04.05.1959
Neðri deild: 121. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á s.l. ári, þegar lögin um útflutningssjóð voru sett, var grundvöllur þeirra laga sá, að efnahagsmál yrðu leyst með almennum ráðstöfunum. Þá var horfið frá þeirri stefnu, sem fylgt hafði verið um skeið, að leysa þau með sérstökum tollum, þar sem vöruflokkum var mjög mismunað. Það hafði þegar sýnt sig, að ekki voru tök á því að halda áfram á þeirri hraut. Nú hefur hins vegar verið horfið nokkuð að því aftur að taka upp sérstakt gjald á ýmsa vöruflokka, en ekki að fylgja hinni almennu reglu.

Við 2. umr. þessa máls var gerð sú breyting hér í hv. deild, að lagt er sérstakt gjald á innfluttar bifreiðar og á að ná þar nokkurri fjárhæð til þess að jafna þann halla, er á útflutningssjóðnum er. Það er um þetta að segja, að nú er svo komið, að bifreiðar eru tæki, sem almenningur í þessu landi þarf að nota og er farinn að nota. Það verður ekki með rökum hægt að halda því fram, að bifreið sé orðin nokkurt lúxustæki, sem þeir menn einir geti veitt sér eða eigi að veita sér, sem hafi tekjur umfram almenning. Enda þótt það sé mín persónulega skoðun og okkar, sem að þeirri till. stöndum, er ég ætla hér að boða, að það eigi frekar að fylgja þeirri reglu, sem mörkuð var hér í fyrra og þessi sérstöku gjöld séu mjög varhugaverð og það sé lengra gengið á þeirri braut að leggja skatta á bifreiðar í landinu, en eðlilegt er og skynsamlegt og ég dragi mjög í efa, að þær tekjur, sem ríkisstj. ætlar að komi af þessum innflutningi bifreiða, fáist, eftir að þau gjöld hafa verði á lögð, sem hér eru boðuð, þá munum við ekki flytja brtt. um það. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að hér er ein atvinnustétt í landi tekin fyrir, sem eru atvinnubifreiðastjórar. Það er ekki gert ráð fyrir, að það sé svipað gjald lagt á aðrar atvinnustéttir og lagt er á þá og hafa þeir þó orðið að sætta sig við það, að innflutningur á atvinnubifreiðum hefur verið lítill sem enginn að undanförnu. Það, sem við leggjum því til er, að breyting verði gerð á þeirri till., sem samþ. var hér inn í frv. við 2. umr., að gjaldið verði ekki lagt á atvinnubifreiðar og þess vegna breytist 4. gr. þannig, að í stað þess, þar sem segir 225, komi 160%, eins og verið hefur. Enn fremur leyfum við okkur að leggja til, að á yfirstandandi ári verði veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til atvinnubifreiðastjóra fyrir 100 bifreiðum. Er þetta krafa, sem þeir hafa verið með að undanförnu og er ekki nema eðlilegt, að komið sé til móts við þá, þegar á að fara að auka innflutning á bifreiðum eins og hér er lagt til. Enn fremur leggjum við til, að allt að 100 innflutningsleyfi verði veitt á yfirstandandi ári til þeirra aðila, sem samkvæmt vinnusamningum sínum hafa frjálsan gjaldeyri, sem þeir hafa mjög notað til þess að kaupa bifreiðar og okkar till. er sú, að þessir menn, sem fá innflutning á bifreiðum vegna þessara gjaldeyristekna sinna, eigi ekki að greiða hærra gjald en almenningur, eða 250% í staðinn fyrir 300%.

Okkur virðist allt annað með þá aðila, sem fá gjaldeyristekjur eftir öðrum leiðum, en í sínum vinnusamningum og má á það benda, að þegar yfirfærslugjaldið var lagt á í fyrra, þá var ætlazt til þess, að það tæki til þessara gjaldeyristekna eins og annarra, en frá því var svo horfið að nokkru við samninga síðar meir. Og það verður að líta svo á, að fyrst þessir aðilar hafa sérstaka samninga um gjaldeyrisfríðindi, eigi þeir að hafa rétt til þess að nota hann á eðlilegan hátt. En við leggjum til, að hér séu settar skorður við, þannig að ekki sé hætta á því, að í kjölfar þess arna geti átt sér stað svindl, og hér sé aðeins um 100 bifreiðar að ræða.

Okkar till. er því sú, með leyfi hæstv. forseta: Við 4. gr. Fyrir „225%“ komi: 160%, — og svo komi hér nýr málsliður, svo hljóðandi:

„Innflutningsskrifstofan skal á árinu 1959 veita 100 innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til atvinnubifreiðastjóra, enn fremur allt að 100 innflutningsleyfi fyrir bifreiðum til þeirra, er með vinnusamningum hafa gjaldeyristekjur, gegn 250% gjaldi samkvæmt 1. málsgr.

Þar sem þessi till. er of seint fram komin, vil ég leyfa mér að afhenda forseta hana skriflega og vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á það sjónarmið, að ekki sé réttmætt að taka þessa stétt, atvinnubifreiðastjóra, sérstaklega út úr, og enn fremur, að þeir menn, sem samkvæmt sínum vinnusamningum hafa gjaldeyrisfríðindi, fái að njóta þeirra eins og almennur borgari.

Ég skal að lokum geta þess, að ég held, að hér sé um svo litla fjárhæð að ræða, að það muni ekki breyta miklu í því „fjármálaplani“, sem hér er til meðferðar, enda sé ég ekki, að á svo tryggilegan hátt sé frá því gengið, að það hafi nein áhrif á heildarafgreiðslu málsins, og í þriðja lagi held ég, að ef þessi gjöld verða á lögð eins og hér er ætlazt til, muni draga það mikið úr sölunni, að tekjur vegna þess mundu tapast þar í móti.