21.10.1958
Neðri deild: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

12. mál, útflutningur hrossa

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er ekki stórt, en getur eigi að síður haft töluverða þýðingu, ef um það er að ræða að flytja út hross í framtíðinni.

Þessi hv. deild samþykkti á s. l. þingi, að tímatakmarkið væri bundið við 1. des., að það væri heimilt að flytja út hross frá 1. júní til 1. des., en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var þessu breytt í Ed. og tímatakmarkið bundið við 1. nóv. Þeir, sem um þessi mál hafa mest að gera, kunnugastir eru þeim, hafa eigi að síður óskað eftir, að heimildin væri a. m. k. til 1. des. Má þar nefna Búnaðarfélag Íslands, ráðunaut í hrossarækt, Gunnar Bjarnason, yfirdýralækninn og búnaðarþing.

Nú munu, ef til vill einhverjir segja: Þetta skiptir ekki verulegu máli, hvort tímatakmarkið er 1. nóv. eða 1. des., því að það er ekki um það að ræða að flytja út hross að neinu marki, hvorki í nútíð né framtíð. En þeir, sem fara með slíkar fullyrðingar, vita ekki, hvað þeir eru að segja.

Ég get að vísu ekkert fullyrt um það, hvort verður mögulegt að flytja út hross í stórum stíl í framtíðinni, en ég vil eigi að síður upplýsa, að þetta hefur aukizt mjög núna í seinni tíma. Fyrir 2–3 árum var ekki um neinn hrossaútflutning að ræða, sem teljandi væri, á s. l. ári var það þó nokkuð, en á þessu ári munu fara út nærri 400 hross og núna um næstu mánaðamót fara með einu skipi um 250. Ég verð að segja, að ef framhald gæti orðið á þessu, væri um þarft fyrirtæki að ræða, bæði til þess að skapa okkur auknar gjaldeyristekjur og til þess að létta á kjötmarkaðnum innanlands, og ég tel, að það beri að vinna að þessum málum af fullum krafti. Sem betur fer, er talsverður áhugi ríkjandi, sérstaklega í Þýzkalandi, Vestur-Þýzkalandi, fyrir íslenzku hrossunum og þar eru dugandi kaupsýslumenn, sem vilja talsvert á sig leggja til þess að koma hrossunum í verð, ekki aðeins í Vestur-Þýzkalandi, heldur flytja þau út þaðan til Hollands, Belgíu, Frakklands, Ítalíu og jafnvel Spánar. Íslenzku hrossin munu nú hafa numið land í öllum þessum löndum, sem ég áðan nefndi. Þetta gefur nokkrar vonir. En eins og kunnugt er, þá er helzt um það að ræða að flytja út hross seinni part sumars eða að hausti til og verði þetta gert að nokkru marki í framtíðinni, verður það að gerast á þann hátt, sem er eðlilegastur og hagkvæmastur, þannig að til þess verði leigt sérstakt skip, sérstaklega útbúið til gripaflutninga og þá er hægt að segja, að á sómasamlegan hátt sé búið að gripunum á leiðinni yfir hafið og þá munum við ekki standa í neinu stríði við Dýraverndunarfélagið eða þá, sem telja sig sérstaka málsvara dýranna. Það er líka nauðsynlegt, og ég tel, að það sé miklu eðlilegra að breyta lagabókstaf, sem er óeðlilega þröngur, heldur en eiga alltaf undir högg að sækja með undanþágur, sem er vafasamt samkvæmt lagabókstafnum, hvort heimilt er að veita.

Þessi hv. deild hafði réttan skilning á málinu á s. l. þingi og hefur það vitanlega enn og gerist því sízt þörf að halda langa ræðu um málið hér. Ég vil vænta þess, að hv. Ed. fallist á þá sjálfsögðu og nauðsynlegu leiðréttingu á l., sem felst í þessu frv.

Ég vil svo óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.