30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til breyt. á l. um útflutningssjóð, felur í rauninni aðeins það í sér að veita ríkisstj. heimild til þess að gera það lögum samkvæmt, sem hún er þegar búin að gera. Um aðrar breytingar er hér raunverulega ekki að ræða nema að því einu leyti, sem nú er hér flutt sérstök brtt. um, að leggja skuli á sérstakan bílaskatt, sem renna skal til sjóðsins.

Ég tel fyrir mitt leyti, eins og ég gat um strax við 1. umr. þessa máls, sem hér var haldin fyrir löngu, að uppbyggingin á þessu frv. sé í eðli sínu óeðlileg og röng. Lögin um útflutningssjóð voru þannig upp byggð, að þar var gert ráð fyrir tilteknum bótagreiðslum eða útgjöldum, sem þessi sjóður mundi hafa með höndum og auk þess var svo hinn liður þessarar löggjafar tekjustofnar sjóðsins. Og ég álít, að um leið og gert er ráð fyrir því að breyta þeim kaflanum, sem snýr að útgjöldum hjá sjóðnum, þá á líka um leið að breyta hinum kafla löggjafarinnar, sem snýr að tekjuöflun fyrir sjóðinn. En enn virðist vera gert ráð fyrir því, að aðeins örlítill hluti af tekjustofnunum eigi að takast hér inn í þessa löggjöf.

Nú er það svo, að nýlega hefur verið ákveðið hér á hv. Alþingi, að ríkissjóður skuli greiða útflutningssjóði tiltekna fjárhæð, eða 152,1 millj. kr., á þessu ári, af því að sýnilegt er, að sjóðinn vantar a. m. k. þessa fjárhæð, til þess að hann geti staðið við sínar skuldbindingar og vantar þó ábyggilega nokkuð upp á. Það hefði því verið rétt að flytja hér einmitt við þetta frv. brtt. um að ákveða í lögunum um útflutningssjóð, að ríkið skuli greiða þessa fjárhæð til sjóðsins og þá vitanlega einnig að ákveða þar eðlilega gjalddaga á. Ég vil í þessu efni minna á það, að í gildandi lögum um útflutningssjóð var þessu háttað á nokkuð áþekkan hátt, því að þá var búið þannig um málin, að gert var ráð fyrir því, að útflutningssjóður ætti að greiða ríkissjóði tiltekna fjárupphæð af þeim tekjum, sem útflutningssjóði voru tryggðar. Og í 48. gr. l. um útflutningssjóð var tekið fram, að útflutningssjóður skyldi greiða ríkissjóði þessa fjárhæð og með alveg tilteknum hætti. Það átti að greiða ríkissjóði 1/12 af þessari upphæð mánaðarlega og það var bundið með lögum. Þegar dæmið snýst nú við, að nú er það ríkissjóður, sem á að greiða útflutningssjóði tiltekna fjárhæð og það er bundið með lögum, að útflutningssjóður á að standa skil á tilteknum greiðslum, þá er eðlilegt að setja hér inn í lögin um útflutningssjóð þessar tekjur handa sjóðnum, sem nú er gert ráð fyrir á fjárl. að ríkið verði að inna af höndum og það er líka eðlilegt að ákveða þar tiltekna gjalddaga á, eins og þótti meðan útflutningssjóður var að greiða ríkissjóði.

Ég álít því, að hér eigi að koma fram brtt., sem ætti að samþykkjast inn í þessi lög, til þess að lögin um útflutningssjóð verði þannig heilleg og eðlileg, ekki aðeins löggjöf bara um útgjaldahliðina, heldur einnig bundið þar, hvað ríkissjóður á að greiða sjóðnum í tekjur.

En önnur atriði í sambandi við þetta frv., eins og það liggur fyrir, þessar heimildir, eru í sjálfu sér ákaflega lítils virði, einkum og sérstaklega þegar búið er nú að semja um öll þessi ákvæði eða svo til öll þessi ákvæði, sem hér er beðið um heimild fyrir. Ég álít, að það sé að vísu alveg sjálfsagt að festa það í lög og samþykkja það að veita ríkisstj. þessa heimild. Það verður að standa við það, sem þegar hefur verið gert í þessum efnum. Það er vitanlega hægt að hafa uppi ágreining um það, hvort hér hafi verið samið á hagstæðasta hátt eða ekki eða hvort samningurinn er hagstæður, það er annað mál, en það verður að sjálfsögðu að standa við það, sem búið er að semja um í þessum efnum og að því leyti til, sem frv. fjallar um það, er ég því samþykkur.

Í sambandi við afgreiðslu þessa máls hefur nokkrum sinnum verið á það minnzt, að það mundi verða mjög hæpið, að útflutningssjóður gæti raunverulega staðið við þær skuldbindingar, sem hann hefur þegar tekið á sig. Hér er því nú haldið fram af meiri hluta þeirrar nefndar, sem hefur lagt fram nál. hér í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að það sé búið að tryggja sjóðnum þær tekjur, sem hann muni þurfa og hann ætti því að geta staðið í skilum. Ég fyrir mitt leyti dreg þetta mjög í efa eða hef réttara sagt ekki trú á því, að sjóðurinn hafi nægilegar tekjur til þess að standa undir sínum skuldbindingum, eins og ég hef minnzt á áður. Og hvaða ástæður hef ég fyrir þessari skoðun minni, að sjóðurinn muni ekki hafa tekjur á móti umsömdum útgjöldum? Það er í fyrsta lagi það, að ekki er um að villast, að fjárhagur sjóðsins áður var mjög veikur og það stóð alltaf heldur upp á sjóðinn með að hafa til tekjur á móti öllum útgjöldum, en auk þess er svo það, að nú hefur sjóðurinn, eftir því sem fulltrúar ríkisstj. halda hér fram, tekið á sig nýjar útgjaldaskuldbindingar, sem nema 199 millj. kr. á þessu ári, eða 83 millj. kr. í auknar bætur til framleiðslunnar og 116 millj. kr. í auknar niðurgreiðslur. Í þessari fjárhæð er þó ekki talin alveg nýlega samþykkt útgjaldaupphæð, sem mun nema einum 6 millj. kr. a. m. k., en það var sú ákvörðun Alþingis í gærdag að ákveða, að greiða skyldi niður verð á innfluttum áburði og það af tekjum útflutningssjóðs. Er þá alveg sýnilegt, þó að maður miði við áætlanir ríkisstj., að þá er hér búið að hnýta sjóðnum bagga upp á a. m. k. 205 millj. kr.

Ég hef áður bent á, að enn eru samningar eftir við útvegsmenn í sambandi við bætur vegna sumarsíldveiðanna og það getur enginn vafi verið á því, að bætur vegna sumarsíldveiða verða að hækka að allverulegu leyti og miklum mun meira, en gert er ráð fyrir í þessum áætlunum, sem hér liggja fyrir. Það er enginn vafi á því og ástæðurnar eru þessar: Þegar bæturnar voru ákveðnar vegna sumarsíldveiðanna á s. l. ári, var tekið tillit til þess, að þá lágu í landinu á gamla verðinu nær allar þær síldartunnur, sem þurfti að nota við síldarsöltun á s. l. ári. Þetta vitanlega skiptir saltendur mjög miklu máli og bætur til þeirra voru skornar niður með tilliti til þessa. Nú er þetta ekki fyrir hendi. Nú verður að reikna tunnurnar til útgjalda hjá saltendum á hinu nýja verði og hafa þær hækkað stórkostlega mikið frá því, sem áður var. Enn fremur er það, að á s. l. sumri var síldarverðið til bátanna ákveðið allmiklu lægra, en rétt hefði verið með tilliti til þeirra verðhækkana, sem þá skullu á og ástæðan var sú, að bátarnir fengu á því ári að halda vátryggingastyrk, sem raunverulega átti að falla niður á miðju árinu eða í maílok 1958, — að þeir fengu að halda þeim vátryggingastyrk út árið. Og með hliðsjón af því, að þeir fengu að halda þessum vátryggingastyrk, sem áður hafði verið um samið, út árið, var síldarverðið til bátanna ákveðið allmiklu lægra, en beinar tölur stóðu til um.

Af þessum ástæðum er alveg augljóst mál, að nú verður að hækka bæturnar í sambandi við sumarsíldveiðarnar allmiklum mun meira, en gert er ráð fyrir í þessum áætlunum. Um það getur því ekki verið að villast, að nýjar útgjaldaupphæðir hjá útflutningssjóði verða allmiklu meiri en 205 millj. kr. Ég hef sagt hér áður, að ég hygg, að þær geti varla orðið minni en 230–240 millj. kr., þegar allt verður þar talið.

Þá er eftir að athuga það, hvaða tekjur má fyllilega treysta á að útflutningssjóður fái á móti þessum nýju útgjöldum. Þar munar mest um framlag frá ríkissjóði, 152 millj. kr. En er þá full trygging fyrir því, að ríkissjóður geti greitt þetta framlag? Fjárl. hafa tvímælalaust verið afgr. með þeim hætti, að það verður að telja mjög ólíklegt, að ríkissjóður treysti sér til þess eða geti staðið við þessar skuldbindingar, enda fór það svo, að þegar hér átti að reyna á, hvort þeir, sem stóðu að fjárlagaafgreiðslunni með þessum hætti, tryðu þessu raunverulega sjálfir, með því t. d. að binda í lögum, að ríkissjóður skyldi verða að greiða þessa fjárhæð, 152 millj. kr., með jöfnum afborgunum til útflutningssjóðs mánaðarlega, eins og hann á vitanlega að standa við sínar fjárgreiðslur til framleiðenda, þá er slík till. hér á Alþingi felld. Þeir, sem standa að fjárlagaafgreiðslunni, treysta sér ekki til þess að binda ríkissjóð með lögum, þannig að hann skuli greiða útflutningssjóði þessa upphæð mánaðarlega. Og auðvitað á þetta í framkvæmdinni að fara þannig, að ríkissjóður reynir að sjá sjálfum sér farborða fram eftir árinu, fram á haustið, en það, sem hann ekki hefur handbært af fé, eða þær fjárgreiðslur, sem hann hefur þar lofað og hann vantar fé til þess að greiða, það verður allt látið mæða á útflutningssjóði. Og svo þegar kemur fram á haustið, þá vitanlega verður á nýjan leik komið til Alþingis og til þjóðarinnar og sagt: Ja, nú vantar framleiðslu landsmanna þessar fjárhæðir og nú verður að leggja á, á nýjan hátt eða lækka gengið eða einhvern veginn verður að bjarga framleiðslunni.

Ég held, að það sé enginn vafi á því, að það sé lítil trygging í því, að útflutningssjóður fái alla þessa fjárhæð á réttum tíma frá ríkissjóði, þessar 152 millj. kr. Ég held, að það verði að taka þá áætlun mjög varlega og játa, að það sé ekki verulega líklegt, eins og gengið var frá fjárl.

Nú eru þessar 152 millj. kr. aðeins hluti af því, sem búið er að taka á sig af nýjum skuldbindingum fyrir útflutningssjóð, — og hvað þá um hinn hlutann? Jú, þá er bent á það, að nú eigi útflutningssjóður að fá nýjan tekjustofn, sem er nýr bílaskattur, og ráðgert, að þessi nýi bílaskattur eigi að gefa á þessu ári hvorki meira né minna en 30,4 millj. kr. Ég hef ekki mikla trú á því, að þessar tekjur komi fram, og ég vil segja, að það hefði verið sæmra þá fyrir ríkissjóð og þá, sem að þessu standa, að treysta á þetta sjálfir og taka þetta í sinn sjóð og byggja á það þeim megin. Þegar maður athugar nánar, á hverju þetta er byggt, þá kemur í ljós, að það er gert ráð fyrir því að auka stórkostlega innflutning á svonefndum gjaldeyrislausum bílum. Það eru bílar, sem leyft er að flytja inn til landsins, án þess að veitt séu gjaldeyrisleyfi fyrir þeim eða viðkomandi aðilar sjálfir þykjast hafa aflað sér gjaldeyris með eðlilegum hætti og geta sjálfir borgað hið erlenda verð bifreiðarinnar. Með þessum hætti hafa verið fluttar til landsins á undanförnum árum alltaf nokkrar bifreiðar á hverju ári. Árið 1957 voru fluttar inn til landsins 279 bifreiðar með þessum hætti, sem ættu að koma undir þetta skattgjald. Nú er gert ráð fyrir því að hækka þetta nærri um helming eða bæta 250 bifreiðum við þessa tölu. Nú er það í rauninni svo, að hér er gert ráð fyrir enn þá miklu meiri innflutningi, því að á árinu 1958, eða s. l. ári, var þessi innflutningur með allra mesta móti, sem nokkurn tíma hefur þekkzt, eða þannig voru fluttar inn 402 bifreiðar það ár og það er því reiknað með á þessu ári að flytja inn 652 bifreiðar gjaldeyrislaust. Það mun jafngilda því, að gert sé ráð fyrir, að fluttar séu inn bifreiðar til landsins með þessum sérstaka hætti, að menn leggja fram sjálfir gjaldeyrinn, eins og ekkert sé og gjaldeyrisverðmæti þessara bifreiða mun þá vera mjög nærri því að vera í kringum 18 millj. kr. Það virðist sem sagt vera, að menn geti bara tínt upp úr vösum sínum, eins og ekkert sé, 18 millj. kr. í erlendum gjaldeyri til þess að flytja inn bíla með þessum hætti.

Við vitum það, að sjómenn, einkum farmenn, hafa lögum samkvæmt nokkurn gjaldeyri, sem þeir mega m. a. nota til þess að flytja inn bifreiðar með þessum hætti. Við vitum líka, að flugmenn hafa gjaldeyri nokkurn, sem þeir mega nota á þennan hátt og innflutningur bifreiða fram til þessa hefur aðallega verið heimilaður þessum aðilum, enda gerðu þeir þá grein fyrir því, að hér væri um að ræða gjaldeyri, sem þeir hafa sannanlega getað lagt fyrir af þessum löglega aflaða gjaldeyri. Enn fremur falla inn undir þetta erlend sendiráð, sem hér starfa og geta lagt sér til gjaldeyri sjálf fyrir þeim fáu bílum, sem þau flytja inn. Þau fá líka að flytja inn gjaldeyrislausa bíla með aðeins innflutningsleyfi. Svo er einnig um að ræða nokkra aðila, sem hafa starfað erlendis eða dvalizt erlendis um lengri eða skemmri tíma og geta fært sönnur á það, að þeir hafi unnið sér fyrir það miklum tekjum erlendis, að þeir hafi þá getað eignazt bifreið þar og fá síðan leyfi til þess að flytja bifreiðina inn, án þess að það þurfi að veita þeim gjaldeyri frá bönkunum hér í sambandi við kaup á þeirri bifreið.

Það hefur verið reynt að halda sér í öllum aðalatriðum við þessa aðila.

Það er alveg gefið mál, að það er útilokað að ætla sér að flytja inn gjaldeyrislausa bíla að þessu magni, sem hér er nú rætt um, ef það á að binda sig áfram að mestu leyti við þessa aðila. Og það er enginn vafi á því, og það vita gjaldeyrisyfirvöld landsins vel, að í kjölfar þessa hefur flotið verulegt undanskot á gjaldeyri. Menn hafa komið gjaldeyri undan og þótzt síðan vera að nota hann í formi sjómannagjaldeyris og flugmannagjaldeyris, og bílainnflutningurinn einmitt, sem afsakaður hefur verið með þessu, er því í rauninni of þaninn, það er ekkert til í því, að sjómennirnir, sem fá þennan gjaldeyri, eða flugmennirnir geti raunverulega árlega flutt inn allan þennan fjölda af bifreiðum með eðlilegum hætti.

En um hvað getur þá verið að ræða, ef treysta má á það, að hægt verði nú að flytja inn 250 bifreiðum meira með þessum hætti en áður hefur verið? Það getur varla annað verið en það, enda hygg ég, að það sé meiningin, að fara nú að heimila þeim aðilum, sem t. d. fá umboðslaun í erlendum gjaldeyri, að nota þann gjaldeyri, umboðslaunagjaldeyrinn, til þess að flytja inn bifreiðar með þessum hætti.

Ég tel fyrir mitt leyti, að slíkt sé mjög háskaleg stefna og óréttmæt á allan hátt. Auðvitað er það svo, að þeir aðilar, sem afla sér erlends gjaldeyris með umboðslaunastörfum eða með umboðsstörfum, eiga vitanlega að skila sínum gjaldeyri alveg eins og aðrir, sem vinna sér fyrir erlendum gjaldeyri. Og það hefur verið reynt, auðvitað með allt of litlu aðhaldi, en það hefur þó verið reynt að knýja þessa aðila til þess að flytja inn almennar og gagnlegar vörur fyrir umboðslaunin eða þá að þeir notuðu þessi umboðslaun til þess, sem er óhjákvæmilegt í sambandi við þeirra innflutningsstörf. Og þó að undandráttur hafi orðið talsverður á því, að þessir aðilar, sem afla sér gjaldeyris með þessum hætti, með umboðsstörfum, skiluðu þessum gjaldeyri reiðulega, þá sýna þó skýrslur, að þeir hafa árlega flutt inn talsvert magn af almennum vörum til landsins fyrir umboðslaunagjaldeyri sinn. En nú ættu þeir að koma að sjálfsögðu og sækja um gjaldeyri af takmörkuðum gjaldeyrisforða landsmanna til þess að flytja inn hinar almennu vörur, en nota allar sínar umboðslaunatekjur og flytja síðan inn bifreiðar með þessum hætti til þess að geta tekið hér þátt í svarta markaðnum, sem vissulega mun haldast áfram í þessum efnum eftir sem áður.

Ég vil nú segja það, ekki sízt, ef þannig er ástatt í landinu, að miklu fleiri aðilar óska eftir því að fá flutta inn bíla á hverju ári, en þjóðin þykist hafa gjaldeyri til þess að selja mönnum í hendur til innkaupa á, sem sagt eftirspurnin eftir bílum er miklu meiri en innflutningurinn, er þá nema eðlilegt, ef þeir aðilar, t. d. kaupsýslustéttin, fá að nota sínar atvinnutekjur, fá þann gjaldeyri alveg óbundinn, sem þeir afla sér á þann hátt, til þess að flytja m. a. inn þessa eftirsóttu vöru, bílana, er þá nema eðlilegt, að aðrar atvinnustéttir komi á eftir og segi: Ég hef líka aflað erlends gjaldeyris og af hverju á ég að skila öllum mínum gjaldeyri í hinn almenna gjaldeyrissjóð? Af hverju má ég ekki fá ákveðinn skammt af mínum gjaldeyri, sem ég hef sannanlega aflað, til þess m. a. að flytja inn gjaldeyrislausa bíla með þessum hætti? Og ég er ósköp hræddur um, að afleiðingin af þessu verði sú, að hér komi margir á eftir og vilji verða aðnjótandi hins sama.

Ég tel því, að hér sé farið inn á mjög hættulega braut og óeðlilega, ef stefnt er að þessu, og að þetta muni einnig hafa þau áhrif, að meira og meira verður leitað á það að koma gjaldeyri undan til þess síðan að geta svo að segja óáreitt fengið að flytja inn t. d. bíla með þessum hætti fyrir þann gjaldeyri, sem mönnum hefur tekizt að skjóta undan. Áður voru þó hafðar uppi reglur um það að reyna sem allra bezt að láta menn sanna, að þeir hefðu fengið gjaldeyrinn með eðlilegum hætti í sínar hendur og þá var auðvitað fyrst og fremst um að ræða sjómenn og flugmenn og aðra slíka. Ég held því, að það sé veruleg hætta á því, að það fari svo, að það reynist ekki fært á þessu ári, þó að vilji væri fyrir hendi, að heimila eða fá fram innflutning á 650 bílum með þessum hætti og auk þess vil ég vara við því, að það verði farið inn á þá braut að heimila mönnum að ráðstafa t. d. umboðslaunatekjum á þennan hátt.

Ég trúi því ekki, að það sé réttmætt að reikna með því, að útflutningssjóður fái á þessu ári rúmar 30 millj. kr. í auknar tekjur vegna þessa nýja bílaskatts. Auk þess er svo þess að geta, að þegar er liðinn sá tími ársins að mjög verulegu leyti, þegar jafnan er mestur þrýstingur á, í sambandi víð innflutning á bílum, sem sagt vortíminn, og það dregur alltaf úr því, hve ákafir menn eru í bílainnflutning, eftir því sem líður á árið, og er þá veruleg hætta á því, að hér geti ekki orðið úr öllum þeim innflutningi á bílum, sem hér er gert ráð fyrir. Ég held því, að þessi tekjustofn útflutningssjóðs verði vægast sagt mjög ótryggur.

Þá var í þriðja lagi gert ráð fyrir því, að útflutningssjóður losnaði við 20 millj. kr. greiðslu, sem áður var til ríkissjóðs, að þær þyrfti hann ekki að inna af hendi nú og er því talið, að hann muni fá með þessum hætti rúmar 200 millj. kr. í nýjar tekjur. En eins og ég hef sýnt fram á, eru tekjustofnarnir, sem á er bent af hálfu ríkisins, mjög svo veikir. En meira að segja þeir tekjustofnar, sem á er bent og verða að teljast veikir, hrökkva alls ekki til á móti þeim útgjöldum, sem alveg er sýnilegt að muni skella á útflutningssjóðinn. Þar við bætist svo þetta, sem ég gat um fyrr í minni ræðu, að hagur útflutningssjóðs var tiltölulega mjög veikur, það stóð alltaf heldur á honum að geta greitt það, sem hann átti að greiða og þó að hér hafi verið sagt í þessum umr., að sjóðurinn hafi bætt við sinn hag sem nemur 40 millj. kr. seinni hluta ársins 1958, þá er ekki nema hluti af sögunni sagður með því. Að vísu var það svo, að hagur sjóðsins batnaði nokkuð með auknum tekjum að sjálfsögðu. En þetta stafaði líka að allverulegu leyti af því, að þannig var hagað framkvæmdum í lok ársins 1958, að unnið var að því að safna hér nokkrum útflutningsbirgðum, þannig að allmikið af fiskafurðum, sem framleiddar voru á árinu 1958, var ekki flutt út á því ári, þó að unnt hefði verið að flytja þær út. Þeim var safnað hér til þess að auka við birgðir, enda höfðu birgðirnar aukizt um yfir 70 millj. kr. í árslokin og þótti hentara að hafa það með þessum hætti til þess að geta haldið uppi ákveðnum útflutningi í janúar- og febrúarmánuði, sem annars hefði orðið tiltölulega lítill. En einmitt af því, að þarna var raunverulega dregið úr útflutningi í lok ársins, varð þetta til þess, að útgjöldin urðu heldur minni hjá sjóðnum, það féll í gjalddaga tiltölulega minna af bótagreiðslum vegna framleiðslu ársins 1958. Hins vegar komu tekjurnar nokkurn veginn inn eftir því, sem um innflutninginn var að ræða. Þetta vitanlega gerði hag sjóðsins allmiklu betri aðeins í bráð, en hann raunverulega var, þegar á allt var litið og á þetta vitanlega getur ekki verið að treysta. Hins vegar er það viðurkennt af öllum, að nú hefur hagur útflutningssjóðs versnað stórum og nú er hann í allmiklum skuldum við framleiðendur og nú fara óðum að skella á hann einmitt hinar nýju útgjaldakröfur, sem ákveðnar hafa verið, bæði með auknum niðurgreiðslum og öðru.

Ég mun nú ekki við þessa umr. flytja hér brtt. við frv. Ég mun athuga það fyrir 3. umr., því að ég tel, að það eigi að koma fram, að bundið sé í l. um útflutningssjóð það framlag, sem ráðgert er að sjóðurinn fái frá ríkinu og þá einnig ákveðnir gjalddagar á það á svipaðan hátt og það var áður bundið í lögum í sambandi við greiðslur sjóðsins til ríkisins. En ég mun ekki flytja till. um það við þessa umr.

Í sambandi við annað, sem hér hefur komið fram í þessum umr., þá var á það minnzt hér, — ég hygg af hv. þm. V-Húnv., — að það hefði nokkuð verið gert að því áður að færa bótagreiðslur milli bótaflokka, þannig að það, sem gert hafði verið ráð fyrir að bæta með 55% uppbótum, hafi jafnvel verið fært upp í 70% og var nefnt dæmi um það, að þannig hafi þetta t. d. verið með síldveiði fyrir Austfjörðum á s. l. sumri. Á þetta hafði verið minnzt áður, ég hygg við 1. umr. þessa máls, sem hér fór fram fyrir löngu og þá gaf ég á þessu skýringu, sem ég skal nú endurtaka.

Það, sem greitt hafði verið úr sjóðnum í sambandi við síldveiðarnar fyrir Austfjörðum, var fullkomlega og nákvæmlega eftir því, sem fyrir er mælt í l. um útflutningssjóð. Í l. um útflutningssjóð er ákveðið, að greiða skuli bætur, er nema 70%, á alla smásíld, hvar og hvenær sem hún er veidd. Það var aðeins á svonefnda sumarveidda Norður- og Austurlandssíld, sem átti að greiða 55%, þ. e. þá síld, sem veidd er á sumarsíldveiðitímanum, sem markast við alveg ákveðið tímabil og þar einnig miðað við stórsíld af tiltekinni gerð. Nú var um það að ræða, að í lok síldveiðanna fyrir Austurlandi veiddist allmikið af smásíld. Sumpart veiddist þessi síld inni á fjörðum eftir það tímabil, sem aðgreinist sem sumarsíldveiðitímabil og bar því tvímælalaust lögum samkv. að greiða þar 70% bætur á. Og í öðru lagi, að því leyti sem þetta var veitt á sjálfu sumarsíldveiðitímabilinu, þá var hér um blandaða veiði að ræða og látin fara fram athugun á því á vegum Fiskifélagsins, að hve miklu leyti það teldist réttmætt að bæta þessa síld sem smásíld, og eftir að stjórn útflutningssjóðs hafði gert þar ákveðnar till. um, þá voru greiddar bætur samkv. því, þannig að þeir, sem þar áttu hlut að máli, fengu 70% á þann hluta aflans, sem talinn var smásíld og svo 55% á hinn hluta aflans, sem talinn var eðlileg Norðurlandssíld, svo að þar var ekki um færslu á milli flokka að ræða fram yfir það, sem lögin beinlínis gera ráð fyrir eða ætlast til. Hins vegar var um það að ræða, að ákveðið var að greiða á Faxasíld eða síld, sem veiddist hér suðvestanlands á s. l. hausti, 80% bætur í staðinn fyrir 70%, sem ákveðið er í l. og var það líka gert með tilliti til þess, að þá hafði kaupgjald við framleiðslustörfin hækkað allmikið og annar rekstrarkostnaður var þá orðinn gerbreyttur frá því, sem hafði verið, þegar l. voru sett og af því þótti rétt að færa þessa síldarsöltun hér suðvestanlands á milli flokka úr 70% í 80%. Þetta er skýringin á því.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi málsins. Ég undirstrika aðeins að lokum, að það, sem ég tel fyrst og fremst gallað við þessa afgreiðslu, eins og hún liggur hér fyrir a. m. k., er, að það er ekki tryggt, að útflutningssjóður fái með reglulegum hætti þær nauðsynlegu tekjur, sem hann verður að hafa, ef hann á raunverulega að standa við þær skuldbindingar, sem gefnar hafa verið.