13.05.1959
Neðri deild: 127. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

90. mál, útflutningssjóður o. fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það gleður mig, að það kom fram í orðum hv. 10. landsk., að stjórnarliðar mundu nú sjá að sér og að þetta mál mundi ná fram að ganga hér. En í sambandi við það, sem hann sagði, vil ég segja það, að talan var miðuð við þær upplýsingar, sem við höfðum fengið um, að þetta væri eðlilegt, að miða við að leyfa atvinnubifreiðastjórum að flytja inn bíl á fimm ára fresti.

Ég vil að endingu segja það, að ég benti hv. 10. landsk. þm. á það, þegar þetta mál kom hér fram í d., að þeir skyldu athuga það strax, að full alvara væri hér á ferð og ef hann hefði þá komið með leiðbeiningar, sem betur hefðu mátt fara, þá vorum við til viðtals um það. Hins vegar var það ekki talið ómaksins vert þá, og verða þeir menn, sem seint sjá að sér, að búa við sitt seinlæti sjálfir.