27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af því, sem hæstv. forsrh. tók fram.

Ég bað um nokkrar upplýsingar. Ég spurði t. d. fyrst, hvort það væri ekki áreiðanlegt, að ætlunin væri, að útflutningsuppbætur til landbúnaðarins yrðu reiknaðar á sama hátt og verið hefur, þannig að öll hlunnindi bátaútvegsins á þorskveiðum væru reiknuð inn í útflutningsuppbótaprósentu, sem landbúnaðurinn byggi við. Hæstv. forsrh. svaraði þessu þannig, að í meginatriðum væri ekki ætlunin að breyta uppbótum til landbúnaðarins. Þessi svör virðast mér ekki nægilega skýr af hendi hæstv. ráðh., en þetta mál er sjálfsagt að athuga gaumgæfilega í þeirri n., sem um þetta fjallar, og skoða þá algerlega, hvað í því orðalagi felst, sem í frv. er viðhaft um þetta. En þetta verður vitaskuld að vera alveg skýrt, hvað átt er við með frvgr. Ég vil líta svo á, að hún þýði í raun og veru, að þetta eigi að vera nákvæmlega eins og það hefur verið, en þetta þarf þó skoðunar við. (Gripið fram í.) Já, að sjálfsögðu. Ég meina bara eftir sömu reglu og áður. Ég vil mega líta svo á og verður það þá að sjálfsögðu athugað gaumgæfilega í n. með orðalagið.

Þá beindi ég nokkrum spurningum til hæstv. ráðh. í tilefni af því, að nú væri í fyrsta skipti í samningunum við útgerðina ákveðið, að grunnlaunahækkanir og vísitöluhækkanir skuli valda auknum uppbótum til útgerðarinnar í samræmi við þær hækkanir. Hæstv. forsrh. svaraði ekki þeim spurningum, sem ég beindi til hans í þessu sambandi, en upplýsti önnur efni. Hann sagði, að í eldri samningum hefðu verið einhver endurskoðunarákvæði, en þau endurskoðunarákvæði koma ekki þessu máli við eða þeim spurningum, sem ég bar fram, vegna þess að þau voru allt öðruvísi.

Fyrrv. hæstv. sjútvmrh. hefur gefið mér þær upplýsingar, að í gömlu samningunum hafi aðeins verið sá áskilnaður í þessu tilliti, að lækka mætti bæturnar, ef afurðaverð hækkaði á erlendum markaði, en önnur endurskoðunarákvæði ekki. Þess vegna kemur þetta ekkert þeim spurningum við, sem ég beindi til hæstv. forsrh., og það, sem hann upplýsti um fyrirvara í eldri samningum, snertir þetta mál ekkert, eins og það liggur fyrir núna.

Í því sambandi sagði hæstv. forsrh. líka, að breyt. hefðu verið gerðar á milli þinga í þessum efnum og nefndi um það dæmi, og kemur það ekki heldur því við, sem ég spurði um, og geri ég ráð fyrir, að hv. 2. þm. S-M. hljóti að koma inn á það, þar sem þeim atriðum var til hans beint.

En það, sem ég spurði um, var í sambandi við þann nýja fyrirvara, sem nú er í fyrsta skipti í samningunum og forsrh. kom ekki inn á, svaraði ekki. Og spurningarnar voru þessar:

Í fyrsta lagi: Hvaða gildi hefur þessi yfirlýsing um endurskoðun á uppbótunum í samræmi við grunnkaupshækkanir og vísitöluhækkanir? Ég spurði: Álítur hæstv. forsrh. þetta skuldbindandi, lagalega skuldbindingu fyrir ríkið, þetta loforð stjórnarinnar í bréfunum? Ekkert svar. Við því var ekkert svar.

Ég spurði einnig: Ef stjórnin liti svo á eða þannig verður metið af mönnum, sem á það bera fullkomið skyn, að svo sé, hvernig er þá hægt að komast hjá því að leita þingssamþykktar fyrir slíkri skuldbindingu? Ekkert svar.

Þá spurði ég: Hvernig ætlar ríkisstj. að fara að, þegar að þessu kann að koma, að grunnlaunahækkanir verða eða vísitöluhækkanir, og að þessari endurskoðun kæmi sem hefur verið heitið í þessum bréfum í samræmi við hækkanir? Ekkert svar.

Loks spurði ég: Ef hér er ekki um lagalega skuldbindingu fyrir ríkið að ræða, hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði í samningunum þá að dómi hæstv. forsrh.? Ekkert svar.

Þessum spurningum, sem ég bar fram, hefur sem sagt alls ekki verið svarað af hæstv. forsrh. Og þó er hér ekki um neitt hégómamál að ræða og ekki mál, sem hægt er að vísa í nein fyrri fordæmi um, vegna þess að þau eru ekki til um þessa tilteknu þýðingarmiklu meginreglu. Og það þýðir ekkert að vera að reyna að komast undan með því að slá þessu út í allt aðra sálma. Þetta eiga þingmenn rétt á að fá upplýst, hvernig hæstv. ríkisstj. lítur á þetta og hvernig þetta ber að skoða lagalega séð, hvaða skuldbindingar hafi hér raunverulega verið teknar. Og mér þykir nú satt að segja skörin færast upp í bekkinn, þegar hæstv. forsrh., eftir að hafa gengið algerlega fram hjá þessu þýðingarmikla atriði, fór hálfgert að snupra mig fyrir það að vera að fetta fingur út í þetta og vísaði í því sambandi í þessi dæmi um breyt. á eldri samningum á milli þinga, sem ekkert eiga skylt við þessa nýju meginreglu, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið loforð um í bréfunum. Og ég álít, að þm. eigi fullan rétt á því að fá að vita skoðun hæstv. forsrh. á þessu máli, hvernig þetta sé raunverulega vaxið, hvaða skuldbindingar hafa verið teknar og hversu skuldbindandi þetta sé fyrir ríkið.

Þá spurði ég hæstv. forsrh. nokkru nánar um, en hafði áður verið gert, hvort gert hefði verið ráð fyrir eða búið væri að fá samtök um tekjuöflun á móti þeim gífurlegu útgjöldum, sem í þessu frv. felast og þá m. a. í sambandi við bollaleggingar hæstv. forsrh. um tilteknar leiðir í því efni.

Ég spurði í fyrsta lagi um það, hvort það væri ákveðin stefna að taka 6 millj. dollara lánið og hvort líkur væru til, að það fengist, og ég spurði vegna þess, að í öllum umr. um málið reiknar hæstv. forsrh. alveg hiklaust með auknum tolltekjum vegna lántökunnar.

Þessu svarar hæstv. forsrh. núna á þá lund, sem mér kom á óvart, að það væri ekkert ákveðið, hvort leitað yrði eftir þessu láni, og því síður þá náttúrlega nokkuð vitað um það, hvort úr lántökunni yrði. Mér kom þetta á óvart, vegna þess að fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafði leitað eftir þessu láni með samþykki

Alþfl., hann átti þátt í því eins og hinir flokkarnir og þetta lán var hugsað til þess að renna í ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð, til raforkuáætlunarinnar og til hafnargerða. Þá voru allir fyrrv. stjórnarflokkar sammála um að fara fram á þetta. Og undirtektir í því atriði vestra voru býsna góðar, þó að það væri ekki komið á neitt lokastig.

Nú vil ég spyrjast fyrir um það, því að það er náttúrlega nauðsynlegt að fá að víta það sem allra fyrst alveg ákveðið, hvort ríkisstj. ætlar að halda þessum lánssamningum áfram eða hvort hún ætlar að hætta við þetta. Og ef hún ætlar að hætta við þetta, þá væri fróðlegt að vita hvers vegna, hvað hefur komið fyrir, ef kæmi til mála að hætta við að reyna að útvega þetta fé. Það þarf meiri skýringar á því en þær, sem hæstv. forsrh. lét skína í, að það hefðu fundizt einhverjir fiskar afgangs frá s. l. ári. Málið er miklu stærra en það.

Hér er ekki aðeins um það að ræða, hvað eigi að áætla tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs, heldur kemur þá upp spurningin, ef hik er á mönnum við að afla þessa lánsfjár: Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir að afla fjár til ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs, í raforkuáætlunina og í hafnargerðir, ef þeir ætla að hætta við að taka lánið? Lántakan var ekki fyrst og fremst hugsuð til þess að auka tekjur útflutningssjóðs og auka tekjur ríkissjóðs, þó að það hefði vitanlega orðið mjög í leiðinni, heldur vegna þessara þýðingarmiklu mála. Ég fyrir mitt leyti vil eindregið vænta þess, að hæstv. ríkisstj. haldi áfram með þessa lántöku, haldi áfram, þar sem fyrrv. stjórn hafði komið málinu og ég vil ekki trúa því, að annað verði ofan á, en það verði gert, enda hefur hæstv. forsrh. alltaf reiknað með því í sínum áætlunum, að lánið verði tekið. Við sjáum auðvitað glöggt þá þörf, sem fyrir þetta fé er, í sambandi við þær framkvæmdir, sem áttu að njóta lánsfjárins. En þetta mál virðist sem sagt vera meira á reiki, en ég hafði haldið.

Varðandi aðrar fyrirætlanir hæstv. ráðh. sagði hann, að það væri ekki búið að semja neitt um niðurskurðinn, sem hann hefur áhuga fyrir á fjárl. og það væri ekki búið að semja neitt um það, hvernig greiðsluafgangurinn skyldi notaður, það hefði ekki unnizt tími til þess. Ég fullyrði, að sú ástæða, sem kom fram hjá þessum hæstv. ráðh. og gægðist fram líka hjá hv. 1. þm. Reykv. í gær eða hvenær það nú var, að ekki hafi unnizt tími til þess að ganga úr skugga um, hvort stjórnarflokkarnir væru sammála um niðurskurðinn og sammála um að nota greiðsluafganginn í hallann, sem þeir eru að efna til, — ég fullyrði, að þetta er hrein yfirskinsástæða. Þeir hafa haft nógan tíma til þess að ganga úr skugga um það, hvort þeir væru sammála um þetta eða ekki og samgangur þeirra hefur verið það mikill, að þeir hefðu vel getað verið búnir að komast að niðurstöðu um þetta og ég geri fastlega ráð fyrir því, að þeir viti alveg upp á hár, hvor um sig, hvað þeir ætla sér í þessu. En það, sem hér er að gerast, er bara það, að þeir vilja láta á þessu stigi eins og þeir viti það ekki. Þeir vita, að með afgreiðslu þessara mála í heild eru þeir að stefna efnahagsmálunum út í kviksyndi og þeir vilja gefa okkur þetta inn smátt og smátt, en ekki allt í einu og sömuleiðis þjóðinni. Þegar einn liðurinn kemur, þá er sagt: Ja, það eru nú kannske til einhver ráð, við eigum eftir að athuga það, en þau eru kannske til. — Og svona verður haldið áfram með eitt atriðið eftir annað, þangað til í lokin, að þeir standa vitanlega frammi fyrir því, að þeir hafa eftir alveg ákveðinni áætlun hleypt þessu öllu út í þann stórfelldasta hallarekstur, sem nokkru sinni hefur verið efnt til á Íslandi. Þannig fer þetta sennilegast að lokum, nema því aðeins að mennirnir söðli algerlega um frá því, sem nú skín í. En það er vitanlega ekkert nema yfirskinsástæða, að þeir hafi ekki haft tíma og viti því ekki, hvað þeir eru að fara. Þeir vita það vel.

En það er hentugt að láta svo á þessu stigi eins og menn viti þetta ekki glöggt og það séu þarna svo og svo miklir möguleikar, ef vel tækist um samkomulag. Það er náttúrlega ekki nema vorkunn í sjálfu sér, þó að þeir vilji fresta því í lengstu lög að viðurkenna, að þeir geti ekki komið sér saman um neitt annað en að stefna þessu út í ófæru, og vilji í lengstu lög láta skina í, að þeir hafi kannske í pokahorninu einhver úrræði, ef þeir geti komið sér saman. Þetta er nú ekki nema mannlegt, að menn vilji draga það sem lengst að upplýsa þetta í heild.

Annars er þetta allt saman, jafnframt því sem það er náttúrlega hörmulegt, hvernig þetta horfir, að verða dálitið skoplegt líka í aðra röndina, eins og margir alvarlegir hlutir eru, því að hlutirnir hafa oftast tvær hliðar. En það skoplega við þetta er ekki sízt það, að þeir eru alls staðar að finna einhverja afganga eftir fyrrv. stjórn, sem þeir halda að þeir geti fleytt sér á um tíma, á meðan kosið verði tvisvar og komið á nýrri stjórnarskrárbreytingu, og nú síðast hafa þeir fundið fisk. Þeir voru áður búnir að finna afgang hjá ríkissjóði; þeir voru að leita að vanskilakröfum, en fundu afgang. Það hljóta að hafa orðið hræðileg vonbrigði á vissan hátt. En þó var það náttúrlega bót í raunum, að þessi afgangur var þá þénanlegur til þess að geta dragnazt eitthvað áfram á honum, borga undir hlassið. Að því leyti var hann þénanlegur, en að hinu leytinu leiður, að vanskilakröfurnar, sem menn voru farnir að tala um fyrir fram, fundust ekkl, en þess í stað afgangurinn. Nú skilst mér, að það áfall hafi orðið, að þeir hafi líka fundið afgang í útflutningssjóði. Mér heyrðist ekki betur áðan en hæstv. forsrh. væri að tala um það. Og loks hafa þeir fundið afgangs fisk, sem líklegt væri að þeir gætu lifað alveg á næsta ár, gætu hætt við að taka nokkurt lán til þessara framkvæmda, sem fyrirhugaðar hafa verið, og fleytt öllu með því að éta út allt, hverju nafni sem nefnist, bæði sjóði og vörur og allt, sem þeir finna. Það á að éta út til þess að halda þessu fyrirtæki gangandi.

Það er sú stefna, sem þjóðinni er boðuð.

Alþfl. áleit í desember, að það væri hyggilegt og rétt að fara fram á þetta lán, sem stungið hefur verið upp á og ég trúi því ekki, að það sé meiningin að hætta við þá fyrirætlun, sem út af fyrir sig var skynsamleg og það hljóta þá að vera einhverjar kyndugar ástæður fyrir því, ef á að breyta til í því efni.

Loks var hæstv. forsrh. að tala um, að það mundi auka svo mikið verðbólguna að lána til íbúða, að það væri ekki hægt. Ég held, að það megi nú um það deila fullkomlega, hversu mikið það eykur verðbólguna að lána fé til íbúða, ef þess fjár er raunverulega aflað, en ekki sett út með verðbólguútlánum, ef það fé er raunverulega til. En heldur hæstv. ráðh., að það muni ekki hafa nein áhrif á verðbólguna, það plan, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa í þessum málum, ef ekki verður gerbreyting á hennar fyrirætlunum? En það er bezt að hafa alltaf fyrirvara um það, því að niðurstaðan kemur náttúrlega fram að lokum, sú áætlun að stefna að þeim stórfelldasta hallarekstri, sem nokkurn tíma hefur verið stefnt að hér, vitandi vits. Ég er hræddur um, að það hafi meiri áhrif í verðbólguátt en hitt, þó að 25 millj. kr., sem eru raunverulega til, verði varið til þess að lána til íbúðabygginga.