30.01.1959
Neðri deild: 67. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

91. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og vildi gera grein fyrir því aðeins, hverjar ástæður liggja til þess.

Það er gert ráð fyrir því í frv., eins og það nú liggur fyrir, að hæstv. stjórn fái heimild til að greiða úr ríkissjóði venjuleg gjöld, meðan fjárlög fyrir þetta ár hafa ekki verið afgreidd, og að sú heimild gildi til 1. apríl. Hins vegar er það svo, að reglulegt Alþingi fyrir þetta ár á að koma saman 15. febr. Nú liggur það í augum uppi, að þetta þing, sem nú stendur yfir, muni ekki geta lokið störfum fyrir 15. febr. og má því fastlega gera ráð fyrir því, að borið verði fram frv. hér á þingi um, að samkomudagur reglulegs Alþingis 1959 skuli verða síðar á árinu. Þannig hefur það verið um mörg undanfarin ár, að samkomudagur reglulegs Alþingis hefur verið ákveðinn að haustinu. En meðan ekki er búið að taka slíka ákvörðun, hefði verið formlega réttara, að greiðsluheimildin væri bundin við 15. febr. Ég skal þó taka fram, að það hefur komið fyrir áður, að slík greiðsluheimild hefur verið veitt fram yfir þann tíma, án þess að búið væri að setja lög um frestun á samkomudegi Alþingis. Þannig var það fyrir 2 árum og ég mun ekki gera neinn ágreining um þetta. Ég vildi aðeins benda á þetta atriði og tel, að það ætti að hafa í huga framvegis, ef eins stendur á og nú, að ekki verði veitt heimild til slíkra bráðabirgðafjárgreiðslna lengur en til 15. febr., nema áður hafi verið ákveðið með lögum, að nýtt þing skuli koma saman síðar á árinu.