27.01.1959
Efri deild: 54. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

77. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið til hv. þingdeildar frá Nd. Aðalatriði þess eru, að í 1. gr. er vitnað í hina nýju reglugerð, sem sett var um útfærslu fiskveiðitakmarkanna á s. 1. sumri og tók gildi 1. sept., í stað hinnar eldri, sem áður var vitnað í, í lögunum. Þá haldast og í lögunum um bann gegn botnvörpuveiðum sömu heimildir til undanþágu frá banni gegn botnvörpuveiðum og áður. Loks er í 3. gr. frv. tekið upp það nýmæli, að ráðherra er heimilað skv. tillögum fiskideildar atvinnudeildar háskólans og að fengnum meðmælum Fiskifélags Íslands að veita fiskirannsóknarskipum og vísindamönnum leyfi til þess að nota botnvörpu og flotvörpu í rannsóknarskyni innan fiskveiðilandhelgi Íslands.

Sjútvn. þessarar hv. þd. hefur kynnt sér þetta mál og borið þetta frv. saman við gildandi lög og leggur einróma til, að frv. verði samþykkt.