12.02.1959
Efri deild: 68. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

106. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mig langar til að beina því til hv. frsm., hvernig er háttað réttindum þeirra starfsmanna, er voru alllengi opinberir starfsmenn og greiddu í sjóðinn, en eru það ekki nú. Hann getur kannske svarað þessu nú þegar, því að ég býst við, að hann sé þessu máli nokkuð kunnugur. Ég spyr aðeins vegna þess, að ég er einn þessara manna, sem greiddu í lífeyrissjóð barnakennara í 20 ár. Þá hætti ég störfum, en óskaði ekki eftir endurgreiðslu iðgjaldanna, eins og ég hafði þó rétt til, og þau sitja inni í lífeyrissjóðnum síðan.

Eru það gildandi reglur, eða hefur það verið framkvæmt þannig, að mönnum hafi verið gefinn kostur á að greiða iðgjald í sjóðinn, eftir að þeir hafa látið af störfum, og halda þannig rétti sínum? Nú mun það vera svo, að ég væri nálægt þeim aldri, að ég hefði náð 95 ára markinu, ef ég hefði starfað allan tímann. En það kemur sennilega ekki til greina, að sá tími sé tekinn til greina í þessu sambandi, sem maður hefur ekki starfað í opinberri þjónustu. Þó þori ég ekkert um þetta að fullyrða. Ef hv. frsm. gæti gefið mér einhverjar upplýsingar um þetta, þætti mér vænt um það, en annars vildi ég biðja hv. n. að athuga þessa hlið á málinu. Þetta er ekki alveg þýðingarlaust fyrir nokkra menn, kannske allmarga, sem þannig er ástatt um. Ég hætti ekki störfum vegna heilsuleysis, en hitt er staðreynd, að ég hef greitt í sjóðinn og greitt það svona lengi og hef ekki fengið endurgreitt og ekki óskað eftir að fá endurgreiðslu. Getur verið, að ég hafi þarna vanrækt að tryggja mér einhver réttindi, sem ég hefði getað tryggt mér? Ég veit ekkert um það. En ástæðan til þess, að ég óskaði ekki eftir endurgreiðslu úr sjóðnum, vaxtalausri, því að þannig eru reglur um þetta, var auðvitað sú, að mér þóttu þetta svo lítilsverðir peningar, þegar til þess gat komið, að ég fengi endurgreiðsluna. Launin voru lág, þegar ég byrjaði störf 1923 og verðbólgan hafði skert þessa eign eins og fleiri, svo að ég hirti ekkert um að biðja um endurgreiðsluna. Peningarnir liggja því þarna enn.