24.10.1958
Neðri deild: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

12. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Jón Pálmason):

Út af þessari aths. frá hv. síðasta ræðumanni vil ég taka fram, að það hefur ekki verið rætt neitt sérstaklega í landbn., hvorki í fyrra né nú, hvernig hrossaútflutningnum verði hagað, en auðvitað leggjum við áherzlu á það, og það hefur líka verið gert, að það sé sem fullkomnastur útbúnaður á þeim skipum, sem hrossin flytja. Hins vegar lít ég svo á, að þessi sala, eins og önnur sala á landbúnaðarafurðum, heyri undir yfirráð framleiðsluráðs landbúnaðarins og beri að snúa sér til þess með það, sem sérstaklega þarf að athuga í því sambandi. Annars vitum við, að það er hrossaræktarráðunauturinn, Gunnar Bjarnason, sem hefur haft forustuna fyrst og fremst fyrir því, að þessi möguleiki til sölu í Þýzkalandi hefur opnazt, og því meira sem væri hægt að hugsa sér að selja af hrossum út úr landinu, því betra, því að nóg er til af þeim og því miður ekki líkur til þess, að það sé alltaf tryggt með fóður handa þeim, eins og vera þyrfti.