31.10.1958
Efri deild: 13. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

10. mál, skemmtanaskattur með viðauka

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég þakka frsm. þær upplýsingar, sem hann hefur gefið um ástand félagsheimilasjóðs. Þessar upplýsingar sýna, að ástand sjóðsins er mjög bágborið. Það vantar um 800 þús. kr. — eða afkoman er um 800 þús. kr. lakari í árslok s.l. á móts við það, sem var árið áður. Þó er aðgætandi, að ekki eru komnar til framkvæmda að neinu leyti þær breytingar, sem gerðar voru á lögunum um félagsheimilasjóð á þinginu 1957, að því er frsm. upplýsti, en eins og kunnugt er, þá var ákveðið á Alþingi að fjölga stórlega þeim aðilum, sem eiga aðgang að sjóðnum. Það var spá okkar ýmissa þá, að þetta mundi rýra stórkostlega möguleika sjóðsins til þess að fullnægja sínum skyldum. Þessi spá virðist hafa rætzt, að vísu ekki komið til framkvæmda enn þá, eins og það verður, en það sjá allir, hvert stefnir, ef þessu heldur áfram. Ég er sannfærður um það, að niðurstaðan verður sú, að félagsheimilin í sveitum landsins verða út undan í framtíðinni.