomulagi, sem nú hefur verið gert við útvegsmenn og fiskvinnslustöðvar, sé ákvæði, sem heimilar endurskoðun. Mér finnst það liggja svo ljóst fyrir af þessari reynslu, sem fengin er síðan útflutningssjóðslögin voru sett í maímánuði s. l., að það verði að gera ráð fyrir, að til einhverrar endurskoðunar kunni að þurfa að grípa og þá sé ekki úr vegi að hafa ákvæði um það í því samkomulagi, sem gert er. En hvernig sú endurskoðun muni takast og hvað muni út úr henni koma, verður náttúrlega að vera samningsatriði á milli þessara aðila allra, sem hér er um að ræða, ríkisstj. annars vegar og útgerðarmanna og fiskverkenda hins vegar.

Þá virtist hv. 1. þm. S-M. hafa af því nokkrar áhyggjur, hvernig dæmið leystist, sem hann svo kallaði, þ. e. a. s. hvernig fjár yrði aflað til þess að fylla upp í það bil, sem væri á milli tekjuþarfar útflutningssjóðs annars vegar og þeirra tekna, sem hann ætti von á, hins vegar. Ég lýsti því nokkuð við 1. umr. um frv. til l. um niðurfærslu verðlags og launa í vikunni sem leið, hvernig ég gæti hugsað mér, að það mál leystist. En um það er ekki samið, það er alveg rétt, og ekki út frá því gengið, hvernig teknanna verður aflað. Ég fyrir mitt leyti hafði hugsað, og það hugsar ríkisstj. líka öll, að þetta bil verði jafnað með því að fá tekjuáætlun fjárl. færða til þess, sem við köllum: rétts vegar, þ. e. a. s. tekjuáætlun fjárl. gerða eins rétta og unnt er að gera hana, en ekki tekjurnar áætlaðar miklu lægri, en þær í raun og veru eru og hafa reynzt vera og til viðbótar því aðallega á hinn bóginn með nokkrum niðurskurði á útgjaldahliðinni. Hvernig þetta tekst, verður náttúrlega reynslan að skera úr um. Um þetta er ekkert samið, og ríkisstj., sem er minnihlutastjórn, ræður ekki yfir neinum þingmeirihluta til þess að knýja þetta fram. En ég vil vænta þess af hv. alþm., jafnvel úr hvaða flokki sem þeir eru, að þeir stuðli að því, að heldur verði gert kleift að fara þessa leið, en fara í það að leggja á nýjar álögur. Annað hvort verður að gera, það er alveg greinilegt.

Ríkisstj. telur, að það sé mögulegt að ná endunum saman á þennan hátt, sem ég lýsti, og það ætti ekki að þurfa, a. m. k. ekki að neinu ráði, að grípa til neinna nýrra skatta eða álagna, heldur mætti leysa þennan hnút á þann hátt, sem við höfum gert ráð fyrir og ég hef nú lýst.

Hv. 1. þm. S-M. gerði það að einu aðalatriði í sínum málflutningi um þetta efni, hvort ríkisstj. hefði ákveðið að taka 6 millj. dollara lán í Bandaríkjunum eða ekki, ef það væri fáanlegt og hvort meiri lántökur væru fyrirhugaðar. Um þetta vil ég aðeins segja það, að um þessar lántökur hefur ekkert verið ákveðið og það liggur ekkert fyrir um það, hvort þessi lán muni verða tekin eða ekki eða hvort það muni verða leitað eftir þeim. Hins vegar hefur verið gengið út frá því við þessa uppstillingu á þessu reikningsdæmi, að innflutningurinn til landsins væri sá sami eða svipaður á árinu 1959 og hann var á árinu 1958. Og nú kunna þeir að spyrja, hvort það sé yfirleitt mögulegt að afla ríkissjóði svipaðra tekna og gert hefur verið ráð fyrir, án þess að til stórrar lántöku þurfi að grípa. En þar eru tvö atriði, sem ég vil leyfa mér að benda á, sem kannske gera það ekki kleift að komast alveg hjá lántöku, en þau ættu þó a. m. k. að gera það mögulegt að draga úr henni verulega, ef ríkisstj. vildi það gera. Annað atriðið í þessu sambandi er það, að birgðasöfnun í landinu á árinu hefur verið miklu meiri, en undanfarin ár. Og samkv. skýrslum, sem ég hef um það fengið, eru nú birgðir útflutningsafurða um s. l. áramót um það bil 70 millj. kr. meiri, en þær voru í árslok 1957. Þær eru taldar í árslok 1958 228 millj., en voru í árslok 1957 158 millj. Mismunurinn þarna er 70 millj. kr. í fob.-verðmæti eða sem svarar andvirði 4½ millj. dollara hér um bil.

Þessi birgðastaða gerir það mögulegt, ef hugsað væri til að selja þessar birgðir upp á árinu, að svipaður eða sami innflutningur gæti tekizt eða sama innflutningi væri hægt að halda uppi á árinu 1959 og 1958, m. a. af þessum orsökum.

Þá hefur staða útflutningssjóðs batnað mjög verulega á árinu 1958 og í staðinn fyrir að skulda í árslok 1957 34 millj. — ekki 24, eins og hv. 2. þm. S-M. sagði, — í staðinn fyrir að skulda 34 millj. í árslok 1957, er sjóðurinn talinn eiga nú í árslok 1958 3.3 millj. kr. nettó, þannig að hagur sjóðsins hefur batnað á árinu mjög verulega.

Ég nefni aðeins þetta tvennt til þess að sýna, að ég tel ekki, að við séum eingöngu upp á það komnir, hvort erlendar lántökur í stórum stíl fáist á árinu eða ekki, heldur hafi batnandi afkoma útflutningssjóðs og aukin birgðasöfnun á árinu gert það mögulegt að hugsa sér, að innflutningsáætlun fyrir 1959 gæti orðið sú sama og 1958, þó að þau lán yrðu ekki tekin að fullu, sem gert hafði verið ráð fyrir, enda hefur verið við það miðað í þeim útreikningum, sem ég hef hér greint frá bæði nú og áður um lausn þessa dæmis.

Þá spurði sami hv. þm., hvort samkomulag væri við nokkra aðila um niðurskurð á fjárl. Þessu hef ég nú þegar svarað, að þetta samkomulag er ekki gert, ekki fyrir hendi, en eftir því mun verða leitað og gengið úr skugga um það, hvort málið fæst leyst á þann hátt eða ekki. Það getur vel verið, að þetta séu vinnubrögð, sem séu ekki þau heppilegustu. Ég skal vel fallast á það. En ég vil bara halda því fram, að önnur vinnubrögð er ekki hægt að viðhafa, eins og stendur. Hæstv. fyrrv. ríkisstj. fleygir frá sér málinu óafgreiddu í byrjun þessa mánaðar. Desembermánuður mestallur fer í samkomulagstilraunir um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þegar ekki hafði tekizt að mynda meirihlutaríkisstj., sem náttúrlega fyrst og fremst þurfti að myndast um lausn þessa máls, þá var það, sem ég freistaði þess að koma í gegn lausn þessa máls og fékk til þess stuðning Sjálfstfl. á þann hátt og þann hátt einan, að hann hét því að víkja frá vantrausti, ef fram kæmi, á meðan verið væri að gera þessa tilraun. Þegar svo er komið, verður reynslan að skera úr, hvort þessi tilraun tekst eða ekki, hvort Alþingi hreinlega gefst upp við að leysa þennan hnút eða hvort það vill fara aðrar leiðir, sem því eru geðfelldari, einhverjum eða nægilega mörgum til þess að mynda hér um það meiri hluta, eða hvort það getur hugsað sér að fara þessa leið, sem núv. ríkisstj. hefur verið að berjast fyrir að farin yrði, en hún er í stuttu máli sú, að reynt verði að færa niður tilkostnaðinn hjá útflutningssjóði og ríkissjóði eins og mögulegt er, fyrst með niðurgreiðslu á vöruverði og þar af leiðandi lækkun á kaupi, eins og gjaldþol ríkisins þyldi frekast að okkar dómi og síðan yrði bætt við eftirgjöf af hálfu launþega á 5–6% og metin loks jöfnuð með niðurfærslu á útgjaldahlið fjárl. og leiðréttingu á tekjuhliðinni og á þann hátt reynt að ná jöfnuði án nýrra skatta eða án nýrra álagna.

Þetta er í stuttu og einföldu máli það, sem verið er hér að reyna og hæstv. Alþ. verður að taka afstöðu til.

Hv. 1. þm. S-M. spurði líka, hvort samkomulag væri um að nota greiðsluafganginn frá 1958 til þess að jafna þessi met og ég verð að segja, að um það er alveg sama að segja og hitt, að um þetta er ekki neitt fast samkomulag. En eftir því mun einnig verða leitað, að um það náist samkomulag að nota þennan greiðsluafgang í þessu skyni, því þó að hv. 1. þm. S-M. hafi kallað það óráð hið mesta að kasta þessum greiðsluafgangi í verðbólguhítina, eins og hann orðaði það og væri sönnu nær að nota það til húsbygginga, þá er núverandi ríkisstj. honum mjög ósammála um þetta atriði. Og ég held einmitt, að orðalagið hjá þessum hv. þm. hefði frekar mátt vera eins og það var, ef féð væri ekki notað til að jafna þessi met, því að það er alveg greinilegt, að ef ekki verða teknir allir þeir peningar, sem fáanlegir eru, út úr ríkisrekstrinum til þess að jafna metin, þá verður ekki hægt að komast hjá því, að verðbólgan vaxi með auknum sköttum til að jafna útgjöldin, þannig að ráðstöfun hv. 1. þm. S-M. eða hans till. um ráðstöfun á tekjuafganginum til þess að byggja hús fyrir í stað þess að láta það fara í þessar ráðstafanir, er til þess að auka verðbólguna í landinu, en ekki til þess að draga úr henni.

Þá taldi hv. þm., að nú væri í fyrsta sinn, að mér skildist, blandað saman með óviðurkvæmilegum hætti greiðslum útflutningssjóðs og ríkissjóðs. En um það er að segja, að ég veit ekki betur, en nokkuð af tekjum útflutningssjóðs gangi nú til ríkissjóðs og væri því ekki óhugsandi að snúa þessu við, þannig að nokkuð af tekjum ríkissjóðs, ef hann gæti án þeirra verið, gengi til útflutningssjóðs, ef hann þyrfti á því að halda, til þess að komizt yrði hjá að afla útflutningssjóði tekna með nýjum álögum.

Hv. þm. kvartaði yfir því, að þessar aðgerðir væru lagðar fram sitt í hverju lagi og það væri eiginlega ekki hægt að taka ákvörðun um eina, fyrr en maður hefði þær allar. Ég er honum sammála um það, að æskilegra hefði verið að geta lagt þetta fyrir allt í einni heild, og að því leyti alveg sammála því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um það mál hér í gær. En eins og hann líka réttilega sagði, þá bar þetta svo brátt að allt, að það var ómögulegt og algerlega útilokað að koma þessum málum af stað í einu, án þess að útgerðin bíði tjón við það, ef eftir því hefði átt að bíða.

Þegar búið er að semja við bátaflotann, þá er vissulega ekki um annað að gera fyrir Alþingi, en taka afstöðu til, hvort það vill að þeim samningum ganga eða ekki og ganga svo í það þar á eftir að útvega þær tekjur, sem þarf til þess, að útflutningssjóður geti staðið við sínar skuldbindingar við útvegsmennina og fiskvinnslustöðvarnar. Þetta hefur verið gert á þennan hátt áður, eins og hér hefur einnig verið bent á. Samningarnir við útvegsmennina hafa verið gerðir fyrst og tekjuöflunin hefur komið síðar, hvort sem hún hefur verið falin í niðurskurði á fjárlögum eða á annan hátt eða með nýjum álögum, eins og áður hefur komið fyrir.

Ég ætla, að það hafi ekki verið neitt sérstakt í ræðu hv. 1. þm. S-M., frekar en það, sem ég hef nú nefnt, sem svara þurfti, en ef svo skyldi vera, þá minnir hann mig væntanlega á það síðar.

Hv. 2. þm. S-M. ræddi hér í gær um samningana og frv., sem hér liggur fyrir og gerði í sínu máli mest úr því, að við útvegsmenn og vinnslustöðvar hefði verið samið þannig, að þeirra hagur hefði verið stórlega bættur frá því, sem hann var á s. l. ári. Í því sambandi nefndi hann tvö eða þrjú dæmi. Hann sagði, að fyrningarafskriftirnar hefðu verið hækkaðar í þessum samningum mjög verulega frá því, sem þær höfðu áður verið. Ég held, að hann fari þarna ekki rétt með, því að fyrningarafskriftir til bátanna munu hafa verið hækkaðar við síðustu samninga, en ekki í þessum samningum, þannig að hækkun fyrningarafskrifta í þetta sinn komi ekki til neinnar hækkunar hjá bátaútvegsmönnum. Það mun vera frekar það gagnstæða, að það verði heldur á þeim lækkun vegna lækkaðrar vísitölu og viðhaldskostnaðar. En að öðru leyti er þetta tal hans um fyrningarafskriftir út í hött, vegna þess að það var búið að ákveða það áður og í hans stjórnartíð.

Það kann vel að vera, að um það megi deila, hvora aðferðina elgi að hafa um fyrningarafskriftirnar: þá, sem nú er reiknað eftir, eða þá, sem áður var reiknað eftir. En hvað sem um það er að segja, þá er það staðreynd í málinu, að það var búið að skipta um aðferð í þessu efni, áður en kom til núverandi samninga.

Hv. þm. vildi halda því fram, að það hefði verið óeðlilegt hjá samninganefndinni að taka til greina kröfur útvegsmanna um hækkaðan veiðarfærakostnað. Hann sagði að vísu, að nokkur hækkun veiðarfærakostnaðar hefði orðið á línuveiðum, en hins vegar lækkun á veiðarfærakostnaði við netjaveiðar vegna tilkomu nýs efnis, sem keypt væri nú frá öðru landi en áður, sem gerði það að verkum, að netin væru ódýrari og skal ég ekki deila um það. En hitt vildi ég segja og það ætti hann líka vel að vita, að þessir samningar, sem fara fram á hverju ári, eru raunverulega ekki samningar um kostnað útgerðarinnar í heild, heldur eru þeir samanburður á kostnaði línubátsútgerðar frá ári til árs. Það er línubáturinn, sem er lagður til grundvallar, en ekki netjabáturinn. Ef heildarkostnaðurinn væri tekinn og farið út í að rannsaka hann og meta allan frá grunni, þá er það verk, sem væri mjög erfitt að vinna. Hitt er miklu þægilegra og auðveldara, að bera saman, hvað kostnaðarliðir línubátsins hafa breytzt frá ári til árs, og það er einmitt það, sem er gert. Frá því sjónarmiði mátti hugsa sér að taka til greina þá hækkun, sem orðið hafði á veiðarfærum línubátsins, vegna þess að það er línubátsgrundvöllurinn, sem lagður er þarna til grundvallar. — En því vildi ég svo bæta við, að þessi krafa útgerðarmanna um hækkaðan veiðarfærakostnað var ekki tekin til greina.

Þá vildi hv. þm. halda því fram líka, að útflutningsverð á fiski hefði hækkað. Ég veit nú ekki nógu nákvæmlega kannske um það, hvernig þetta útflutningsverð, sem hann er að tala um, hafi hækkað og hvort sú hækkun er föst. Það, sem hefur skeð í því máli, er það, að orðið hefur nokkur hækkun í bili á útflutningi á hraðfrystum fiski til Ameríku. Hvað þessi hækkun stendur lengi eða hvort hún er varanleg og óhætt er að reikna með henni til frambúðar, það þori ég ekki að segja að minnsta kosti. Má vera, að hann þori það. En að reikna með henni á þessu stigi málsins í upphafi ársins, ætla ég að sé mjög óvarlegt og var heldur ekki gert.

Þá taldi hann, að hraðfrystihúsin hefðu haft betri afkomu í ár heldur en þau hafa haft undanfarin ár og er það að vísu rétt hvað snertir stærstu húsin, eins og ég hef margtekið fram í þessum umr. En afkoman hjá minni frystihúsunum hefur ekki orðið það miklu betri en áður, að ekki yrði að taka tillit til þeirrar aukningar kostnaðarliða, sem þau hafa orðið fyrir á árinu. Og það var gert með því að taka upp smáfiskbæturnar eða auka þær frá því, sem þær voru áður og reynt á þann hátt að koma málum svo fyrir, að smærri húsin nytu þess í ríkara mæli en þau stóru, sem hafa haft gott ár, bæði vegna aukins vinnslumagns og eins vegna þess, að þau hafa tekið í notkun fullkomnari vélar til þess að vinna með.

Hv. þm. sagði, að það væri að vísu enginn vandi að gera góða samninga við útvegsmenn og hækka bætur til þeirra, þegar fallizt væri á allar þeirra kröfur. Þetta er nú sagt, ég held viljandi hjá hv. þm., ranglega eða villandi frá, vegna þess að hann veit, að um þriðjungurinn af kröfum útvegsmanna var ekki tekinn til greina. Og samkomulag var um það, að langsamlega mestur hlutinn af þeim kröfum útvegsmanna, sem samþykktar voru, væri eðlilegur og sjálfsagður, en aðeins mjög lítill hluti, sem ágreiningur var um, eða kringum 10% af heildarhækkuninni. Og það getur náttúrlega alltaf verið matsatriði, hvar þar eigi að nema staðar. En til þess að ná samkomulaginu var fallizt á þessa liði, sem voru annar 10 þús. kr. og hinn 3.390 kr. á bátinn af 181 þús. kr. kröfu útvegsmanna og það getur hann á engan veg kallað, að fallizt hafi verið á allar óskir útvegsmanna, sem þeir hafi borið fram.

En annars gekk það eins og rauður þráður í gegn hjá hv. þm., að þeir menn, sem nú stóðu að samningagerðinni, hefðu ekki verið nærri eins færir til þess að gera það og þeir hefðu verið, sem að því unnu um síðustu áramót og verður það ekki skilið nema á einn veg vitaskuld, þar sem nefndin, sem samningana gerði nú, var nákvæmlega sú sama og sú, sem síðast vann að þeim, að þá var enginn munur á því fólki, sem að þessari samningagerð vann, annar en sá, að í annað skiptið stjórnaði hann þeim, en í hitt skiptið ég. Og fer þá ekki á milli mála hans álit á því, að ég sé miklu óhæfari til þess að standa fyrir þessum samningum en hann. En ég vil ekki gera honum það til geðs að vera hér að fara í neinn mannjöfnuð um þau mál. Ég hef átt ýmislegt við útgerðarmál og kannske lengur en hann, en það kann vel að vera, að hann sé mjög fær og betri í þeim efnum en ég, en um það vil ég ekki ræða. En þetta getur ekki þýtt annað en það, að hann hafi þarna verið að upphefja sjálfan sig á minn kostnað og ég get út af fyrir sig látið mig það ósköp litlu skipta.

Hv. þm. minntist svo hér á skiptaverðið til sjómannanna og taldi, að ég hefði sagt frá því ónákvæmt og á vilhallan hátt. En ég sagði alveg nákvæmlega frá því, eins og hlutirnir gerðust. Samkomulagið, sem gert var aðfaranótt 3. jan. s. l., var gert án þess, að við mig væri um það talað þá, og ég sagði strax, þegar ég sá það, að ef sá skilningur ætti að leggjast í fyrirvarann, sem þar kom fram, að ekki mætti láta sömu aðgerðir í efnahagsmálum ganga yfir þennan hóp manna eins og aðra, þá væri ég á móti þessu, en að öðru leyti gæti ég á þennan samning fallizt. Það kom þá upp úr kafinu strax, að samninganefndarmenn sjómanna höfðu skilið þetta misjafnlega og annar helmingur nefndarinnar, eða Alþfl.mennirnir, lagði í það sama skilning og ég, en flokksbræður hv. 2. þm. S-M. lögðu í það annan skilning og hafa síðan leitazt við að koma því til leiðar, að sjómannafélögin samþykktu ekki samninginn nema með þeim skilningi, sem þeir lögðu í málið, en þó að merkilegt sé, án árangurs.

Þá sagði hv. þm., að kjarasamningarnir, sem gerðir voru í Vestmannaeyjum, hafi komið í veg fyrir, að kaup eða skiptaverð til sjómanna yrði lækkað frá því, sem um var samið hér í Reykjavík í þessum samningi, sem dags. var 3. jan. En þar segja mér kunnugir menn, að komi miklu fleira til greina og að meiri hlutinn af þeim leiðréttingum, sem í Vestmannaeyjum fengust, hafi verið til samræmis við aðra kjarasamninga, sem hafa verið í gildi við Faxaflóa, t. d. í Keflavík, um langan tíma.

Ég held, að ég hafi þá svarað því flestu, sem kom fram í ræðum þeirra hv. þm. S-M. En ég segi eins og áður við hv. 1. þm. S-M. við hv. 2. þm. S-M., að ef eitthvað skyldi þar vera eftir ósvarað, þá lætur hann mig væntanlega vita um það.

Það, sem var að bögglast fyrir brjóstinu á honum, hv. 2. þm. S-M., nú síðast, voru vinnubrögðin, þessi háttur, sem væri hafður á meðferð mála; fyrst væru útgjöldin ákveðin stórkostleg fyrir útflutningssjóð, án þess að um leið væri séð fyrir tekjuöflun. Hvaðan koma tekjurnar? Á að víkja sér undan að afla þeirra? Ég hef áður skýrt frá stefnu ríkisstj. í þeim málum. Hún mun leitast við og leita eftir því við hv. alþm., að þessi tekjuþörf útflutningssjóðs verði jöfnuð með niðurskurði á gjaldahlið fjárlaganna og lagfæringu á tekjuhliðinni í samræmi við þær upplýsingar, sem beztar liggja fyrir og telur, að á þann hátt megi sjá fyrir þörfum útflutningssjóðs a. m. k. að mestu, án þess að til nýrrar skattheimtu þurfi að grípa. Það verður svo að vera á valdi hv. alþm., hvernig þeir vilja taka þessu eða hvort þeir vilja fara aðrar leiðir.

Hv. 2. þm. S-M. sagði, að ríkisstj. skammaðist sín fyrir samninginn, vegna þess að hún vildi ekki viðurkenna, að hún hefði bætt hag útgerðarinnar. Ég hef aldrei látið það í ljós, að ég færi neitt hjá mér eða skammaðist mín fyrir það að hafa gert þennan samning; þvert á móti, ég tel, að samningurinn sé sanngjarn og góður. En að aðstaða útvegsins sé bætt um 60–70 millj. kr., eins og hv. þm. hefur hér nefnt, það er alveg fráleitt og út í hött og hann getur ekki fært að því nokkur rök. Það hefur verið leitazt við í þessari samningagerð að mæta þeirri nettóhækkun, sem orðið hefur á útgjöldum útvegsmanna og fiskvinnslustöðvanna, og annað ekki. Hitt má náttúrlega alltaf deila um, þegar um vafaatriði er að ræða, hvort eigi að taka smákröfu til greina eða ekki, en það er ekkert, sem úrslitum veldur.

Ef afkoma útvegsins verður betri með þessum samningum en þeim fyrri, þá harma ég það út af fyrir sig ekki, því að útgerðin þarf vissulega á auknum tekjum að halda. En sú hækkun, sem á kann að hafa orðið nú, ef einhver er, er áreiðanlega svo lítil, að hún veldur ekki neinum úrslitum og þessi tala, sem ég nefndi áðan og hv. 2. þm. S-M. þar áður, er að mínu viti alveg fráleit.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði hér í gær og sagði sem sitt álit, að hann hefði talið réttara, að allt væri leyst samtímis og ég er honum fyllilega sammála um þetta, enda féllst hann á, að það hefði verið erfitt, að maður ekki segi ómögulegt, að koma með allar þessar ráðstafanir í einu, svo naumur tími sem verið hefur til undirbúnings og svo mikið sem þurfti á þessum stutta tíma að gera og þar til viðbótar að koma skipunum til veiða. Ef það hefði átt að bíða eftir því að afgreiða í einu fjárlög, þessi útflutningssjóðslög og lögin um niðurfærslu verðlags og kaups, þá er ég á því, að það liðu nokkrar vikur, áður en það allt saman væri komið í höfn. Þess vegna er ekki um annað að gera, en taka þetta í þeirri röð, sem það hefur verið tekið, til þess að útgerðin geti haldið áfram starfsemi og hv. alþm. gefist svo kostur á að taka afstöðu til málsins eftir því, sem hvert mál verður lagt fyrir og kemur til afgreiðslu.

Um togaraútgerðina á Austfjörðum og afkomu hennar skal ég ekki vera margorður. Það er nú raunar í fyrsta skipti, sem ég heyri það hjá hv. 2. þm. S-M., að það sé tæplega gerlegt, að maður ekki segi ómögulegt, að gera út togara til karfaveiða við Ameríkustrendur frá Austfjörðum, þó að siglingatíminn sé nokkru lengri til þeirra hafna, en til hafnanna á Suðvestur- og Vesturlandi og Norðurlandi, því að Akureyrartogararnir hafa nærfellt samfellt stundað þessar veiðar. Ég tel, að sú vegalengd valdi ekki neinum úrslitum í þessu efni og að á meðan veiðitíminn hefur verið jafnstuttur og hann hefur verið fyrir vestan, þ. e. a. s. 4–5 dagar, sem tekið hefur að fylla togarann, þá sé engin frágangssök að stunda þessar veiðar frá Austfjörðum vegna þess, hve siglingatíminn sé miklu lengri, en til hafnanna vestan- og norðanlands. Það út af fyrir sig á ekki að valda því, að afkoma, svo að ég segi það beint út, Seyðisfjarðartogarans hefur orðið eins léleg og raun ber vitni, en sá togari hefur nú legið bundinn við bryggju í rúman mánuð, eða síðan um miðjan desember s. l., vegna þess að skuldir hafa hlaðizt á hann svo miklar, að hann hefur ekki komizt út. Mér er sagt, að sú skuldasöfnun þann tiltölulega stutta tíma, sem hann hefur verið í eigu núverandi eigenda, sé hátt á aðra eða 2 millj. kr., eða kannske enn miklu meira, svo að ekki hefur það verið nein auðsöfnunarstarfsemi, sem þar hefur átt sér stað. Það er nú af hálfu ríkisstj. gerð tilraun til þess að kanna, hvernig það mál mætti leysa, og er í athugun, en ekki fyllilega frá því gengið.

Hv. 2. þm. S-M. kom síðan inn á þessa 800 þús. kr. greiðslu, sem ríkissjóður hefur innt af höndum fyrir togarann Brimnes á Norðfirði, og vildi telja það mjög eðlilegt, þar sem svipuð eða sama fyrirgreiðsla hefði verið veitt fjöldamörgum togurum áður. En ég vil bara benda þessum hv. þm. á, af hvaða tilefni athugasemd hv. 1. þm. Reykv. kom hér fram. Hún kom fram vegna þess, að það var verið að halda því fram, að afkoma togaranna væri nú svo miklu betri en áður, að það væri ekkert sambærilegt. Þá kemur vitaskuld upp sú spurning, af hverju þarf nú, eftir að afkoma þessara togara hefur batnað svo mjög, eins og af er látið, að greiða úr ríkissjóði upphæð eins og þessa. Það fer ekkert á milli mála og hefur ekkert verið um deilt, að ýmsir togarar hafa fengið til bráðabirgða greidd úr ríkissjóði lán, sem á þá hafa fallið erlendis eða fengið aðstoð til þess að greiða lán, sem á hafa fallið erlendis á undanförnum árum, á meðan togararnir töpuðu. En að þessu sé haldið áfram nú, þegar hagur togaraútgerðarinnar hefur sannanlega batnað — og um það eru vitnisburðir ekkert ósamhljóða, að á árinu 1958 hefur hagur togaraútgerðarinnar batnað mikið frá því, sem hann hefur verið áður, þá skuli einnig þurfa að halda áfram þessum greiðslum úr ríkissjóði, það var það, sem mér skilst að hafi komið mönnum undarlega fyrir sjónir.

Ég held, að þó að þetta mál, sem hér er til umr., hafi borið að eins og raun ber vitni, þá sé út af fyrir sig ekkert við það að athuga, a. m. k. taldi ríkisstj. ekki unnt að gera það öðruvísi. Ef átti að bíða eftir því með samningana við útvegsmenn, að þessu væri öllu saman kippt í lag, þá var það sama og stöðvun útgerðarinnar. Nú, þegar búið er að gera samningana, þá er eðlilegt, að hv. Alþingi taki afstöðu til þess, hvort það á að fallast á þá eða ekki. Og þegar búið er að fallast á samningana, þá er tekjuþörf útflutningssjóðs ákveðin. Þá er að finna þær tekjur á móti, sem hann þarf að fá.

Ég hef fyrir mitt leyti lýst minni skoðun á því, hvernig ég telji að eðlilegt væri að afla þeirra tekna og eftir því mun verða leitað. Mér fannst á hv. 2. þm. S-M., að hann teldi þá aðferð ekkert óeðlilega og gæti vel hugsað sér að fara þá leið að einhverju leyti, þó að hins vegar aðrir hafi látið í ljós um það nokkrar efasemdir, hvort hún væri fær eða ekki. En úr því verður að fást skorið og það gerir hv. Alþingi, um leið og fjárlögin verða afgreidd. Ef það skyldi þá sýna sig, að ekki fáist það fé til þess að standa undir gjöldum útflutningssjóðs, sem nauðsynlegt er, þá verður að leita á annan skjá, því að teknanna verður að afla, um það þýðir ekkert að deila.

Það liggur nokkurn veginn alveg ljóst fyrir, hvað þessar tekjur þurfa að vera miklar, svo að menn geti ekki skotið sér undan því þess vegna, að þeir viti ekki, hversu miklar þær séu. En fáist þær ekki á einn háttinn, þá verða þær að fást á annan. Og þá er komið inn á þær brautir, sem ég tel að séu óheillavænlegar, ef enn á ný vegna útgjalda útflutningssjóðs þarf að grípa til nýrrar skattlagningar. Það vill þessi ríkisstj., sem nú situr forðast, og hún væntir að fá fjárlagaafgreiðsluna á þann hátt, að hjá því verði komizt, og mun leita til hv. alþm. um að aðstoða í því máli.